Skķšasaga fjallabyggšar

Brot śr vištali Žorsteins Jónssonar įriš 1970 viš Sigursvein Įrnason frį Kįlfsį. Endurminningar Sigursveins frį žvķ um 1915-1920. Segšu mér eitt,

Sigursveinn Įrnason

Brot úr viðtali Þorsteins Jónssonar árið 1970 við Sigursvein Árnason frá Kálfsá. Endurminningar Sigursveins frá því um 1915-1920.

Segðu mér eitt, Sigursveinn, þú ert fæddur …? Ég er fæddur á Kálfsá í Ólafsfirði 1903, 8. ágúst.

Og foreldrar þínir voru? Árni Björnsson og Lísebet Friðriksdóttir.

Nú, þú ólst upp á Kálfsá, eins og lög gera ráð fyrir? Já, já, ég ólst þar upp til 18 ára aldurs. Ég var seinnipart vetrar, þá fór ég á færaskúturnar, 15 ára gamall en var heima yfir sumarið aftur við heyskap en pabbi flutti frá Kálfsá þegar ég var 18 ára, sennilega 1921, hefur hann flutt frá Kálfsá.

 Þá niður í bæ. Já, niður í Brimnes.

 En þetta var nú stór og mikil fjölskylda, hvað voruð þið mörg? Við vorum nú upphaflega 13 systkinin en 12 lifðum nú, það þrettánda dó strax.

Þið eruð frægir, Kálfsárbræður, eins og þið voruð nú yfirleitt kallaðir, er það ekki? Jú, og eiginlega ennþá, þó við séum nú orðnir gamlir.

Þið voruð allir íþróttamenn og mér skilst að þarna hafi verið miðstöð. Við (Ólafsfirðingar) höfðum engan lækni en þetta var undir rótum á fjallvegi til Dalvíkur, ekki satt? Jú, jú, Grímubrekkur.

Þið hafið raunverulega verið póstarnir þarna í milli, eða réttara sagt þið voruð… sóttuð lækna, sóttuð meðul og gerðuð alla hluti. Kanntu nokkuð frá því að segja? Já, já, við gerðum afskaplega mikið af því. Það þótti ekki mikið þó maður þyrfti að fara tvisvar, þrisvar í viku hérna í Árgerði í Svarfaðardal að sækja meðul. Þá fórum við nú oft tveir, það lenti mest á okkur Jóni bróður mínum, hann var tveimur árum eldri en ég. Þá voru nú ekki stafir eða því síður þessi góðu tábönd sem núna eru í skíðunum, heldur bara yfir blátána. Helst þurfti maður að velja sér nautsleður til að þetta slitnaði ekki. Nú staflausir vorum við alltaf en það var eiginlega, mér hefur oft dottið það í hug síðan, það hefur verið alveg furðulegt að það hafi aldrei komið fyrir, þegar maður var með alla sína vasa fulla af glösum, það var ekki til ein einasta tafla þá eins og nú er, heldur var þetta allt í glösum, vökvi bara í glösum og troðið í alla vasa. Nú, hefði maður dottið á kássuna þá hefði maður þurft að snúa við. Þetta vildi aldrei til að maður bryti eitt einasta glas.

En segðu mér Siggi þið nátturulega hafið þjálfast þið bræður, þið voruð þarna aðalmenn í þessu, þið voruð íþróttamenn að upplagi, en þið hafið þjálfast í þessu að fara svona, þennan fjallveg? Já, já, já en annars var þetta eiginlega okkar aðalskemmtun, eða svoleiðis, sem við stunduðum eiginlega daglega yfir veturinn. Bæði þurftum við að ganga langt til skóla fram í Kvíabekk og eins það að við vorum alltaf á skíðum en við bara áttum engin skíði, nema svoddan ansvítans ræfla, tunnustafi, það var úr tunnustöfum. En það var gestkvæmt oft á Kálfsá og þá var um að gera, því öllum var boðið inn, að stela skíðunum þeirra á meðan, þegar þeir voru inni að drekka kaffi, það er nú líklega. En sumir voru nú skrambi sárir á því að láta taka skíðin, þeir hafa reiknað með því að við kannski brytum þau eða svoleiðis.

Hvernig stóð á því að þið áttuð ekki betri skíði? Ja, það var nú eiginlega enginn sérstakur sem smíðaði skíði þá, því varla hefur það fyrir fátækt þá, ég trúi því varla að það hafi verið fyrir það, því Hallur, ég man ekki hvers sonur hann var, hann smíðaði skíði og ég man eftir því þegar hann var að smíða skíði handa eldri bræðrum mínum að hann beygði þau í sleða, sleðarima, en hann sprengdi þau öll í beygjunum svo það þurfti að byrja á því að setja klampa í beygjurnar. En þessir tunnustafir það var settur kantur ofan á miðjuna á þeim fyrir táband og svoleiðis. Þetta var nú eins og maður væri að ganga á töflum en á þessu hentist maður um allt.

Og runnu niður stórar brekkur? Það kom aldrei til mála að maður drægi skíðin nokkurn tímann undan í brekku, til dæmis þegar maður kom upp á Grímubrekkurnar þá var um að gera að fara bara fram af og þau voru líka svo ansi lipur og nú þurfti maður að krækja kringum stórgrýti og kletta og holt og ýmislegt og það fór maður alveg á fljúgandi ferð, kringum þetta allt saman eins og þeir eru flinkastir núna í þessu svigi.

En segðu mér eitt Siggi, nú skeður það allt í einu að, ég hef ekki frétt nákvæmlega af því, en nú það skeður allt í einu að þú lendir á stór skíðamóti hér inn í Eyjafirði. Viltu segja mér tildrögin að því?

Upphaflega var það nú að við ætluðum að fara fram í Eyjafjörð, fremst fram í Eyjafjörð, Kambfell í Eyjafirði, við bræðurnir, Jón bróðir minn og ég. Við fengum leyfi til að fara þangað okkur til gamans að heimsækja systur okkar en það var þá ekkert minnst á neitt skíðamót eða neitt í sambandi við það, ekki nokkurn hlut. Við vorum þarna framfrá, fórum gangandi inn eftir til Akureyrar og svo frá Akureyri, við keyptum tvo hesta af Guðmundi Ólafssyni pósti, fórum ríðandi fram eftir, það kostaði tvær krónur hesturinn og við máttum þá hafa þá í þrjá daga og áttum að borga tvær krónur fyrir, sko klárinn. Eftir þrjá dagana förum við niður eftir, niður á Akureyri og skilum hestunum og ötlum að fara heim daginn eftir. En þá er komið til okkar og við beðnir um að taka þátt í skíðamóti sem eigi að vera eftir tæpa viku á Akureyri. Ungmennafélagið sem þá var hér, gerði fyrir okkur boð um að það ætlaði að kosta uppihaldið fyrir okkur. Jóni bróður þótti sjálfsagt að bíða og ég var nú ekkert frá því heldur en ég var á skíðum sem að Kristjana Einarsdóttir átti, sem var vinnukona á Kálfsá, hún lánaði mér skíðin í túrin en ég var staflaus, náttúrulega. En Jón hafði mikið betri skíði, hann hafði ágæt skíði sem Grímur heitinn Grímsson átti og stafi líka eins og er bara nú til dags. Svo bíðum við þangað til að þeir komu frá Siglufirði, ég held að þeir hafi verið sex, fjórir frá Dalvík og ég man ekki hvað margir úr Þingeyjarsýslu og svo Akureyringar margir.

En svoleiðis var að sá sem datt sléttubrekkuna tvisvar, það þurfti að fara sléttubrekkuna þrisvar, en sá sem datt hana tvisvar fékk ekki að taka þátt í stökkinu. En það var svo mikið grjót í brekkunni að maður stakkst bara fleiri metra á hausinn allt í einu og allt sat blýfast. Ég hélt að táböndin á mínum skíðum hefðu ekki verið grautfúin en í þriðju lotu varð annað skíðið eftir á steini en ég stóð eftir niður á öðru skíðinu því við vorum vanir við það strákarnir að renna okkur á einu skíði og þetta þótti nú alveg stórfínt en ég sá mest eftir því að ég fékk ekki að taka þátt í stökkinu. Það voru held ég ekki nema fjórir sem fengu að taka þátt í stökkinu af öllum hópnum. Því hann lá svona hrottalega, Jóhann Þorfinnsson, þessi mikli skíðamaður frá Siglufirði, hann lá svona hrottalega á þessu að það mátti flytja hann á Akureyrarspítala og lá þar í viku, hálfan mánuð.

Svo kom að göngunni. Ég er númer þrettán og ég var nú heldur lítill þá og aldrei verið náttúrulega stór og þetta var þá ekkert smáræðisnúmer, ég var bara allur þrettán frá enda til enda. Það var stúlka sem festi í okkur merkin en við vorum þrettán sem tókum þátt í göngunni. Þegar hún var að festa merkið í mig, ég var alveg skítnervus við þetta og óskaði eftir því að ég hefði aldrei farið inn en þá stingur hún sig á nálinni og brýtur hana, stakk fingrinum upp í sig og segir um leið, ,,Ja, annað hvort slasarðu þig eða það verður þú sem færð verðlaunin.“ Ég gat ekkert sagt í bili en sagði að það væri ekki hægt að slasa sig á þessum brekkum sem þarna voru fyrir ofan, ég væri búinn að sjá þær og fannst þær ekki vera til þess og því síður ég fengi verðlaunin. Ég var kallaður alltaf upp frá þessu ,,drengurinn á vinnukonuskíðunum.“ Óli Frímannsson, bróðir Jóns, hann var þá hjá Halldóri söðlasmiði á Akureyri og hann lánaði mér 25 aura til að kaupa mér tvö kústasköft niður í Gránu og setur leðuról á þau, í toppinn á þeim og stóra ég held hnakkabólu eða eitthvað ofan í sem þar fannst og þetta átti ég að hafa, svo voru sko engar þrúgur neðan á. Svo fara þeir að tínast af stað í gönguna og ég á að fara síðastur og líður alltaf, ég held að það hafi liðið mínúta á milli sem menn fóru. Nú fjöldi manns var þarna og það var bara gangur í gegnum. Ég er í kolsvartri skyrtu, allir voru á hvítum skyrtum nema ég, kolsvört skyrtan sem Óli lánaði mér líka, því hin skyrtan sem ég var í var orðin svo óhrein að það var engin leið að vera í henni. Svo ég var aleinn þarna kolsvartur bara með kústasköft tvö. Ég er ekki búinn að taka nema þrjú fjögur skref þegar ég rasaði til og annað skaftið fór til hálfs niður í snjóinn og þar með í tvennt og ég skildi svo hitt brotið eftir og þar varð það eftir. Svo var dálítið seinna þá rak ég hitt niður og það fór sömu leið svo ég hélt alltaf á stubbnum af öðru skaftinu, eftir. En nú var Jón bróðir minn sá níundi í röðinni en það er bara upp undir hné þegar maður fer út úr slóðinni en það var búið að gera slóðina upphaflega. Ég kallaði auðvitað aldrei ,,slóð“ ég vissi ekki að það væri til, enda fór enginn út úr slóðinni. Ég þurfti alltaf að hlaupa út úr sjálfur í hné og svo skrúfuðu þeir sig þessi ósköp að hleypa mér ekki upp í slóðina aftur, fyrst ég hafði farið út úr. Það var aðeins einn maður, það var Sveinbjörn Jónsson, byggingarmeistari sem að þegar ég náði honum þá fór hann út úr slóðinni, sko, en hann hafði lært það í Noregi því hann var fyrri stuttu kominn þaðan, en það var líka eini maðurinn. Nú þetta náttúrulega tafði feikilega mikið fyrir mér að fara ellefu sinnum út úr slóðinni því ég náði þeim öllum og það fljótlega nema bara ekki Jóni bróður mínum, ég náði aldrei númer níu. En ég var búinn að ná af honum hálfri mínútu, hann fór mínútu á undan mér af stað en ég kom á hálfri mínútu á eftir honum.

Þú hefur sem sagt unnið hann? Já, en það voru ekki til nema ein verðlaun og það voru þessi flottu gönguskíði og stafirnir og allt saman og ég fékk þetta.

Og þér hefur þótt þetta heldur munur? Ja, mér þótti það dálítið skrítið. Við fórum svo gangandi heim, Siglfirðingarnir og Dalvíkingarnir, við urðum allir samferða, þegar ég dró töflurnar í snæri á eftir mér og var á nýju skíðunum á heimleiðinni, það var gaman. En svo var það búið að fréttast fram í Kálfsá að annarhvor okkar bræðranna hefði unnið einhver verðlaun. Svo komum við á fljúgandi ferð niður hálsinn þarna og renndum okkur heim á hlað. Það töldu allir það víst að það hefði verið Jonni því hann var nú rúmum tveimur árum eldri og var á svo ágætum skíðum, hafði góðar græjur. Ólafía kona hans kom hlaupandi út, tók um hálsinn á honum og skildi ekkert í því hvernig stæði á því að ég skildi standa á skíðunum, verðlaunaskíðunum. Þangað til pabbi kom og heilsaði, faðmaði mig og kyssti og sagði að sig hefði alltaf grunað að það mundi frekar hafa verið ég.

Mynd augnabliksins

jonni_13_570.jpg
header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya