SkÝ­asaga fjallabygg­ar

/* /*]]>*/ 3. j˙lÝ 2008 A­ heimili Valeyjar Jˇnasdˇttur, Hafnart˙ni 4, Siglufir­i Valey Jˇnasdˇttir er fŠdd ß Siglufir­i 21. nˇvember 1931. H˙n hefur

Valey Jˇnasdˇttir

3. júlí 2008

Að heimili Valeyjar Jónasdóttur, Hafnartúni 4, Siglufirði

Valey Jónasdóttir er fædd á Siglufirði 21. nóvember 1931. Hún hefur alltaf átt heima á Siglufirði, fyrir utan þau fjögur ár sem hún stundaði nám í kennaraskóla í Reykjavík. Eftir það starfaði hún sem kennari á Siglufirði í hálfa öld. Foreldrar hennar voru Jónas Jónasson og Jóhanna Jónsdóttir, þau voru bæði fædd og uppalin í Fljótunum en fluttu til Siglufjarðar 1924 og bjuggu þar síðan.

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum?

,,Þau voru kannski ekki svo mikilvæg, það voru ekki svo miklar vegalengdir hér á Siglufirði. En þau voru talsvert samt notuð. Og foreldrar mínir höfðu sjálfsagt verið á skíðum í Fljótum, ég man nú ekki eftir að þau höfðu talað um það en þau voru ákaflega áhugasöm um skíði, sérstaklega mamma, ég man eftir því, hún fylgdist alltaf mjög vel með skíðamönnum. Enda voru bræður mínir líka, elsti bróðir minn varð íþróttakennari og yngsti bróðir minn hann keppti hér mikið á skíðum, mikið á landsmótum, svoleiðis að það var mikill áhugi fyrir skíðamennsku á mínu heimili. Einn er náttúrulega, mágur minn, sem að seinna varð sko. Hann var náttúrulega aðal skíðamaðurinn í fjölskyldunni.“

Það var Jón Þorsteinsson. 

,,Ég man eftir því að hafa heyrt konur tala mikið um hann, til dæmis heima í eldhúsinu hjá mömmu, það var mikið talað um hann, hvað hann væri flottur, löngu áður en hann kynntist systur minni sko. Að hann væri mjög fallegur skíðamaður, sérstaklega fallegur í stökkinu. Það var nú eiginlega aðallega svona íþróttin sem fólk horfði mest á, það var meira fyrir augað. Það var skíðastökkið sko. En spennan var nú alltaf mikil í kringum gönguna. Þetta voru tvö aðalatriðin, það voru gangan og stökkið sko. Svigið kom svona seinna, að manni fannst. “

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Hún var ákaflega mikil og ég man eftir að fólk hópaðist alveg, sérstaklega, ég tala nú ekki um eftir að Stóri boli, sem kallaður var, var byggður hérna, það var skíðastökkpallur hérna rétt fyrir innan bæinn og það var nú ekki svo langt að fara og fólk átti nú ekki bíla og það voru ekki mokaðar götur í þá daga. En fólk þyrptist alveg til þess að horfa á skíðastökk til dæmis, og einnig göngu, það var mikill áhugi fyrir skíðamennsku, fannst mér ætíð og ég man eftir sérstaklega einu tilviki og það var þegar það var stokkið upp í Hvanneyrarskál. Þetta var á landsmóti, það voru stundum skíðamót upp í Hvanneyrarskál. Ég var nú of ung til þess að fara þangað, en ég man eftir því að það var mikið talað um það, hvað fólk lagði á sig, að labba alla leið upp í Hvanneyrarskál. Því það þekktist ekki að konur væru til dæmis í síðbuxum í þá daga. Þær voru allar í pilsum. Þær voru í síðum pilsum meira að segja, á skíðum. Þær löbbuðu bara fótgangandi upp í Hvanneyrarskál til þess að horfa á skíðamót, það var nú einstakt, eða manni finnst það í dag.“

En var mikið um það að konur stunduðu þessa íþrótt?

,,Nei, ekki fyrst. En svo eftir að svigið byrjaði, þær voru lítið í göngu og stökki en eftir að svigið byrjaði þá byrjuðu konur að æfa. Eða þetta er mín skoðun sko.“

Var svigið kallað einhverjum öðrum nöfnum heldur en svig?

,,Ja, það var kallað slalom, náttúrulega fyrst og fremst var þetta kallað slalom. Það var nú bara erlendis frá sem það kom. Það komu hérna oft kennarar, man ég eftir, því þeir bjuggu oft heima hjá systur minni, svona skíðakennarar sem komu til þess að kenna mönnum bæði rétt göngulag í skíðagöngunni og svona ýmsar kúnstir. Ég man eftir þessu, þetta voru mest Norðmenn, sem komu hingað. Þeir bjuggu mikið heima hjá Jóni og systur minni. En hvernig þau fóru að því, til dæmis eins og Jón, sem ekki var nú neitt langskólagengin eða neitt, hvernig þau fóru að því að gera sig alltaf skiljanleg, ég átti eiginlega hálf bágt með að skilja norskuna, en það var eins og þetta væri ekkert mál. Þau töluðu sama tungumál, um skíðin.“ Fólk bjargaði sér bara með því að tala norsku og íslensku í bland, eða svokallaða skandinavísku.

Valey rifjar upp þegar Birgir Ruud kom hingað til lands: ,,hann var norskur og mjög frægur skíðastökkvari, hann stökk heljarstökk á skíðum og hvaðeina, það var til stór mynd í stofunni heima hjá systur minni, einmitt af honum, þegar hann var að stökkva. Þegar hann kom hingað til lands og fór að segja mönnum til þá var hann svo hrifin af Jóni Þorsteinssyni að hann gaf honum stökkskíðin sín þegar hann fór. Og þessi skíði áttu að vera til hérna, en ég veit ekki almennilega hvort þau hafa glatast eða ekki. Ég held að ég megi segja það að t.d. Birgir Guðlaugsson, hann heitir nafninu hans. Ég held það alveg örugglega, ég ætla samt ekki alveg að fara með það, en mig einhvern veginn minnir það.“

Valey segir frá heimili hans Birgis Guðlaugssonar en hún var mikil vinkona eldri systur hans. Valey kom mikið á heimili foreldra þeirra og segir að það hafi verið alveg einstakt, alveg eins og félagsheimili. ,,Þetta var lítið hús sem stendur rétt fyrir neðan kirkjugarðinn, það ber ekki mikið á húsinu en þegar inn var komið var þetta eins og stærðarinnar félagsheimili vegna þess að þarna söfnuðust saman skíðamenn og það var talað um skíði og aftur skíði. Þetta var allt áhugafólk um skíði. Svo var farið niður í bakarí og keypt vínarbrauð handa öllu liðinu og hitað kaffi, þetta var alveg einstakt heimili. Ég efast um að það hafi verið mörg heimili svona hérna í bænum, ég veit það þó ekki, en þetta var það sem ég kynntist þegar ég var stelpa. Á  veturna var ákaflega lítil vinna hérna í bænum og þetta var svona eins og bara áhugamál svo margra og ef ekki var hægt að vera á skíðum eða eitthvað þá var komið oft þarna heim. Þetta voru ekki skipulagðir fundir en það söfnuðust allir þarna saman. Þetta var svo einkennilegt andrúmsloft og náttúrulega elst Birgir þarna upp og þau systkinin, í þessu andrúmslofti, sem var svolítið sérstakt.“

Myndir þú segja að atvinnulífið á Siglufirði hafi haft áhrif á skíðaiðkunn og áhuga?

,,Alveg tvímælalaust og svo líka náttúrulega var ekkert sjónvarp og engir tölvuleikir. Á veturnar var þetta eina svona tómstundaíþróttin, því það var ekki hægt að vera í fótbolta, en hann var mikið stundaður á sumrin. Skíðin voru náttúrulega aðalafþreying unga fólksins í gamla daga, ég mundi segja það, og var mjög góð afþreying. Vinnan við það að vera á skíðum var svo mikil. Það voru engar togbrautir og þetta var allt gert af handafli, t.d. þegar var verið að gera stökkpallana, þá voru stungnir upp hnausar og þetta var hlaðið upp með snjó. Svo var traðkað og það þurfti að traðka upp slóðina, mennirnir þurftu alltaf að labba upp með pöllunum áður en þeir renndu sér niður til að stökkva. Þetta voru sjálboðaliðarnir sem voru mikið í þessu.“ Sama var upp á teningnum þegar svigið byrjaði, þetta var allt gert á skíðum. Menn tróðu sjálfir slóðirnar, það var heilmikið verk og vinna.

En hver var aðkoma kvenna að sjálboðaliðastörfunum?

,,Ætli það hafi ekki bara verið að hita kaffi og kakó. Stundum hjálpuðu þær við að þjappa brautirnar, en mest voru það strákar sem voru í því. En við náttúrulega fylgdumst með, það varð einhver að hebba á þá svona.“ Segir Valey og hlær. Þegar hún var unglingur skúraði hún stundum skíðaskálann, en það voru einmitt stúlkurnar sem sáu um það.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur og skíðadrottning?

,,Já, mikil lifandis ósköp. Skíðakóngur Íslands, það var náttúrulega æðsti maður í skíðunum. Það var bara samanlagt ganga og stökk. Skíðadrottning kom svo löngu seinna. En fyrst var skíðakóngur Íslands sá sem fékk flest stig samanlagt í göngu og stökki. Mágur minn var mjög oft skíðakóngur og hann vann þetta voðalega mikið á stökkinu. Hann var reyndar góður í göngu líka en hann var ekki mjög sterkur í baki og hann var ekki alltaf fyrstur í göngunni, en þá vann hann það alltaf upp í stökkinu.“ Hún vísar þarna til Jóns Þorsteinssonar sem vann þennan titil oftar en einu sinni. Þetta var opinber titill og sagt frá þessu í útvarpinu:  ,,þá var maður spenntur að hlusta, sérstaklega ef þetta var haldið annars staðar því símasamband var ekki þá eins og er í dag, sko.“

Hvernig var keppnisandinn á Siglufirði?

Valeyju þykir merkilegt hvað það var alltaf mikil samkeppni á skíðunum á Siglufirði. Skíðafélagði klofnaði og það urðu tvö félög, það var Skíðaborg annars vegar og svo gamla skíðafélagið hins vegar. ,,Það mynduðust tveir pólar, þannig að keppnin varð geysileg á milli og þetta varð til þess að menn æfðu miklu meira og þjálfuðu. Það voru alltaf Siglufjarðarmót og þá var keppt innbyrðis og alltaf mikil spenna í kringum það. Það voru tvær fylkingar sem tókust mikið á.“ Valey man eftir þessu ,,eins og það hefði gerst í gær, þetta var svo gaman og spennandi.“

Var einhver rígur á milli félaganna?

,,Það var svona undir niðri en samt voru þetta allt bestu vinir. Svo fóru þeir saman á landsmót og þá stóðu Siglfirðingar saman, þá var ekki nokkur rígur. En þegar þeir voru að keppa innbyrðis, það er alveg eins og þegar tvö knattspyrnufélög eru í sama bænum. Það er alltaf smá rígur á milli.“

Valey veit ekki hvers vegna félagið klofnaði en telur að það hafi verið einhver ágreiningur. Hún man þó ekki annað en menn hafi verið bestu vinir þrátt fyrir að vera í sitthvoru félaginu. Valey man líka vel eftir því þegar félögin sameinuðust. Á þeim tíma var Valey með smábarnaskóla á Siglufirði og lánaði oft kennslustofuna heima hjá sér undir fundi. Auk þess var hún sjálboðaliði fyrir skíðafélögin og rukkaði til dæmis inn árgjöldin. Valey vann ýmis sjálboðaliðastörf þar til hún gifti sig og eignaðist börn en þá dró úr þátttöku hennar, en hún hélt áfram að fylgjast með og fór oft með krakkana sína á skíðamót.

Hvernig gekk að sameina félögin tvö?

Valey segir að það hafi gengið vel að sameina félögin. Eftir að félögin sameinuðust var ekki eins mikil spenna í bænum og það var eins og keppnisandinn færi úr mönnum við þetta. ,,Það smá fjaraði náttúrulega út þegar það komu önnur áhugamál og svona og við það að það var farið að moka bæinn og aðstæðurnar urðu öðruvísi.“ Keppnisandinn var mestur meðan félögin voru tvö, sérstaklega á þessum Siglufjarðarmótum. Það þótti voðalega gaman að fylgjast með þeim. Eftir að alpagreinarnar byrjuðu breyttist líka margt og það komu nýjir menn – og konur, því þá fóru kvenmenn að taka þátt í auknum mæli. Valey segir að það hafi auðvitað verið af hinu góða því fram að því var þátttaka kvenna nánast engin. Valey var þó ekki eins spennt fyrir alpagreinunum, en fylgdist þó með þeim líka.  

Segðu frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað

Valey segir frá svigskíðunum sem hún notaði: ,,Þetta voru þung skíði með stálkönntum neðan í og svo bindingarnir náttúrulega, þeir voru mjög fornfálegir, fyrst voru þetta svokallaðir smellubindingar, það voru sko, það var náttúrulega fyrir krakka var bara með svona tá og einhverri ól aftur fyrir. En svo komu smellubindingarnir og þeir voru, það var ól sem var svona smellt aftur fyrir hælinn og það var nú strax mikil bót. Svo komu gormabindingarnir, sem kallaðir voru, þeir voru náttúrulega toppurinn í þá daga sko, á svigskíðunum og líka á hinum en fyrstu skíðin voru flest öll með þessum svokölluðu smellubindingum. Og skíðin þau voru svolítið svona þung svona miðað við skíðin til dæmis í dag, held ég.“

En hvað með til dæmis skíðaskó? 

,,Já skíðaskór náttúrulega, þeir náttúrulega voru ekki til þessir smelluskór heldur voru allir skíðaskór þá reimaðir. Bara með reimum að framan. Síðan kom ól sem var spennt yfir ristina, því að reimarnar vildu losna og þá var þetta svona öryggisól. Þetta voru nokkuð góðir skór. Ekkert ósvipaðir bara gönguskóm í dag, sem notaðir eru í fjallgöngum. En þetta hefur orðið mikil breyting á, en fólk gat þó gengið á þessum skóm, en þessum skóm í dag, það er ekkert hægt að ganga á þeim. Fólk er alveg fast í þessu.“

Segðu frá breytingum á fatnaði?

,,Ja, mikil ósköp! Ég man eftir pokabuxunum sko, sem voru fyrst, þetta voru svona dálítið víðar svona pokabuxur og svo voru sokkarnir girtir utan um, alveg upp undir hné. Menn voru í þessu þegar þeir voru að keppa, svona pokabuxum. Það líka var til mynd heima, sem við gáfum nú reyndar systur minni einu sinni en það var einmitt af Jóni Þorsteinssyni og hans félögum og klæðnaðurinn sést mjög vel á þeirri mynd. Þá voru alltaf notaðir stafir líka, til dæmis í svigi og öðru en það eru allt öðruvísi stafir í dag. Þeir eru miklu lægri og minni. Þetta voru allt saman sömu stafirnir sem voru notaðir í gamla daga, bæði í göngu og svigi. En þetta hefur breyst mikið, útbúnaðurinn, og tískan í þessu öllu saman. Eftir pokabuxurnar komu svo alveg níðþröngar buxur. En áður en það komu þessir smellu, eða þessu nýju klossar þá voru yfirleitt sokkarnir alveg girtir svona utan um og upp á legginn, upp undir hné.“

Ekki var munur á klæðnaði drengja og stúlkna. Þær voru í svipuðum búnaði þegar þær fóru að keppa. Pokabuxurnar voru saumaðar úr vaðmáli, og allt var heimasaumað. Valey segir að einhvern tíma hafi kvenfélagskonur í bænum tekið sig saman og ákveðið að keppa í skíðagöngu og þær kepptu allar í pilsum, en það var fyrir hennar minni. ,,Ég man eftir því þegar þær voru að koma þessar dugnaðarkonur sem voru í skíðafélaginu og þær komu og þær stóðu fyrir veitingum í skíðafélagsskálanum og svona, og við hjálpuðum til stelpurnar og þær voru alltaf eiginlega í pilsum.“  

Valey man eftir heimasmíðuðum skíðum, sem smíðuð voru úr tunnustöfum og fest með snæri eða ól. Algengt var að krakkarnir væru á slíkum skíðum innanbæjar á Siglufirði. ,,En síðan komu svona, ég veit ekki hvort þau hafi verið smíðuð hérlendis eða hvað, komu svona léleg skíði, þau voru bara með táól yfir og ekkert annað, enginn annar stuðningur. En svo komu ábyggilega erlendis frá, þessi skíði sem að ég man mest eftir, eins og ég fór á. Ég man eftir því að ég var oft búin að biðja um skíði, þetta þótti svo mikill óþarfi, af því að ég væri ekkert að keppa og ekkert svona. Ég þyrfti ekki nein skíði sko, heldur bara gat ég notað skíðin hennar systur minnar.“

,,Ég eignaðist ekki skíði fyrr en ég var orðin fullorðin, ég var alltaf á lánsskíðum. Þetta náttúrulega þótti óþarfi að vera að eyða peningum í skíði handa krökkum sem voru ekki að æfa eða neitt. Ég var mest á lánsskíðum frá systur minni, hún var ekki eins áhugasöm um skíðin eins og ég.“

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina?

,,Þetta var dýrt þá, eins og það er í dag, og líka talin lúxus að vera á skíðum. En það voru margir sem að eyddu bara aleigunni í þetta, sem höfðu nógu mikinn áhuga.“

Segðu frá skíðaskálum

Valey man vel eftir gamla skíðaskálanum sem stóð yfir á Ás. ,,Þetta var stærðarinnar hús. Þetta var mjög stórt og gott hús og þarna inni voru tréborð svona og stólar og bekkir meðfram til þess að sitja á, trébekkir. Þarna var lítið eldhús og svona eldunaraðstaða, eða svona til að hita, við vorum að hita mikið, kaffi og kakó og svona. Oft á sunnudögum þá var selt, bæjarbúum voru seldar veitingar. Það var til að reyna að hafa einhverja peninga. Stundum voru böll þarna, þá var dansað þarna í skíðaskálanum, voða gaman. Það var einhver sem tók upp harmoniku, Jón Þorsteinsson til dæmis spilaði á harmoniku. Það var oft mikið fjör.“ Þetta voru alltaf áfengislausar skemmtanir, það þótti ekki við hæfi að hafa vín við hönd, það hefði þótt vanvirðing við skíðaíþróttina. Þarna var bara dansað við harmonikuspil.  Valey segir að það hafi verið margt um manninn á böllunum og einnig á skíðamótunum.  

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar?

Í skíðaskálanum var aðstaða til að hafa fataskipti og smyrja skíðin. Það var mikið atriði að smyrja skíðin rétt, sérstaklega í göngunni. Til voru margar gerðir af áburði sem voru ætlaðar fyrir mismunandi hitastig í snjónum. Hreinlætisaðstaða var af skornum skammti en þó var rennandi vatn í eldhúsinu. Valey man ekki hvort það var klósett eða kamar.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir?

,,Þetta byrjaði bara strax og snjó fór að festa, þetta var miklu meiri snjór hérna áður fyrr, heldur en er í dag, eða okkur fannst það að minnsta kosti. Það var nú líka af því að það var aldrei rutt neitt og það voru allar götur svo fullar af snjó, það var svo mikill snjór á þeim, þetta voru bara hólar og lægðir sko, eftir götunum. Það var til dæmis, í bænum var mikið farið í ræningjaleik á skíðum, krakkar sko, þeir fóru í ræningjaleik sem kallaður var og það var svona hverfabardagar og allir á skíðum sko, krakkar byrjuðu mjög snemma að leika sér á skíðum.“

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

,,Veistu, ég man bara ekki mikið eftir því, ég hef oft verið að hugsa um það sko, þetta voru ekki mikil meiðsli sem ég man eftir, að minnsta kosti ekki í kringum mig. Það var ekki fyrr en kannski seinna að menn fóru kannski að detta og brotna og svona. Þetta voru ekki svo hættulegar brautir, ekki það hættulegar þá, þetta er orðið miklu hættulegra núna, á seinni árum. Heldur en var hérna áður. Ég man ekki mikið eftir slysum, það var svona, fólk var að togna jú, það var að snúa sig og togna og svona en það er ekkert óeðlilegt. Ég man að ég tognaði einhverntíma mjög illa og það var ekkert, þetta var ekki talið neitt hættulegt, það gat gerst hvar sem var bara.“

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni?

Valey segir frá ferð á Kolviðarhól 1953 eða 1952.

,,Skíðalandsmótið átti að halda þetta ár á Kolviðarhóli, sem er staðsettur á Suðurlandi ekki langt frá skíðaskálanum í Hveradölum. Flestir keppendur voru mættir, en þá skall á óveður með mikilli fannkomu, svo fresta varð keppni dag eftir dag. Ég var við nám í Reykjavík þennan vetur. Mágkona mín hringdi í mig og bað mig um að koma með sér í heimsókn upp á Kolviðarhól, því nú væri búið að opna veginn uppeftir og það átti að koma vistum til keppenda sem voru af skornum skammti. Maðurinn hennar, bróðir minn, var á meðal keppenda. Við lögðum af stað snemma morguns með nesti í tösku. Allt gekk vel þangað til við komum í Lögmannsbrekkuna. Það var allt fast og ekki gerlegt að koma bílnum áfram. Nú voru góð ráð dýr. Flestir farþegarnir voru með skíði og settu þau á sig og gengu af stað. Við tvær vorum fótgangandi og héldum af stað, hvorug okkar hafði farið þessa leið áður. Við óðum snjóinn í hné, og héldum okkur við símalínur og staura og héldum ótrauðar áfram. Hríðarmugga var og einhver æðri máttur sem leiddi okkur áfram. Það voru aðframkomnar konur sem skriðu upp hólinn að húsinu þar sem það stóð. Ekki hafði verið hægt að keppa ennþá vegna veðurs, en miklir voru fagnaðarfundir hjá ungu hjónunum, ekki síst vegna nestisins sem við vorum með, þeir höfðu verið nær matarlausir undanfarna daga. Þeir sögðu þá sögu til gamans að kvöldið áður hefði verið ólseigt kjöt á borðum og þeir hefðu verið í mestu vandræðum með að tyggja það. Þá heyrðist í einhverjum: ,,Tryggur minn, hvar ertu greyið, hvað hefur orðið af hundinum.“ Heim var svo haldið seinni part dags, en þá voru okkur lánuð skíði og allt gekk áfallalaust.“

Einnig er Valeyju minnisstætt þegar bróðir hennar, Valtýr Jónasson vann skíðagöngu á landsmóti á Siglufirði. Þetta var fyrsta skíðamótið sem hann keppti á en hann var vanur göngumaður, alinn upp í Fljótunum. Hann fluttist til Siglufjarðar þegar hann hóf skólagöngu og var aðeins unglingur þegar hann tók þátt í umræddu móti. ,,Þá vann hann gönguna og það var mér dálítið eftirminnilegt því það trúði því enginn að hann væri að koma í mark fyrstur, á undan öllum stórköllunum sko.“ Stórkarlarnir í skíðaíþróttinni á þessum tíma voru Jón Þorsteinsson, Jónas Ásgeirsson, Guðmundur Guðmundsson og fleiri. ,,Svo kom þessi pjakkur, hann kom þarna bara í mark og enginn trúði því að hann væri að vinna svona stórsigur í göngu, þá var hann vanur náttúrulega göngunni úr Fljótunum, þar var mjög snjóþungt. En það átti enginn von á því að hann væri svona góður í göngunni.“

Valey man eftir mörgum skíðamótum. Hún safnaði merkjum frá hverju einasta skíðamóti og límdi þau inn í eldhússkápinn hjá sér. Hún segir að eftir að hún hætti að fara og horfa á skíðamótin þá hafði hún samt alltaf áhuga á að fylgjast með. Valey er fædd með fötlun og segir að það hafi komið í veg fyrir það að hún gæti keppt á skíðum. ,,Ég held að ég hafi bara talið mér trú um, og aðrir líka, að það þýddi ekkert fyrir mig að vera að reyna að keppa, en ég renndi mér á skíðum alltaf, ég gat það og var mjög áhugasöm.“

,,Þeir fóru nokkrir Siglfirðingar til Noregs einu sinni til að æfa skíðaíþrótt og það var nokkuð merkilegt á þessum árum. Ég var svona unglingur þá, 16, 17, 18 ára. Þá fór mágur minn, Jón Þorsteinsson með þeim, þessum piltum sem fóru héðan, og hann var nú elstur af þeim og þá stökk hann á Holmenkollen og hann fékk sérstakan bikar sem viðurkenningu fyrir það að vera fyrsti Íslendingurinn sem stökk á Holmenkollen. Það er einn fægasti stökkpallur Norðmanna, þarna í Osló. Svo var hann beðin um að vígja annan stökkpall fyrir Norðmenn og hann gerði það og hann fékk líka bikar sem minjagrip fyrir það.“

header
Hafa Samband
moya - ┌tgßfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya