Skķšasaga fjallabyggšar

/* /*]]>*/ 24. jśnķ 2008 Aš heimili Sveins Sveinssonar, Hólavegi 77, Siglufirši. Sveinn Sveinsson er fęddur 4. desember 1936 į Siglufirši. Hann er alin

Sveinn Sveinsson

24. júní 2008

Að heimili Sveins Sveinssonar, Hólavegi 77, Siglufirði.

Sveinn Sveinsson er fæddur 4. desember 1936 á Siglufirði. Hann er alin upp á Siglufirði og hefur búið þar alla tíð. Lengst af hefur hann starfað sem sjómaður, en hann byrjaði á sjó 15 eða 16 ára gamall. Togararnir voru gerðir út á veturnar en á sumrin starfaði Sveinn á síldarplaninu. Eftir að hann hætti að vinna á togurum fór hann að vinna á bátum og þá var farið til sjós allan ársins hring. Sveinn hefur verið á línu-, neta-, og nótaveiðum og veitt ufsa og síld. Faðir Sveins var Sveinn Guðmundsson, fæddur á Tröðum í Staðarsveit og ólst þar upp. Móðir hans var fædd í Reykjavík en ólst upp á Hoftúnum í Staðarsveit. Saman fluttu þau norður til Siglufjarðar og bjuggu þar síðan. Faðir hans var verkamaður og síldarsaltandi og móðir hans starfaði á Leikskálum og var í síld á sumrin.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina? Sveinn var 5 eða 6 ára þegar hann byrjaði að fara á skíði. Bróðir hans, Jón Sveinsson, var mikill skíðamaður og hafði áhrif á Svein. Jón gaf litla bróður fyrstu skíðin. ,,Það voru bara allir á skíðum, það var allt á bólakafi hérna í snjó og þetta var aðal íþróttin á veturnar.“

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum? Fljótamenn komu oft á gönguskíðum yfir Skarðið til Siglufjarðar til að keppa um helgar. ,,Þeir voru ansi góðir skíðamenn og komu oft hingað, sérstaklega ef viðraði vel, þá komu þeir oft hérna um helgar og voru að keppa við okkur strákana.“

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna? Það komu erlendir skíðakennarar til Siglufjarðar. Bróðir Sveins lærði til að mynda mikið af sænskum göngukennara. Árið 1949 eða 1950 kom norskur stökkkennari, Jeppen Erikson, en hann var aðallega að þjálfa fullorðna sem voru lengra komnir. Minna var gert af því að sinna börnum og unglingum. Árið 1958 kom finnskur kennari, Ale Line, hann tók alla aldurshópa og kenndi stökk og göngu.

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið? ,,Það lá allt niðri, meðan ég var í þessu þá var maður náttúrulega að vinna í síldinni þegar hún var, það var ekkert skipulagt, ég fór stundum fram í fjörðinn og hljóp kannski svolítið. Það var nú eiginlega eina sumaræfingin, því menn voru yfirleitt það þreyttir í síldinni að þeir höfðu ekki þrek til að æfa.“

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn? Meðan krakkarnir voru í barnaskóla pössuðu þeir upp á að mæta í skólann. Skíðin voru stunduð sem leikur utan skólatíma. Það var verið að stökkva og leika sér í frítíma. ,,Ég eiginlega æfði náttúrulega sáralítið, nema einn vetur, þarna 1958, þá vann ég í landi, þá náttúrulega vorum við að vinna strákarnir, flest alla virka daga og þá náttúrulega var gengið þá á kvöldin. Þá notuðum við kvöldin til að ganga og svo aftur helgarnar til þess að stökkva. Það var yfirleitt miklu meiri undirbúningur undir stökkið, bæði að útbúa brekkuna og troða hana, því eins og veðrið var hérna þá gat staðið hérna stórhríð í 3,4,6,7 sólahringa. Þá þurfti svo marga til að fara að útbúa brekkuna, troða hana alla saman og það tók kannski heilan dag, það var ekki hægt að stökkva fyrr en daginn eftir. Þetta var svona vinna í þessu líka.“ Best var að leyfa brautunum að bíða og harðna. Það var mikilvægt að troða hart. Stundum þurfti að moka í brautirnar. Það voru margir sem æfðu stökk svo þetta gekk vanalega fljótt fyrir sig. 

Hvaða grein/greinar lagðir þú fyrir þig? Sveinn var einkum í stökki og göngu. Það var mjög algengt að menn væru bæði í stökki og göngu. Hann var einnig í svigi fram til 15 ára aldurs. ,,Svo hafði maður ekki tíma í þetta allt, maður varð að setja eitthvað frá sér.“ Sveini fannst stökkið alltaf skemmtilegast: ,,við áttum svo góðar stökkbrautir hérna. Sérstaklega uppi í Hvanneyrarskálinni, þar voru tvær stökkbrautir, svo áttum við tvær stökkbrautir aðeins innar í firðinum, sem voru kallaðar Litli boli og Stóri boli. Þar var mikið búið að stökkva.“ Svæðið hét Nautskálahólar og brautirnar nefndar eftir því.       

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Nei, ekki vill Sveinn gera mikið úr því.

Hvenær byrjaðir þú að keppa? ,,Ég byrjaði að keppa á skíðamóti Íslands, það var 1953, þá fer ég bara í svigið, ég hafði ekki aldur til að fara í göngu og stökk.“ Eftir 1953 fór Sveinn til sjós og fór ekkert á landsmót fyrr en 1957. Hann var á togara á þeim tíma og hafði viku til að æfa fyrir mótið. Sveinn segist hafa verið aftarlega í göngunni en Jonni Vilbergs var aftur á móti mjög framarlega. Sveinn stóð sig hins vegar svo vel í stökki að honum tókst að vinna tvíkeppnina. Jonni var meðal fremstu manna í svigi á þessu móti.  

Um hvaða vegalengdir var að ræða? ,,Ég fór nú ekki að ganga 30 kílómetrana fyrr en ég gat æft eitthvað að ráði, það var ekki fyrr en 1960 sem ég gekk 30 kílómetrana. Mér fannst alveg nóg að ganga 15 kílómetra óæfður, eða svona illa æfður.“ Eftir 1960 gengu göngumennirnir yfirleitt báðar göngurnar, 15 og 30 kílómetra. Þá voru orðnir það margir í göngunni að það voru komnar tvær boðgöngusveitir á skíðamóti Íslands, sem þótti mjög gott.  

,,Það gekk bara mjög vel, sérstaklega eftir að Ale Line var hérna, þetta híbbaðist svona upp eftir að hann kom hérna. Þá varð alveg bylting.“ Auk 15 og 30 kílómetra göngu var boðganga, en hún var 10 kílómetrar. Sveini þótti boðgangan miklu erfiðari en hinar göngurnar. ,,Þetta var einn sprettur sko, maður hafði ekki svona nógu góðan tíma til að hita sig upp og þannig, maður mátti heldur ekki sleppa fyrsta manninum, maður varð að reyna að halda í hann, fá ekki of langt bil, þannig að mér fannst hún eiginlega alltaf erfiðust, boðgangan. En mér fannst nú eiginlega á þessum mótum stökkdagurinn alltaf vera erfiðastur. Þá þurfti alltaf að stökkva sex stökk, þrjú fyrir meistarastökkið, og þrjú stökk fyrir tvíkeppnina. Þetta var þónokkuð mikið labb, að labba alveg úr brekkurót og alla leið upp, sex sinnum. Manni fannst það nú orðið nóg.“

 Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda? ,,Nei, nei ég átti engar fyrirmyndir, maður var náttúrulega búin að skoða mikið af myndum frá svona norskum stökkvurum, sérstaklega. Það voru frægir norskir stökkvarar, bæði Birger Ruud og Rayan Andersen og þessir hérna norsku meistarar. Sigmund Ruud og þeir Ruud bræður, þeir voru miklir stökkvarar.“

Segðu frá gullpeningum og bikurum. ,,Það voru tveir farandbikarar sem ég man eftir, það var til dæmis í tvíkeppninni, það var búið að keppa um tvíkeppnisbikar frá 1937 eða 1938. Svo var  stökkbikar, ég er ekki alveg klár á því hvenær hann byrjar. En þessir bikarar eru báðir í Ólafsfirði. Þar var síðast keppt í þessum greinum stökki og tvíkeppni.“ Það var enginn farandbikar í göngunni. Síðan var hætt með þessa farandgripi.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? ,,Jájá, ég heyrði talað um það og það var talað um þennan skíðakóng, ég vissi nú aldrei hvernig það kom til. Það var held ég komið frá Guðmundi Guðmundssyni. Maður brosti nú bara að því. Er nokkur kóngur í þessu, er þetta ekki bara leikur, mér fannst það nú alltaf.“ Sveinn telur að þetta hafi verið í gamni gert hjá Guðmundi og það var gert góðlátlegt grín að þessu hjá honum. En Guðmundur var mikill skíðamaður og var mjög framarlega í göngu. Sveinn minnist þess ekki að þessi hugtök hafi verið notuð, nema bara í þessu sambandi. Þegar hugtakið er borið á góma dettur Sveini í hug Jónas Ásgeirsson og Jón Þorsteinsson.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?,,Það skipti nú einhverju, það fer eftir því hvað menn vilja leggja hart að sér. Ef þeir hafa skap til þess, þá leggja þeir hart að sér.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir? Sveinn segir mikilvægt að taka eftir öðrum skíðamönnum, hvernig göngumennirnir ganga. Í göngunni skiptir mestu máli að ná sem mestum hraða með sem minnstum krafti. Gangan gengur út á það að nota snjóinn sem best með minnsta kraftinum.  ,,Jújú, svo er náttúrulega komin svo mikil tækni í þetta og í allar íþróttir kannski meira heldur en var. Það veltur líka töluvert mikið á tækni, sérstaklega náttúrulega í göngunni, veltur mikið á smurningu, það eiginlega er númer eitt, tvö og þrjú. Að fá besta fáanlega rennsli og fatt náttúrulega líka.“ Fatt skipti miklu máli, því menn þurftu að spyrna án þess að renna aftur á bak. ,,Áburðurinn er þannig uppbyggður að maður getur runnið á honum og svo þegar þú spyrnir þá heldur hann við þannig að þú rennir ekki aftur á bak líka. Þess vegna eru svo margar tegundir af gönguáburði.“

Lýstu skíðum, skíðaskóm, festingum og skíðastöfum. ,,Þetta var nú eiginlega staðlaður útbúnaður, bara gönguskíði með göngubindingum, þeir eru núna farnir að breytast. Skíðin þurfa að vera líka rétt, rétt spenna í skíðunum. Ef spennan er ekki rétt í skíðunum, á gönguskíðum, ef skíðin voru stíf, þá færðu ekki fatt, þú færð gott rennsli en þá fattaru illa. Og svo er annað, ef að skíðin eru mjúk, þannig að þú stígir þau of mikið niður, þá renna þau ekki eins vel. Nú orðið eru allar göngubrautir harðar og ef þú ert ekki alveg á réttum skíðum þá færðu ekki eins gott rennsli og ekki eins gott fatt eins og þeir sem eru á réttum skíðum. Það er þetta sem er mikið lagt upp úr núna. Hér áður var þetta ekkert svona, núna er þetta orðið svona.“

Varð mikil þróun á útbúnaði á þeim tíma sem þú varst sjálfur að æfa og keppa? Á þeim tíma voru íslenskir skíðakappar farnir að keppa á erlendri grundu og þeir gátu nálgast besta mögulega útbúnaðinn erlendis. Þeir sem ekki fóru til útlanda voru áfram háðir því litla úrvali sem hérna fékkst.

Hvað um fatnað? Voru til dæmis  sérstakir keppnisbúningar? Það voru sérstakir búningar, einn fyrir stökk og annar fyrir göngu. Þetta voru buxur og peysa en heilgallarnir komu ekki fyrr en eftir að Sveinn hætti að keppa. Það voru ekki komnir sérstakir einkennisbúningar fyrir Siglufjörð en skíðafélagið á Akureyri var komið með einkennisbúninga og voru þeir þá allir eins klæddir á mótum.  

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú? ,,Ég var nú bara ungur strákur þegar það voru tvö félög hérna.“ Búið var að sameina félögin þegar Sveinn byrjaði að æfa.

Hvernig gekk að sameina félögin tvö? ,,Ég man eftir því þegar ég var strákur þá var haldin fundur hérna þá náttúrulega komu ýmis sjónarmið svona, en það var nú, eftir því sem Alfreð Jónsson sagði mér þá þurfti nú að gera tvær tilraunir til að sameina þau og svo í seinna skiptið þá bara var það sameinað. Og síðan hefur bara verið eitt félag hérna. Það var einhver óánægja í félaginu, gamla félaginu eða Skíðafélagi Siglufjarðar sem var. Þá var stofnað annað félag.“

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu? ,,Það var nú bara frekar lítið um kvenfólk á skíðum eiginlega. Það voru náttúrulega aðallega karlmenn í þessu.“ Aðalheiður Rögnvaldsdóttir var með þeim fyrstu til að keppa í íþróttinni. Seinna komu Kristín

Þorgeirs, Árdís Þórðardóttir og Sigríður Þórdís Júlíusdóttir.

Hvernig var keppnisandinn í félaginu? ,,Hann var bara mjög góður, meðan við gengum, við vorum svo mikið saman strákarnir, þegar við vorum að keppa á Siglufjarðarmótum í 15 kílómetrum þá bara var keppnisandinn mjög góður því að við vorum bara félagar og svo vorum við líka að keppa saman. Auðvitað héldum við alltaf saman í boðgöngunni. Svoleiðis að það var mjög góður andi, fannst mér. Það var enginn rýgur á milli okkar eða neitt svoleiðis.“

 Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppnismanna mismunandi félaga? ,,Hann var mjög góður. Þegar við til dæmis fórum á skíðamót til Ísafjarðar þá borðuðum við alltaf í heimahúsum, þannig að við kynntumst þessum skíðafélögum okkar og það var bara mjög góður andi milli okkar yfirleitt allra, skíðafélaganna, hvort sem það voru Ísfirðingar eða aðrir keppendur. Við höfðum náttúrulega mest samskipti við Ísfirðingana, það var eins þegar þeir komu hingað á mót, þá fengu þeir yfirleitt alltaf að borða í heimahúsum, þetta voru bestu vinir okkar.“

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga? Þeir voru margir. Sveinn nefnir nokkra góða göngumenn: Matthías Sveinsson, Gunnar Pétursson, Odd Pétursson, Sigurð Jónsson, Harald Pálsson og Stefán Jónasson. Stefán var frá Akureyri og var eini keppandinn þaðan sem keppti í göngu.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? ,,Það mátti segja að hún hafi verið mjög góð því að þú þurftir ekkert að fara nema bara út úr dyrunum, á skíðin.“ Sveinn segir að aðstaðan í stökkinu hafi verið mjög góð og alveg til fyrirmyndar. Það var ýmist farið fram í fjörð eða upp í Hvanneyrarskál til að stökkva. Það var meira um gönguslóðir áður fyrr og lágu þær þá langt suður fjörðinn.

Hvað með skíðaskála,skíðalyftur og annað? ,,Það var skáli hérna yfir á ásnum. Þegar ég var yngri þá var Skíðaborg, hún var með skála hérna að vestan verðu. Skálinn stóð fyrir ofan Steinaflatir. Þar var á tímabili sett upp ljósabraut, það er sennilega með fyrstu ljósabrautunum, gæti ég trúað, á landinu.“ Ljósabrautin kom í kringum 1948-1950. Þegar félögin voru sameinuð var skálinn ofan við Steinaflatir orðin gamall og lélegur og þá var farið að nota hinn skálann. Hann var hins vegar líka orðin lélegur og var fljótlega rifin. Eftir það fengu skíðamenn aðstöðu yfir á Hóli, þar sem íþróttamiðstöðin er núna. Íþróttabandalag Siglufjarðar á aðstöðuna á Hóli, en þar er t.d. golfvöllur í dag. Húsið á Hóli er ekki nýtt sem skíðaskáli lengur því það eru svo fáir í göngunni. Meðan það var fjöldi manns í göngu þá var aðstaðan nýtt sem skíðaskáli og þar voru meðal annars seldar veitingar yfir veturinn. Sveinn var farinn til sjós þegar skíðalyftan eða togbrautin komst í gagnið. Hún var staðsett í hlíðinni fyrir ofan bæinn og því þurfti að fjarlægja hana þegar vegurinn upp í Hvanneyrarskál var gerður. Ljósabrautin kom á undan lyftunni og var mikið notuð.       

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir? ,,Það var farið á skíði svona upp úr áramótunum, þá var svona farið að fara á gönguskíði og svo þegar leið lengra á þá fór veður að stillast, það var oft leiðinlegt veður, sérstaklega í desember og janúar og svo þegar kom fram í febrúar og mars þá fór veðrið að stillast og þá var farið að stökkva meira.“ Fótboltavöllurinn var mikið notaður fyrir gönguna í byrjun vetrar en eftir því sem leið á var farið meira inn á dalina, Skútudalinn og Hólsdalinn, í mars, apríl.

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum? ,,Hún var mjög góð, það voru margir spenntir svona.“ Segir Sveinn og hlær. ,,Sérstaklega í sambandi við boðgönguna því Siglfirðingar höfðu ekki unnið boðgöngu, aldrei unnið boðgöngu, fyrr en 1961, eða hvort það var aldrei keppt í boðgöngu, ég skal ekki fullyrða það, hvenær það er eiginlega byrjað að keppa í boðgöngu. En mig minnir það, að það hafi ekkert verið farið að keppa svo snemma í boðgöngunni, sko, eins og í öðrum greinum. Þannig að það var mjög mikill spenningur meðan þetta var, þannig að það voru margir Siglfirðingar sem höfðu áhuga á þessu.“

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli? ,,Bróðir minn sneri sig á ökla, hann átti töluvert lengi í því og hann fór ekkert á skíði eftir það í mörg ár, tíu ár eða meira. En svo fór hann að fara á skíði og honum gekk ágætlega eftir það. Ég man eftir einum sérstaklega, Hjálmar Stefánsson, hann slasaðist, ég held að hann hafi fótbrotið sig upp í Hvanneyrarskálinni, nú það voru mikið af Siglfirðingum fyrir sunnan, einhver fótbraut sig þar. Það var alltaf eitthvað, þetta var svo slæmt upp á það, sérstaklega í stökkinu, að brautirnar voru ekki nógu harðar, þá kom fyrir að menn stungu baujunum í og duttu, þá varð annað hvort að gefa eftir, baujan eða fóturinn. Það voru búin að verða töluverð slys hér áður. En við sluppum nú nokkuð vel, þessir strákar sem vorum þarna saman, ég og Birgir og Tóti og Hjálmar og Gunnar, við sluppum eiginlega alveg við meiðsli. Enginn okkar brotnaði og enginn sneri sig. Þannig að við sluppum bara mjög vel.“

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög? Það var til dæmis farið til Akureyrar á mót, þá var yfirleitt farið með bát í misjöfnum veðrum og meirihluti keppenda urðu sjóveikir á leiðinni. Þegar farið var til Ísafjarðar var farið með Esjunni eða Skjaldbreið. ,,Það var sama sagan þar, það var sjóveikin sem hrjáði flesta.“

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Sveinn segir frá fyrsta mótinu sem hann fór á, það var á Akureyri 1957. ,,Þetta voru svona svolítið skrítnar aðstæður því að þegar við komum upp í skálann þá er suðvestan hvassviðri og skafrenningur og glæra hjarn yfir öllu. Það náttúrulega sást engin slóð og ekki neitt, það voru bara flögg. Svo var ég svo ólánssamur að, það voru gengnir tveir hringir, að ég dett á höfuðið í seinni hringnum og fletti svolítið ofan af andlitinu á mér og kem alblóðugur í mark.“ Sveinn rifjar upp fleiri mót. ,,Það var svolítið spennandi boðgangan líka 1961 á Ísafirði, þá hérna göngum við síðasta sprettinn, ég og Matthías Sveinsson. Hann var mjög góður göngumaður. Ég tek við síðasta sprettinn, það voru tveir metrar á milli okkar, svoleiðis að ég er með hann á hælunum allan tímann, nema síðustu 400 metrana þá náði ég aðeins að lengja bilið.“

Hvað um skíðamótið 1963? ,,Þetta var stórhríðarmót. Þetta var stórhríðarmót. Það sást varla á milli porta.“ Veður var slæmt og tveir menn fórust í sjóslysi um þetta leiti.

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya