9. desember 2010
Að heimili Svanbergs Þórðarsonar, Melateig, Akureyri.
Svanberg Jóhann Þórðarson er fæddur 25. mars 1938 á Þóroddstöðum í Ólafsfirði og ólst þar upp til 15 ára aldurs. Þá fluttu foreldrar hans til Reykjavíkur og Svanberg fór með þeim suður. Foreldrar hans voru Þórður Jónsson, fæddur á Hlíð í Skíðadal 1897 og Guðrún Sigurðardóttir, fædd á Flatey í Breiðafirði 1895. Þórður var aðeins þriggja ára þegar hann flutti með föður sínum, Jóni Þórðarsyni í Þóroddstaði og er því alin þar upp. Faðir Svanbergs gerðist gjaldkeri hjá bróður sínum Sveinbirni Jónssyni í Ofnasmiðjunni í Reykjavík og það réði úrslitum um að fjölskyldan flutti suður.
Svanberg er yngstur af sex systkinum. Elstur var Jón, þá Sigurður, síðan Ármann, Sigríður, Eysteinn og loks Svanberg. Öll voru þau á skíðum í æsku. ,,Ég held að ég muni það rétt að Jón, elsti bróðir okkar, hafi tekið þátt í einu fyrsta landsmóti á skíðum á Ísafirði 1939. Sigurður var Íslandsmeistari í skíðastökki 1948, hér á Akureyri. Ármann tók þátt á landsmótum þó nokkrum sinnum og Eysteinn var margfaldur Íslandsmeistari, og eitt sinn ´56 á Ísafirði varð hann fimmfaldur Íslandsmeistari.“ Svanberg lék sér á skíðum nánast daglega þegar hann var barn. Hann var mest að leika sér að æfa stökk. ,,Ég held að ég hafi verið tólf ára þegar ég keppti í fyrsta skipti, þá niður í kaupstaðnum, Ólafsfirði. Ég átti nú heima þarna á Þóroddstöðum 6 km framan við.“
Það var alltaf eitthvað um keppnir og mót, bæði innanbæjarmót á Ólafsfirði og svo stærri mót. ,,1953 man ég eftir þá var haldið Norðurlandsmót á skíðum, þá var ég 15 ára, þá var ég auðvitað notaður í svigsveitina, þá voru nú ekki það margir sem æfðu mikið, maður var nú farin að æfa þá dálítið svona, þegar maður var komin á þennan aldur. Maður var kominn með hugann við þetta og vilja spreyta sig og standa sig sæmilega.“
Svanberg hafði ekki skíðakennara eða leiðbeinanda en eldri bræður hans voru fyrirmyndir hans og lærði hann mikið af þeim, Ármanni og Eysteini. ,,Það var ekki fyrr en seinna sem maður fékk svona, eins og maður segir, einhvern eiginlegan þjálfara eins og þekkist í dag. En í Ólafsfirði var þetta meira svona leikur og hver sagði öðrum til, það var nú mikið meira svoleiðis, en svo þegar ég var kominn til Reykjavíkur ´53 þá var komin þar kennari sem sagði til.“ Það er fyrst þá sem Svanberg fer að stunda reglulegar æfingar undir leiðsögn. ,,Þá var farið að æfa líka yfir sumarið, hlaupa og svona smá þrekæfingar og svoleiðis.“ Það var markvisst reynt að halda sér í þjálfun allt árið.
Svanberg byrjaði að æfa skíði með ÍR, Íþróttafélagi Reykjavíkur þegar hann flutti suður 1953. Eysteinn bróðir hans var þá fluttur suður og byrjaður að æfa með ÍR. Árið 1961 flutti Svanberg aftur norður. Var hann þá orðinn giftur maður og búin að mennta sig í húsasmíði. Það var lítið um vinnu í Reykjavík en honum bauðst vinna við að innrétta félagsheimilið Tjarnarborg í Ólafsfirði og flutti því aftur heim. Svanberg hélt áfram að æfa skíði á veturna og spilaði fótbolta á sumrin með Íþróttafélaginu Leiftri. Björn Þór flutti heim til Ólafsfjarðar um svipað leyti og Svanberg og fóru þeir að æfa saman og segja krökkunum til. ,,Við náðum upp býsna góðum hóp í kringum 1965. Ég var meira þá svona með alpagreinarnar og hann með stökkið en ég náttúrulega hafði alltaf gaman af stökkinu og æfði líka með honum stökkið.“ Svanberg segir að Björn Þór hafi alla tíð síðan verið driftar maður í skíðunum, sérstaklega hvað stökkið varðaði. ,,Björn Þór verður Íslandsmeistari í 1965 í stökki og svo mistókst honum nú árið eftir á Ísafirði og þá bara hljóp ég í skarðið og vann stökkið. Þannig að við héldum titlinum í stökki býsna lengi. Siglfirðingar náðu svona einu og einu.“
Árið 1969 flutti Svanberg til Akureyrar en hélt áfram að keppa fyrir Ólafsfjörð. Svanberg hætti keppni 1971, eftir að hafa meitt sig.
Voru slys og meiðsli algeng?
,,Nei, veistu það að ég var alveg óskaplega heppinn. Jú ég auðvitað meiddi mig aðeins, ég datt í bruni hérna einu sinni og var aumur í hnénu en aldrei meira en svo að ég var nú búin að ná mér þegar næsta mót var. Braut mig aldrei. Þannig að ég var óskaplega heppinn með það allt saman.“ Svanberg man ekki eftir neinum alvarlegum slysum.
Fannst þér skipta máli að halda tryggð við þitt bæjarfélag?
,,Ójá, það er nú alltaf einhvern veginn svona, að þar sem maður elst upp og á sína barnæsku, það eru alltaf taugar þangað, það verður held ég alltaf.“
Svanberg fór að einbeita sér að sviginu eftir að hann flutti suður. Ekki var mikið um það að menn væru að æfa stökk fyrir sunnan en Svanberg hafði samt alltaf áhuga á því líka. Árið 1956 var haldið landsmót á Ísafirði og þá keppti hann í stökki í fyrsta sinn. ,,En ég hafði aldrei stokkið nema bara á svigksíðunum mínum svona eins og krakkar gerðu og þá.“ Svanberg fékk lánuð stökkskíði hjá frænda sínum fyrir mótið, og hafði þá aldrei notað slík skíði áður. Þau voru frábrugðin hinum að því leyti að þau voru svo löng. Þegar Svanberg tók svo prufustökkið fyrir mótið kom vindhviða og skíðin slógust hér um bil upp að bringu. Hann kom á rassinum niður og leyst ekkert á þetta. ,,Ég man að Eysteinn bróðir sagði: þú verður bara að henda þér meira fram á móti í brekkunni þegar þú ferð fram af pallinum og svo gerði ég það nú og það tókst svona þokkalega en það endaði með því að ég vann 17-19 ára flokkinn.“ Þetta var í fyrsta sinn sem Svanberg vann á landsmóti. ,,Svo tók ég þátt í skíðastökki ætíð síðan, á Íslandsmótum, og hafði mjög gaman af. Ég vann þessi þrjú ár sem ég var í 17-19 ára, ég vann þau öll, landsmótin þrjú.“ Svanberg segir að Eysteinn bróðir hans hafi alltaf verið sterkari í sviginu og hann hafi aldrei náð að sigra hann. ,,Ég náði nokkrum sinnum að verða í öðru sæti og þriðja sæti.“ Þessi keppni milli bræðranna olli aldrei neinum deilum eða ágreiningi. ,,Vinir mínir voru oft að skamma mig fyrir það að ég bæri bara alltof mikla virðingu fyrir bróður mínum, mínum eldri bróður. Og ef ég hugsa nú svona til baka þá hugsa ég að það sé nú kannski dálítið til í því. Maður hafi hugsað svona: ja það þýðir ekkert fyrir mig, ég get ekkert unnið hann. Auðvitað er þetta afskaplega vitlaus hugsun. En svo var það líka að þjálfari hefur ekki verið til taks, að þjálfa hugann líka. En svo kannski var ég að stinga þá af í svigi í Reykjavík þegar bróðir var ekki með, en langt á eftir þeim þegar bróðir var með.“
Aðspurður um keppnisandann segir Svanberg: ,,Ég hafði bara óskaplega gaman af þessu og já ef ég svona hugsa til baka þá bara fannst mér þetta svo gaman, að ef ég var í verðlaunasæti, 2. eða 3. þá var ég glaður bara. Það var frekar þegar maður fór að eldast meira að maður fór að hafa svona metnað í því að vilja standa á toppnum, enda tel ég það í sjálfu sér ekkert aðalatriðið. Heldur að stunda einhverja íþrótt og hafa gaman af því, sem og þetta var. Félagsskapurinn. Þetta voru afskaplega skemmtilegir strákar sem voru í þessu, krakkar og konur líka náttúrulega, sem maður kynntist. Ég átti aldrei nema góða vini. Það var aldrei neitt sundurlindi.“ Svanberg tók þátt í því að koma á bæjarkeppni milli Ólafsfjarðar og Akureyrar sem haldin var nokkra vetur. ,,Þá var þetta bara grín og gaman upp á hóteli, sagðir brandarar og fíflast hver við annan.“ Þetta mót var haldið upp á grín og ekki var verið að keppa um nein verðlaun. Fyrstu verðlaun sem Svanberg hlaut á landsmóti var pappírsskjal, seinna komu verðlaunapeningar með íslenskum borða. ,,En það voru ekki bikarar fyrr en ég kom á Íslandsmót. Það er ekki eins og núna í dag. Ég held að ég hafi komist eitthvað yfir 100 verðlaunapeninga.“
Þegar Svanberg var við nám í Iðnskólann í Reykjavík var honum boðið að fara til Holmenkollen í Noregi í fyrsta sinn. Eysteinn bróðir hans og Hjálmar Stefánsson frá Siglufirði voru þá í Holmenkollen að æfa og honum var boðið að fara líka. ,,Við fórum svo nokkrum sinnum á Holmennkollen mót. Árið 1957 fórum við, þá voru það ég og Eysteinn bróðir og Árni Sigurðsson og Kristinn Benediktsson frá Ísafirði og þá gerðum við nú bara góða hluti í Holmenkollen. Að vísu vorum við nú ekki í stökkinu, ég skal taka það fram, en í alpagreinunum. Eysteinn bróðir varð fjórði í sviginu, fyrstur af Norðurlandabúum. Það voru Austurríkismenn sem voru á undan honum. Ég hafnaði í 13. sæti og Kristinn og Árni voru þar rétt á eftir. Svo var þannig háttað að það var svona sveitakeppni á milli Norðurlandanna. Það voru fjórir í liði og þrír bestu tímarnir voru teknir. Eftir Holmenkollen mótið þá vorum við Íslendingarnir fyrstir af Norðurlandabúum.“ Helgina eftir var farið til Svíþjóðar þar sem haldið var annað Norðurlandamót. Þar lenti Eysteinn í því að meiða sig illa og gat ekki tekið þátt í mótinu. Eysteini tókst að tala mótstjórnina til þannig að Íslendingarnir gátu tekið þátt í fyrstu grúppu á mótinu, þrátt fyrir að hann þyrfti að sitja hjá. Í fyrstu grúppu voru 15 bestu keppendur mótsins og var Svanberg á meðal þeirra eftir frammistöðu sína á Holmenkollen. ,,Í stórsviginu fæ ég rás númer þrjú, ég man að ég hafði keypt flotta svona skrautlega peysu sem þá voru nú í tísku. Sjónvarpið frá Svíþjóð kom þarna og var að taka myndir, kallaði svo í mig og sagði að ég væri í svo skolli fallegri peysu og spurði hvort ég vildi ekki fara í startið, hann ætlaði að taka mynd af mér í startinu og ég spurði hvort það væri í sjónvarpi og hann sagði jájá. En ég er ekkert á skíðunum sagði ég. Það skiptir ekki máli ég tek bara niður að mitti sagði hann, þannig að það sést bara peysan, þú ert í svo flottri peysu. Ræsirinn hélt í öxlina á mér, eins og þá var nú gert, og talið niður og svo rauk ég af stað. Og svo segir hann þegar þetta er búið: Ja, þetta er það sneggsta start sem ég hef séð á skíðum. Svo var þetta sýnt í sjónvarpinu, maður beið eftir að sjá þetta.“ Peysan var keypt í Noregi en sagt var að hún væri úr íslenskri ull. Ekki var farið að keppa í einkennisbúningum þarna. Íslenska landsliðið var í búningum á Olympíuleikum en á minni mótum var bara hver í sínu. Það er ekki fyrr en 1960-1970 sem þessir þröngu búningar fara að koma í skíðamennskuna. Þetta voru heilgallar og eftir að þeir komu til sögunnar fóru menn að klæða sig eftir liðum. ,,Það þótti voðalega flott þegar komu þessi teygjuefni í buxurnar, þá voru þær svona strektari og voru hafðar örlítið þrengri heldur en áður. T.d. í bruni, og allar flíkur, svona stakkar svona og anorakkar og þetta. Ég man eftir því ´57 þegar var keppt hér á Akureyri í bruni innan úr skálinni ofan úr jökli, þá voru menn að setja stundum bönd ofan við hnén til þess að skálmarnar væru ekki að slást því þetta var eins og mótorvél og ermarnar, það rykkti svona í. Og þetta náttúrulega dregur úr ferð og menn komast auðvitað að því. Svo náttúrulega er allt annað í dag með þennan hlífðarfatnað heldur en var þá, við höfðum ekki þessar úlpur og utanyfirbuxur og manni var svona hálfkalt og maður var að reyna að hreyfa sig. Það var verið að keppa til þess að halda dagskránni, þó það væri skafrenningur og 10 stiga frost, þá var manni hálf kalt og maður var að reyna að hoppa þetta svona og halda á sér hita og rjúka svo af stað og þá voru komnir grafningar kannski oní svoleiðis að þetta reyndi svo mikið á hnén, þetta er allt annað í dag. Þú tróðst bara sjálfur upp þína brekku í sviginu, það var ekkert um annað að ræða. Í dag aftur getur fólkið farið upp með lyftu og látið sig skransa svona niður, það má ekki keyra hana niður en þú mátt vera þversun með skíðin og skoða brautina og leggja hana á minnið. En við höfðum ekkert nema bara það að troða upp og troða snjóinn og læra hana bara upp úr. Það er t.d. eitt gott dæmi sem ég get sagt þér. Ég gerðist um tíma svona eftirlitsdómari sem kallaður er á mótum, frá Skíðasambandinu. Ég man nú ekki hvaða ár það var. Við vorum hérna upp í Hlíðarfjalli og T-lyftan hún bilaði og við áttum eftir að fara seinni ferðina í 15 og 16 ára flokknum og það var búið að leggja brautina og ég segi svona: það getur orðið svolítil töf á þessu, við skulum bara láta krakkana labba upp.“ Mótstjórnin samþykkti það svo Svanberg tilkynnir krökkunum að það eigi að labba upp, lyftan sé biluð og ekki sé hægt að bíða eftir að gert verði við hana. ,,Það var horft á mig eins og ég væri hálfviti, svei mér þá.“
Svanberg segir að það hafi verið erfitt að troða snjóinn en það hafi skilað sér í mjög góðu úthaldi. Stundum þurfti að troða brekkurnar upp eftir hverja ferð niður, aftur og aftur. ,,Á þessu auðvitað fékk maður heilmikið úthald en aftur á móti tæknilega hliðin, þá verður hún ekki eins góð, af því að maður fer færri ferðir.“ Á landsmóti á Ísafirði 1963 var ekki kominn troðari. Svanberg tók þátt í að troða stórsvigsbrautina fyrir mótið ásamt fleirum. Þeir stilltu sér upp fjórir í röð og gengu upp brattann. Efst í brautinni var snjórinn svo laus í sér að hann náði þeim upp undir hné. Það var því töluvert erfitt að troða þarna efst en þeir skiptust á að vera efstir. Það tók rúma 2 klukkutíma að troða upp. Þá var sest niður og menn hvíldust aðeins, teygðu á og fengu sér að drekka. En svo var farið að keppa strax í kjölfarið. Það tók ekki nema rúma eina mínútu að renna niður brekkuna sem hafði tekið rúma 2 tíma að troða.
Hversu mikilvæg voru skíði til að komast á milli staða í Ólafsfirði?
Þau voru mikið notuð til að ganga á milli bæja og einnig til að fara úr sveitinni og í kaupstaðinn. Einnig var farið yfir fjallgarða til Siglufjarðar og Dalvíkur. ,,Ég man eftir því að við fórum einu sinni með Drang inn á Dalvík og kepptum þar við Dalvíkinga. Svo löbbuðum við strákarnir heim á skíðunum, fórum inn Kálfsárdalinn inn í Hólsdal, yfir Drangá og niður í Burstabrekkudalinn í Ólafsfirði. Þetta löbbuðum við og það var svolítið bratt að fara þarna upp og maður varð að skásneiða þetta svona. Meira að segja vorum við afskaplega heppnir því það fór snjóspía af stað þegar við gengum svona á ská. Þá hefur verið sjálfsagt hart undir og við skárum snjóinn svona og svo var bara sá síðasti rétt kominn yfir þegar það sprakk og rann niður stórt stykki. Þannig að við vorum heppnir, við hefðum getað farið þarna með niður.“
Það var oft ekkert nema svekkelsi og erfiði að gera stökkbrekkuna í Kleifarhorninu. En þar var hægt að stökkva 50 metra. Það var ekkert verið að keppa í göngu í Ólafsfirði á þessum árum, það var ekki fyrr en í kringum og upp úr 1965. Reyndar voru það Ólafsfirðingar sem unnu gönguna á skíðamóti á Akureyri 1921, bræðurnir Sigursveinn og Jón Árnasynir frá Kálfsá. Stökkið var þá kallað brekkuskrið með loftstökki. Brunið var á þeim tíma kallað brekkuskrið og svigið var kallað slalom. Í blaðagreinum var sagt frá því að Sigursveinn hefði verið á lánsskíðum sem vinnukonan á Kálfsá átti og voru klampar negldir á. Svanberg segir að líklega hafi skíðin einhvern tíma brotnað og því hafi verið negld ofan á þau styrking.
Hafði þessi mikla skíðaástundum áhrif á daglegt líf yfir veturinn?
Svanberg orðar það svo að hann hafi örugglega verið „hundleiðinlegur“ starfskraftur. Hann þurfti oft að biðja um frí sitt hvoru megin við helgi til að geta farið á mót. Alltaf mætti hann þó skilningi og velvilja hjá vinnuveitendum sínum.
Á Ólafsfirði var fyrst og fremst litið á skíðaiðkun sem leik. Þetta var hluti af daglegum leik krakkanna yfir veturinn og gert ánægjunnar vegna. Þegar síðan farið var að halda mót á Ólafsfirði færðist kapp í menn og þeir vildu sýna sig og spreyta. Stelpur voru nánast jafn margar á skíðum eins og strákar. ,,Meira að segja man ég eftir að það voru einar 2-3 stelpur sem að stukku á skíðum heima í Ólafsfirði. Ég man eftir því að það var farið inn á Dalvík, og Sigurður Guðmundsson var þá íþróttakennari í Ólafsfirði, og það var farið inn á Dalvík og skólarnir voru að keppa og það voru stelpur alveg á fullu í göngunni.“
Svanberg man óljóst eftir sínum fyrstu skíðum. Ágúst Jónsson, föðurbróðir hans smíðaði skíði sem kölluð voru Leiftursskíði. Slík skíði voru til á heimili Svanbergs. Svo var farið að setja stálkanta á þessi skíði sem ekki voru smíðuð með slíkum köntum. ,,Og þá þótti maður heldur maður með mönnum, að vera komin á skíði með stálköntum, því annars, í hjarni eða einhverju þá slitnuðu hliðarnar, eða kanturinn, þannig að þau urðu nánast kúpt að neðan. Þá náttúrulega hlífði stálkannturinn því og beit betur í svona harðari snjóinn og þetta var mikil framför. Það eru svona fyrstu skíðin sem ég man.“
Þegar Svanberg var 9 eða 10 ára fékk Eysteinn bróðir hans norsk skíði sem voru kölluð splittkein. ,,Það var ný tækni, þá voru skíðin límd saman, voru í listum og límd saman, þar af leiðandi héldu betur spennunni, komu saman bara á beygju og hæl. Þau voru orðin flott á litin og með merkjum og svona, þetta var alveg æðislegt. En ég fékk svo gömlu skíðin Eysteins og það var pínu svona komin sprunga út frá beygjunni.“ Foreldrum þeirra þóttu þessi skíði samt alveg nógu góð fyrir Svanberg og ætluðu að gefa honum skíði seinna. ,,Það háttaði þannig til að það var lítill pallur framan við dyrnar heima og svo stétt, ég man að ég setti beygjuna svona upp á og hossaði mér á skíðinu, ég ætlaði að vita hvort það gæti ekki sprungið betur svo ég fengi ný skíði.“ En það varð ekkert úr því og skíðin hans Eysteins entust honum áfram. Tveimur árum seinna þurfti aftur að endurnýja skíðin fyrir Eystein því hann stækkaði svo hratt og þá fékk Svanberg gömlu skíðin hans. Það er ekki fyrr en Svanberg flytur suður sem hann kaupir sér sín eigin skíði. ,,Þá er þetta að breytast svo mikið, gerð skíðanna sko.“
Hvernig hefur þróunin í skíðunum og útbúnaðinum verið?
,,Fyrst voru þetta bara Hickory skíði, heill planki. Svo var þetta hitað í vatni og beygðar á þetta beygjurnar og lögunin hefluð til og gerð náttúrulega skora í miðjunni. Svo fara að koma þessi samanlímdu skíði og þau haldast svona betur og síðan fara þeir að koma með álþynnur og fíbera og allt svona eins og komið er í dag í þetta. Og misjafnlega stíf, þú getur valið þér mismunandi mikla spennu eða stífleika í þeim, eftir því hvað þú ert þung og hvort þú ætlar að nota þetta meira á harðfenni eða mjúkt. T.d. að leika sér eins og túristar gera, í mjúku færi, þá máttu ekki hafa mjög stíf skíði því þá rífa þau svo miklu meira í, eins og keppnisskíði þurfa aftur að gera.“ Í sviginu var notast við greinar úr Vaglaskógi sem svigstangir. Það var ekki heppilegt þar sem greinarnar gátu rifið í fötin og rispað fætur. ,,Síðan var farið að nota bambus sem var allt upp í 4-5 cm í þvermál og það var nú ekkert gaman að lenda á þessu og maður var stundum marinn á hnúunum og handleggjunum og upp axlirnar.“ Í dag er gormur á stönginni sem gefur eftir og menn nota plasthlífar á fótleggina.
Kannastu við hugtökin skíðakóngur og skíðadrottning?
Jájá, þetta var nefnt. Guðmundur Guðmundsson skíðakóngur. Jájá, maður sat við útvarpið í gamla daga og hlustaði frá Íslandsmótunum þegar var verið að keppa og lýsa göngunni. Guðmundur Guðmundsson skíðakóngur.“ Orðið skíðadrottning þekktist líka en var minna notað. Konur voru lítið að keppa á þessum árum, a.m.k. frá Ólafsfirði.
Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður að búa yfir?
,,Það er nú náttúrulega eflaust númer eitt það er áhuginn og viljinn til þess að ná langt. Síðan auðvitað þurfa að vera hæfileikar. Það er engin spurning og ná valdi á tækninni, hvort sem það er í svigi, stórsvigi eða hverju.“ Nú er keppnisfólk farið að einbeita sér að því að ná árangri í einhverri einni grein en áður var algengt að menn væru að keppa í mörgum greinum og stundum bæði í alpagreinum og norrænum greinum. Svanberg leggur áherslu á að greinarnar séu ólíkar og að þær krefjist mismunandi eiginleika. ,,Í bruni þarftu að vera svolítið klikkaður sko. Mér fannst það a.m.k. Þú þarft að vera afskaplega kaldur svona og óragur, þú verður bara að láta vaða, hvort þú stendur eða stendur ekki.“
Svanberg upplifði mikinn mun á skíðamennskunni á Ólafsfirði og fyrir sunnan. Á Ólafsfirði þurfti ekkert að fara neitt til að komast á skíði en í Reykjavík þurfti að fara í rútu og keyra í hálftíma til 45 mínútur til að komast upp í Hveradali til að fara á skíði. Eftir að hann flutti suður var yfirleitt farið allar helgar í Hveradali, Jósepsdal eða Kolviðarhól. Stundum var farið á föstudagskvöldi og dvalið í skíðaskálanum fram á sunnudag. Eftir að ljós kom í skíðabrekkuna í Hveradölum var stundum farið í miðri viku eftir skóla. Svo þegar strákarnir fengu bílpróf var orðið auðveldara að skreppa þetta á einkabílum í miðri viku og taka nokkrar ferðir.
Mikill munur er á skíðatímabilinu og snjóalögum þá og nú. ,,Heima þegar maður var strákur, ég man eftir því að það var kominn, jafnvel í lok september, þá var bara kominn snjór og hann bara hélst fram í júní.“ Svanberg segir að varla hafi liðið sá dagur sem hann hafi ekki farið á skíði. Við bæjardyrnar heima hjá honum myndaðist alltaf náttúrulegur stökkpallur úr snjó og þar fyrir ofan var brekka og þarna var hægt að stökkva 10-15 metra.
Áttiru þér einhverjar fyrirmyndir?
Svanberg segir að hans helstu fyrirmyndir hafi verið eldri bræður sínir. Einnig var mikið hlustað á útvarpið og grannt fylgst með lýsingum af mótum. Gjarnan var göngustíl keppenda lýst og þá var reynt að herma eftir því. Ítalski skíðamaðurinn Pravda var einn þeirra sem skaraði fram úr á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 1954. Það kom fram í fréttum að Pravda væri bóndi ofan úr Ölpunum. ,,Og ég varð voðalega hrifinn af þessum manni, að hann skyldi ná svona langt og vera bóndi.“ Annað átrúnaðargoð sem Svanberg eignaðist seinna var hinn norski Stein Eriksen sem varð margfaldur Ólympíumeistari og heimsmeistari í svigi. ,,Ég man eftir því að hann sneri svolítið upp á sig, setti mjöðmina svolítið svona inn í beygjuna og hendurnar svona upp og þetta fannst manni alveg æðsilega flott, að herma eftir þessu.“
Hvernig var vinskap og tenglsum háttað milli keppenda mismunandi félaga?
Svanberg segir að andinn hafi alltaf verið góður. ,,Minn hugsunargangur hefur aldrei verið sá að öfunda einn eða neinn þó að hann standi sig betur en ég. Mér fannst bara svo gaman að vera á skíðum og fara þetta og hitta menn og skemmta sér saman bara, svo var bara hitt bónus, ef maður stóð sig vel.“
Getur þú sagt frá einhverjum eftirminnilegum skíðaferðalögum?
,,Við fórum eitt sinn á bæjarkeppni. Sveinn heitinn á Vatnsenda, hann var svona góður stökkvari og ágætur í svigi, hann átti Land Rover, hann var tiltölulega nýlega komin með Land Rover þá og það var lítill snjór, þetta var í febrúar, og það var lítill snjór svona frekar og harðfenni.“ Svo var farið að velta því fyrir sér hvernig ætti að fara á mótið sem haldið var á Akureyri. Þeim leist illa á að fara sjóleiðina því þeir áttu allir vanda til að verða sjóveikir, nema kannski Björn Þór. Það var ákveðið að fara á Land Rover. ,,Það er keyrt yfir Lágheiðina á hjarni og við komust það nú svona með tiltölulega litlu brasi og niður Fljótin og upp hingað. En svo vorum við komnir hérna niður í Öxnadalinn, þá hafði dottið svona skíðaskór niður fyrir fæturnar á Sveini sem var fyrir honum og hann segir: takið þarna skóinn. En það náði honum enginn svo hann beygði sig niður til að taka skóinn og við það missti hann stjórn á bílnum og við flugum út af og í gegnum girðingu. En það slapp nú allt vel, nema hann braut fjöðrina á bílnum að framan, þannig að hann lá nú svona niðri. En fyrst við höfðum brotið girðingastaurinn, þá losuðum við hann af vírnum og settum hann svona undir, þannig að hann lá nú ekki alveg niðri.“ Síðan keyrðu þeir bílinn til Akureyrar með girðingastaur til viðgerðar. Þetta var áður en vegurinn var lagður fyrir Múlann, en vegna lélegra samgangna var farið á færri mót en ella.
Síðan var alltaf farið á Skarðsmótin á Siglufirði á vorin. Það voru þeir Björn Þór og fleiri. ,,Við komumst yfir Lágheiðina og yfir að Hraunum í Fljótum, síðan löbbuðum við með skíðin og dótið okkar allt, og konurnar voru með, upp yfir Siglufjarðarskarð og niður til þess að komast á Skarðsmót. Það var ekki málið, að leggja á sig svona til þess að komast. Það var nú svo gaman að koma á Siglufjörð og hitta kunningjana þar. Svo enduðum við alltaf Skarðsmótið með því að keppa í knattspyrnu. Þetta var endirinn á ferlinum eða sko á árinu, þetta var rosalega gaman.“
Er eitthvað eitt skíðamót sem stendur upp úr hjá þér í minningunni?
,,Nei, kannski er það nú ekki, nema jú auðvitað var maður svolítið glaður yfir því að, á Ísafirði, þegar ég vann stökkið í fullorðinsflokki og ég varð annar í svigi. Það var mjög skemmtilegt og gott mót, mjög svo. Svo er minnistætt líka eitt mót, ekki fyrir sérstakan árangur eða það, það var ´57, þá var svona svolítill svona skafrenningur og kom svona svolítið misvinda svona og það var búið að keppa í stökki hérna upp í Ásgarði, fyrri ferðina. Ég var þá í 17-19 ára. Við vorum þá held ég ekki nema fjórir, Matthías Gestsson, Siglufirði og Bogi Nilsson, Siglufirði. Svo þegar seinni ferðin átti að fara að hefjast þá gerð svona svolítinn skafrenning og vind þannig að það var nú beðið og beðið í nærri hálftíma eða svo. Svo lægði nú eitthvað aðeins og þá var ákveðið að fara og af því að við vorum svona fáir þá vorum við beðnir um að fara aukaferð, svona til þess að gera slóðina betur og svona og við gerðum það og allt í lagi. Svo keppa þeir og þá fer að byrja aðeins að vinda og ég var síðastur í röðinni og svo er komið að mér og þá er settur upp rauður fáni. Ég mætti ekki koma því það vildi myndast oft svona hringsveipir. Ég bíð og mér var orðið hálfkalt, svo kemur veifa, að ég megi fara og ég fer af stað niður og svo þegar ég er að koma á pallinn þá sé ég að snjórinn svona hringast á pallinum og ekkert við því að gera nema bara láta sig vaða. Svo þegar ég er komin svona vel framm á og í bunguna þá fer ég að snúast, þá er vindurinn einhvernveginn að snúa mér svo ég fór eitthvað að pata til þess að reyna að lenda ekki þversum, því þá náttúrulega hefði ég steinlegið. Finnst að ég ætli alveg að fara að lenda, þá kemur vindhviða svona undir skíðin hjá mér svo ég eiginlega tókst á loft og fór langt niður í brekku, þetta var lengsta stökkið sem stokkið var í keppninni. Mér var strítt alveg ógurlega á þessu.“ Svanberg vann út á þetta langa stökk, þó að hann hafi fengið lítið sem ekkert fyrir stílinn. Þetta var svo kallaður fokbikarinn í gríni vegna þess að Svanberg hafði fokið þarna niður.
Svo hefuru verið að æfa og keppa erlendis líka?
Svanberg fór nokkrum sinnum til Noregs á Holmenkollen og einnig til Svíþjóðar. Árið 1956 var hann sendur til Svíþjóðar í unglingalandslið. Þar var hann við æfingar í þrjár vikur. ,,Eftir það fórum við á Holmenkollen og þá var byrjað á því að keppa í bruni. 25 fyrstu fengu að halda áfram og keppa í sviginu. Þá voru þarna Hjálmar og Eysteinn bróðir líka og þeir náður náttúrulega í gegn og ég varð 25. Svo ég slapp líka þarna í gegn. En það var í fyrsta skipti sem ég keppti svona í alvöru bruni. Maður var alveg að kúka í buxurnar af hræðslu þegar maður fór af stað. Maður var á svigskíðum meira að segja. Brunskíðin voru stærri og breiðari aðeins.“ Svanberg eignaðist aldrei brunskíði en hann átti bæði stórsvigskíði og svigskíði. ,,Hugsa sér að þá keppti maður á svigskíðum sem voru 2,10 að lengd. Í dag eru þeir að keppa á 1,60 eða 1,70 að lengd.“
Eftir að Svanberg flutti suður fór hann að eignast betri og fleiri skíði. ,,Þá náttúrulega voru verslanir sem voru komnar með skíði. Heima náttúrulega varð maður að panta þetta bara.“
Svanberg segir að þessi mikla skíðaástundun hans hafi bitnað á fjölskyldulífinu því hann var alltaf „út og suður“ að keppa. Reyndar dreif hann krakkana sína á skíði og Kristinn, næstyngsti sonur hans var í landsliðinu og fór erlendis að æfa.
Eitthvað fleira að lokum sem stendur upp úr í minningunni?
Þeir Þóroddstaðabræður voru mikið búnir að spá og spekúlera í skál sem var í fjallinu í austanverðum firðinum, beint á móti Þóroddstöðum. Þeir voru búnir að skoða þetta vel með kíki og sýndist vera þarna alveg rosalega stökkbrekka. Veturinn 1949 var svo mikill snjór í Ólafsfirði að húsið þeirra heima á Þóroddstöðum snjóaði næstum á kaf. Á sumardaginn fyrsta var snjórinn svo mikill að ekkert stóð upp úr nema risið á húsinu og þar fóru þeir bræður út um risgluggann og beint út á skaflinn. ,,Þá ákváðum við, í góðu veðri og fínu, og fara nú upp í þessa skál og athuga þetta, hvort ekki væri hægt að gera þarna stóra stökkbrekku. Við löbbuðum þarna yfir og upp hinu megin og það var alveg rétt það var sjálfsagt hægt að stökkva þarna 150 metra eða meira. Svo renndum við okkur niður, það var svolítil snjóblinda, en það háttaði þannig til að þegar þú komst niður brekkuna þá var nú frekar svona stutt flöt fyrir neðan og þá fór að halla upp hinu megin og ég einhvern veginn sá þetta ekki og er eitthvað svona samankeyrður og þegar ég kem í þrýstinginn hinu meginn þá missi ég mig fram og hendurnar niður og hausinn niður á milli skíðanna og svo stakkst ég kollhnís yfir mig og ég var svolítið aumur svona í hálsinum á eftir. En við renndum okkur svo heim aftur. Þá háttaði þannig að í hlíðinni var þá símalínan á staurum fram svokallaðann Kálfsárdal og yfir þar og niður að Dalvík. Hugsaðu þér, í apríl, þá var símalínan alveg á kafi, það sást ekki í staurana.“ Það sem hafði áhrif á bræðurnar voru fréttir af stökkbrekku í Júgóslavíu sem norsku skíðastökkvararnir Josep Brattlei, Sigmund Ruud og Brigir Rudd voru að stökkva í. Jósep setti heimsmet og stökk 107 metra. ,,Það var talið að það væri lífshættulegt að stökkva þetta, á þeim tíma. Og maður fór að hugsa að þarna væri komin stór brekka og við gætum kannski stokkið 100 metra.“
Tókstu þátt í einhverjum félagsstörfum tengdum skíðaíþróttinni?
Svanberg var í stjórn Leifturs um tíma, eftir að hann kom aftur heim til Ólafsfjarðar. Einnig kenndi hann krökkum á skíði, bæði á Ólafsfirði og svo á Akureyri eftir að hann flutti þangað. Þá starfaði hann auk þess við Andrésar andar leikana og var þá dómari í stökki.