Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 1.     júlí 2008 Ađ heimili Steinunnar Rögnvaldsdóttur, Hverfisgötu 34, Siglufirđi Steinunn Rögnvaldsdóttir er fćdd 12. febrúar 1930 á

Steinunn Rögnvaldsdóttir

1.     júlí 2008

Að heimili Steinunnar Rögnvaldsdóttur, Hverfisgötu 34, Siglufirði

Steinunn Rögnvaldsdóttir er fædd 12. febrúar 1930 á Höfðaströnd í Skagafirði. Hún er þriðja yngst af tólf systkinum. Steinunn flutti til Siglufjarðar 1939 og hefur búið þar síðan. Eiginmaður Steinunnar var Helgi Sveinsson, fæddur 3. júlí 1918 á Steinaflötum í Siglufirði, dáinn 1979. Helgi var hættur að stunda skíði þegar leiðir þeirra Steinunnar lágu saman. Hann hafði slasast mikið þegar hann var við kennslu á Reyðarfirði, brotnað illa og stundaði ekki skíði eftir það. Hans skíðaferill sem keppnismaður var búinn snemma og hann hætti að keppa upp úr 1940. Eftir það starfaði hann mikið fyrir Skíðafélagið sem formaður, dómari, fararstjóri, fulltrúi Skíðasambandsins og sinnti mörgum öðrum hlutverkum sem viðkomu skíðaíþróttinni. Hann sinnti hinum ýmsu félagsstörfum innan Skíðafélagsins ásamt Braga Magnússyni á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum. Bragi stundaði aldrei skíði en var athafnamaður þegar kom að félagsstörfum, líkt og Helgi. Aðalstarf Helga var íþróttakennsla, sem hann vann við alla sína ævi, en hann hætti að þjálfa skíði eftir að hann slasaðist. Hann þjálfaði hins vegar fimleika og stofnaði fimleikaflokk sem var einstakur á landsvísu. Fyrsta sýningarferð flokksin var árið 1950, en þá var farið til Ísafjarðar, Reykjavíkur og á Akranes. Flokkurinn sýndi víða upp frá því og fór meðal annars á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 1968. Steinunn segir að flestir ungir menn á Siglufirði hafi stundað skíði á þessum árum og sumir hafi auk þess æft fimleika. Steinunn og Helgi eignuðust tvær dætur, önnur þeirra, Guðný, hefur alltaf haft mikinn áhuga á skíðaíþróttinni. Guðný var formaður Skíðafélagsins um tíma en lagði niður formennsku þegar hún fór í nám. Sjálf fór Steinunn mikið á gönguskíði sem barn og unglingur, en keppti aldrei. ,,Það var mjög gaman, friðsælt hérna í firðinum.“

 Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

,,Skíðakóngur var sá sem vann tvíkeppnina, göngu og stökk, hann var kallaður skíðakóngur. Skíðadrottning, ég hef nú ekki heyrt talað um það. Ég minnist þess ekki.“

Segðu frá gullpeningum og bikurum.

,,Það er náttúrulega heilmikil saga um Thulebikarinn og fleiri bikara hérna, en ég kann ekki að segja frá því frá a-ö. Það er skráð víða, ábyggilega frásagnir í fundargerðarbókunum hlýtur að vera og líka í dagblöðum, þetta var mikil keppni og mikill sigur þegar hann vannst.“

Með hvaða skíðafélagi æfði Helgi?

Helgi var í nýja félaginu, Skíðafélaginu Siglfirðingi, en var fylgjandi því að félögin tvö á Siglufirði yrðu sameinuð.

Var einhver samkeppni á milli félaganna tveggja á Siglufirði?

Steinunn man eftir þeirri keppni sem ríkti á milli félaganna tveggja: ,,Það var mikil keppni, því að ég minnist þess að þegar það voru landsmót þá stóðum við hérna krakkarnir niður í bæ, í hópum, og kölluðum “gamla félagið vann“ eða “nýja félagið vann“ eftir því hver vann hverju sinni. Það var ábyggilega mikil keppni á milli þeirra.“ Steinunn kynntist engum leiðindum eða ríg á milli félaganna tveggja.

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Steinunn og Helgi hýstu finnskan skíðakennara, Ale Line, part úr vetri 1958. Ale Line kenndi stökk og göngu. Áður hafði norskur skíðakennari, Jeppen Erikson verið á Siglufirði. Steinunn segir að heimilið hafi oft verið undirlagt fyrir keppnir og mót. Það voru verðlaunapeningar og gripir á öllum borðum. Steinunn sá um að sauma borðana í peningana ásamt konu Jónasar Ásgeirssonar og fleiri konum.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Steinunn man eftir átakanlegu slysi upp í Skarði á einu Siglufjarðarmótinu. Kristinn Rögnvaldsson, einn af starfsmönnunum á mótinu, var með fullt fangið af svigstöngum og datt og slasaðist mikið. Hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur, Helgi fór með honum og Sverrir Sveinsson. Kristni var vart hugað líf og beið þess aldrei bætur að hafa slasast svona illa, hann er nú látinn. Þetta er versta slys sem Steinunn man eftir en þess utan man hún eftir nokkrum fótbrotum.    

Segðu frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað

,,Ég man eftir, náttúrulega, gormabindingunum, og ennþá lengra aftur, ekki náttúrulega sem keppnis, bara þegar það var verið að leika sér bara með táböndin, og svo smá þróaðist þetta allt saman, svo komu gormabindingar, svo komu ólabindingar.“

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Áður en félögin sameinuðust þá var stemmning í bænum með að hrópa upp og halda því á lofti hvort félagið hefði unnið. En það var alltaf stemmning, það var alltaf margt fólk að horfa á og ég tala nú ekki um stökkkeppni, en svo hefur þetta bara minnkað svo mikið, áhugi fólks. En það var afskaplega mikil stemmning fyrir skíðamótum hérna.“

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

,,Þær voru oft erfiðar. Ég man eftir einhvern tíma á Kolviðarhóli bjuggu þeir og það kom svo mikil stórhríð að það brotnuðu rúðurnar í skálanum og þeir þurftu að búa við illan leik þarna, misjafnlega klæddir. Ég man eftir að Helgi sagði mér að hann átti öndvegis föðurland og hann bauð það upp hæstbjóðanda.“

Steinunn geymir marga bikara, meðal annars hinn fræga Thule bikar. ,,Hann hefur alltaf verið hér, nema við lánuðum hann og fleiri bikara á vetraríþróttahátíð á Akureyri og þeir voru náttúrulega alveg veikir í hann þar. En ég hef nefnilega orðið vör við það að margt af þessu dóti sem Skíðafélagið átti hefur farið á vergang og týnst svo ég beit það einhvern tíma í mig að láta þetta ekki af hendi fyrr en ég væri alveg viss um að það kæmist á góðan og varanlegan stað. Mér finnst þetta bara svo merkilegir hlutir og eiga svo merkilega sögu að mér finnst alveg hræðilegt ef þetta týndist. Ég held að það væri alveg stórkostlegt framtak ef það væri farið út í það að hafa sýningu. Ég komst að því þegar ég var með þemadagana í skólanum þá fengum við lánuð föt af skíðamönnum, gömlu fötin, við fengum lánuð skíði sem ljósmóðir átti sem hét Jakobína, sem hún fór á yfir Hestskarð í Héðinsfjörð og fleira. Svo fengum við lánuð verðlaun hjá ýmsum mönnum. Birgir Guðlaugsson, hann er nú nýdáinn blessaður, og við fengum verðlaun frá Magnúsi Eiríkssyni og við höfðum svona bása, þar sem var sýnt sko, við höfðum verðlaunin og mynd af þeim sem áttu verðlaunin og svona. Þetta eru mörg, mörg ár síðan. Ætli það hafi ekki verið 1985 eða eitthvað svoleiðis.“ Þetta var sýning sem Steinunn setti upp í skólanum ásamt nemendum sínum. Sýningin var um sögu Siglufjarðar og skíðasagan fékk sinn sess þar, enda órjúfanlegur þáttur í sögu staðarins. Nemendurnir fóru í mikla heimildaöflun og söfnuðu saman blaðaúrklippum sem Steinunn er því miður búin að henda.  Fötin sem Steinunn fékk lánuð fyrir sýninguna voru í eigu Guðlaugs Gottskálkssonar, föður Regínu Guðlaugsdóttur. Þetta var fyrsti félagsbúningurinn; dökkblá peysa með v-hálsmáli og hvítri rönd og kvartbuxur.


header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya