Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 1.     júlí 2008 Ađ heimili Steingríms Garđarssonar, Fossvegi 35, Siglufirđi. Geir Sigurjónsson er fćddur 11. júlí 1930. Steingrímur

Steingrímur Garđarsson og Geir Sigurjónsson


1.     júlí 2008

Að heimili Steingríms Garðarssonar, Fossvegi 35, Siglufirði.

Geir Sigurjónsson er fæddur 11. júlí 1930. Steingrímur Garðarsson er fæddur 30. desember 1944. Steingrímur byrjaði snemma að fara á skíði og var aðeins fimm ára gamall þegar hann gekk í Skíðafélagið. Hann hefur verið mikið á skíðum síðan.

Steingrímur og Geir hafa báðir starfað mikið í kringum mót. Þeir hafa meðal annars séð um að troða og þjappa brautirnar, byggja loftköst úr snjó og ýmislegt fleira. Brautirnar voru fóttroðnar og loftköstin voru handmokuð. Kröfurnar voru mestar fyrir landsmót. Steingrímur segir: ,,Þá var stundum það mikill snjór að það dugaði ekki að troða, þá grófust brautirnar bara alveg hreint niður úr öllu þannig að þá þurfti að gera svo vel að fóttroða bæði upp og niður og þá héldust menn bara í hendur svona þannig að þeir tóku alveg kannski tvo, tvo og hálfan meter í breidd og svoleiðis tröðkuðu menn upp og svo niður aftur. Þegar því var lokið þá var farið og troðið á skíðum.“ Það var fjöldi manna sem kom að þessu. Geir segir að það hafi farið óhemju tími í að moka, troða og þjappa áður en menn gátu farið að stökkva og Steingrímur tekur undir það. Oft fór meiri tími í undirbúninginn heldur en skíðamennskuna sjálfa. Keppnismenn voru sjálfir að undirbúa brautirnar fyrir keppnir og mót. Það var mikið farið inn í Hvanneyrarskálarbotn og þar var stokkið. En það var ekki hægt að stökkva nema það væri sæmilegt veður. Steingrímur segir að oft hafi verið farið uppeftir eftir vinnu á föstudegi til að hlaða upp loftkasti, laga bunguna og traðka snjóinn. Það var bara farið með skóflur og skíði og nesti. Á laugardeginum átti svo að fara að nota aðstöðuna sem búið var að byggja deginum áður en þá var stundum komið vitlaust veður og ekkert hægt að fara og öll vinnan ónýt. ,,Svona gekk þetta stundum, kannski helgi eftir helgi en það var aldrei gefist upp, það var bara tekin næsta helgi“ segir Steingrímur.

Munið þið eftir einhverjum sérstökum viðburðum/atburðum? Hvað um skíðamótið 1963?

Árið 1963 var gerð alveg óskapleg stökkbraut upp í Skarði, þar sem Bungulyftan er núna. Það var talið að hægt væri að stökkva þar 70-80 metra. Þá var Skarphéðinn Guðmundsson nýkominn af ólympíuleikum út í Skoale í Bandaríkjunum. Það var búið að gera allt klárt og það átti að fara að æfa fram að móti. Steingrímur segist hafa stokkið þarna tvær ferðir ásamt nokkrum fleirum. Á þriðja degi skall á arfavitlaust veður og það fór allt á bólakaf og öll undirbúningsvinnan varð ónýt. Mótið hafði verið flutt upp í Skarð vegna þess að það var svo lítill snjór í bænum, það var ekki hægt að stökkva í Litla bola og Stóra bola vegna snjóleysis. Það endaði þó með því að það var stokkið í Litla bola en loftkastið fært miklu ofar en það hafði verið. Í Litla bola er loftkast sem hlaðið var úr torfi en á þessu móti var byggt loftkast úr snjó þar fyrir ofan. ,,Mig minnir að Skarphéðinn hafi farið lengst 41 eða 41 og hálfan meter“ segir Steingrímur. Steingrímur hafði skilið skíðin sín eftir upp í Skarði og var lengi að finna þau aftur og grafa þau upp úr snjónum. Geir rifjar upp landsmót upp í Skál, það var búið að gera allt klárt og Bragi Magg var kominn uppeftir, hann átti að vera dómari á mótinu. Það voru einhverjir ókomnir uppeftir þegar það kemur hellirigning. Bragi mátti ekki aflýsa mótinu fyrr en klukkan tvö, því það átti að byrja þá. Samkvæmt reglum má ekki aflýsa mótum fyrr en akkúrat á tíma. Það þurfti oft að færa til brautir og loftstökk eftir því hvernig viðraði. Stundum var svo vitlaust veður að það var ekki viðlit að halda mót á fyrirfram ákveðnum stað og þá var reynt að færa það eitthvað annað.

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

Það var geysilega mikil stemmning. Steingrímur segir að það hafi komið múgur og margmenni til að horfa á, alveg frá því að hann var smá gutti og þar til hann fór að keppa sjálfur, svo smám saman dalaði áhuginn fyrir þessu. En það var mikill áhugi hjá bæjarbúum framan af. Í kringum 1960-1970 var mjög mikil stemmning í bænum. Um það leiti fóru Birgir Guðlaugsson og Þórhallur Sveinsson erlendis að keppa á ólympíuleikum. Skarphéðinn Guðmundsson og Jóhann Vilbergsson fóru einnig erlendis að keppa um svipað leiti. Steingrímur segir að það hafi skapast mikil spenna að fá þá heim aftur. Þegar þeir komu heim sögðu þeir frá því sem á daga þeirra hafði drifið þarna úti. Steingrímur segir að þessir menn hafi verið í algjörum sérflokki á þessum tíma og skarað fram úr í skíðaíþróttinni.   

Áttuð þið einhverjar fyrirmyndir, íslenskar eða erlendar?

Steingrímur var búinn að vera á öllum tegundum af skíðum. Fyrst var hann alltaf bara á svigskíðum og ekkert á öðru en svigskíðum. Á þeim tíma bjó hann í næsta nágrenni við Jóhann Vilbergs. Hann þvældist mikið með honum og segir að hann hafi verið langbestur og sá sem litið var mest upp til. Steingrímur keppti nokkrum sinnum á svigskíðum.

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Það voru ekki neinir þjálfarar í þá daga en Jóhann Vilbergsson var duglegur að draga krakka og unglinga með sér á skíði og leiðbeina þeim. Það komu þó stundum erlendir skíðakennarar. Steingrímur var ekki byrjaður í stökkinu þegar hinn finnski kennari Ale Line kom til Siglufjarðar. Geir man þó vel eftir Line, en hann kenndi Jónasi Ásgeirssyni og Skarphéðni Guðmundssyni. Skarphéðinn, eða Heddi, eins og hann var kallaður, náði miklum og góðum árangri undir leiðsögn Ale Line. Í þá daga var nógur snjór og það þurfti ekkert að vera að moka, segir Geir. Á þeim árum var allt annað tíðarfar. Steingrímur segir að það hafi verið meiri stillur og þá hafi verið hægt að vera í Litla bola og Stóra bola dag eftir dag við ágætis aðstæður. Tíðarfarið er alltaf að breytast og síðustu tvo vetur hefur ekki verið neinn snjór á láglendinu. Áður fyrr var allt á kafi vetur eftir vetur. ,,Maður gat bara farið á skíði út um útidyrnar hjá sér, þar sem ég átti heim, við vorum svo mikið hérna suður í Gryfjunum, sem kallaðar voru. Þar var maður á svigskíðum eiginlega allan daginn. Maður hafði ekki svigskíði þá“ segir Geir. Þeir sem stunduðu svigið æfðu sig í Jónstúninu.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn?

Steingrímur segir: ,,Eins og þú veist þá snerist allt um síld, bara síld og síld og aftur síld. Flest allir unnu hér alveg baki brotnu sumarmánuðina svo var svo stopul vinna aftur yfir vetrartímann. Þannig að menn höfðu rýmri tíma til að æfa sig. Það var nú bara þannig fyrst, framan af.“

Segið frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað.

Geir fékk stökkskíði frá Jónasi Ásgeirssyni. Það var erfitt að fá stökkskíði svo hann fékk skíðin hans Jónasar og pússaði þau upp og notaði. Geir segist hafa stokkið á svigskíðum fram að því. ,,Þá voru sem sagt öll skíði, bæði svigskíði og stökkskíði, þau voru með gormabindingum, þetta var náttúrulega bara sami búnaðurinn eins og var á stökkskíðunum en stökkskíðin náttúrulega voru miklu lengri heldur en svigskíðin sko, en menn stukku alveg jafn mikið á svona hengjum og alls konar, fram af alls konar hólum og hæðum á svigskíðum eins og á stökkskíðum. Það var allt notað“ segir Steingrímur. Fyrstu bindingarnir sem Steingrímur notaði voru smíðaðir hjá skósmið. ,,Þetta var svona flatreim og svo var bara eins og hælkappi aftan á reiminni og þar var ól til þess að spenna yfir öklann og svo var önnur  ól til að spenna yfir tána. Þetta voru nú fyrstu skíðin sem maður átti og þarna gat maður bara farið í stígvélin og beint í þetta, það þurfti ekkert að vera með neina skíðaskó eða neitt því um líkt.“ Í sviginu voru ólabindingar, það þurfti að vefja ólum utan um skóna.    

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segið frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks.

Togbrautin upp undir Gimbraklettum var fyrsta skíðamannvirkið á Siglufirði. Þar var ljósabraut með víralyftu. Þetta þótti algjör bylting, sérstaklega að fá ljósin því þá var hægt að skíða fram á kvöld. Jonni reddaði ljósunum, það var einhver góður félagi hans og frændi sem vann á Keflavíkurflugvelli sem útvegaði ljósastaurana. Svo hjálpuðust menn að við að grafa niður staurana og koma ljósunum upp. Síldarverksmiðjur Ríkisins voru mjög hlynntar þessu og þaðan fékkst aðstoð með drifbúnaðinn og fleira. ,,Þetta var bara mótor niðri og hjól sem að dreif vírinn svo var þarna alveg upp í Gimbraklettunum þar var blökk sem vírinn gekk í gegnum. Hann var nú svolítið svona varasamur þessi vír því að það vildi myndast snúningur á hann og það var svona öruggara að vera búin að losa peysuna frá vírnum þegar maður sleppti því það kom fyrir að menn festust í vírnum.“ Á vélaverkstæði Síldarverksmiðju Ríkisins voru smíðaðir krókar til þess að krækja í vírinn og þannig voru menn dregnir upp brautina. Steingrímur var að vinna á vélaverkstæðinu og segir að þar hafi oft verið smíðað eitthvað tengt lyftunni. Steingrímur á enn tvær eða þrjár gerðir af krókum. ,,Síðan voru keyptar lyftur erlendis frá sem að voru ýmist með díselvélum eða þá rafdrifnar og það var notað bara tóg á þeim, ekki svona vír, heldur tóg. Það var alveg sama, þá gátu menn haldið bara um tógið eða þá notað svona króka. Þetta var búið að vera að þvæla með alveg hérna um öll fjöll. Ásamt dráttarvél sem var keypt hérna og við mixuðum á hana spil, ég og Hjálmar Stefánsson“ segir Steingrímur. Traktorinn var mikið notaður, það var hægt að setja miklu lengri kaðal á hann en gallinn við hann var sá að það var erfitt að koma honum upp í Hvanneyrarskál og upp í Skarð. Þetta var reyndar ekki hefðbundinn dráttarvél heldur vél á beltum. ,,Það voru kölluð hálfbelti, það voru sett einhver svona millihjól á milli aftur- og framhjóls. Hann var hérna einn eða tvo vetur, þá vorum við með hann upp í Hvanneyrarskál“ segir Steingrímur. Einu sinni þurfti að nota traktorinn upp í Skarði og þá fóru Steingrímur og Skúli Jóns upp í Hvanneyrarskál til að sækja hann. Það var allt á kafi í snjó svoleiðis að þeir voru í vandræðum með að koma honum niður. Þeir keyrðu varlega af stað en þá ætlaði traktorinn bara að steypast fram fyrir sig svo þeir settu bara á fulla ferð og keyrðu hratt niður fjallið og alla leið niður í bæ. Það voru ýmis ævintýri í kringum þessa vinnu.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Það var eitthvað um fótbrot. Útbúnaðurinn var þannig gerður að skíðin sátu föst á fótunum. Menn voru ólaðir við skíðin og það gaf ekkert eftir. Öryggisbúnaður var mjög takmarkaður. Það var töluvert meira um brot og slys vegna þess hve menn voru fastir í skíðunum. Steingrímur segir frá fyrstu öryggisbindingunum sem hann man eftir: ,,Þeir voru frá Marker, þá var tábindingurinn, eða tájárnið, það gat gefið eftir og hællinn gat snúist ofan á skíðinu, þú losnaðir ekkert við skíðið, það hlutust nú slys af þessu því ef að menn duttu illa þá kannski kom skíðið fljúgandi á þá, því það losnaði ekkert frá þeim, öðruvísi heldur en þessir bindingar sem eru í dag, þú losnar alveg við skíðið sko.“ Áður en Marker bindingarnir komu voru menn bara með tájárnin sem voru notuð á svigskíði á stökkskíði og síðan var verið að mixa festingar að aftan fyrir ólarnar og menn voru þá algjörlega fastir, það gat ekkert gefið eftir.

Lýsið fatnaði. Annars vegar æfingafatnaði og hins vegar keppnisbúningum.

Það voru buxur og peysur og svokallaðar Nönnuhúfur. Það voru ullarhúfur sem prjónakona á Siglufirði prjónaði á allt liðið. Það voru allir með þessar húfur en þær voru allaveganna, með einhverjum röndum og í skrautlegum litum. Það var yfirleitt alltaf tekin upp ný húfa á hverju ári, en þá voru prjónaðar eins húfur handa öllum. Það voru alltaf allir eins klæddir frá Siglufirði.

Hvernig gekk að sameina félögin tvö?

Geir man eftir því þegar skíðafélögin voru tvö á Siglufirði. Hann segir að það hafi þurft að sameina félögin vegna þess að það hafði fækkað svo mikið í báðum félögum. Sameiningin gekk ágætlega fyrir sig að sögn Geirs. Það var mikil keppni á milli félaganna tveggja og Geir segir að á þeim tíma hafi fjallið verið svart af áhorfendum. Skíðastökkvararnir voru margir, að minnsta kosti á milli 15 og 20 menn.

Hvaða grein/greinar lögðuð þið fyrir ykkur?

 Steingrímur og Geir voru báðir mest í stökkinu. Steingrímur keppti líka í göngu til þess að vera með í tvíkeppninni. Norræn tvíkeppni fól í sér göngu og stökk. Steingrímur stökk mikið á svigskíðum en hann fór seint að stökkva á almennilegum stökkskíðum. Steingrímur keppti bæði í svigi og stökki á svigskíðunum sínum.

Geir var aðalsérfræðingurinn í að pússa skíði, að sögn Steingríms. Steingrímur og fleiri leituðu oft til Geira til að láta hann pússa skíðin fyrir keppnir og mót. Geir leggur áherslu á að þetta hafi þurft að vera í lagi til þess að fá sem best rennsli. Skíðin sem Geir fékk frá Jónasi Ásgeirssyni voru með plastsólum en voru ekki nema 2,4 metrar á lengd en flest skíðin voru 2,45-2,50 metrar. Geira þótti þau ekki renna nógu vel. Hann vildi helst að sólinn á skíðunum væri eins og spegill þegar búið var að pússa þau. Áburðurinn skipti gríðarlegu máli. Það var sama hvaða keppnisgrein var verið að stunda, rennslið skipti öllu máli og svo náttúrulega og fattið á gönguskíðunum. Þá skipti miklu máli að vera með réttan áburð miðað við aðstæður hverju sinni. Réttur áburður gat jafnvel ráðið úrslitum. ,,Það voru tvær eða þrjár gerðir af þessu parafíni, það var fyrir frost og þurran snjó og svo hláku“ segir Geir. Steingrímur bætir því við að það hafi verið töluvert meira af áburðum í göngunni, þá voru nokkuð margar tegundir fyrir þurran snjó og svo skara og síðan blautan snjó. Það voru til einhverjar 3-4 tegundir af klístur áburði, sem kallaður var. Svo var til önnur gerð sem var bauka áburður og það voru til 4-5 tegundir af honum. Síðan voru þessir áburðir til frá fleiri en einum framleiðanda. Þetta var framleitt í Noregi, Ítalíu og Finnlandi. Baukarnir voru merktir með ákveðnum litum sem áttu að segja til um fyrir hvaða hitastig áburðurinn var ætlaður. ,,Þetta var alveg heil stúdía fyrir þá sem sáu um þetta, það voru nú yfirleitt sér menn sem sáu um smurninguna, ásamt náttúrulega keppendum. Þetta var heljar stúdía að finna út úr þessu, hvað væri best“ segir Steingrímur. Í göngunni vildu menn svo hafa misjafnlega þykkt undir skíðunum. Þá þurfti líka að taka tillit til þyngdar og stærðar hvers skíðamanns. Á innanbæjarmótum vildi hver smyrja fyrir sig og þá vildi hver og einn halda því leyndu fyrir hinum hvaða áburð hann var að nota. En Geir var sá sem oftast var leitað til þegar kom að því að pússa skíðin. Það skipti miklu máli að verja tréskíðin fyrir vatni og það var gert með lakki. Seinna kom plastsóli undir skíðin og þá þurfti ekki lengur að pússa.

Hvaða önnur atriði skiptu máli í sambandi við skíðatækni?

Í sviginu var einstaklingsbundið hvaða lengd á skíðum hentaði hverjum og einum. Í göngunni skipti máli hversu stíf keilingin var í skíðunum. ,,Keiling er sveigurinn sem er á þeim, ef þú leggur skíði á borðið, eða á gólf, þá var viðmiðið þannig að ef þú steigst á öðrum fæti ofan á skíðið, eða lagðir allan þungann á skíðið, þá þurfti blað að stoppa undir skíðinu, þá steigstu það hæfilega niður. Ef þú náðir ekki að stíga niður miðjuna á skíðinu þá var það of stíft. Þá varðst þú að fá skíði sem voru mýkri“ segir Steingrímur. Þetta voru atriði sem skiptu mjög miklu máli. Það þarf að vera ákveðin fjöðrun í skíðunum. Ef menn voru á of stífum skíðum þá var svo erfitt að fá á þau fatt. Þá urðu menn að vera með þykkara lag af áburði til þess að fá fatt en þá dró úr rennslinu.

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

Geir segir að góður skíðamaður þufi að vera í góðri þjálfun. Steingrímur er sammála því og segir að hann þurfi að vera í alhliða þjálfun. Menn voru mikið í fimleikum og öðru samhliða. Það voru þó undantekningar á því og Steingrímur nefnir Svein Sveinsson sem dæmi. Sveinn var alltaf á sjó á sínum keppnisárum og æfði því sáralítið fyrir mót. Hann kom í land einhverjum dögum fyrir mót til að æfa en náði alveg ótrúlegum árangri. Sveinn var bæði bráðlipur og óhemju sterkur. Sveinn keppti í göngu, stökki og svigi. Steingrímur segir að Sveinn og Skarphéðinn Guðmundsson (Heddi) hafi haft skíðahæfileika frá náttúrunnar hendi. Heddi þurfti ekki að stökkva nema 3-4 ferðir, þá var hann kominn í toppform, alveg eins og fjöl. Hann var ótrúlega stapíll stökkvari og flottur.

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

Menn stunduðu engar sérstakar æfingar fyrstu árin. Seinna fóru menn að hlaupa eða nota hjólaskíði á sumrin. Á sumrin stunduðu margir fótbolta og það hefur alltaf verið. Steingrímur segir að tvö sumur hafi hann stundað ýmsar snerpuæfingar fram á Hóli ásamt Hedda, syni Geira, Valda Gosa, Halla Sverris og fleirum. Þar voru þeir að stökkva yfir grindur og lyfta lóðum og fleira. Þetta var í kringum 1970. Þá voru bara örfáir eftir í stökkinu og Steingrímur um það bil að hætta. Upp úr 1970 voru svo fáir eftir í stökkinu að það var alveg að detta upp fyrir sem keppnisgrein á landsmótum. Það voru bara Siglfirðingar og Ólafsfirðingar sem áttu skíðastökkvara. Ísfirðingar voru alltaf skráðir í stökkið á landsmótum en stukku aldrei. Geir rifjar upp eina stökkkeppni á Akureyri. Þeir voru á leiðinni upp í Hlíðarfjall og Gunnar Pétursson frá Ísafirði var með þeim. Gunnar var skráður í stökkið og tvíkeppnina og var með stökkskíðin með sér. Gunnar fer að státa sig af því að hafa stokkið 40 metra og þá segir Geiri: ,,var það innanhúss?“ Gunnar varð svo móðgaður að hann fór aldrei á stökkskíði eftir það, hann var aftur á móti sterkur í göngunni. 

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

Geir segir að það hafi hjálpað óskaplega mikið og Steingrímur telur að það hafi verið nauðsynlegt að hafa talsvert keppnisskap. Það þurfti að hafa keppnisskap og ákveðni.

Er ykkur kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

Skíðakóngur var mikið notað á árum áður. Geir segir að hann hafi heyrt talað um þetta frá því að hann var smágutti. Skíðakóngur var sá sem vann gönguna, 15 km og 30 km. Menn voru kallaðir skíðakóngar, til dæmis Guðmundur Guðmunds og Jón Þorsteins. Þeir muna ekki eftir að orðið skíðadrottning hafi verið notað.

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

Keppnisandinn var góður. Steingrímur keppti með Jónasi Ásgeirs, Skarphéðni Guðmundssyni (Hedda) og Nonna Þorsteins og einu sinni keppti Jón Sveins með þeim líka í kringum 1960. Steingrímur var miklu yngri en þeir en hann var mikið með Sigga Benna. Það var mikið grín og glens í kringum Jónas Ásgeirs, Hedda og Geira, segir Steingrímur. ,,Þeir köstuðu á hvern annann kveðju stundum“ segir Steingrímur og hlær. ,,Einu sinni sagði Geiri um Jónas að hann væri eins og brotinn vindlakassi í loftinu.“ Svona gátu menn sagt hver við annann án þess að nokkur móðgaðist. Svona var andinn innan félagsins alla tíð. Menn gátu komið með allskyns yfirlýsingar, en allt sagt í góðu gríni.

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppnismanna mismunandi félaga?

Það var alltaf sérstaklega góður vinskapur á milli Ísfirðinga og Siglfirðinga. Þegar Ísfirðingar komu að vestan þá komu þeir inn á heimili á Siglufirði og fengu fæði og gistingu. Þannig var það líka þegar Siglfirðingar fóru á Ísafjörð að keppa. Stundum var gist í skólum í svefnpokaplássi en þá fengu aðkomumenn að borða í heimahúsum. 

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?

 Það voru Ísfirðingar og seinna Ólafsfirðingar. Ísfirðingar voru á tímabili með bestu mennina bæði í göngu og svigi. Þegar Jóhann Vilbergs var upp á sitt besta var Kristinn Benediktsson frá Ísafirði harður keppinautur. Siglfirðingar kölluðu hann ,,Guttann frá Ísafirði.“ Steingrímur nefnir líka Gunnar Guðmundsson og Kristján Rafn frá Ísafirði. Kristján gisti alltaf hjá Gunnari Guðmunds en Kristján og Gunnar voru bestu mennirnir í göngu frá sitt hvorum staðnum.

Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Það var oft farið á milli staða með varðskipi. Ferðirnar gengu ágætlega, en sumir urðu ansi sjóveikir og svo voru menn með sjóriðu þegar þeir komu í land segir Geiri. Steingrímur hefur einu sinni farið vestur sjóleiðina og segir að það hafi tekið langan tíma því það voru eltar allar hafnir á leiðinni. Steingrímur fór með flugvél í annað skipti sem hann fór á mót. Þegar átti að fara heim voru allir reknir inn í flugvélina nema Steingrímur og flugmaðurinn, þeir biðu úti. ,,Svo var troðið í vélina, skíðum og öllu, alveg jafnhátt sætisbökunum, á milli sætanna. Svo skriðum við á skíðunum og stöfunum framm í vél, ég sat framm í hjá flugmanninum. Svo átti að lenda hérna, en það var ekki viðlit, það var glórulaus bylur hér og sást aldrei hérna niður. Svoleiðis að það var tekin stefnan bara á Akureyri. Við lentum þar og svo var farið á bíl bara á milli.“ Gunnar Guðmunds talaði oft um það að það væri komið alltof mikið í vélina, hún hefði sig aldrei á loft með þetta, það yrði að fara með eitthvað til baka en það slapp allt til. Það var mikill farangur sem fylgdi á mót. Göngumennirnir voru með tvenn og þrenn skíði og svigfólkið var með tvennt og þrennt. Tvíkeppnismennirnir þurftu að hafa með sér að minnsta kosti tvenn skíði. 

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn?

Búnaðurinn var nú ekki neitt sérstaklega góður til að byrja með. Menn notuðu bara það sem til var og fengu lánað. Það var ekki fyrr en seinna sem menn lögðu áherslu á að hafa þetta flott.

Segið frá gullpeningum og bikurum.

Steingrímur segir: ,,Það er nú ekki um auðugan garð að gresja þar, ég er með einhverja hérna frammi, það eru einhverjir tveir, þrír. Ég var Íslandsmeistari einu sinni í stökki og tvíkeppni, ég held að það hafi verið 1973. Svo 1968 í stökki inn á Akureyri. Og svona einhvern tíma keppti ég í stökki á Norðurlandsmóti, þá voru nú haldin Norðurlandsmót hérna í eina tíð.“ Akureyri, Ólafsfjörður, Siglufjörður og Húsavík héldu Norðurlandsmót til skiptis. Steingrímur var einu sinni að vinna á Húsavík og tók með sér stökkskíðin sín því það átti að halda Norðurlandsmótið þar þennan vetur. Hann fékk síðan frí í vinnunni til að keppa og lenti í öðru sæti, óæfður. Á þeim tíma var ekki mikið um verðlaunagripi fyrir yngri flokkana. Stundum var bara veitt viðurkenning fyrir fyrstu þrjú sætin, en engin verðlaun. En þegar synir Steingríms fóru að keppa þá voru veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin, ýmist verðlaunapeningar eða bikarar.  

Segið frá fyrsta Íslandsmótinu sem þið tókuð þátt í.

Steingrímur man ekki hvenær hann tók fyrst þátt í Íslandsmóti en telur að það hafi verið 1968. Geir og Steingrímur muna báðir vel eftir því móti. Það hafði verið sól en þegar sólin gekk undir kom mikið harðfenni og rennslið varð alveg rosalegt. Að deginum hafði verið keppt í glampandi sól og hita og mönnum gekk illa, því það rann ekkert hjá þeim í snjónum. Jón Þorsteinsson kenndi því um að menn hafi ekki kunnað að smyrja skíðin. Jón segir við Steingrím að hann ætli að smyrja fyrir hann skíðin og sendir hann svo upp. En þá var sólin farin og það var komið svell í slóðina. Steingrímur finnur það um leið og hann stígur í brautina að annað hvort þyrfti hann að stökkva út úr brautinni og hætta við eða láta sig gossa niður. Steingrímur ákvað að láta sig gossa og sökk dálítið í brautina vegna þess að hún var orðin gljúp. Það endaði með því að hann þeyttist upp úr báðum skíðunum og kútveltist niður á sléttu. Þegar hann stóð upp heyrði hann í Jóni upp á Bungu kalla: ,,Nú sá ég að það rann hjá þér drengur!“

Segið frá skíðaskálum.

Steingrímur og Geir muna vel eftir skíðaskálanum Skíðaborg. Þegar það var stokkið í Bolunum var Skíðaborgarskálinn uppi standandi en Steingrímur man bara eftir að hafa farið einu sinni þangað í kaffi. Hinn skálinn stóð upp á Ásnum hinu megin í firðinum og það var gamli Skíðafélagsskálinn. Hann var meira notaður. Þar voru göngumótin haldin, startið var við skálann og þar var selt kaffi og gos og sælgæti. Geir segir að það hafi ekki staðið á því að fá fólk til að starfa við þetta þá en núna er ekki hægt að fá neinn mannskap nema gegn borgun. Það var mest kvenfólk sem starfaði við veitingasöluna og bakaði fyrir félagið. Það þurfti líka að hafa þó nokkuð fyrir því að flytja vistirnar fram eftir, þetta var ýmist borið eða dregið á sleða. Það var enginn vegur og ekkert hægt að komast fram eftir á bíl. Fólk var mjög duglegt í sjálfboðavinnu. Geir man eftir tveimur böllum sem haldin voru í skíðaskálanum til að afla fjár fyrir félagið. Seinna voru slíkar samkomur bannaðar í skíðaskálanum því þar var ekkert rennandi vatn og ekkert klósett og skálinn stóðst því ekki lágmarkskröfur um hreinlæti. Það var bara kamar fyrir utan. Þetta voru dansleikir og sumir tóku með sér áfengi en það bar ekki mikið á því að menn væru fullir.

Segið frá aðkomu ykkar að skipulagningu móta.

Steingrímur vann mikið með Guðmundi Árnasyni og segir að það sé einhver besti maður sem hann hefur starfað með. ,,Hann var ákveðinn og menn urðu að segja af eða á hvort þeir ætluðu að mæta eða ekki. Hann þoldi ekki að menn segðu já en mættu ekki. Mér fannst rosalega fínt að starfa með honum, hann er einhver sá besti sem ég hef verið með í svoleiðis, þeir urðu bara að segja annað hvort já eða nei, það er langbest, þá er aldrei neitt vafamál.“ Steingrímur hefur mikið starfað fyrir mót og segir að það hafi ýmislegt þurft að gera. Það þurfti meðal annars að yfirfara flögg og svigstangir, rásnúmer og bönd fyrir hvert mót.

Nefndu starfsheiti þeirra starfsmanna sem komu að mótum.

Í stökkinu var stökkstjóri, stökkpallstjóri og brekkustjóri og svo mælingamenn. Svo voru þrír dómarar og tveir eða fleiri mælingamenn. Geir segir að mælingamennirnir hafi getað bætt hálfum meter við einn mann og dregið hálfan meter af öðrum. Það var bara mælt með stöng og stöngin var ekki nema hálfur meter og það var bara námundað að hálfum. Geir telur að mælingamennirnir hafi ekki alltaf verið hlutlausir þegar verið var að mæla. Þegar það voru haldin mót á Siglufirði voru það yfirleitt Siglfirðingar sem voru mælingamenn. En seinna komu rafrænir mælar sem voru nákvæmari og tóku af allan vafa.

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya