Skíðasaga fjallabyggðar

/* /*]]>*/ /* /*]]>*/ /* /*]]>*/ /* /*]]>*/ /* /*]]>*/ /* /*]]>*/ Siglufjörður er margrómaður síldarbær en hann virðist ekki

Skíðin og síldin

Siglufjörður er margrómaður síldarbær en hann virðist ekki síður hafa verið bær skíða en síldar. Þá er greinilegt að atvinnulífið og skíðaiðkunin eru samofnir þættir í sögu Siglufjarðar. Atvinnulífið dróst mikið saman yfir vetrartímann og því hafði fólk tíma og tilefni til að stunda skíðin af enn meiri elju en ella hefði verið mögulegt. Siglufjörður var ekki aðeins bær síldarinnar, heldur einnig bær skíðaiðkunnar. Hér á eftir koma hugleiðingar Örlygs Kristfinnsonar, safnstjóra Síldarminjasafnsins um samspil skíða og síldar.

Í landafræðibókum skólabarna um miðja 20. öld stóð eitthvað á þessa leið: Siglufjörður er þekktur fyrir síld á sumrin og snjó á vetrum.

Á sumrin var fólkið í þessum bæ á kafi í síldarvinnu – á veturna var svo allt komið á kaf í snjó. Í mestu ,,snjóakistu“ landsins var ekkert eðlilegra en skíðaíþróttin væri í heiðri höfð og á löngum og síldarlausum vetrum væru skíðin iðkuð af kappi. Siglufjörður átti um áratugi fræknustu sigurvegara skíðamótanna og sumir urðu þeir landsfrægir. Staðurinn var tíðum miðdepill þessarar vinsælu íþróttagreinar í fjölmiðlum landsins rétt eins og í sumarsíldinni þegar daglegar fréttir voru sagðar af landburði af síld – eða bara aflaleysi sem hrjáði íbúana.

 

 Í mörgum atriðum tengdust skíðin og síldin með augljósum hætti.

  • Hinir norsku síldarmenn, sem komu til að afla sér eins og skot silfurs hafsins, höfðu með sér gæðaskíði frá heimalandi sínu og gáfu eða seldu siglfirsku æskufólki. Sögur fara af slíkum viðskiptum Ole Tynes síldarútvegsmanns.
  • Hinir vösku skíðakappar vetrarríkisins voru í ríki miðnætursólar ýmist síldveiðimenn, síldarstúlkur eða bræðslupiltar.
  • Þegar landsgangan fór fram og efnt var til keppni á milli þéttbýlisstaða landsins í fjögurra kílómetra skíðagöngu, þá sigraði Siglufjörður. Langflestir bæjarbúar áttu skíði og héldu stoltir uppi merki staðarins.
  • Í kjöllurum eða háaloftum flestra íbúðarhúsa þessa bæjar voru síldarpils, hnífar og díxlar geymdir á veturna en á sumrin voru skíðin, stafirnir og klossarnir komin þar í staðinn.
  • Þegar flett er gömlum fjölskyldu-myndaalbúmum frá miðri öldinni ber fyrir augu hinar fjölbreytilegustu myndir úr hversdagslífi fólksins. Fjölskyldan í berjamó, mamma í síldarvinnu og svo koma allar skíðamyndirnar af götunni heima eða á skíðamóti frammi á firði.
  • Þannig eru myndamöppur Steingríms Kristinssonar frá árunum 1961-63, sem eru eins og annálar í myndum þar sem ljósmyndarinn skráði það sem var að gerast í bæjarlífinu árið um kring. Vetrarvinna til undirbúnings næsta síldarsumri, þúsundir tunna hlaðast upp í Tunnuverksmiðjunni, skíðamót – og þá var skammt á milli Skarðsmótsins um Hvítasunnu og þess að fyrstu síldinni væri landað. Eitthvað er þar um velgengni KS í fótboltanum og seint um haust er útskipun síldarafurða og senn kominn vetur með fjölbreytilegu annríki í leik og starfi. Ákaflega merkilegar heimildir um lífið í síldar- skíðabænum Siglufirði.
  • Skíði voru löngum smíðuð úr tunnustöfum og á Siglufirði voru það eðlilega stafir úr síldartunnum sem var efniviður í einföld og ódýr skíði handa börnum. Slík skíði voru stundum kölluð geplar.
  •  Og að lokum enn eitt sem tengir síldina og skíðin á Siglufirði: Engin síldartunna var án stafa og enginn skíðamaður stafalaus - að skíðastökkvurum undanskildum!

 

 


 

 

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya