Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ Eftir ađ Skíđafélagiđ Siglfirđingur stóđ fyrir landsmótinu áriđ 1938 komst strax á sú tilhögun sem síđan hefur haldist, ađ halda Íslandsmótin

Frammistađa Siglfirđinga á Íslandsmótum frá upphafi

Eftir að Skíðafélagið Siglfirðingur stóð fyrir landsmótinu árið 1938 komst strax á sú tilhögun sem síðan hefur haldist, að halda Íslandsmótin til skiptis á hinum fjórum aðalstöðvum skíðamanna: Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Siglufirði. Siglfirðingar hafa frá upphafi staðið sig einkar vel á landsmótum og hér á eftir verður greint frá þeim sem hampað hafa Íslandsmeistaratitilinum á árunum 1937-1990. Á níunda áratugnum fer frammistaða Siglfirðinga á Íslandsmeistaramótum að dala og hafa þeir ekki eignast Íslandsmeistara á skíðum síðan 1986.

Fyrsta Íslandsmeistaratitillinn í göngu hlaut Jón Þorsteinsson. Á árunum 1942-1946 var bikarinn unninn af Guðmundi Guðmundssyni sem keppti fyrir heimabæ sinn Siglufjörð árin 1942 og 1943 en færði sig svo yfir í Skíðafélag Akureyrar. Sumir Siglfirðingar litu á þetta sem svik og má nánar lesa um það hér. Siglfirðingar unnu ekki gönguna á ný fyrr en Sveinn Sveinsson hampaði Íslandsmeistaratitlinum árið 1960. Fram að því höfðu Þingeyingar haft yfirburði í göngu.Upp úr 1960 háðu Ísfirðingar og Siglfirðingar baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Birgir Guðlaugsson náði Íslandsmeistaratitlinum af Ísfirðingum árið 1963. Árið 1964 landaði Siglfirðingurinn Gunnar Guðmundsson titlinum en ári seinna var titillinn komin aftur í hendur Ísfirðinga. Árið 1966 varð Þórhallur Sveinsson frá Siglufirði Íslandsmeistari í göngu en Gunnar Guðmundsson náði titilinum aftur 1967 (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 174). Magnús Eiríksson varð Íslandsmeistari í göngu 1974 en keppti þá fyrir hönd Fljótamanna, enda ættaður úr Fljótum. Titilinn vann svo Magnús fyrir Siglfirðinga árin 1976 og 1981, en þá var hann fluttur í kaupstaðinn (RMH/2008: Magnús Eiríksson).

Keppt var í 30 km göngu frá árinu 1951 en Siglfirðingar fengu ekki bikarinn fyrr en með sigri Birgis Guðlaugssonar árið 1962. Birgir vann einnig gönguna 1963 en eftir það vann Gunnar Guðmundsson tvö ár í röð. Magnús Eiríksson vann 30 km göngu fyrir hönd Fljótamanna 1974 en árin 1976 og 1977 keppti hann fyrir hönd Siglfirðinga og vann. Magnús varð einnig Íslandsmeistari árið 1981. Hann vann tvíkeppni í 15 og 30 kílómetra göngu 1976, 1977 og 1981. Árið 1981 varð kona Magnúsar, Guðrún Pálsdóttir Íslandsmeistari í göngu kvenna (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 179-180).

Alfreð Jónsson hlaut fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í stökki og var sá titill unninn af Siglfirðingum til ársins 1964 með aðeins þremur undantekningum. Alfreð varð Íslandsmeistari árin 1937 og 1939. Jónas Ásgeirsson var á meðal fremstu stökkmanna á landinu um langt árabil en hann varð Íslandsmeistari í stökki sjö sinnum á árunum 1939-1957. Jón Þorsteinsson vann titilinn árin 1940, 1944 og 1947. Guðmundur Árnason varð Íslandsmeistari í stökki árin 1952 og 1954. Skarphéðinn Guðmundsson hampaði titlinum árin 1953, 1958 og 1960. Sveinn Sveinsson árið 1961 og Skarphéðinn aftur árin 1962 og 1963. Sveinn Sveinsson endurheimti titilinn 1964. Eftir það gerðust Ólafsfirðingar öflugir keppinautar þeirra í stökki og unnu þeir titilinn þrjú ár í röð. Steingrímur Garðarsson hampaði Íslandsmeistaratitlinum 1968 en árið 1969 var titillinn í höndum Hauks Jónssonar frá Siglufirði. Þá var sigurinn unnin af Ólafsfirðingnum Birni Þór Ólafssyni þrjú ár í röð en árið 1973 endurheimti Steingrímur Garðarsson Íslandsmeistaratitilinn. Björn vann titilinn fyrir hönd Ólafsfirðinga önnur þrjú ár en árið 1977 var það Marteinn Kristjánsson frá Siglufirði sem varð Íslandsmeistari. Enn og aftur átti Björn Þór þrjá sigra í röð en árið 1981 varð Siglfirðingurinn Haukur Snorrason í fyrsta sæti  (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 174).

Siglfirðingar urðu Íslandsmeistarar í norrænni tvíkeppni til ársins 1970 með örfáum undantekningum. Jón Stefánsson vann Íslandsmeistaratitilinn árið 1938 og Jónas Ásgeirsson vann hann næstu tvö árin. Jónas vann titilinn aftur 1942 og auk þess hreppti hann titilinn 1950 og 1955. Guðmundur Guðmundsson og Jón Þorsteinsson unnu titilinn sitt á hvað frá 1943-1948 en þar af voru nokkrir sigrar sem Guðmundur vann fyrir hönd Akureyringa. Haraldur Pálsson varð Íslandsmeistari árin 1949 og 1951. Jón Sveinsson árið 1953 en Skarphéðinn Guðmundsson árið 1954. Sveinn Sveinsson varð margfaldur Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni en hann hlaut titilinn frá 1957-1963, með þeirri undantekningu að árið 1959 var ekki keppt. Birgir Guðlaugsson varð Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni árið 1964, eftir það vann Þórhallur Sveinsson tvö ár í röð og síðan Birgir aftur á árunum 1967-1969. Björn Þór Ólafsson frá Ólafsfirði var helsti keppninautur Siglfirðinga í norrænum greinum um árabil en hann varð Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni 1970-1981, með þeirri undantekningu að 1973 varð Steingrímur Garðarsson Íslandsmeistari (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 178).

Siglfirðingar voru aftur á móti ekki í jafn mikilli forystu í alpagreinunum. Þó unnu þeir Íslandsmeistaratitilinn í svigi fimm sinnum á tíu ára tímabili, frá 1938-1948. Það voru þeir Jón Þorsteinsson, Ketill Ólafsson, Ásgrímur Stefánsson og Haraldur Pálsson sem unnu titillinn, Haraldur tvisvar. Svigið unnu Siglfirðingar ekki aftur fyrr en Jóhann Vilbergsson varð Íslandsmeistari árið 1963. Í kvennaflokki varð Aðalheiður Rögnvaldsdóttir Íslandsmeistari í svigi 1947. Siglfirskar konur voru ekki í forystu í greininni fyrr en með næstu kynslóð þegar Kristín Þorgeirsdóttir, Árdís Þórðardóttir og Sigríður Þórdís Júlíusdóttir stigu á stokk. Kristín varð Íslandsmeistari í svigi 1960 og 1963. Árdís varð Íslandsmeistari fjögur ár í röð, á árunum 1964-1967. Árið 1968 vann Sigríður Þórdís titilinn en Árdís vann hann aftur 1969. Siglfirðingar eignuðust enga Íslandsmeistara í svigi á áttunda áratugnum (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 178-181).

Brun var sérstök keppnisgrein sem keppt var í á Íslandsmótum frá 1943-1960. Aðalheiður Rögnvaldsdóttir stóð uppi sem sigurvegari í bruni árið 1947 og Kristín Þorgeirsdóttir hlaut Íslandsmeistaratitilinn árið 1960. Kristín varð einnig Íslandsmeistari í alpaþríkeppni sama ár. Brun karla vann Ásgrímur Stefánsson árin 1944 og 1946 og Jónas Ásgeirsson 1947 (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 178).

Boðgöngu vann sveit Siglfirðinga frá 1961-1967. Næstu tvö árin vann sveit Akureyrar og þar á eftir unnu Fljótamenn boðgönguna tvö ár í röð (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 178-179). Magnús Eiríksson er einn fremsti göngumaður Siglfirðinga. Hann flutti til Siglufjarðar árið 1973 en keppti fyrir hönd Fljótamanna fyrstu árin vegna þess að það var ekki næg þátttaka til að mynda göngusveit á Siglufirði (RMH/2008: Magnús Eiríksson). Keppt var í boðgöngu á Íslandsmótum frá árinu 1949 en ekki er ljóst hvenær Siglfirðingar fóru að taka þátt í henni.

Í alpatvíkeppni, bruni-svigi, eignuðust Siglfirðingar enga Íslandsmeistara, hvorki í karla- né kvennaflokki. Jóhann Vilbergsson varð Íslandsmeistari íalpatvíkeppni, svigi-stórsvigi, árið 1963 og Kristín Þorgeirsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna sama ár. Árdís Þórðardóttir vann titilinn á árunum 1964-1969. Jóhann Vilbergsson varð einnig Íslandsmeistari í stórsvigi 1962-1963 og Kristín varð Íslandsmeistari í stórsvigi frá 1960-1963. Árdís tók við titilnum af Kristínu næstu tvö árin og varð einnig Íslandsmeistari í greininni 1967 og 1968 (sbr. Haraldur Sigurðsson, 1981: 179-181).

Siglfirðingar náðu bestum árangri á Skíðalandsmóti Íslands árið 1963, þegar þeir sópuðu að sér Íslandsmeistaratitlum í öllum greinum. Á því móti varð Kristín Þorgeirsdóttir fjórfaldur Íslandsmeistari. Sjöfn Stefánsdóttir fylgdi fast á hæla Kristínar í alpagreinum í kringum 1960 en náði þó aldrei þeim árangri að verða Íslandsmeistari. Hér að framan hefur aðeins verið greint frá þeim Siglfirðingum sem orðið hafa Íslandsmeistarar á árunum 1937-1981 en vert væri að minnast fjölda annarra sem voru framarlega í íþróttinni og allra þeirra sem lagt hafa ómælda vinnu í að gera aðstöðu Siglfirðinga til skíðaíþrótta sem besta. Á síðustu árum og áratugum hafa Siglfiðingar ekki átt neina Íslandsmeistara í vetraríþróttum. Síðasti Íslandsmeistaratitillinn sem kom í hlut Siglfirðinga var árið 1986, en þá varð Hulda Magnúsdóttir Íslandsmeistari í göngu. Foreldrar hennar eru þau Magnús Eiríksson og Guðrún Pálsdóttir, bæði margfaldir Íslandsmeistarar í göngu. Saman unnu þau fimm Íslandsmeistaratitla árið 1981 en hættu keppni nokkrum árum síðar, Magnús árið 1983 og Guðrún 1985 (RMH/2008: Magnús Eiríksson).

Eins og sjá má hafa Siglfirðingar eignast nokkra Íslandsmeistaratitla á níunda áratugnum en upp frá því hefur skíðaíþróttin fyrst og fremst byggst á unglingastarfi. Síðan hafa nokkrir Siglfirðingar orðið unglingameistarar, má þar nefna Arnar Björnsson, Ásþór Sigurðsson, Ólaf Þóri Hall, Salome Kjartansdóttur og Stefán Geir Andrésson.

 

 

 

 

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya