Skķšasaga fjallabyggšar

/* /*]]>*/ Skķšamót voru haldin įrlega į Siglufirši frį 1920-1926 en žį dofnaši įhuginn um sinn. Įhuginn kviknaši aftur 1931, žegar félagiš fékk til

Skķšasaga Siglufjaršar: 1930-1950

Skíðamót voru haldin árlega á Siglufirði frá 1920-1926 en þá dofnaði áhuginn um sinn. Áhuginn kviknaði aftur 1931, þegar félagið fékk til sín skíðakennara frá Noregs Skiforbund, Helge Torvö. Með honum komu fyrsta flokks skíði og skíðaútbúnaður (Bragi Magnússon, 1970). Helge Torvö kenndi bæði drengjum og stúlkum skíðastökk, en ein þeirra sem lærði undir hans handleiðslu var Unnur Möller, sem vann skíðastökkkeppni árið 1931 (sbr. SMS/2008: Unnur Helga Möller). Auk þess að kenna stökk og göngutækni leiðbeindi hann mönnum við að dæma og fara eftir alþjóðlegum reglum sem giltu um skíðamót. Eftir þeim reglum var farið þar til ÍSÍ gaf út skíðahandbók árið 1940. Skíðafélag Siglufjarðar var því fyrsta félagið á landinu sem notaðist við alþjóðlegar reglur á skíðamótum (Bragi Magnússon, 1970).

Árið 1937 efndi Skíðafélag Reykjavíkur til landsmóts skíðamanna. Mótið fór fram í Hveradölum og var nefnt Thule mót, eftir verðlaunagrip sem tryggingafélagið Thule gaf til keppninnar. Keppnisgreinar á þessu fyrsta Thule móti voru aðeins tvær, ganga og stökk. Sigurvegari í göngu var Jón Þorsteinsson og þriðji var Björn Ólafsson, báðir frá Siglufirði. Alfreð Jónsson varð fyrstur í stökki og annar varð Jón Þorsteinsson. Mikil samkeppni var um Thule bikarinn, aðallega á milli félaganna tveggja frá Siglufirði (Haraldur Sigurðsson, 1981: 128). Einar B. Pálsson, fyrrverandi formaður Skíðasambands Íslands segir frá Thule mótinu í kynningarriti Skíðafélags Siglufjarðar – Skíðaborgar frá 20. maí 1990. Einar segir: ,,Eitt af því sem kom mjög á óvart, var hin hatramma keppni innbyrðis milli skíðafélaganna frá Siglufirði. Um tildrög hennar vissu menn harla lítið hér fyrir sunnan, en víst er, að hún gerði bæði þetta og síðari mót spennandi, en setti líka starfsmenn í margan vanda“ (Einar B. Pálsson, 1990: 5). Enn fremur segir Einar að siglfirsku skíðamennirnir hafi skarað fram úr á mótinu, bæði í stökki og göngu. Sérstakur gestur á Thule mótinu 1939 var ólympíu- og heimsmeistarinn Birger Ruud og vakti skíðasnilli hans mikla athygli og aðdáun. Birger Ruud þótti Jón Þorsteinsson frábært skíðamannsefni og gaf honum stökkskíðin sín að skilnaði og Jónasi Ásgeirssyni færði hann afreksbikar fyrir sigur í norrænni tvíkeppni frá norska Skíðasambandinu. Thule mótin lögðust af eftir að Skíðafélag Siglufjarðar vann bikarinn til eignar árið 1943, en fram að því hafði hann gengið á milli félaganna tveggja á Siglufirði (Haraldur Sigurðsson, 1981: 128-132)

Árið 1938 var Skíðamót Íslands haldið á Siglufirði. Sumir vilja meina að það hafi verið fyrsta Íslandsmótið, en aðrir telja Thule mótið fyrsta Íslandsmótið. Sá sem hlaut Íslandsmeistaratitilinn í göngu kom frá Ísafirði en Jón Þorsteinsson hafnaði í öðru sæti. Í skíðastökki voru Siglfirðingar í þremur efstu sætunum, en það voru þeir Ketill Ólafsson, Jón Stefánsson og Jónas Ásgeirsson. Sama var upp á teningnum í svigkeppni, Siglfirðingar áttu þrjú efstu sætin, Jón Þorsteinsson var fyrstur, þá Ketill Ólafsson og þriðji Ásgrímur Stefánsson. Þess má geta að Jónas Ásgeirsson var á meðal þriggja fyrstu Íslendinganna sem kepptu á skíðamóti erlendis árið 1946 og ári seinna keppti hann einnig á erlendri grundu ásamt Jóni Þorsteinssyni, Guðmundi Guðmundssyni og Ásgrími Stefánssyni. Íslendingar tóku fyrst þátt í Ólympíuleikunum árið 1948, og voru Siglfirðingarnir Guðmundur Guðmundsson og Jónas Ásgeirsson á meðal keppenda (Haraldur Sigurðsson, 1981: 128-135).

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya