Skķšasaga fjallabyggšar

/* /*]]>*/ Fyrstu stjórn Skķšafélags Siglufjaršar skipušu Sóphus Įrnason formašur, Ole Tynes gjaldkeri og Andrés Haflišason ritari. Ole Tynes flutti inn

Skķšasaga Siglufjaršar: 1920-1930

Fyrstu stjórn Skíðafélags Siglufjarðar skipuðu Sóphus Árnason formaður, Ole Tynes gjaldkeri og Andrés Hafliðason ritari. Ole Tynes flutti inn töluvert af norskum skíðum sem hann seldi á sanngjörnu verði og það gerði fjölda fólks kleift að stunda skíðaíþróttina við betri skilyrði en áður hafði verið mögulegt. Norsku skíðin þóttu mun betri en hin íslensku, sem þekktust í þá tíð. (Bragi Magnússon, 1970). Árið 1920, á stofnári Skíðafélags Siglufjarðar, gekkst félagið fyrir skíðamóti og fyrstu árin voru haldin skíðamót árlega. Á öðru starfsári félagsins tóku stúlkur einnig þátt í skíðamóti og upp frá því kepptu siglfirskar stúlkur með góðum árangri í íþróttinni. (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 481).

Ungmennafélagið á Siglufirði stóð einnig fyrir skíðamóti á stofnári Skíðafélagsins og mun það sennilega hafa verið fyrsta skíðakeppni kvenna hér á landi. Karlmenn kepptu í brekku með meters hárri hindrun en kvenfólk keppti í hindrunarlausri brekku. Á útmánuðum 1920 var keppt í brekkurennsli karla og kvenna á móti sem haldið var af Fljótamönnum. Árið 1921 stóð Ungmennafélagið á Akureyri fyrir fyrsta allsherjarmótinu hérlendis, en keppendur voru frá Akureyri, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Kaupangssveit. Hlutskarpastir á mótinu voru Siglfirðingarnir Vilhjálmur Hjartarson og Jón Þórarinsson, sem unnu bæði til verðlauna í brekkuhlaupi án loftstökks og í brekku með loftstökki. Í göngunni voru það bræðurnir Jón og Sigursveinn Árnasynir frá Ólafsfirði sem höfnuðu í fyrsta og öðru sæti. Stuttu seinna, eða í apríl 1921 var haldið skíðakappmót á Siglufirði með þátttöku þriggja Ólafsfirðinga. Keppt var í kvenna- og karlaflokkum og var mótið hið myndarlegasta, alls tóku fimmtíu manns þátt í því, fimm konur og 45 karlmenn (Haraldur Sigurðsson, 1981: 114-117).

Áhugi landsmanna á skíðaíþróttinni jókst jafnt og þétt og brátt þótti ástæða til að efna til allsherjarskíðamót á landsvísu. Siglfirðingar áttu hugmyndina að slíku móti og nefndu Skíðakappmót Íslands. Mótið var haldið á Siglufirði í apríl 1922 og var Guðmundur Skarphéðinsson aðal forgöngumaður þess (Haraldur Sigurðsson, 1981: 117). Guðmundur var skólastjóri barnaskólans á Siglufirði og barðist fyrir eflingu skíðaíþróttarinnar í bænum. Fyrir forgöngu hans voru fengnir erlendir skíðakennarar til Siglufjarðar. Árangur kennslunnar sagði fljótt til sín og Siglfirðingar fóru að vekja athygli víða um land fyrir afrek sín í skíðaíþróttum. Fyrsti leiðbeinandi siglfirskra skíðamanna í skíðastökki var norskur maður að nafni Edvin Johansen en síðar komu margir erlendir skíðakennarar til Siglufjarðar á vegum skíðafélaganna þar (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 481-482).

 

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya