Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ Mikill skíđaáhugi fór um Evrópu á síđasta áratug 19. aldar og fram yfir aldamót. Íslendingar fóru ekki varhluta af ţeirri

Skíđasaga Siglufjarđar: 1900-1920

Mikill skíðaáhugi fór um Evrópu á síðasta áratug 19. aldar og fram yfir aldamót. Íslendingar fóru ekki varhluta af þeirri áhugaöldu. Ungmennafélagshreyfingin, sem festi rætur sínar hér á landi upp úr aldamótunum 1900, hjálpaði til við að vekja áhuga landsmanna á íþróttinni. Í bókinni Skíðakappar fyrr og nú er talað um þjóðarvakningu  með tilkomu ungmennafélaganna, sem höfðu hvetjandi áhrif á æskulýð landsins sem fór að reyna fyrir sér í leik og keppni (Haraldur Sigurðsson, 1981: 100). Ungmennafélagið á Siglufirði var stofnað 17. júní 1917 og er íþróttahreyfingin næstum jafngömul kaupstaðnum. Skíðaíþróttin er sú grein sem Siglfirðingar eru hvað þekktastir fyrir og hafa margir fremstu skíðamenn landsins komið frá Siglufirði (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 480-481).

Fyrsta skíðafélag Siglfirðinga var stofnað árið 1920 og nefndist Skíðafélag Siglufjarðar. Ætla mætti að stofnun skíðafélags hafi markað upphaf skíðaíþróttarinnar sem keppnisgreinar en fyrsta skíðamót á Íslandi var þó haldið af Fljótamönnum og Siglfirðingum nokkru fyrir stofnun félagsins, eða árið 1905. Reyndar er vafasamt að fullyrða hvaða mót skuli telja fyrsta mótið, því til eru sagnir af ýmsum veðmálum og áheitum í kringum skíðaíþróttina áður en farið var að tala um eiginleg mót. Talið er að þetta tiltekna mót, árið 1905, hafi verið fyrsta opinbera mótið sem haldið var hér á landi, þar sem keppt var til ákveðinna verðlauna að viðstöddum keppnisdómurum. Mótið fór fram að Barði í Fljótum og keppt var í brekkurennsli niður af Barðshyrnunni. Keppendur voru 20 talsins en aðeins þrír stóðu brekkuna. Fyrstur var Ólafur Gottskálksson, sem hlaut 25 krónur í verðlaun og þóttu það afar höfðingleg sigurlaun. Skíðafærni Ólafs kom sér einkar vel, því hann stundaði dýralækningar og þurfti oft að fara yfir Siglufjarðarskarð, inn í Fljót eða yfir Hestskarð og Hólsdalsskarð inn í Héðinsfjörð (Haraldur Sigurðsson, 1981: 101-183).

Annað opinbera skíðamótið var haldið á Akureyri árið 1907. Keppendur voru tíu og áttu þeir að renna sér ofan af Vaðlaheiðarbrún og niður. Aðeins þrír keppendur stóðust þessa raun, þeirra á meðal var Sóphus Árnason sem seinna varð formaður Skíðafélags Siglufjarðar. Árið 1911 var haldið skíðamót á Akureyri fyrir nemendur Gagnfræðaskólans. Hvanneyrarbræður frá Siglufirði urðu hlutskarpastir á mótinu, en það voru þeir Beinteinn, Ásgeir og Lárus, synir Bjarna Þorsteinssonar (Haraldur Sigurðsson, 1981: 102-106). 


header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya