Skíðaiðkun virðist hafa náð vinsældum norðanlands á skömmum tíma samkvæmt Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings sem ferðaðist um Norðurland 1896. Eitt af því sem vakti athygli hans var leikni Norðlendinga á skíðum. Æfingin hefur sannarlega skapað margan meistarann en samkvæmt Ferðabók Þorvaldar byrjuðu börnin að æfa sig á fimmta eða sjötta aldursári, óhrædd við að renna sér niður brattar brekkur í hendingskasti. Þorvaldur fullyrti að Siglfirðingar, Fljótamenn, Ólafsfirðingar og Svarfdælingar hafi verið bestu skíðamenn landsins. Á þessum slóðum voru til mörg skíði á hverjum bæ (sbr. Friðrik G. Olgeirsson, 1988: 309-310).
Í bókinni Skíðakappar fyrr og nú segir að löngum hafi farið mikið orð af fræknleik Siglfirðinga og Fljótamanna á
skíðum og í því sambandi er vitnað til orða Guðmundar Hannessonar í mótsskrá frá 1944: ,,Áður en skipulagt kapp og
metnaður vakti Siglfirðinga til skíðaafreka, var það náttúran sjálf og þarfir þess daglega lífs, sem kenndi kynslóðum
héraðsins og næstu héraða meiri skíðafærni, en kunnugt er um annarsstaðar á landi hér“ (Haraldur Sigurðsson, 1981:
98).
Margar kynslóðir Siglfirðinga hafa ferðast yfir Hestskarð á skíðum og víluðu ekki fyrir sér að bera barn á bakinu til að
færa til skírnar, sem varð samkvæmt kirkjunnar lögum að gera innan ákveðins tíma. Einnig var altítt að Siglfirðingar og
Fljótamenn færu niður Siglufjarðarskarð með annan mann fyrir aftan sig á skíðunum. Til er frásögn af Ólafi Þorsteinssyni,
frá Staðarhóli í Siglufirði, sem renndi sér niður af Hestskarði milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar með kistu með
stálpuðu barnslíki bundna á bak sér. Þetta mun hafa verið laust eftir 1860. Einnig var Einar B. Guðmundsson á Hrauni í Fljótum
umtalaður fyrir skíðaafrek sín, en hann fór á gamals aldri yfir Siglufjarðarskarð með kvenmann á skíðum fyrir aftan sig (Haraldur
Sigurðsson, 1981: 98-99).
Skíði voru eina færa leiðin til að ferðast um þessar slóðir að vetrarlagi og afreksferðir pósta, lækna og ljósmæðra ófáar. Jakobína Svanfríður Jensdóttir Stæhr var vel þekkt ljósmóðir í Siglufirði. Elstu skíðin sem varðveitt eru á Siglufirði voru í hennar eigu og eru brennimerkt með skammstöfuninni ,,ljósm.“ Skíðin eru frá 19. öld og þau notaði Jakobína til að sinna umdæmi sínu sem var Siglufjörður, Siglunes, Héðinsfjörður og Úlfsdalir (sbr. RMH/2008: Bjarni Þorsteinsson). Jakobína var fædd á Ási í Eyjafirði 26. júlí 1866 og lést á Siglufirði 5. júní 1931. Hún var lærð ljósmóðir og réðst til þeirra starfa á Siglufirði árið 1890. Í bókinniFrá Hvanndölum til Úlfsdala segir að Jakobína hafi þótt heppin í starfi, ákveðin og dugleg (Sigurjón Sæmundsson, 1986: 477-478).