Ef marka má árangur Ólafsfirðinga á undanförnum árum er gangan að verða þeirra helsta keppnisgrein á ný. Afkomendur
skíðakappa liðinnar aldar eru arftakar þeirra og engu líkara en að skíðaíþróttin sé Ólafsfirðingum í
blóð borin. Þeir skíðamenn sem hafa haldið kyndlinum á lofti fyrir hönd Ólafsfirðinga á nýrri öld eru Elsa Guðrún
og Svava, dætur Jóns Konráðssonar og Kristján og Lísebet, börn Hauks Sigurðssonar (sbr. tölvupóstur frá Birni Þór
Ólafssyni, 2008). Hér að framan hefur hlut kvenna í skíðaíþróttinni lítið verið getið. Eins og áður hefur
komið fram varð Emma Árnadóttir skíðadrottning árið 1940. Í sögu Ólafsfjarðar er kvenna ekki getið á ný í
sambandi við skíðaíþróttina fyrr en 40 árum síðar, en þá hlaut Guðný Ágústsdóttir bronsverðlaun
á Íslandsmóti og Sigrún Konráðsdóttir stóð sig með prýði á Unglingameistaramóti sem haldið var í
Ólafsfirði sama ár, 1980 (Friðrik G. Olgeirsson, 1991: 259). Þær Elsa Guðrún, Svava og Lísebet hafa allar orðið margfaldir
Íslandsmeistarar í göngu og greinilegt er að ólafsfirskar konur eru að hasla sér völl í greininni.
Aðstæður til skíðaiðkunar eru góðar í Ólafsfirði af náttúrunnar hendi en þar hefur líka ýmislegt
verið gert af mannavöldum til að gera aðstöðuna sem besta fyrir skíðafólk. Á vefsvæði Fjallabyggðar segir að í
Ólafsfirði séu kjöraðstæður til vetraríþrótta og aðstaða til skíðaiðkunar óvíða betri.
Göngubrautir eru lagðar um bæinn og Skíðafélag Ólafsfjarðar stendur einnig fyrir gönguferðum í nágrenni bæjarins (sbr.
http://fjallabyggd.is/is/page/afthreying_1) Á heimasíðu Skíðafélags Ólafsfjarðar eru nánari upplýsingar um aðstöðuna.
Ný ljósabraut er sunnan við skíðasvæðið og á svæðinu er ein 650 metra löng Doppelmayr diskalyfta og möguleiki á að
setja upp litla togbraut. Þar eru góðar svigbrautir. Einn troðari er á svæðinu og aðgangur að öðrum á álgstímum. Í
glæsilegum skíðaskála Skíðafélagsins er boðið upp á ýmis konar veitingar. Í skálanum er svefnloft þar sem
u.þ.b. 25 manns geta gist í svefnpokum (sbr. http://skiol.fjallabyggd.is/is/page/skidasvaedid).