Á níunda áratugnum héldu
Ólafsfirðingar uppteknum hætti og sópuðu að sér verðlaunum á Íslandsmeistaramótum. Upp úr miðjum níunda
áratugnum voru Ólafsfirðingar þó að tapa yfirburðum sínum í göngu fyrir Ísfirðingum sem þá voru að hasla
sér völl í göngunni. Friðrik G. Olgeirsson kallar árin 1976-1987 gullaldarár Ólafsfirðinga hvað árangur í göngu snertir.
Ólafsfirðingar sóttu hins vegar á í svigi og stórsvigi með Kristinn Björnsson í fararbroddi. Kristinn varð Íslandsmeistari í
stórsvigi 1991 og var það fyrsti Íslandsmeistaratitill Ólafsfirðinga í alpagreinum. Faðir Kristins er Björn Þór Ólafsson, sem
var helsti áhrifamaður skíðaíþróttarinnar um árabil og vann mikið að framgöngu íþróttarinnar í
Ólafsfirði. Björn Þór er margfaldur Íslandsmeistari í skíðastökki og norrænni tvíkeppni og hefur keppt oftar á
Íslandsmótum en nokkur annar Íslendingur (Friðrik G. Olgeirsson, 1991: 259-261). Í september 2008 hafði ég samband við Björn Þór
með tölvupósti og sendi hann mér nafnalista þeirra sem skarað hafa fram úr í skíðaíþóttum á Ólafsfirði
síðustu ár og áratugi. Synir hans, þeir Kristinn og Ólafur Hartwig hafa staðið sig með mikilli prýði og er Kristinn einn fremsti
skíðamaður þjóðarinnar. Kristinn er margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum og hefur náð lengst íslenskra skíðakappa
á erlendum vettvangi. Hann varð meðal annars tvisvar í öðru sæti á heimsbikarmótum og hefur lent í 15. sæti á heimslista. Hann
hefur fjórum sinnum tekið þátt í Ólympíuleikunum og keppt fjórum sinnum á Heimsmeistaramótum. Björn nefndi marga fleiri
skíðakappa frá Ólafsfirði sem skarað hafa fram úr í íþróttinni. Bræðurnir Gottlieb og Jón Konráðssynir
náðu langt á áttunda og níunda áratugnum og voru margfaldir Íslandsmeistarar í göngu. Þeir hafa báðir keppt á
erlendri grundu og eiga stóran þátt í afrekum skíðamanna í lok liðinnar aldar. Haukur Sigurðsson og Guðmundur Garðarsson létu til
sín taka um svipað leyti og þeir Konráðssynir og urðu einnig margfaldir Íslandsmeistarar í göngu. Þeir hafa báðir keppt á
mótum erlendis og hefur Haukur meðal annars tekið þátt í Ólympíuleikum. Á síðari hluta 20. aldar voru einkum tveir
Ólafsfirðingar sem sköruðu fram úr í stökki, norrænni tvíkeppni og göngu, en það voru þeir Ólafur Hartwig
Björnsson og Þorvaldur Jónsson, sem báðir urðu margfaldir Íslandsmeistarar. En af fleiri góðum göngumönnum frá
Ólafsfirði frá sama tímabili má nefna Sigurgeir Svavarsson og Finn Víði Gunnarsson, sem báðir urðu margfaldir Íslandsmeistarar (sbr.
tölvupóstur frá Birni Þór Ólafssyni, 2008).