Þann 7. febrúar 1936 hélt Skíðafélag Siglufjarðar aðalfund á Hótel Siglufirði. Í stjórn þess voru kosnir: Vilhjálmur Hjartarson formaður, Sveinn Hjartarson gjaldkeri, Sigurður Gunnlaugsson ritari og Björn Jónsson og Guðlaugur Gottskálksson meðstjórnendur. Hinn 2. ágúst sama ár var Skíðafélagið Siglfirðingur stofnað. Í stjórn þess voru Sóphus Árnason formaður, sem var fyrsti formaður Skíðafélags Siglufjarðar, Gestur Fanndal varaformaður, Sigurður Gunnlaugsson ritari, Björn Jónsson gjaldkeri og Óskar Sveinsson. Þrír úr stjórn Skíðafélags Siglufjarðar voru meðal stofnenda Skíðafélagsins Siglfirðingur og þar af tveir í stjórn þess (Bragi Magnússon, 1970).
Árið 1932 stóð Skíðafélag Siglufjarðar fyrir byggingu skíðaskála uppi undir Siglufjarðarskarði, en hann var aldrei fullgerður þar heldur fluttur á Saurbæjarás og tekinn þar í notkun (Bragi Magnússon, 1970). Skíðafélagið Siglfirðingur reisti skíðaskála strax á fyrsta starfsári, í hlíðinni fyrir ofan Steinaflatir, og nefndi hann Skíðaborg. Skíðafélagið Siglfirðingur var síðar nefnt Skíðaborg, líkt og skíðaskálinn (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 482). Sumir vilja meina að skíðaskálarnir tveir hafi verið undirrótin í deilunum á milli félaganna því þegar húsin voru rifin og sameiginleg aðstaða var gerð að Hóli þá breyttist allt og menn gleymdu um leið hver var í hvaða félagi (sbr. RMH/2008: Guðmundur Árnason). Í sögu Siglufjarðar segir að skipting siglfirsks skíðafólks í tvö félög hafi verið mjög óheppileg að flestu leyti. Það hafi komið í ljós þegar skíðafélögin sendu skíðakappa sína til þátttöku í landsmótum eða öðrum skíðamótum utan Siglufjarðar og einnig þegar félögin efndu til skíðamóta hvort í sínu lagi heima fyrir (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 482). Í öðrum heimildum kemur aftur á móti fram að það hafi verið talinn kostur að hafa tvö félög því það hefði fært meira kapp í skíðamenn og þeir hafi lagt sig harðar fram. Þrátt fyrir það hafi Siglfirðingar alltaf staðið saman á utanbæjarmótum (sbr. RMH/2008: Alfreð Jónsson, Guðmundur Árnason, Valey Jónasdóttir, Hólmsteinn Þórarinsson).
Bragi Magnússon starfaði mikið í nýja félaginu, var í stjórn í nokkur ár og formaður í eitt ár. Í ágripi sínu af 50 ára sögu félagsins segir hann frá því þegar hann kom fyrst að félagsstörfum á fimmta áratugnum: ,,Þá varð ég var við kritinn svo um munaði. Hann var ekki bara á aðra hliðina. Hann var gagnkvæmur og hugmyndaauðgin nær takmarkalaus til að gera hinum aðilanum grikk.“ Bragi nefnir sem dæmi að eitt árið hélt nýja félagið stökkmót að Steinaflötum. Gamla félagið hélt göngumót sama dag og á sama tíma og lagði göngubrautina yfir flöt stökkbrautarinnar. Þessi grikkur var kærður til ÍSÍ, sem vísaði kærunni frá (Bragi Magnússon, 1970). Eftir að félögin sameinuðust hætti þessi rígur, sem var ekki síður á milli stjórnenda og áhangenda útí bæ en milli keppenda félaganna tveggja (sbr. RMH/2008: Alfreð Jónsson). Sumir töldu að rígurinn hefði sett ljótan skugga á bæjarfélagið og því hafi sameiningin verið af hinu góða. Í kjölfar sameiningarinnar hafi komist meiri regla á starfsemina, enda þverstæðukennt að hafa tvö skíðafélög í jafn litlu bæjarfélagi og Siglufjörður var orðin á þessum árum (sbr. RMH/2008: Aðalheiður Rögnvaldsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Jóhann Vilbergsson).
Í sögu Siglufjarðar segir að menn hafi fljótt séð nauðsyn þess að sameina félögin og var það mál tekið til umræðu á ársþingi Íþróttabandalags Siglufjarðar. Kosin var nefnd til þess að vinna að sameiningu félaganna, ásamt fulltrúum beggja félaga. Þeir sem kosnir höfðu verið af hálfu Íþróttabandalags Siglufjarðar voru Bragi Magnússon, Þórir Konráðsson og Ásgrímur Stefánsson. Fulltrúar Skíðafélagsins Siglfirðings voru Helena Guðlaugsdóttir, Guðrún Alfonsdóttir og Jónas Ásgeirsson, og fulltrúar Skíðafélags Siglufjarðar voru Haraldur Pálsson, Ólafur Jóhannsson og Jóhann G. Möller. Nefndin kom fyrst saman til fundar snemma árs 1950 (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 482). Fyrsta raunverulega tilraunin til að sameina félögin strandaði á ágreiningi um nafn nýja félagsins, því hvor aðili um sig vildi halda sínu nafni. Þann 14. febrúar 1950, bar Bragi Magnússon fram þá tillögu að hið sameinaða félag yrði nefnt Skíðafélag Siglufjarðar – Skíðaborg. Tillagan fékk fremur jákvæðar undirtektir en þó var ekki gengið endanlega frá sameiningu félaganna fyrr en 1951. Voru þá eldri félögin tvö lögð niður og ber hið sameinaða félag síðan nafnið Skíðafélag Siglufjarðar – Skíðaborg (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 482). Heimildum ber ekki saman um hvenær félögin tvö voru sameinuð, en samkvæmt ágripi Braga Magnússonar var það ekki fyrr en 2. nóvember 1952 (Bragi Magnússon, 1970). Alfreð Jónsson, sem þá var formaður Skíðafélagsins Siglfirðings, taldi miður þegar ákveðið var að sameina félögin. Hann lýsti því yfir að hann myndi hætta störfum ef félögin yrðu sameinuð, og stóð við það. Upp frá því skipti hann sér ekki meira af skíðamálum og flutti frá Siglufirði (sbr. RMH/2008: Alfreð Jónsson).