Skķšasaga fjallabyggšar

/**/ /* /*]]>*/ 18. jśnķ 2008  Aš heimili Skarphéšins Gušmundssonar, Laugarvegi 24 Siglufirši. Skarphéšinn Gušmundsson er fęddur 10. aprķl 1946 į

Skarphéšinn Gušmundsson

18. júní 2008

 Að heimili Skarphéðins Guðmundssonar, Laugarvegi 24 Siglufirði.

Skarphéðinn Guðmundsson er fæddur 10. apríl 1946 á Nefstöðum í Stíflu í Fljótum en fluttist til Siglufjarðar strax á fyrsta ári. Hann hefur alltaf átt heimili á Siglufirði en farið í burtu tímabundið til náms og vinnu. Skarphéðinn er byggingameistari að mennt og hefur starfað mikið við byggingavinnu. Hann rak lengi fyrirtæki sem hét Tréverk. Auk þess er Skarphéðinn með kennaramenntun, og hefur réttindi til bæði grunnskóla- og framhaldsskólakennslu. Hann hefur starfað við kennslu frá 1979. Þegar hann var að byrja að kenna var rekin framhaldsdeild á Siglufirði líka og hann starfaði bæði við grunn- og framhaldsskólakennslu. Auk þess hefur hann verið í bæjarpólitíkinni og í bæjarráði í 20 ár.    

Foreldrar hans voru Guðmundur Antonsson og Árný Sigurlaug Jóhannsdóttir, bæði fædd og uppalinn í Fljótunum. Faðir hans var lengi verkstjóri á síldarplani og svo í verslun Kaupfélagsins. Seinni árin vann hann í Sigló síld og Þormóði ramma. Móðir hans vann í síldinni.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Maður byrjaði náttúrulega að fara á skíði bara sem barn og unglingur. Minn skíðaferill hann er nú bara, hann nær fram til 19-20 ára aldurs. Þá hætti ég að keppa. Þannig að ég er þarna aðallega í yngri flokkunum.“ Eftir það vann hann mikið við mót, leggja brautir og sjá um mót. ,,Maður var svona að skila svolitlu til baka af því sem maður hafði fengið frá fórnfúsum aðilum áður fyrr, þegar maður var að keppa sjálfur.“

Hvers vegna ákvaðst þú að hætta að keppa?

,,Fyrst og fremst var það vinnan. Maður var komin með heimili og maður var komin með fyrirtæki og það skorti bara tímann til að fylgja þessu eftir.“

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun?

,,Ætli ég hafi nú ekki haft fyrirmyndina sem var eldri bróðir minn, þremur árum eldri en ég. Hann byrjaði að keppa dálítið á undan mér og honum gekk mjög vel.“ Bróðir hans og fyrirmynd var Gunnar Guðmundsson.

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum?

,,Á þessum tíma voru þau nú ekki mikilvæg til að koma sér á milli staða, það var nú svona svolítið liðin tíð en hins vegar man ég eftir því að þá var innilokun á Siglufirði mjög mikil, það var áður en göngin koma, Strákagöngin, þá var hér ófært kannski átta mánuði ársins, landveginn. Ég man eftir því að við löbbuðum á skíðum inn í Fljót inn á Ketilás, kepptum þar á skíðum, gistum kannski eina nótt og svo löbbuðum við bara til baka. Og þetta þóttu nú alls ekki nein afrek en það þætti örugglega afrek í dag að gera þetta. Maður labbaði alveg frá húsdyrum hérna, það var ekki farið neitt á bíl og eins úr Fljótum, við löbbuðum alveg inn á Ketilás. Ég man eftir því að við gistum inn á Bjarnagili, hjá Trausta Sveinssyni sem var þá á kafi í að keppa líka. Svo var keppt, við löbbuðum inn eftir og slöppuðum af þarna um kvöldið og nutum góðra veitinga hjá þeim hjónum, Sibbu og Trausta. Svo daginn eftir þá var keppt, þegar maður var svo búin að fá heitt kakó að drekka eftir, búin að keppa kannski í ýmist 10 eða 15 kílómetra göngu þá var bara lagt af stað gangandi heim á Sigló aftur, þannig að þetta sýnir að maður hefur nú örugglega verið í góðu formi.“

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Það var algengt að það kæmu hingað erlendir skíðakennarar, bæði norskir og finnskir. ,,Það var ekki mikið um skipulagðar æfingar, maður æfði samt svona, við bræðurnir æfðum dálítið og þá kannski með einum eða tveimur öðrum. Maður æfði þegar maður hafði tíma. Það var farið á skíði náttúrulega daglega þegar snjórinn var kominn. Ég man eftir eitt haustið þá vorum við að vinna dálítið mikið og þá notuðum við matartímann til að hlaupa hér upp í Hvanneyrarskál, sem er hér upp undir fjallsbrún, nei, upp í Fífladali, sem er dálítið hærra heldur en Hvanneyrarskálin. Þetta hlupum við upp í hádeginu og borðuðum líka og við tókum bara klukkutíma í mat eins og aðrir. Þannig að við vorum komnir í mjög gott form þegar snjórinn kom.“

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

Margir voru í fótbolta. Skarphéðinn var mikið í fimleikum og telur að það hafi verið mjög gott meðfram skíðaíþróttinni. Hann var í fimleikahóp sem var kallaður fimleikahópur Helga Sveinssonar. Hópurinn ferðaðist um landið til að sýna fimleika, en á þessum tíma var lægð í fimleikum og hefur hópurinn líklega verið sá eini á landinu sem sýndi.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn?

,,Ég held, að ef eitthvað er, þá hafi það bara verið til góða. Maður horfir á það. Ég horfi á það í dag sem kennari að krakkar sem eru í ýmsu með skólanum, tónlistarskóla og öðru, þeim vegnar yfirleitt bara betur í skólanum. Þessir krakkar læra að skipuleggja sig, nýta tímann betur.“

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina?

,,Nei það var nú ekki dýrt, en maður varð náttúrulega að kaupa skíðabúnaðinn.“ Yfirleitt sá skíðafélagið um ferðakostnað. Reynt var að halda kostnaði í lágmarki, það var t.d. vináttusamband á milli Ísafjarðar og Siglufjarðar og það fyrirkomulag haft á að keppendur fengu að borða í heimahúsum á meðan keppnir stóðu yfir.

Hvenær byrjaðir þú að keppa?

,,Ætli ég hafi ekki keppt fyrst á landsmóti 1963.“ Það mót var haldið á Siglufirði. ,,Það var mjög snjólétt og stóð til að halda mótið upp á Súlum og upp í Skarði en svo bara rétt, ég held að það hafi verið daginn áður en mótið átti að byrja, þá skall hér á með miklu norðanveðri og hríð og það fór allt á kaf þannig að mótið var haldið bara hérna niður í bæ. Það skall á það skarpt að það var fólk að vinna upp í Skarði við að leggja brautir þegar hann brast á og það átti bara svona, það var erfitt að komast í bæinn. Það komst hérna niður að fyrstu húsunum og fór þar inn í kaffi bara, að ná sér.“ Siglfirðingum gekk vel á mótinu og fengu öll gullverðlaunin sem keppt var um og einnig mikið af silfri og bronsi.

Hverjar voru helstu keppnisgreinar?

Það voru skíðaganga og alpagreinar, sem voru svig og stórsvig og svo var keppt í stökki. ,,Stökkið var æft dálítið mikið á Siglufirði og stundað og Siglfirðingar einokuðu stökkið mjög lengi, svo komu Ólafsfirðingar inn í það, dálítið sterkt, seinna. En mjög lengi þá voru Siglfirðingar þarna langbestir í stökkinu. Ég get nú sagt þér eina skemmtilega sögu af því, það var Íslandsmótið í Reykjavík, þá var búið að gera stökkpall á Kolviðarhól, hann var nú ekkert mjög stór, þá voru menn að stökkva hérna á milli 50-60 metra. Það kemur þarna maður á mótið og hann er svona að grobbast af því að það sé búið að gera þarna stökkpall og menn hafi verið að æfa sig þarna í stökki. Og hann segir frá því líka að menn hafi verið að stökkva þarna milli 20 og 30 metra og þykir það nú greinilega dálítið gott bara. Þá var einn í hópnum, af Siglfirðingunum, heitir Geiri Sigurjóns, þá laumaði hann mjög hóflega út úr sér, þegar hann heyrði lengdina, að þeir væru að stökkva þarna milli 20 og 30 metra, þá sagði Geiri: er það innanhúss. Honum þótti ekki meira til komið en það.“

Hvaða grein/greinar lagðir þú fyrir þig?

Skarphéðinn var mest í göngu en æfði líka stökk á yngri árum. Hann keppti eingöngu í göngu. Það var um tvær vegalengdir að ræða, 10 og 15 kílómetra. Skarphéðinn keppti mest í 10 kílómetrunum af því hann var í yngri flokkunum. Í elstu flokkunum var keppt í 15 og 30 kílómetra göngu. ,,En maður fékk að keppa á móti þessum elstu í boðgöngu, aðilar sem voru að keppa í 17-19 ára flokki, þeir máttu keppa í boðgöngunni. Þá var bara blandað sterkasta liðið í boðgöngu. Þá var boðganga fjórum sinnum 10 kílómetrar, það voru fjórir aðilar og hver gekk 10 kílómetra. Það var svolítið gaman að keppa í þessu því að þegar ég var 19 ára þá var ég nú í mínu besta formi. Við vorum með tvær sveitir í tvö til þrjú ár í boðgöngu. Þá vann ég nú það afrek að ég vann besta tímann af þeim öllum, bæði fullorðnum og 17-19 ára. Það var ágætt veganesti fyrir mig svona til þess að lifa á seinna, af því að ég hætti þarna.“ Árið eftir átti Skarphéðinn að keppa í 20 ára og eldri. Hann var að vinna mikið um veturinn við að byggja strákagöngin og hafði engan tíma til að æfa. Hann taldi sig samt vera í góðu formi, vegna þess að honum hafði gengið svo vel veturinn áður. ,,Sem var nú greinilega rosalegt vanmat hjá mér því ég man eftir því, þegar ég lagði svo af stað í 15 kílómetra göngu þarna, að aðilar sem ég hafði verið að æða framúr í boðgöngunni veturinn áður, þeir æddu þarna fram úr mér og ég gat ekkert annað en bara horft á eftir þeim. Það sýnir það nú bara hvað maður getur verið fljótur að falla niður í þjálfun. Ég lærði mikið á þessu. Meðal annars það að ef maður ætlar að keppa í þessu þá þýðir ekkert annað en að stunda þetta.“ Skarphéðinn var á þessum tíma komin með fjölskyldu og lét vinnuna og fjölskyldulífið ganga fyrir.

Hvað getur þú sagt um flokkaskiptingu?
Flokkað var eftir aldri í göngu en í boðgöngu og flokkasvigi voru teknir sterkustu einstaklingarnir í sveitirnar.

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?

,,Ég átti þarna bróður sem var margfaldur Íslandsmeistari og hann var náttúrulega alltaf ákveðin fyrimynd. Svo voru náttúrulega aðilar sem voru að keppa úti þá, það voru menn sem höfðuðu til manns svolítið fyrir góðan stíl og góðan árangur. En á þessum árum var nú ekki sjónvarp sem maður gat fylgst með eins og í dag en maður fylgdist þó með þessum aðilum, í gegnum útvarp og blöð og annað. Ég man eftir því að þegar ég náði þessum árangri í boðgöngunni þarna, þá var nú bróðir minn að keppa með líka. Hann er rosalegur keppnismaður, mikið skap í honum. Ég fór fyrsta sprettinn og ég man eftir því að þegar ég lagði af stað þá sagði hann: ,,Ef þú stendur þig ekki drengur, og kemur fyrstur, þá drep ég þig þegar þú kemur í mark.“ Það var nú hlegið dálítið mikið að þessu, að ég hafi ekki þorað öðru en að koma fyrstur í mark. En svo plataði ég hann nú að því leyti að hann var búin að vinna bæði 15 og 30 kílómetrana á þessu móti, að ég skyldi svo ná betri brautartíma en hann. En hann fékk nú þyngra færi þarna. Hann gekk síðastur og það var orðið svolítið þyngra færi þannig að það getur líka verið svolítill munur á því hvenær þú gengur.“

Hvar í röðinni þótti þá best að ganga?

,,Það var svo misjafnt, þú gast fengið besta færið ef þú fórst fyrst og þú gast fengið besta færið ef þú fórst síðast. Það var bara hlutur sem var ekkert hægt að reikna út. En við röðuðum oft þannig niður að við röðuðum yfirleitt alltaf sterkasta aðilanum síðast, létum hann ganga síðast. Og oft var það líka að maður lét sterkan aðila fara af stað. Það svona jók sjálfstraustið að koma vel út úr fyrsta hringnum. En auðvitað svo er alltaf heldur betra að eiga sterkan aðila síðast. Því hann getur jafnvel náð meira út úr sjálfum sér ef hann sér að það er stutt í að ná manni.“

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Það skipti gríðarlega miklu máli. Það var nú alltaf haldið fram við mig að ég væri nú ekkert með mikið keppnisskap, ég hugsa að það hafi nú verið dálítið til í því en auðvitað er metnaður í öllum. Maður vildi keyra með og gera vel. En sérstaklega þegar ég var að byrja þá var ekkert voðalega mikið keppnisskap í mér en metnaðurinn kemur nú alltaf, verður alltaf meiri eftir því sem aðilinn verður betri og sér meiri árangur, þá eykst keppnisskapið.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

,,Menn hafa náttúrulega misjafna eiginleika, og það fer eftir greinum líka. Það er nú bara þannig að sumir eru hreinlega fæddir þannig að þeir hafa betri eiginleika til að ganga á skíðum eða stunda alpagreinar eða annað. Menn þurfa að vera þokkalega liprir. Þess vegna 

held ég að það sé mjög gott fyrir alla aðila sem stunda skíði, að stunda leikfimi líka. Svo auðvitað þetta fræga keppnisskap sem kemur sér nú til góða, þó það þurfi að hafa hemil á því. Svo líka, það þarf að vera með mikinn sjálfsaga, og viljasterkur, af því að þú ert mjög mikið að æfa einn eða  með einhverjum og það er náttúrulega langmest undir þér sjálfum komið að fylgja einhverju kerfi eftir og stunda þetta. Þannig næst mestur árangur.“

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? Segðu frá

Guðmundur Guðmundsson var frægur skíðakóngur og hann notaði þennan titil dálítið þegar hann skrifaði bréf og annað. Hann skrifaði þá undir Guðmundur Guðmundsson skíðakóngur Íslands. ,,Einhvern tíma hefur hann sjálfsagt unnið þennan titil, og þeir sem að voru sko, unnu göngu og stökk samanlagt, ég held að þeir hafi tekið þennan titil oft, skíðakóngur Íslands, á hverjum tíma en ég heyrði ekki um fleiri sem höfðu notað þetta, en þennan aðila. Það var nú stundum talað um að þessi væri skíðakóngur eða þessi væri skíðadrottning, en ekkert formlega.“

Segðu frá gullpeningum og bikurum

Það var minna lagt í verðlaunagripi þá en nú. En það var bikar fyrir fyrsta sæti og svo var silfur peningur og brons fyrir annað og þriðja sætið. Það voru ekkert alltaf veitt verðalun. Einu sinni fór Skarphéðinn á Norðurlandsmót og vann þar og Siglfirðingar stóðu sig sérlega vel á því móti. ,,Mér er svolítið minnisstætt þetta mót út af því að við fórum sjóleiðina inn á Akureyri og áttum svo að fara einum degi seinna heim heldur en gert var. Þá kom boð að heiman um að drífa sig í bíl út á Dalvík, það kæmi bátur að ná í okkur af því að þá var fjörðurinn hérna að fyllast af ís, menn voru hræddir um að við mundum bara ekki komast í bæinn.“ Það átti svo að senda verðlaunin á eftir keppendum til Siglufjarðar en þau skiluðu sér aldrei. ,,Það var nú kannski ekki mikil synd en samt man ég þetta ennþá.“ Stundum fengu menn farandbikar, en honum fylgdi alltaf bikar til eignar.

Lýstu skíðum, skíðaskóm, bindingum og fatnaði

,,Ég man eftir því að í sviginu þá voru svokallaðar ólar að byrja, tóku við af gormabindingum. Þá var ekkert öryggi á þessu, menn voru í fastri tá, sem kallað var. Þetta gerði það að verkum að menn voru mjög mikið að brjóta sig. Svo komu þessar öryggisbindingar seinna sem gerðu það að verkum að við vonda byltu þá losnuðu menn úr skíðunum. Nú á gönguskíðunum þá var svolítil þróun líka á þessum bindingum og klæðnaði. Þegar maður var að enda þá var maður kominn í mun þægilegri og betri búninga heldur en þegar maður var að byrja í þessu. Skíðin voru líka að skána mikið á þessum árum, þegar ég er að byrja að keppa þá voru þetta bara timburskíði með timbursólum en þegar ég er að enda þá eru komin þarna skíði sem eru með plastsólum og runnu miklu betur. Skórnir voru líka að skána alltaf, þeir fóru dálítið eftir bindingunum. Skórnir sem við vorum með á gönguskíðunum voru með svolítið langa tá, sólinn stóð dálítið fram úr sjálfum skónum og festingin var sem sagt á þessari tá á skónum til þess að geta verið sem lausastur í skíðunum þannig að hællinn væri alveg frjáls að fara upp og niður. Stafir voru líka að batna þarna.“ Þetta var allt saman innflutt. Í lok ferilsins voru komnir sérstakir keppnisbúningar. Þá voru allir Siglfirðingar eins klæddir á landsmótum, enda var búið að sameina félögin tvö. ,,Ég man eftir búningum sem við héldum dálítið upp á, þeir voru í fánalitunum okkar, bláir, hvítir og rauðir. Þannig að við vorum svolítið skrautlegir í þeim.“ Æfingafatnaðurinn voru skíðabuxur sem voru með teygju niður fyrir ilina. Buxurnar gáfu eitthvað eftir og voru þægilegar.

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu?

,,Það voru yfirgnæfandi strákar. En þegar ég er á skíðunum þá áttum við tvær eða þrjár stúlkur sem voru bara mjög góðar í svigi. Kepptu í því og voru mjög duglegar að vinna titla fyrir Siglufjörð.“ Þetta voru þær Árdís Þórðardóttir, Þórdís Júlíusdóttir og Kristín Þorgeirsdóttir. Kristín var eldri en hinar tvær og var að ljúka sínum ferli þegar hinar voru að byrja. ,,Árdís var mjög góð á þessum árum, hefði alveg getað keppt við strákana.“

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

Keppnisandinn var góður og þessu fylgdi líka félagsskapur og félagsslíf. Það mynduðust vinatengsl á milli keppenda í mismunandi sveitafélögum. Til dæmis voru góð vinatengsl á milli Siglfirðinga og Ísfirðinga, Fljótamanna og Akureyringa. ,,Menn voru góðir vinir og allt svona þó að þeir kepptu og gerðu sitt besta á mótum. Þá var nú aldrei neitt verið að ergjast út af því. Það var nú svona sannur íþróttaandi hvað það snertir.“

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?   

,,Ísfirðingarnir voru helstu keppinautar þegar ég er í þessu, svo komu Akureyringar mjög sterkir þarna inn líka og svo seinna meir Ólafsfirðingar. Annars voru Ólafsfirðingarnir alltaf svolítið sterkir á þessum árum líka, fyrst í svigi og svo koma þeir upp í stökkinu og göngunni, þeir eru að koma þarna dálítið sterkir inn um það leyti sem ég er að hætta.“ Skarphéðinn nefnir Björn Þór fremstan Ólafsfirðinga. Skarphéðinn átti ekki neinn sérstakan keppinaut.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar?

,,Hún þætti nú ekki góð í dag. Maður lagði bara brautirnar á skíðunum, það var ekki neinn troðari eða neitt. Svo í minni tíð kom snjósleði sem var smíðaður aftan í svona plógur sem hægt var að leggja göngubrautir með og það var mjög mikil framför þegar það kom. Annars var þetta bara troðið með skíðunum. Þannig var það þegar verið var að búa til stökkpallana og annað þá tróðu menn bara fyrst lausfóta, héldust svona í hendur, fjöldinn var dálítið mikill, tróðu heilu brautirnar svona og svo var þjappað á eftir á skíðunum. Nú er þetta allt gert með troðurum.“

Segðu frá skíðaskálum

Það voru tveir skíðaskálar frá sitt hvoru skíðafélaginu í bænum. Annar skíðaskálinn var notaður þegar Skarphéðinn var að byrja. Það var skíðaskálinn sem stóð á Ásnum. ,,Þarna var bara stór salur inni og svo var þarna eldhús og annað, það var hægt að hita kaffi og kakó þarna. Það voru haldnar þarna samkomur líka, dansað og svoleiðis.“ Skarphéðinn segist hafa náð í skottið á þessum samkomum, hann rétt komin með aldur til að fara á samkomurnar þegar þær lögðust af. En þegar haldin voru mót var alltaf endað með góðri hátíð. ,,Það fylgdist nú dálítið að, að mikið af þessum skíðamönnum voru mjög góðir dansarar líka. Menn höfðu nóg úthald. Það var mikið dansað og mikið skemmt sér. Menn voru nú ekki mikið í óreglunni á þessum árum þannig að menn skemmtu sér mikið án þess að vera mikið með vín.“ Skarphéðinn segir að íþróttaiðkunin hafi haldið mönnum frá áfengis- og tóbaksneyslu.

Var einhver starfsmaður sem annaðist kaffisölu í skíðaskálanum?

Þetta var allt unnið í sjálfboðavinnu. Sumir unnu þarna helgi eftir helgi án þess að fá nokkuð greitt fyrir. Það var yfirleitt fullorðið fólk sem sá um þetta.

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Það er mikil breyting núna, miðað við hvernig þetta var þegar ég var að keppa, þegar það var mót suður á firði eða eitthvað þá kom bara stór hluti af bænum að horfa á. Það gerði mótin miklu skemmtilegri, mikið af áhorfendum, mikill áhugi, margir sem hvöttu. Svo voru það blessaðar konurnar eftir mótin sem voru með rjúkandi súkkulaði og heitar vöfflur og fínt. Þetta var allt unnið þá í sjálfboðaliðavinnu. Ég held að engum hafi dottið í hug að spurja um laun eða eitthvað fyrir þetta, þetta var svona annar tíðarandi.“ Bæjarbúar komu labbandi á mót því það voru ekki neinar samgöngur. Stemmningin var mjög góð í bænum og það var alltaf mikil eftirvænting fyrir mót og keppnir. Bæjarbúar fylgdust sérlega vel með landsmótum, bæði í alpagreinum og göngumótum. Skarphéðinn segir að göngumótin hafi þó alltaf verið betur sótt og stökkmótin voru líka sérlega vinsæl. ,,Þegar það var verið að stökkva hérna, þar sem kallað er Stóri boli og Litli boli þá var bara aragrúi af fólki sem var að horfa á.“ Menn stukku 50-60 metra á Stóra bola en 30 metra á Litla bola.

Veistu hvernig nöfnin eru tilkomin?

,,Nei ég veit það ekki. Stóra og litla nafnið kom nú bara til af mismunandi stærð á stökkpallinum en ég veit ekki hvernig bolanafnið er til komið, hvort þeir hafi þótt svona óárennilegir eitthvað.“

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segðu frá skíðalyftu

Það voru að koma skíðalyftur þegar Skarphéðinn var að byrja. Það voru frumstæðar skíðalyftur sem voru þannig að það var spil sett á dráttarvél og svo var blökk upp í fjalli og kaðall á þessu sem dró fólk upp.

Hvernig var hreinlætisaðstöðu háttað? 

Hreinlætisaðstaða var engin fyrr en byggð var íþróttamiðstöð á Hóli.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir? Var mikill munur á milli ára?

Það stóð frá því að snjórinn kom og fram á vor. ,,Lengi vel var haldið hér Skarðsmót sem var alltaf haldið um Hvítasunnu, það var svona slúttið, þá var keppt, að vísu bara í alpagreinum. Þetta voru mjög fjölmenn mót og það komu menn að í þetta, allir sem voru að stunda skíði. Um þetta leiti, þegar Skarðsmótin voru haldin þá var svona yfirleitt nálægt því verið að opna Siglufjarðarskarð, það hélst svolítið í hendur, ýtan var þarna upp frá að moka veginn til þess að gera fært í bæinn.“ Aðaltímabilið byrjaði ekki fyrr en í kringum jól og áramót. Það gat verið munur á milli ára hvenær það byrjaði, áður fyrr var hægt að halda nokkur mót fyrir jól. Veðráttan breyttist mikið, á árum áður var oft kominn mikill snjór í september, október en á seinni árum var ekki kominn neinn snjór að ráði fyrr en farið var að nálgast jólin. Skarphéðinn leggur líka áherslu á að atvinnulífið hafi haft mikil áhrif og breytingarnar þar á. Á síldarárunum var litla vinnu að fá yfir veturinn og þá höfðu menn meiri tíma til að stunda skíðin.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Brot voru algeng, sérstaklega fótbrot, áður en öryggisbindingarnar komu. Ólafur Þorsteinsson var læknir á sjúkrahúsinu á þessum árum og hann setti saman mikið af brotum. Skarphéðinn man eftir lærbrotum og þau voru ekki negld saman heldur þurftu menn að liggja með löppina upp í loft. Við löppina var fest lóð sem togaði í fótinn á meðan brotið var að gróa saman.

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Það var oft farið sjóleiðina. Það var farið með Esju eða Heklu eða Breið. Einu sinni var farið til Ísafjarðar með Skjaldbreið á mót og hún var 33 tíma á leiðinni. Það var stoppað á öllum smástöðum á leiðinni og margir urðu sjóveikir. Landhelgisgæslan hljóp stundum undir bagga og útvegaði varðskip milli Siglufjarðar og Ísafjarðar. Varðskipið var um 10-12 tíma á leiðinni og það þótti gott að geta verið komin til Ísafjarðar á þeim tíma. Varðskipin gátu siglt beint á milli, án viðkomu á öðrum stöðum. Í einni ferðinni var útkall. ,,Þá sneri það bara við og setti allt á fullt sem sýndi það að þegar þeir voru að ferja okkur á milli staða voru þeir ekkert að keyra neitt nálægt því á fullri ferð. Þetta þótti lúxus að fara með varðskipunum.“ Útkallið var reyndar afturkallað svo skíðafólkið komst á áfangastað samkvæmt áætlun. Þegar farið var til Akureyrar var stundum farið með minni bátum. Einhverjir gamlir skíðamenn áttu kannski bát sem þeir lánuðu til slíkra ferða. Einn báturinn var Hringur SI 34 og skipstjórinn var Jón Sveinsson, gamall skíðamaður.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Getur þú sagt mér frá því?

,,Það eru bara mjög ljúfar minningar hjá mér í sambandi við þessi skíðamót sem ég fór á. Ég tel mig nú bara heppinn að hafa fengið að upplifa það að taka þátt í þessu. En auðvitað svona gagnvart árangri, þegar maður lítur á það þá náttúrulega er ég dálítið stoltur af því þegar ég náði þessum besta brautartíma.“

Manstu eftir einhverjum sérstökum viðburðum/atburðum?

,,Okkur þótti náttúrulega rosalega ljúft þegar við unnum mikið af gulli, Siglfirðingar. Það var náttúrulega litið á þetta sem eina heild, keppendur sem fóru héðan og vorum bara oft með mjög góðan árangur. Það er nú ekki hægt að loka augunum fyrir því.“

Skarphéðinn vann mikið að skipulagsmálum eftir að hann hætti að keppa. Hann vann t.d. við að leggja brautir og undirbúa mót á Siglufirði. Þegar brautir voru lagðar var ýmist farið með kílómetramæli á hjóli eða spotta. Brautirnar voru mjög nálægt því að vera af réttri lengd. Svo þurfti að flagga og merkja brautirnar. Skarphéðinn rifjar upp snjólítinn vetur á Siglufirði, en þá þurfti að moka í brautirnar. Þetta var mikil skófluvinna og allt unnið í höndunum. Hólsáin var m.a. brúuð á tveimur stöðum. ,,Það var óhemjuvinna að halda brautinni. Það var svolítið hlýtt þegar það var verið að keppa. Við vorum með skóflur í brautinni og vorum alltaf að moka bara til þess að fólk lenti ekki í því að ganga bara á grasi.“ Tveimur dögum seinna var allur snjórinn af brautinni farinn. Skarphéðinn man ekki hvaða ár þetta var, en þetta var eftir að íþróttamiðstöðin á Hóli var byggð. Menn lögðu mikið á sig til þess að geta haldið skíðamótið á Hóli vegna þess að þá komu fleiri áhorfendur. Mögulegt hefði verið að færa mótið upp í Skarð en þannig hefði áhorfendum fækkað.

Hver voru viðurlög vegna brota á leikreglum?

,,Það var aðili sem missti ábyggilega titil einu sinni út af því af því að hann var ekki kominn upp í start þegar hann átti að fara í startið. Svigið var þannig að þá var betra að starta sem fyrst af því brautin grófst dálítið. Hann labbar upp brautina til þess að það sé ekki hægt að starta öðrum á meðan hann er á leiðinni upp en þeir ætluðu að starta bara öðrum út af því að hann var ekki mættur í startið. Þá voru ekki neinar lyftur og annað, maður þurfti að labba upp líka.“

Á landsmótum var alltaf mótsstjóri sem var yfir öllu. Það var ákveðin mótsstjóri fyrir göngu og annar fyrir svig, svo var brautarstjóri og portvörður. Portverðir voru þeir sem fylgdust með því að allir færu rétt í brautina í svigi og að enginn sleppti porti. Þetta var allt skráð niður og borið saman í lokin. Síðan voru tímaverðir sem voru á klukkunni og sáu um tímatöku. Einnig voru skrifarar sem sáu um að skrifa tímann hjá hverjum og einum keppanda. Í göngunni var algengt að það væru einir þrír sem skrifuðu. 

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya