SkÝ­asaga fjallabygg­ar

/* /*]]>*/ 25. j˙nÝ 2008 A­ heimili Sjafnar Stefßnsdˇttur og R÷gvalds ١r­arsonar, Laugarvegi 32 Siglufir­i. Sj÷fn Stefßnsdˇttir er fŠdd ß Siglufir­i

Sj÷fn Stefßnsdˇttir

25. júní 2008

Að heimili Sjafnar Stefánsdóttur og Rögvalds Þórðarsonar, Laugarvegi 32 Siglufirði.

Sjöfn Stefánsdóttir er fædd á Siglufirði 3. mars 1943. Hún hefur átt heima á Siglufirði frá fæðingu. Sjöfn er gift Rögnvaldi Þórðarsyni og saman eiga þau fjóra drengi. Foreldrar Sjafnar voru Guðrún Hafdís Ágústdóttir og Stefán Valgarð Þórarinsson, bæði frá Siglufirði. Stefán var fæddur 1914 og Guðrún 1915, þau eru bæði látin. Faðir hennar var verkamaður, stúari, sem kallað var, móðir hennar var heimavinnandi húsmóðir, var mikið í síldinni á sumrin og vann tímabundið við þrif í skólanum. Sjöfn hefur starfað á leikskólanum á Siglufirði síðan 1974. Áður hafði hún starfað tvö sumur á sumarheimili fyrir börn.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Ætli það hafi ekki verið í blóðinu upphaflega, vegna þess að maður er alin upp með fólki sem var svo mikið á skíðum. Og þá náttúrulega voru svo sem engar græjur eða neitt, hálfgerðir tunnustafir fyrst þegar maður byrjaði. Svo bara eftir það lagaðist þetta smám saman en við vorum aldrei í neinum smelluklossum eða öryggisbindingum eða neinu svoleiðis.“ Þetta voru bara venjuleg tréskíði til að byrja með en svo komu stálkantar á hliðarnar á skíðunum sem voru brýndir, svo var straujað undir skíðin með strauboltum. Skíðin voru bundin upp á fótlegginn og það var ekki nokkur leið að hreyfa sig í þessu. Af þeim sökum var mikið um fótbrot og slys. Sjöfn slasaðist þó aldrei við skíðaiðkunina. Útbúnaðurinn var innfluttur, mikið frá Noregi. Sjöfn segir að skíðin hafi verið heimasmíðuð til að byrja með, en það hafi verið fyrir hennar tíð. Sjöfn byrjaði að vera á skíðum um 1955-1956. ,,Það var ekkert annað, þá var maður bara á skíðum, allan heila veturinn. Það er ekki hægt að miða við þetta eins og þetta er í dag, þá var alltaf snjór, og aldrei neinir bílar sem voru til trafala eða lyftur eða eitt né neitt, þá bara labbaðir þú. Bara þess vegna upp í Hvanneyrarskál.“ Það var sett togbraut upp í Gimbraklettana. ,,En annars var það bara, þú settir skíðin á öxlina og labbaðir með þau og renndir þér niður, þú varst að þessu allan daginn.“ Sjöfn segir að þetta sé orðið allt annað og léttara í dag.

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun?

Upphaflega var það faðir hennar sem hvatti hana áfram. Pabbi hennar stundaði stökk og átti lengi vel lengsta stökk sem stokkið hefur verið í Hvanneyrarskálinni. Bræður Sjafnar eru líka mikið á skíðum og fara til útlanda á skíði hverju ári. Konurnar þeirra taka fullan þátt í þessu með þeim, en þær eru báðar frá Siglufirði. Sjöfn segir að þetta sé mikið fjölskyldusport. ,,Það er eins með þetta sport og allt annað, það verður að fylgja krökkum eftir. Og það var það sem tók við, eftir að maður hætti sjálfur, sem ég gerði ung af því að ég byrjaði að eiga börn snemma, þá hættir maður sjálfur að vera svo mikið á skíðum, þó maður hafi farið á skíði þá var maður meira við að hjálpa krökkunum og fara með þeim, það þurfti svo mikið af starfsfólki yfir mótin sem voru, og æfingar og annað. Þannig að maður tók þetta að sér, það þurfti og veitti ekki af.“ Sjöfn telur mikilvægt að foreldrar fylgi börnum sínum eftir, svo þau missi ekki áhugann. Sjöfn fer á gönguskíði í dag og ætlar að halda áfram að fara á skíði. Hún hefur starfað mikið í félagsstörfum fyrir Skíðafélagið og meðal annars séð um að koma krökkunum í fjallið og á mót, séð um mat fyrir þau og ýmislegt fleira. Það var annað hvort farið sjóleiðina eða með rútu á skíðamótin.  

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum?

,,Þá voru það gönguskíðin sem fólk fór á. Ég náttúrulega upplifði það ekki. Það hefur verið frekar fólkið sem er eldra en ég. Vegna þess að þá náttúrulega fór fólk yfir Skarðið og yfir Hvanneyrarskálina og til dæmis inn í Fljót, því að það var náttúrulega búið hér fyrir innan líka. Svoleiðis kom fólk í kaupstaðinn. Síðan náttúrulega á hestum yfir sumarið.“

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

,,Það voru engir sérstakir kennarar, það voru bara þeir sem voru betri og komnir lengra, þeir hjálpuðu þeim yngri og öfugt. Þannig að maður var alveg eins með strákunum eins og einhverjum stelpum. Maður reyndi bara að elta og lét sig hafa það. Það voru ekki fastar æfingar, en það var yfirleitt, ef það var þannig veður þá var farið á skíði á hverjum degi. Alveg sama hvar í fjallinu það var, og mjög vinsæll staður sem var nefnd Langalaut í gamla daga. Hún er fyrir ofan kirkjugarðinn. Þá var bara prompað upp fjallið og látið sig gluða niður og svo voru settar upp stangir og haldið þess vegna bara mót fyrir krakka, þá bara tóku krakkarnir sig saman og gerðu mót, það var voðalega gaman. Þetta er ekki til í dag, ekki svona.“ Sjöfn finnst að andinn hafi breyst mikið á síðustu árum.

Var/er dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn?

,,Ég mundi ekki segja að það væri svo dýrt að stunda hana, það er náttúrulega dýrast, eins og með allt, það er startið, að koma sér upp góðum græjum. Og þær eru svo sem ekki gefnar í dag. En þú átt það. Eins og til dæmis með mig, ef ég fer að skipta útog fá mér nýtt í dag þá þarf ég ekkert að spá í því neitt meira, þá dugar það mér alveg það sem eftir er. En nú er það orðið svoleiðis að krakkar og unglingar og fullorðnir sem eru að keppa, þeir nota þessi skíði í svig, þessi skíði í stórsvig, og önnur kannski í brun. Og þetta er dýr póstur. Og meðan börnin eru að stækka þá liggur við að það þurfi að kaupa á hverju ári. Bæði skó og annað.“ Áður fyrr var það þannig að fólk átti bara eitt par af skíðum og keppti á þeim í hverju sem var. Sjöfn keppti bæði í göngu og stökki og segir: ,,maður lét sig nú gluða fram af ýmsu í gamla daga, sko.“ Annars keppti Sjöfn aðallega í alpagreinum og bruni. Keppt var í bruni við Hólshyrnuna, hinumegin í firðinum. Brunið er kallað risasvig í dag, Sjöfn segir það stórhættulegt. Skíðin voru miklu lengri í gamla daga, nú er lengdin á skíðunum miðuð við axlarhæð. Skíðin í dag eru því léttari og auðveldara að ráða við þau. Í dag þarf heldur ekkert að bera undir gönguskíðin, þau eru bara alltaf tilbúin til notkunar. ,,Það er voðalega þægilegt að eiga svona skíði, og virkilega gaman, eins og ég segi, fyrir fólk sem vill stunda eitthvað svona, en hitt er skemmtilegra, að vera í brekkunum.“ Á meðan áburðurinn var notaður þurftu menn að vera með sérstaka tösku undir áburðinn. Það voru margar gerðir af áburði sem menn þurftu að burðast með og svo þurftu þeir að kunna að nota hann rétt og velja réttan áburð miðað við aðstæður hverju sinni. Það fór eftir frosti í jörðu, bleytu og öðru hvaða áburður var notaður.

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

,,Það var yfirleitt klippt á allt svona strax og veturinn var búinn, þá var bara þessi vertíð búin.“ Krakkarnir fóru þá í fótbolta og handbolta og ýmsa útileiki sem Sjöfn segir að þekkist ekki í dag. Börn voru mikið úti og upp um fjöll og fyrndindi. ,,Við gerðum það voða mikið, við stelpurnar, þegar við vorum í prófunum á vorin, við fórum út klukkan fimm á morgnana til þess að ganga hérna kannski upp fjarðarhringinn, með bækurnar með okkur, áður en við fórum í prófin. Svo mættum við bara í skólann. Þetta þekkist ekki í dag. Nú vakna varla börnin á morgnana.“

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn?

Sjöfn segir að íþróttaiðkun hafi mjög mikil og góð áhrif á börn, þau sem stundi íþróttir séu miklu, miklu duglegri og mikið hraustari. Hún segir að þetta hafi ekki komið niður á náminu.

Hvenær byrjaðir þú að keppa?

Sjöfn var 11-12 ára þegar hún byrjaði að keppa. ,,Mest var keppnin hér á Siglufirði, í flestum tilfellum þá voru öll skíðamót meira og minna hér. Bæði vegna þess að það voru rosalega margir sem voru góðir og eru góðir hérna á skíðum sko, og flest allir sem stunduðu skíði þeir voru héðan.“

Segðu frá fyrsta Íslandsmótinu sem þú tókst þátt í

,,Það var hérna á Siglufirði og gallinn var nú ekkert sérstakur, þá var maður bara í svona vaðmálsbuxum og bara svona þykkri peysu, ég gleymi því aldrei, með bara slæðu hérna á hausnum. Það brast á brjálað veður og þá kannski var stopp, og það var haldið áfram. Það var líka alveg rosalegur fjöldi og bæjarbúar allir, fylgdust svo mikið með þessu. Hér voru vinsælustu og mestu stökkkeppnir sem voru hérna, það voru Litli-boli og Stóri-boli.“ Sjöfn segir að veðrið yfir vetrarmánuðina hafi verið mikið betra í gamla daga: ,,það var meiri kyrrð, það var kalt, en nógur snjór og það var stokkið og stokkið og stokkið í Litla- og Stóra-bola og það voru bókstaflega allir bæjarbúar sem löbbuðu fram á fjall til þess að fylgjast með. Stemmningin var svo rosalega góð. Svo var sest inn í skálann til þess að fá sér kaffi og út aftur og haldið áfram. Þetta er ólýsanlegt. Alveg ólýsanlegt.“

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?

Sjöfn átti sér ekki erlendar fyrirmyndir en segist hafa hugsað um þá sem voru hérna og nefnir Jóhann Vilbergsson. ,,Ég hugsaði alltaf til hans. Svo var ein hérna jú, Aðalheiður Rögnvaldsdóttir. Maður horfði mikið til hennar því hún var virkilega góð. Virkilega góð. Svo hafði ég alltaf svo gaman af því þegar maður var að vinna eldri konur. Þær voru frá Ísafirði, í flestum tilfellum voru þær frá Ísafirði. Ég var voðalega hreykin af því.“ Sjöfn segir að keppnisandinn hafi mikið breyst: ,,þetta var miklu meiri gleði og miklu meiri skemmtun.“ Hún segir að núna fari menn bara í fýlu ef þeim tekst ekki að ná settum markmiðum og vilji bara hætta. Henni finnst komin mikið meiri harka í þetta núna.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

,,Það var oft sagt, Jónas Ásgeirs hérna, hann var kallaður skíðakóngur og Aðalheiður Rögvalds, á sínum tíma, skíðadrottning. Það var voðalega mikið sko.“ Sjöfn telur að þetta hafi ekki verið opinberir titlar en þó hafi þetta verið tilkynnt á mótum og sérstök viðurkenning veitt að launum.

Segðu frá gullpeningum og bikurum.

,,Það var nú svoleiðis í gamla daga, skal ég segja þér, það voru jú gullpeningar, eða svona gull, silfur og brons. Bikararnir voru þannig að manni fannst það nú hálfgert blikk, en það var víst smá silfur í þeim, í flestum tilfellum. Svo var skráð á þá. Ég á nú litla skemmtilega sögu af því þar sem ég fékk og átti verðlaunapeninga, og pabbi, á sínum tíma. Bróðir minn, annar þeirra, ég á tvo, hann hélt stundum mót upp í Gryfjum, sem við kölluðum, hérna í fjallinu og þar fyrir neðan, hann hélt svo mikil mót og allt í einu var farið að spekúlera í því hvað hefði orðið að öllum peningum og bikurum. Þá var hann búinn að halda mót fyrir alla krakka í hverfinu, sem var, og hann gaf krökkunum. En við gerðum aldrei neitt í því. Þetta gerði Andrés bróðir, frægur.“ Andrés var þarna 12-13 ára gamall. Sjöfn á þó eitthvað af peningum og geymir þá í sumarbústaðnum sínum.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Þú þarft alltaf að hafa skap, keppnisskap, ef þú ert að taka að þér, það er eitthvað að gera, hvort sem það er í þessu eða öðru, tala nú ekki um í íþróttum, þú verður að hafa keppnisskap, en það má heldur ekki vera of mikið. Það þarf að kunna að beita því þá. Maður er búin að sjá ýmis afbrigði af því. Það hefur mikið að segja að vera með gott skap, en kunna samt að stjórna því. Það er með það eins og í öllu öðru, telja upp að tíu nokkrum sinnum.“

Hvaða öðrum eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

,,Bara styrk mundi ég segja, og þrótti í öllum líkamanum og vera smá kaldur sko, það þýðir ekkert að fara upp í einhverjar brekkur og vera lofthrædd eða eitthvað svoleiðis. Það þýðir ekkert að vera stressaður eða neitt svoleiðis, en ég veit að það eru margir krakkar sem eru svoleiðis. Þetta er bara nákvæmlega eins og maður þekkir krakka sem fara í próf, þau eru svo stressuð að þeim líður bara illa og geta ekki neitt. Þetta er nákvæmlega það sama, þetta er allt ein keppni. Ef þú ert að fara út í þetta þá verður þú náttúrulega að standa þig, reyna það. Það þýðir ekki ef þú ert það stressuð, og þú þorir ekki, þú ert hrædd, þá þýðir það ekki neitt. Það fer bara í vitleysu. Svona krakkar, þeim líður svo illa eftir á. Þau vilja helst ekki þekkja, eða bara hitta krakkana, þau skammast sín svo, ef þetta kemur fyrir þau. Þú verður að hafa styrk og þrótt, þú verður að hafa hann. Og náttúrulega líkamann í lagi. Þú veist það að margir fara margt á skapinu líka.“

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú?

Sjöfn æfði með Skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg, en þá var búið að sameina félögin.   

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu?

Hlutföllin voru ósköp svipuð. ,,Strákarnir höfðu samt alltaf vinninginn, það er nú ekki spurning.“

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

,,Keppnisandinn var mjög góður skal ég segja þér í gamla daga, en ég held að hann sé ekki alveg eins góður í dag og það er fyrir það að hver hendinn er upp á móti annrri, þessi vill gera þetta en hinn vill gera hitt. Þar af leiðandi er þetta ekki nógu gott, en stendur allt til bóta, skilst mér. Bærinn hefur verið að reka þetta en Skíðafélagið náttúrulega sem slíkt hefur alltaf verið sér. Þannig að það hefur ekki verið alveg nógu mikil samstaða skilst mér, en vonandi lagast það.“

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?

Það var náttúrulega Skíðaráðið sem kallað var, Skíðaráð Reykjavíkur og Ísfirðinga, Akureyringar og svo seinna meir komu náttúrulega eins og Ólafsfirðingarnir, þeir komu ekkert fyrr sko. Fljótamenn jú og svo þarna úr Þingeyjasýslunum, ég man eftir því að það voru svo margir göngumenn þaðan.

Hver var þinn skæðasti keppinautur?

Síðasti keppinautur Sjafnar var Kristín Þorgeirsdóttir. ,,Svo hætti ég en hún glimraði alveg í mörg ár á eftir.“ Síðan voru það Marta Bíbí og Jakobína, sem báðar voru töluvert eldri en Sjöfn.

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppnismanna mismunandi félaga?

Það var mjög gott á milli keppnismanna mismunandi félaga, Sjöfn nefnir til dæmis Ísfirðinga og Akureyringa í því samhengi. ,,Það var miklu meiri félagsandi og miklu meiri félagsskapur, í sambandi við bara, eftir mót og annað, þá kom fólk saman og það var dansað við harmoniku, allt, allt öðruvísi en það er í dag, fólk gefur sér ekkert orðið tíma til neins núna.“ Fólk kom saman í skíðaskálanum, Alþýðuhúsinu, Hótel læk eða bara þar sem var opið. Það voru alltaf kvöldvökur og voru það yfirleitt áfengislausar skemmtanir. Auk þess voru haldin böll í gamla Skíðafelli, skíðaskálanum hinum megin í firðinum. Sjöfn segir að það hafi alltaf verið ákveðin hátíð þegar skíðalandsmótum lauk og þá hafi verið sameiginlegur hátíðarverður síðasta kvöldið. Núna hefur þetta dottið upp fyrir því fólk er svo mikið að flýta sér heim og kynnist ekki hvert öðru eins og áður tíðkaðist.

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Þegar farið var í keppnisferðalög var oft gist í skólum í svefnpokaplássi. ,,Það var ekkert farið öðruvísi heldur en í rútu eða skipi.“ Farið var með gamla Drang til Akureyrar og stundum var flogið til baka frá Akureyri. Til Ísafjarðar var farið með Esjunni eða Heklunni með tilheyrandi sjóveiki. Til Reykjavíkur var farið með rútu. Eftir að Sjöfn hætti að keppa og fór að starfa fyrir Skíðafélagið fór hún einu sinni með krökkunum á unglingamót suður til Reykjavíkur. ,,Það er  hryllilegasta ferðalag sem ég hef nokkurn tíma farið í, það er ekki gert neitt, þá er þetta svo sundurslitið sko, fólk hitti ekki einn né neinn, fyrr en á keppnisdag og þá var svo mikil rigning og rok og svo var þoka, maður hálfvilltist þarna allsstaðar, síðan hef ég ekki farið þarna.“ Þetta var í Bláfjöllum, bara rétt eftir að þau opnuðu. Sjöfn segir að þetta sé gallinn við svona stóra staði.

 Segðu frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks.

,,Það er náttúrulega frægi skíðaskálinn sem ég á í dag. Þegar lyftan var byggð hérna hjá Hóli, sunnan við Hól og upp í hlíðinni, það sést nú ennþá merki þar sem hún hefur verið, þar var byggt einingahús og síðan var það stækkað og það kom mjög vel útog allt það en svo bara var aldrei snjór. Það voru fyrstu árin mjög gaman að vera þarna, svo fór að verða svo snjólítið að það var farið að tala um Skarð og var alltaf talað um Skarðið áður en það var byrjað þarna. Ég gleymi því aldrei nokkurn tímann, því þá vorum við að byggja út á Fossvegi, hann Valdi hann veðsetti allt til þess að geta keypt og sett lyftuna upp. Ég frétti það ekki fyrr en löngu seinna. En hún komst upp lyftan og sú lyfta er upp í Skarði núna, það eru komnar þrjár þar. Og það er búið að byggja nýjan skála og þessi skáli sem var hérna á Hóli, upp í fjallinu, hann var náttúrulega settur upp eftir en svo var hann bara orðin of lítill og það þurfti að færa lyfturnar ofar og þá keyptum við þann gamla. En nýji var þarna rétt fyrir ofan, þannig að við erum á voðalega góðum stað, upp á skíðasvæði sko.“ Fjölskyldan heldur mikið til þarna á sumrin og fer þarna á veturna líka. Stundum er snjóflóðahætta á svæðinu og þá halda þau sig fjarri. En þarna er alltaf mokað þegar það er skíðafæri þannig að þau komast upp eftir þegar þeim langar til.

Nú stendur til að færa aðstöðuna ennþá ofar, enda eru Siglfirðingar ekki með neina vél til að framleiða snjó. Það hefur orðið mikil breyting á veðráttunni síðastliðin ár. Skarðsmótið var alltaf haldið um páska og ef páskarnir voru seint þá var stundum brugðið á það ráð að frysta snjóinn. Skarðsmótin voru alltaf mjög skemmtileg, það var ekki bara keppt á skíðum heldur var líka haldin fótboltakeppni milli aðkomumanna og Siglfirðinga. Á kvöldin voru svo alltaf kvöldvökur og dansleikir.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Sjöfn segir að slysum hafi fækkað mikið með betri útbúnaði. Núna detta skíðin af fætinum ef fóturinn beyglast eitthvað en áður voru skíðin föst sama hvað á gekk. ,,Það var ekki nóg með að þú spenntir þig í skíðin, þú varst líka óluð. Þannig að þetta er miklu betri útbúnaður í dag, mikið, mikið betri. Og alltaf verið að breyta honum og gera þetta léttara og öðruvísi. Það sýnir sig nú bara með þessa stærð, þetta er ekki orðið neitt, neitt.

Sjöfn segir að fólk hafi orðið sterkt í fótunum á að æfa skíðaíþróttina. Tréskíðin voru þung, það var þungt að æfa á þeim og auk þess þurfti að bera þau upp brekkurnar hvað eftir annað, áður en lyfturnar komu til sögunnar. Togbrautin fyrir neðan Gimbraklettana var kölluð ljósabraut. Þar voru settir upp staurar og lýsing. ,,Þar vorum við bara að leika okkur langt fram á kvöld, eins og ég sagði líka, veturinn var allt öðruvísi, það komu jú bylir og leiðinda veður en svo komu stillurnar á milli. Það var alveg yndislegt, eins og þú getur ímyndað þér, allt hvítt og fallegt.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Getur þú sagt mér frá því?

,,Ég myndi segja að það væri skíðamótið sem ég keppti á inn í Skútudal. Mér er það svolítið minnisstætt, ég man samt ekkert hvaða ár það var, en ég man að ég var voðalega glöð þegar ég kom heim, því þá vann ég bæði mótin. Það hefur verið, Guð minn almáttugur, það hefur verið svona 1958-60. Það var í góðu veðri, það var keppt í svigi og bruni, sem kallað var. Og þá fór maður bara upp hlíðina og renndi sér niður og ég gleymi þessu aldrei, því þá vann ég þessar frægu konur, eins og ég sagði áðan, þær tvær, og ég var voðalega glöð með það.

Eftir þetta hætti hún mikið til að keppa. Hún fór að hafa annað fyrir stafni, vann meira og fór meira út á lífið. Sjöfn átti sitt fyrsta barn 1962 og eignaðist þrjá drengi á árunum 1962-1964. Síðan eignaðist hún yngsta barnið sitt 1968. Hún á tíu barnabörn og segir að þau séu öll í fótbolta eða á skíðum.


header
Hafa Samband
moya - ┌tgßfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya