11. febrúar 2011
Grunnskóli Siglufjarðar við Norðurgötu.
Sigurlaug Guðjónsdóttir er fædd 18. febrúar 1965. Hún ólst upp á Ólafsfirði en flutti til Siglufjarðar á átjánda ári.
Hvernig var svo að alast upp á Ólafsfirði?
,,Það var voða ljúft, það var bara mjög þægilegt. Maður átti vini í öðru hverju húsi, maður þurfti ekki að fara langt til þess að finna sér leikfélaga. Maður gat náttúrulega farið á skíði, bara með því að labba upp í fjall, eða renna sér í Gullatúninu. Eða verið á fótboltavellinum á sumrin og farið að veiða. Maður var mjög frjáls og gat gert það sem manni datt í hug að gera.“
Var þá skíðaíþróttin mjög almenn eða hvað?
,,Já, jájá, hún var mjög almenn. Bræður pabba æfðu, eða einn bróðir pabba hann æfði skíði, Jónsi bróðir æfði skíði og svo æfðu mjög margir í kringum mig skíði þannig að það var eiginlega bara mjög eðlilegt að vera á skíðum. Það var bara eins eðlilegt og að vera bara í kuldaskóm, lá við.“
Var einhver í fjölskyldunni sem kvatti þig sérstaklega áfram?
,,Nei eiginlega ekki. Ég man eftir því að mig langaði að prófa að fara á gönguskíði en hafði ekki tök á því og við fengum systkinin saman skíði og það var náttúrulega, mér fannst það mjög ósanngjarnt því alltaf þegar ég ætlaði á skíði þá náttúrulega fór Sævar bróðir á skíði þannig að ég gafst bara upp á að vera á svigskíðum. Þannig að það var eiginlega amma sem að, amma Bára, sem að leyfði mér að prófa einhver gömul skíði sem að einn af strákunum hennar hafði átt. Og ég fór sem sagt á þeim og þau voru svo fúin að ég eyðilagði þau í fyrstu brekkunni sko, svoleiðis að ég fékk lánuð skíði hjá frænda mínum. Frændi minn lánaði mér svo skíði sem hann var hættur að nota þannig að það byrjaði eiginlega bara þannig að ég fór að fara á skíði. Það var eiginlega bara vegna þess að ég komst eiginlega aldrei á svigskíðin, eða kannski ekki eins oft og ég vildi.“ Silla byrjaði að fara á svigskíði 6-7 ára gömul. En um 12 ára aldur byrjaði hún að æfa göngu.
Voru skipulagðar æfingar?
,,Jájá, það var alveg hægt að æfa skipulega göngu þá. Þá kom maður alltaf, minnir mig tvisvar eða þrisvar í viku á æfingar og það var mjög mikið um æfingar, bæði á svigskíðum og í fjallinu, þannig að það var ekkert mál að fara á skíðaæfingu. Það var minnsta málið.“
Hver hélt utan um þetta, hver þjálfaði?
,,Það var Bubbi.“ Þjálfarinn var Björn Þór, alltaf kallaður Bubbi. Seinna meir, þegar Silla var orðin unglingur, þá tók Haukur Sigurðsson við sem skíðaþjálfari krakkanna. Það var mjög góður hópur að æfa til að byrja með. ,,Svo flosnaði upp úr honum þarna, það voru náttúrulega mest strákar, mjög margir strákar, eða fleiri strákar heldur en stelpur. Við vorum aðallega bara tvær, til að byrja með, þegar ég byrja.“ Sigrún Konráðsdóttir frá Burstabrekku æfði göngu ásamt Sigurlaugu. ,,Við vorum eiginlega bara tvær. Það var þarna, komu svona ein og ein inn en þegar við vorum upp á okkar besta þarna, þá vorum við nánast bara tvær. Ég man ekki alveg eftir, einhverjar voru þarna jú, kannski yngri en við, en allavega vorum við nánast bara tvær sem æfðum göngu.“ Það voru miklu fleiri konur í svigi en göngu.
Þið hafið ekkert verið að æfa stökk, þó það hafi verið mjög vinsælt á Ólafsfirði?
,,Nei, okkur var bara bannað að fara á stökkpallinn sko. Það var bara heilmikið mál ef stelpa fór á stökkpallinn.“ Siglurlaug man eftir einni stelpu sem stökk á pallinum. ,,Hún var mjög reið, að þetta ætti að vera hættulegt fyrir okkur, konurnar. Og hún prófaði einu sinni að stökkva, ég man sérstaklega eftir því þegar það var. Hún var svolítið eldri en ég. Við svosem prófuðum að fara á þotum þarna einhvern tíman niður en maður var bara hræddur við, það var búið að banna manni þetta og maður eiginlega svona hlýddi því, að fara ekkert þarna í. En við lékum okkur á sumrin frekar á honum og hoppuðum þar niður en ég stökk aldrei á stökkpallinum.“ Þetta var eins og óskrifuð lög í samfélaginu: ,,Þú mátt ekki stökkva, þú ert kona, eða stelpa.“ Það var talað um að þetta væri ekki gott fyrir legið og þetta gæti haft áhrif á frjósemi seinna meir. Sigurlaug tók þetta gott og gilt og hafði aldrei sérstakan áhuga á að prófa stökkið. En henni þótti gaman að horfa á strákana stökkva.
Voru skíði notuð á þessum árum til að komast á milli staða?
,,Já, ég fór oft á þeim. Þegar ég eignaðist skíðin mín þá fór ég oft á þeim ef það var leiðinlegt veður. En ekkert kannski mjög oft. Maður sá ekkert marga á skíðum að fara í bæinn, ef það var einhver þá var það kannski einhver af þessu eldra fólki, sem var vant að nota þetta. En við kannski löbbuðum bara á þeim heiman frá okkur og á æfingu og stundum skíðaði maður á götunum bara á kvöldin þegar það var hjarn, þegar engir bílar voru, en aldrei kannski til að fara í búðina, maður gerði þetta bara svona þegar manni hentaði að fara á þeim. Maður notaði þau bara svona eins og manni langaði til, það var mjög þægilegt.“
Það var æft a.m.k. 2-3 sinnum í viku yfir veturinn og svo voru aukaæfingar fyrir mót. ,,Maður varð að mæta á æfingar og maður varð að standa sig til þess að komast á mót, ef maður ætlaði að fara á mót, og maður náttúrulega þurfti að leggja heilmikið á sig til þess að vera í þessum hóp. Maður gerði oft svona æfingar í hóp, þú áttir kannski að skíða ákveðið, þá var voða gaman að geta verið samhliða þeim sem maður var með. Þannig að maður var mjög samviskusamur að mæta.“ Stelpur og strákar æfðu saman.
Stunduðuð þið íþróttir markvisst yfir sumarið til að vera í góðu formi þegar skíðatímabilið byrjaði?
,,Já sko þegar ég var unglingur þá í rauninni gerði maður það. Kannski þegar maður var yngri þá spáði maður ekkert í þetta, þá var maður bara að leika sér. En þegar maður var orðin eldri þá fór maður að hlaupa.“ Silla byrjaði að þjálfa sig markvisst á haustin með því að hlaupa. Það var líka farið í skíðabúðir á sumrin. Silla fór t.d. í skíðabúðir á Siglufirði þegar hún var 16 ára gömul. ,,Við gerðum alls kyns æfingar í túnum, með stafi og annað.“ Skíðasamband Íslands stóð fyrir skíðabúðum, sem stóðu yfir eina langa helgi í ágúst og gengu út á æfingar til að undirbúa veturinn. Síðan var farið að æfa sig á skíðum um leið og mögulegt var, sem var löngu fyrir jól, að sögn Sillu. Ef það gekk illa að æfa sökum snjóleysis var farið upp í Skeggjabrekkudal þar sem var kaldara og meiri snjór.
Hafði þessi mikla skíðaiðkun einhver áhrif á daglegt líf yfir veturinn? Skólagöngu t.d.
,,Ja, kannski, maður þurfti að fá frí til að fara á mót.“ En annars voru æfingar krakkanna stundaðar eftir skólatíma. Það hafði því ekki áhrif á skólaástundun hjá krökkunum. Það var frekar að þetta hefði áhrif á þá fullorðnu, sem stunduðu íþróttina og voru með fjölskyldu og í fullri vinnu.
Voru upplýstar brautir?
,,Ég man ekki eftir því alveg strax. Við náttúrulega gengum voða mikið þar sem var gott að vera, maður var oft á götunum. Jújú og svo var náttúrulega farið að lýsa aðeins upp brautirnar sko. En maður var hjá sundlauginni og hérna hjá bænum, tjörninni, og það var voða þægilegt að vera þar en maður var oft í hálfgerðu myrkri að æfa skíðin sko. En svo seinna meir hefur eflaust verið búið að lýsa upp brautina, en ég man svosem ekkert eftir því að það hafi verið upplýst, ég man það bara ekki. En við æfðum náttútulega oft bara um fjögur, fimm og þá var kannski jújú orðið myrkur einhvers staðar en ég held að við höfum æft stundum eins og ég segi, bara þar sem var gott, eins og hjá sundlauginni, það var hringur þar sem maður fór og svo hjá gagnfræðaskólanum, það var aðalæfingasvæðið sem ég æfði á.“
Var kominn snjótroðari?
Það var ekki snjótroðari en það var snjósleði sem dró plóg á eftir sér og bjó til spor fyrir skíðin. Göngufólkið sá svo um að viðhalda brautunum og oft var líka troðið með skíðunum.
Var dýrt að kaupa skíði?
,,Já, sko elsti bróðir minn fékk skíði og svo fengum við, ég og sem sagt, yngri, við fengum saman skíði, það var bara svoleiðis. Já þetta var mjög dýrt og við vorum fimm systkinin, eða fjögur þarna sem hefðum getað verið á skíðum, en það voru bara keypt tvenn skíði og við notuðum þau saman, ég og yngri bróðir minn. Þetta var bara mjög víða svona.“
En hvernig gekk þér svo sjálfri, þú hefur væntalega þurft seinna að kaupa þér skíði?
Eftir að Silla vann sitt fyrsta mót, 13-14 ára gömul, á lánsskíðum og alltof stórum skóm þá fékk hún loksins sín eigin skíði. Pabbi hennar, sem var sjómaður, keypti handa henni skíði og skó þegar honum var bent á það af útgerðarmanni á Ólafsfirði að dóttir hans væri afburðaskíðakona en ætti ekki nógu góðan útbúnað. Þetta voru fyrstu skíðin sem Silla eignaðist og á hún þau enn í dag. ,,Ég var mjög dugleg að æfa eftir það og þá var þetta eiginlega byrjað af alvöru og þá fékk ég skíðabúnað í jólagjöf og afmælisgjöf og svona, mamma og pabbi fóru þá að sýna þessu miklu meiri áhuga, af því að mér var farið að ganga náttúrulega það vel.“ Þessi fyrsti sigur hennar var á Kristinsmóti á Ólafsfirði, en það er annað tveggja minningamóta sem haldið er þar í minningu látinna skíðamanna. Hitt mótið er til minningar um tvíburabræðurna Nývarð og Frímann frá Burstabrekku. Silla man ekki mikið eftir þessu Kristinsmóti, annað en það hvað hún varð hissa þegar kom í ljós að hún hafði unnið. ,,Það voru nokkrar stelpur sem tóku þátt í þessu móti, og ég og Sigrún Konn, við skiptumst svona bróðurlega á að vinna. Stundum vann hún mig, svo vann ég hana og við vorum eiginlega bara tvær þarna en þarna vann ég einhverjar stelpur sem voru eldri en ég, ég man það bara. Og ég man að ég var ferlega hissa þegar ég vissi að ég hafði unnið.“
Manstu eftir fyrsta Íslandsmeistaramótinu sem þú tókst þátt í?
,,Nei ég man nú eiginlega ekki eftir því. En ég man bara eftir því þegar ég keppti hérna heima fyrst á unglingameistaramóti, þá minnig mig að ég hafi keppt upp fyrir mig.“ Það mátti alltaf keppa upp fyrir sig en það mátti ekki keppa niður fyrir sig. Það var ekkert mál að skrá sig og fá undanþágu. Silla hefur alltaf keppt í göngu.
Hverjar voru vegalengdirnar í göngunni?
Fyrst er byrjað á því að keppa 3 km og síðan 5 km. Strákarnir fóru aðeins lengri vegalengdir, ef stelpurnar fóru 5 km þá fóru strákarnir 7,5 km. Silla tók einu sinni þátt í boðgöngu ásamt Sigrúnu Konráðsdóttur og þriðju stelpunni, sem hún man ekki hver var. ,,Við Sigrún vorum eiginlega bara einu stelpurnar svona í minningunni allaveganna, eða sem sagt sem ég var alltaf með á skíðum. Þegar ég var orðin 15 ára þá hvíldi Sigrún sig og þá var ég alltaf eina stelpan í öllum ferðum, það var ég og Frímann, og Nývarð og Gústi, Ágúst. Þegar ég var orðin eldri þá var ég alltaf með þeim. Og það voru ekkert fleiri stelpur. Ég fór meira að segja til Ísafjarðar og var teppt í viku með þeim, þannig að ég var eina stelpan, sem kom frá Ólafsfirði. Þannig að ég var einhvern tíma ein sem æfði, á þessum tíma, 14-15, í göngunni sko.“
Hvernig var farið á mót, t.d. á Ísafjörð?
Það var flogið á Ísafjörð frá Akureyri. ,,Við flugum mjög oft, það var mjög þægilegt. Við fórum sjaldan með rútu.“ Silla man ekki til þess að hafa farið með bát á mót. ,,En þegar ég var veðurteppt á Ísafirði í heila viku þá stóð til að einn af Fossunum kæmi að sækja okkur því að þetta var náttúrulega alveg rosalegt, að hafa skíðakrakka teppta í viku á Ísafirði. Þetta voru held ég 100 krakkar, eða meira, ég man ekki hvað við vorum mörg, þetta var unglingameistaramót.“ Það kom reyndar ekki til þess að þau yrðu sótt með skipi, heldur fengu þau að vera heila viku á Ísafirði. Þau gistu í húsi Hjálpræðishersins og voru öll með sérherbergi til að byrja með en voru svo sett saman í herbergi síðustu næturnar. Þarna var Silla 14 ára. ,,Við gistum iðulega, annað hvort í skóla eða bara á gistiheimili, eða ódýrum farfuglaheimilum eða einhverju svoleiðis.“ Yfirleitt var heitur matur í hádeginu og kvöldin.
Áttir þú þér einhverja fyrirmynd?
,,Nei eiginlega ekki, ég get ekki sagt það að ég hafi átt einhverja sérstaka fyrirmynd. Maður leit náttúrulega voða mikið upp til Bubba, hann náttúrulega var ofboðslega góður, góður þjálfari og góður við okkur, sem sagt mikill félagi okkar. Hann var alltaf að hvetja mann og alltaf að tala um hvað það væri mikið atriði að stunda íþróttir og ekki vera að drekka og svona og lagði mikla vinnu, og búin að leggja gríðarlega vinnu í að halda utan um skíðagönguna á Ólafsfirði. Og á heiður skilið fyrir það. Þannig að það var mjög gaman að vera með svona góðan þjálfara, það var alltaf gaman að fara á æfingar, og hann kenndi manni líka íþróttir. Ætli það hafi ekki bara verið Bubbi á þessum tíma, maður leit mikið upp til hans og fór frekar með honum á æfingar um verslunarmannahelgina, heldur en að fara á útihátíð. Af því að hann einhvern veginn var svo klókur að telja manni hughvarf, hvað væri skynsamlegra að gera. Þannig að maður fór, enda sá ég ekki eftir því, þetta var eiginlega það skemmtilegasta sem ég hef gert um æfina, það var að fara í svona skíðabúðir, eins og ég gerði hérna á Siglufirði.“ Silla segir að skíðin hafi haft mjög mikið forvarnargildi, eins og reyndar aðrar íþróttir. Hún fór ekki nema einu sinni í skíðabúðir, sem haldnar voru um verslunarmannahelgi á Siglufirði og þar voru krakkar alls staðar af landinu. ,,Maður þekkti náttúrulega alla. Þekkti náttúrulega alla sem voru að koma, þannig að þetta var náttúrulega rosalega gaman. Alveg frá því að maður vaknaði á morgnana og þar til maður fór að sofa, þá var bara keppni út í eitt, síðastur að borða, hann þurfti að vaska upp, það var allt svona, sá sem var síðastur yfir mýrina, þar sem fótboltavöllurinn er núna, úti á Hóli, þar var bara mýri og við hlupum hana náttúrulega, liggur við upp á mitti, sá sem var síðastur yfir mýrina hann átti að gera eitthvað, þetta var allt svona, það var bara sá sem var síðastur hann verður að sjá um annað hvort uppvaskið eða þá að ganga frá eða eitthvað þannig að maður var bara í því að passa upp á það að gera helst ekki neitt.“ Silla segist alltaf hafa verið mikil keppniskona og því hafi hún lagt hart að sér í þessu eins og öðru.
Myndiru segja að keppnisskap sé mikilvægt til að ná árangri í t.d. skíðagöngu?
,,Já þetta er mjög erfið íþrótt, þetta er rosalega erfið íþrótt og það er ekkert mál að sprengja sig bara strax og þá áttu kannski eftir meira en helminginn af leiðinni og ef þú ert ekki með skapið til að klára það þá er auðvelt að gefast upp. Stundum fór maður vitlaust af stað og var kannski búin á því áður en maður náði að fara hálfa brautina, þá náttúrulega þýddi ekkert annað en að fara þetta á skapinu. Þannig að jújú, það þýddi ekkert annað en að hafa skap.“ Það leið hálf mínúta eða mínúta á milli þess sem keppendum var startað. ,,Og maður var alltaf að bíða eftir því í hvaða starti maður myndi lenda, ef maður yrði fyrstur, maður var alltaf að vonast til að vera annað hvort síðastur eða í miðjunni, helst ekki fyrstur, og það fór svolítið eftir því hvernig þér hafði gengið. Ef þú varst búin að vinna, þá í rauninni vannstu þér inn betra startsæti, það var betra, minnir mig, að fara ekki fyrstur af stað því að þá er náttúrulega mest stressið, þannig að maður reyndi alltaf að hugsa út í það að fá gott start og þó maður myndi ekki vinna, að reyna þá allavega að vera sko í fyrstu sætunum og ég náði oftast nær að fara á verðlaunapall, þó ég hafi kannski ekkert oft unnið en ég var mjög nálægt því að verða Íslandsmeistari, það var bara, ég var alltaf í öðru eða þriðja sæti, þannig að ég náði ansi langt, þó ég segi sjálf frá því sko. Þannig að þá þurfti maður að hafa skap, til þess að geta klárað þetta.“
En hvaða fleiri eiginleika myndiru segja að væru mikilvægir til þess að vera góður skíðagöngumaður?
,,Ég hugsa að það sé, sem sagt, að kunna náttúrulega að tapa. Ef maður tapar oft þá náttúrulega eru kannski meiri líkur á því að maður hætti. Og líka bara að hafa metnað. Bara að bæta sig, þú veist, okey, það gekk illa núna, ég bara bæti mig.“ Silla segir mikilvægt að keppnisfólk gefist ekki upp þó á móti blási, heldur finni sér ný markmið til að vinna að fyrir næsta mót. Hún lenti oft í öðru sæti og hætti fljótlega að ergja sig á því að vera ekki í fyrsta sæti. ,,Mér fannst þetta gaman, ég var rosalega áhugasöm og mér fannst þetta ofsalega skemmtileg íþrótt, þó hún hafi verið erfið, mér fannst ofsalega gaman að fara á æfingar og hafði mikin áhuga fyrir þessu þannig að ég held líka, bara að hafa áhuga fyrir því sem maður er að gera. Að hafa keppnisskap já, og bara einmitt að trúa því að það komi einhvern tíma að því að maður uppskeri það sem maður er búin að vinna að, hvort sem það er sigur eða ánægjan af því að hafa farið í þetta. Svo náttúrulega félagsskapurinn sem er náttúrulega svo stór partur í þessu, það var ofsalega skemmtilegur hópur sem var að æfa á þessum tíma.“
Hvernig var tengslum og vinskap háttað á milli félaga?
,,Það var ofsalega skemmtilegt, ég þekkti náttúrulega bara strákana á Ísafirði, það voru voða fáar stelpur í göngunni, það hefur komið seinna, þá var ég eiginlega að hætta, þannig að ég þekkti eiginlega bara strákana; frá Ísafirði, og strákana hérna frá Siglufirði, þær voru eldri en ég, sko sem voru í göngunni hérna. Þannig að það voru bara giftar konur. Þetta var mjög fínn hópur. Þetta var allt saman fólk sem var bara orðið vinir bara af því að vera að æfa göngu og svo komu þeir stundum, t.d. ef það var snjólaust á Ísafirði, þá komu þeir kannski á Siglufjörð, eða á Ólafsfjörð, að æfa.“ Silla segist hafa kynnst mörgum og eignast vini fyrir lífstíð.
Var þá aldrei neinn rígur á milli félaga?
,,Nei, ég get nú ekki sagt það að það hafi verið rígur, nei alls ekki, það var miklu meira verið að stríða heldur en að það væri rígur. Ég fann aldrei kannski fyrir neinum ríg, en maður var kannski ekkert alltaf voðalega ánægður með þessa sem maður var að keppa við til dæmis. Ég man eftir því að ég keppti við Mundínu, sem er hérna, ég var ekkert ánægð með það að hún vann mig alltaf, eina skiptið sem ég vann hana, þá var hún veðurteppt á Siglufirði. Þannig að ég var ekkert voðalega ánægð með það en við þekktumst ekkert voða mikið þá en ég kynntist henni þarna þegar ég var bara 13 ára, þá kom hún og hún var alveg ofsalega góð göngukona. Þannig að ég var ekkert alltaf voðalega sátt við Mundí. Og maður vildi alltaf að einhver kæmi heim með verðlaunapening, þó það væri ekki ég, að einhver annar myndi gera það. Við vorum svona svolítið upptekin kannski af því, að það kæmi einhver með verðlaun í bæinn. En mér fannst aldrei vera neitt svona leiðinlegur rígur.“ Mundína Bjarnadóttir varð margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu. Brynja Ólafsdóttir á Siglufirði var líka mjög góð.
Voru alltaf verðlaunapeningar og bikarar?
,,Nei, mín fyrstu verðlaun voru í rauninni bara svona borði. Fyrstu skiptin fékk ég bara borða.“ Þetta var lítill borði í brjóstnælu og á honum stóðu upplýsingar um mótið og í hvaða sæti viðkomandi var. ,,Svo fór ég að fá bara medalíur.“
Voru hugtökin skíðadrottning og skíðakóngur eitthvað notuð?
,,Jájá, maður heyrði það oft. Kemur skíðadrottningin, það var nú aðallega gamla fólkið sem sagði þetta, afi sagði þetta oft við mig: kemur skíðadrottningin. Pabbi sagði þetta líka stundum við mig þegar ég var að koma heim, því það fór ekkert á milli mála þegar maður var að koma heim með skíðin og allt draslið maður, þá sagði pabbi stundum við mann: jæja kemur skíðadrottningin, þá var maður að koma með allt draslið inn. Jájá, ég fékk oft að heyra þetta.“
Hvernig þróaðist skíðaútbúnaðurinn?
,,Fyrst var þetta svona breið tá, þá varstu í voðalega breiðum skóm og táin var mjög breið þannig að þú varst bara alveg negld í skíðin, og oft var maður sárfættur af því að vera með svona breiðar festingar í skíðunum. Og síðan þegar ég fékk nýju skóna mína, eða skíðin mín, þá var þetta orðið bara mjög mjótt, þú bara kræktir, og það er ennþá í dag, svona að mestu leyti, þá sem sagt kom bara svona eiginlega eins og maður segir svona ferhyrningur sem kom út úr skónum þínum og þú bara kræktir honum í festinguna, þetta var mjög þægilegt. Og þarna varstu í rauninni miklu liðlegri í fætinum, þú gast farið með hælinn miklu hærra upp, þannig að þú náðir miklu meiri spyrnu fannst mér, þetta var alveg tvennt ólíkt, þú varst ekki eins þvingaður í skónum.“ Skíðin urðu líka mjórri og stafirnir léttari. Silla upplifði miklar umbreytingar á skíðaútbúnaði þegar hún var 15 ára. Þá fékk hún t.d. stafi sem voru bara nokkur grömm. ,,Þetta var mjög mikil breyting á tímabili, mjög mikil breyting, skíðin fóru í rauninni aðeins að minnka, þú gast keypt þér svona skautaskíði, svo gastu keypt þér klísturskíði og bara svona sem sagt blautskíði og þurrskíði í rauninni, þú veist, ef það var mjög mikil bleyta, þá varstu með öðruvísi skíði fyrir það. Þannig að útbúnaðurinn var orðinn miklu tæknilegri. Já og maður kostaði miklu, maður þurfti að eiga alveg fullt af áburði og fullt af græjum til þess að græja skíðin og þetta var heilmikil vinna að halda utan um skíðin sín, þú þurftir sem sagt að glíða þau, sem var kallað.“ Talað var um að glíða skíðin þegar verið var að bera undir þau áburðinn. Það þurfti heilmikið að spá í veðrið og kunna að bera réttan áburð á, með tilliti til veðurs og loftlags. Þjálfarinn tók ákvörðun um hvaða áburð átti að bera undir skíðin á mótum og hjálpaði krökkunum að bera undir. En svo var það leyndarmál liðsins hvaða áburður var notaður hverju sinni. ,,Stundum var þetta voða mikið leynimakk. Það var kannski ef maður var að fara að keppa á stóru móti þá var maður ekkert að gefa neitt af sér, maður var bara að einbeita sér að því að gera skíðin klár og fara svo að keppa.“
Hvað með fatnað og keppnisbúninga?
,,Fyrst náttúrulega var maður bara í íþróttabuxunum sínum og var ekkert að spá neitt í það, það var náttúrulega ósköp eðlilegt en svo náttúrulega þegar maður fór að virkilega æfa, þá man ég eftir því að ég fékk, keypti eða fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba rosa fínan göngugalla, pantaði hann alla leið frá Noregi. Svo bara sjálfur keypti maður, þegar maður fór að vinna á sumrin, þá fór maður að kaupa sér buxur og úlpu og vettlinga og húfu og allt þetta sem maður þurfti að nota. Við vorum alveg sér miðað við svigskíðin sko. Það sást alveg hvort þú varst í göngu eða ekki, bara á því hvernig þú klæddir þig.“ Áður en Silla hætti eignaðist skíðafélagið buxur og úlpur sem keppendur notuðu þegar farið var á mót. Allir í skíðafélagi Ólafsfjarðar eignuðust eins ferðagalla og var hann mikið notaður líka. Þegar kom að því að keppa skipti máli að vera sem minnst klæddur. Notaðir voru þunnir heilgallar og ullarnærföt innanundir.
En hvernig var aðstaðan, var t.d. komin skíðaskáli?
,,Nei, það þurfti eiginlega enga aðstöðu. Það var svo stutt heim, stutt í allt, þannig að við þurftum eiginlega aldrei neina aðstöðu.“
Helduru að það hafi kannski skipt sköpum fyrir skíðaíþróttina á Ólafsfirði, hvað það var auðvelt að stunda hana?
,,Já, þetta var ekkert mál, þú sérð að maður gat bara, maður gat gengið hvar sem var. Ef það var kannski farið að minnka snjórinn í bænum þá fórum við bara upp í Skeggjabrekkudal eða upp í fjall eða upp í Kleifar eða hvernig sem það var, maður bara fór þar sem snjórinn var.“
En hvernig var svona stemmningin í bænum fyrir mót og keppnir? Komu margir að horfa á?
,,Já, já, það var iðulega. Iðulega kom fullt af fólki til að horfa á. Það var nefnilega svo gaman, brautirnar lágu náttúrulega bara um bæinn sko. Og fólk safnaðist saman, kannski á ákveðnum stöðum til þess að hvetja og maður var alltaf hvattur voða vel þegar maður var að keppa. Það var mjög mikið keppt, það var keppt líka stundum í Skeggjabrekku. Það var voða gaman að keppa því það var alltaf einhver sem var að hvetja mann, sérstaklega þegar það voru stórmót, þá var mikill fjöldi.“ Það var almennt mikill stuðningur og skíðafólk fann fyrir miklum meðbyr með íþróttinni. Eldra fólkið í bænum var sérstaklega áhugasamt. ,,Það var líka verið að hæla manni í bænum og það var mikill áhugi fyrir göngunni heima.“ Silla segist oft hafa fengið hrós eða klapp á bakið þegar hún fór í Kaupfélagið.
Hvernig var umfjöllun fjölmiðla um skíðaíþróttir á þessum árum?
,,Það var aðeins í blöðunum. Það var aðallega sýnt svona stökk, mér fannst það, mér fannst stökkið og svigskíðin fá svona meira heldur en kannski gönguskíðin. Stökkið var náttúrulega mjög vinsælt á þessum tíma, mjög svo, og náttúrulega mjög gaman að fylgjast með stökki. Það voru svona bútar og bútar og kannski smá í blöðunum en það þurfti þá að vera Íslandsmeistaramót eða unglingameistaramót til þess að það væri einhver umfjöllun.“
Sigurlaug var 18 ára gömul þegar hún hætti að keppa og var því hætt áður en hún eignaðist fjölskyldu. Hún var þá flutt til Siglufjarðar, en þar voru bara strákar að æfa göngu. Silla gafst upp vegna þess að hún þekkti engan og var alein að æfa. Henni þótti erfitt að skipta um félag. ,,Ég var allt í einu orðin aðkomumanneskja inn í þessu liði, ég náði í rauninni aldrei að fitta við, að vera hér, mér fannst það ekki.“
Silla byrjaði að fara með dætur sínar á skíði þegar þær voru bara tveggja ára og segir að skíðaíþróttin sé mjög góð fjölskylduíþrótt. ,,Þetta er bara svo heilbrigð og holl íþrótt, þetta bara gefur manni svo mikið, að fara og reyna aðeins á sig og í snjónum og kuldanum. Ég held að þetta sé besta meðal sem maður fær, það er að fara á skíði, þetta er eiginlega bara dásamlegt. Hvort sem þú ferð á gönguskíði og gengur í sólinni inn dalinn eða bara í froststillunni, þetta er dásamlegt.“
Var ekkert mikið um slys eða meiðsli?
,,Jaa, maður kannski tognaði í lærinu eða datt og meiddi sig eða eitthvað svona í brekkunum. Maður náttúrulega fór oft ansi háar brekkur niður. Jújú, maður fékk stundum svona góða byltu.“ Silla slasaðist aldrei alvarlega en einu sinni tognaði hún aftan á lærinu vegna álags.