Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 8. júlí 2008 Ađ heimili Sigríđar Ţórdísar Júlíusdóttur, Einholti 14d, Akureyri. Sigríđur Ţórdís er fćdd í Skagafirđi 3. mars 1948. Hún ólst

Sigríđur Ţórdís Júlíusdóttir

8. júlí 2008

Að heimili Sigríðar Þórdísar Júlíusdóttur, Einholti 14d, Akureyri.

Sigríður Þórdís er fædd í Skagafirði 3. mars 1948. Hún ólst upp á Siglufirði en flutti þaðan 21 árs að aldri. Sigríður Þórdís, sem alltaf er kölluð Dísa, byrjaði að standa á skíðum um leið og hún fór að labba. Hún byrjaði að keppa um 13 ára aldurinn og keppti þar til hún varð 17-18 ára. Faðir Dísu keppti í stökki ásamt bræðrum sínum en sá sem hafði mest áhrif á hana sem barn var bróðir hennar, Hreinn Júlíusson. Hún byrjaði snemma að elta stóra bróður upp í fjall en foreldrar þeirra reyndu ekki að hafa áhrif á skíðaiðkun þeirra.

Fyrstu skíðin fékk Dísa frá föðurbróður sínum og hún kallar þau tröllaskíði, vegna þess að þau voru alltof stór fyrir hana. Það voru svo kölluð hikkorí skíði. Síðan fékk hún skíði sem pössuðu henni, en þau voru ekki með stálköntum og því mun léttari og liprari. Til að byrja með voru bindingarnar þannig að fæturnir voru ólaðir fastir við skíðin. Fyrst kom tájárn en síðan hæljárn með smellu. Á Siglufirði var engin íþróttavöruverslun og það gat verið erfitt að útvega góðan útbúnað. Best var að þekkja einhvern sem hafði tök á því að versla í góðum búðum. Það skipti máli að eiga réttu græjurnar og Dísa segir að ,,þeir sem voru á bestu græjunum komust lengra.“ Keppnisfólkið sá sjálft um sinn klæðnað en Dísa var svo heppin að móðir hennar var mjög handlagin og prjónaði og saumaði fatnað fyrir hana. Flest föt Dísu voru því heimagerð og þóttu ,,mjög gjaldgeng.“ Keppnisfatnaðurinn samanstóð yfirleitt af buxum og peysu í stíl en ekki voru komnir neinir félagsbúningar á þessum árum. Buxurnar voru úr strets efni eða öðru léttu efni.

Helstu keppnisgreinar voru ganga, svig og stökk. Það var mikill áhugi fyrir stökki á þessum árum og ganga var líka sterk. Dísa keppti í alpagreinum og svigið var hennar aðalgrein. Hún segir að það hafi ekki verið dýrt að æfa skíðaíþróttina fyrr en hún var orðin 13-14 ára því þá byrjaði hún að elta öll mót mð tilheyrandi ferðakostnaði. Einnig var nauðsynlegt að eiga góðan útbúnað og þurfti hún t.d. að eiga tvö pör af skíðum, annað fyrir svig og hitt fyrir stórsvig. Eiginleg kennsla tíðkaðist ekki en nokkrir áhugasamir sjálfboðaliðar tóku að sér að þjálfa krakkana. Þeirra á meðal var Jonni Vilbergs sem sá um alpagreinarnar. Dísa segir að tilsögnin hafi þó ekki verið nægjanleg og það hafi t.d. alveg vantað kennslu í teygjum. Ekkert var hugsað um teygjur eða upphitun, heldur var arkað beint upp í fjall og rennt sér svo niður án þess að teygja á vöðvum fyrir eða eftir æfingar. Dísa telur að afleiðingarnar séu að koma niður á líkamanum mörgum árum seinna, þótt hún hafi ekki fundið fyrir neinu á yngri árum. Afleiðingarnar eru vefjagigt og stirður og aumur skrokkur. Það var ekki mikið um slys, en eitthvað um tognanir. Aðstaða til skíðaiðkunar var afar góð á Siglufirði og brekkurnar flottar, að sögn Dísu. Það var ýmist farið upp í Skarð eða í gilið fyrir ofan bæinn, en þar var ljósabraut sem reist var í kringum 1960. Ekki var skíðalyfta í ljósabrautinni en fyrir neðan svokallaða Gimbrakletta var gamall dráttarvélarmótor með trissu sem togaði fólk upp eftir brautinni. Seinna komu almennilegar skíðalyftur, eða svokallaðar toglyftur. Í Skarðinu voru diskalyftur. Síðan var aðstaðan færð niður á Hól en Dísa æfði aldrei þar. Meðan hún var að æfa var skíðaskáli niður á Ásnum en Dísa minnist þess ekki að hann hafi verið notaður á þeim tíma.

 

Það var farið á skíði allar auðar stundir en að sögn Dísu kom það aldrei niður á náminu né öðru. Það var ekki mikill tími fyrir heimalærdóm en skíðakrakkarnir stóðu sig samt ágætlega í skólanum. Á sumrin voru allir í sínu streði og ekki var hugsað um neinar líkamsæfingar, aðrar en þær sem tilheyrðu vinnunni. 

Aðspurð um fyrsta Íslandsmótið sem hún keppti í segir Dísa að hún hafi ætlað að keppa árið 1963 en ekki fengið þátttökurétt vegna þess að hún hafði ekki aldur til að keppa. Mánuði seinna vann hún á Skarðsmóti á Siglufirði. Skarðsmót var haldið árlega í kringum Hvítasunnu og markaði það lok keppnistímabils vetrarins. Í þá daga var veturinn lengri, það byrjaði fyrr að snjóa og hélst betur. Skíðatímabilið stóð oft yfir frá október og fram á vor.

Helstu fyrirmyndir Dísu voru Stenmark og Kristín Þorgeirsdóttir frá Siglufirði. Kristín var að ljúka sínum ferli þegar Dísa var að byrja og voru þá aðeins tvær stúlkur að keppa frá Siglufirði. Hin stúlkan var Árdís Þórðardóttir og voru þær stöllur oft nefndar Dísurnar tvær. Árdís var jafnframt helsti keppinautur Dísu en þær voru báðar framarlega í alpagreinunum. Dísa segir um Árdísi: ,,Hún hafði oftar betur, hún hafði meiri hörku þegar út í keppni var komið.“ Dísa segir að keppnisskap hafi mikið að segja og telur að sig hafi vantað aðeins upp á keppnisskapið og skort meiri ákveðni. Ákveðni er mikilvægur eiginleiki hjá þeim sem vilja ná langt á skíðum, það að ætla sér að standa sig er númer eitt. Númer tvö er að skipuleggja hlutina og vera útsjónarsamur. Dísa fór aldrei erlendis til að keppa, enda var ekki til siðs að senda konur út í keppnir. Það voru bara strákarnir sem fengu tækifæri til þess. Jafnréttismál voru aftarlega á merinni og karlarnir látnir ganga fyrir í öllu. Þetta breyttist síðustu árin en fram að því var ekki mikið gert fyrir konurnar. Viðhorf fullorðna fólksins var gjarnan að stelpurnar ættu ekkert erindi. Aðalheiður Rögnvaldsdóttir var frumkvöðull kvenna í skíðaíþróttinni á Siglufirði og hún hvatti Dísu til að halda áfram að stunda íþróttina. Dísa nefnir nokkrar af þeim stúlkum sem voru að keppa samtíða henni en þær voru Karolína, Jakobína, Bíbí, Hrafnhildur og Jóna Jóns. Vinskapur myndaðist milli keppnismanna mismunandi félaga og þetta voru allt vinir og kunningjar. Keppendur í svigi og alpagreinum voru fáir frá hverjum stað og ekki hægt að nefna eitt félag fremur en annað sem skæðasta keppinaut Siglfirðinga. Dísa æfði með Skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg og segir að keppnisandinn hafi verið mjög góður. Það voru allir góðir vinir og stóðu saman sem ein stór fjölskylda. Stemmningin á Siglufirði var alltaf góð fyrir keppnir og mót. Það voru allir tilbúnir að leggja fram vinnu sína og fólk var duglegt við undirbúning.    

 Þegar Dísa var 15-16 ára fór hún til Akureyrar að keppa ásamt tveimur strákum frá Siglufirði. Skólastjórinn gaf þeim frí á föstudegi með því skilyrði að þau yrðu mætt í skólann aftur á mánudagsmorgni. Farið var til Akureyrar með Drang en þau gátu ekki farið með Drang til baka vegna þess að skipið sigldi ekki á sunnudögum. Krakkarnir tóku því leigubíl frá Akureyri að Hrauni í Fljótum og gengu þaðan í kolniðamyrkri og vondu veðri. Dísa segir að þau hafi séð ansi marga drauga á leiðinni og það hafi verið sérlega draugalegt að ganga yfir Skarðið. Í þessari ferð kom föðurlandið að góðum notum og Dísa segir að það hafi hreinlega bjargað sér.

Dísa rifjar upp Norðurlandsmót á Ólafsfirði eitt árið. Þá var hún að vinna í Apótekinu á Siglufirði og fékk ekki frí. Hinir krakkarnir fóru með Drang en hún missti af skipinu. Eftir vinnu var henni skutlað á hraðbát til Ólafsfjarðar. Hún rétt náði á mótið. Þegar kom að keppni var ljóst að það voru miklir grafningar í brautinni. Stelpurnar sem fóru á undan Dísu í brautina þorðu ekki ofan í grafningana en Dísa ákvað að gera það og fékk langbesta tímann. 

Algengast var að farið væri sjóleiðina á keppnir og mót en stundum var flogið í smárellum til Ísafjarðar eða farið með varðskipum. Dísa var alltaf sjóveik og segir að sjóferðirnar hafi alltaf verið hrein pína. Hún rifjar upp eina flugferðina til Ísafjarðar en þá var hún að fara að keppa ásamt tveimur strákum frá Siglufirði. Strákarnir voru svo rausnarlegir að leyfa henni að sitja fremst en sátu sjálfir aftast. Mörgum árum seinna barst þetta í tal þeirra á milli og þá kom í ljós að strákunum leist ekkert á relluna og vildu ekki sjá út því þeir voru svo hræddir um að eitthvað kæmi fyrir. Þess vegna fékk Dísa besta útsýnið í þeirri ferð.

Dísa á góðar minningar frá keppnisárum sínum og segir að þetta hafi alltaf verið mjög skemmtilegt. Árið 1968 vann hún Íslandsmeistaratitilinn á Akureyri. Hún hætti fljótlega að keppa upp frá því og eignaðist börn og heimili. Árið 1983 tók hún þátt í öldungamóti og vann það, en þá var hún búin að eignast fjögur börn. Hún segir að það hafi verið of mikið basl að halda áfram keppni eftir að börnin komu og því hafi hún lagt skíðin á hilluna. Hún stendur þó uppi sem sigurvegari og á töluvert safn af bikurum og medalíum.

Að lokum ber Dísa saman skíðaiðkun barna og unglinga þá og nú og segir að mikið hafi breyst. Á Siglufirði gátu foreldrar fylgst með börnunum út um gluggann hjá sér. Í þá daga þekktist fólk meira og voru meiri vinir og kunningjar en í dag. Núna er þetta orðin miklu meiri keyrsla. Börnin eru keyrð og sótt á æfingar og hlutverk foreldranna er einkum fólgið í því að koma þeim á milli staða. Auk þess finnst Dísu að það vanti þennan skemmtilega íþróttaanda. Það er krafist of mikils af börnunum núna, of mikill þrýstingur á þau. Aðeins sé einblínt á þá bestu, þá sem skara fram úr. Allir ættu að fá að vera með.

 

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya