Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 3. júlí 2008 Ađ heimili Sigfúsínu Stefánsdóttur á Siglufirđi, viđstaddur var Ómar Hauksson. Sigfúsína Stefánsdóttir er fćdd 16. júní 1921 á

Sigfúsína Stefánsdóttir

3. júlí 2008

Að heimili Sigfúsínu Stefánsdóttur á Siglufirði, viðstaddur var Ómar Hauksson.

Sigfúsína Stefánsdóttir er fædd 16. júní 1921 á Siglufirði og hefur alla tíð átt heima á Siglufirði. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson og Soffía Jónsdóttir. Sigfúsína átti þrjá bræður, en sá sem var best þekktur fyrir afrek sín í skíðaíþróttinni var Jón Guðni Stefánsson, fæddur 27. ágúst 1914 á Siglufirði. Jón stundaði ýmsa algenga vinnu í landi og var einnig nokkuð á sjó. Hann fórst með skipinu Hirti Péturssyni 27. febrúar 1941. Í bókinni Virkið í norðri er skrifað um Jón: ,,Hann var dugnaðarmaður og drengur góður; hann var mikill íþróttamaður, einkum skíðamaður ágætur og var skíðakóngur Íslands 1937.“ Þar segir einnig að Jón hafi kvænst Önnu Aðalheiði Jónsdóttur 13. júní 1936 og eignuðust þau eitt barn.[1]

Bræðurnir voru mikið á skíðum og móðir þeirra notaði skíðin mikið til að fara á milli staða. Sigfúsína er alin upp á Lækjargötu á Siglufirði og segir að það hafi ekki þurft annað en að fara út fyrir hússins dyr til að komast á skíði. Fólk notaði skíðin almennt mikið til að komast á milli staða og margir notuðust við tunnustafi. Tunnustafirnir voru festir með ól yfir ristina en Sigfúsína segist hafa átt alvöru skíði. Þrátt fyrir að fullyrða það að  hafa ekki farið nema einu sinni á skíði rifjar hún upp nokkrar skíðaferðir. Eina skíðaferðina endaði hún inni í skúr sem stóð opinn. Hún gekk stundum á skíðum og þegar hún var að vinna í íshúsinu var starfsfólkinu boðið fram í fjörð á skíði. Sigfúsína hafði þó meira gaman af því að fylgjast með strákunum stökkva upp í Hvanneyrarskálinni. Fólk klofaðist þangað uppeftir í miklum snjó og renndi sér svo á pokum niður. Stúlkurnar voru klæddar í pils en létu það ekkert aftra sér. Sumir strákarnir gengu í pokabuxum og girtu sokkana upp á hné, það var auðveldara fyrir þá að klofa snjóinn.  

Sigfúsína man eftir skíðamótum yfir á ásnum, en þar stóð skíðaskáli Skíðafélags Siglufjarðar. Seinna kom Skíðaborg, en það var skáli sem stóð á hólnum fyrir ofan Steinaflatir. Það var stokkið í Stóra bola og Litla bola og fólkið í bænum fór þangað frameftir til að fylgjast með. Það fór bara eftir snjóalögum hvert var farið og hvar best var að stökkva. Lengi vel var farið upp í Hvanneyrarskál, en þar var aðstaða frá náttúrunnar hendi til að stökkva inn í botni. Landslagið þar var hagstætt til að búa til stökkpall, eða svokallað loftkast úr snjónum. Eftir að farið var að stökkva í Stóra bola og Litla bola sóttu skíðamenn í auknum mæli þangað frameftir og þá fóru að koma skíðamenn frá Noregi til að kenna, Birger Ruud og fleiri.

Sigfúsína segir að stemmningin í bænum hafi verið góð og allir hafi verið reiðubúnir til að aðstoða og leggja hönd á plóg. Það var heilmikil vinna á bak við þetta, það þurfti að búa til stökkpalla og brautir og allt gert með mannafli. Sigfúsína segir að það hafi alltaf myndast mikil stemmning í kringum göngurnar fram í firði og þangað hafi fólk hópast saman til að horfa á og fylgjast með. Um páskana voru haldin skíðamót, þá komu utanbæjarmenn og kepptu við Siglfirðinga. Sigfúsína segir að þetta hafi verið virkilega skemmtilegur tími.

Sigfúsína man eftir því þegar skíðafélagið klofnaði og búið var til nýtt félag, Skíðaborg. Hún segir að nýja félagið hafi notið meiri vinsælda í upphafi. Það voru einkum ungu mennirnir sem fóru í nýja félagið, og aðalforsprakkarnir þar voru þeir Bragi Magg og Alfreð Jónsson, eða Alli King Kong, eins og hann var kallaður. Sigfúsína ber Alla vel söguna og segir að hann hafi verið bráðduglegur skíðamaður og mikill keppnismaður. Hann var líka drífandi á öllum öðrum sviðum og afskaplega vel liðinn af öllum. Hún segir að þetta hafi allt verið yndislegir strákar. Stelpur voru ekki farnar að keppa á þessum árum.  

Jón Stefánsson, bróðir Sigfúsínu, byrjaði snemma að stunda skíðaíþróttina. ,,Hann er bara alveg veikur skíðamaður og hann er með þessum strákum alltaf hreint á skíðum.“ Jón var í Skíðafélagi Siglufjarðar, gamla félaginu. Hann stundaði vinnu í verksmiðjunum þar til hann fór á sjó. Hann þurfti sjálfur að verða sér út um skíði, en hægt var að kaupa norsk skíði fyrir lítin pening á Siglufirði. Kaupmennirnir í Siglufirði fluttu inn skíði fyrir strákana. 

Samtímamenn Jóns í skíðaíþróttinni voru Evert, Stebbi Gústa, drengirnir hans Óla Gosa; Einar og Bubbi, Helgi Sveins og Keli Ben. Svo voru auðvitað allir á skíðum á þessum árum en þetta voru þeir sem voru að keppa. Jón var bara unglingur þegar hann byrjaði að keppa en hætti keppni snemma. Hann hlaut titilinn skíðakóngur Íslands á skíðamóti á Siglufirði árið 1937 og Sigfúsína vill meina að það hafi verið fyrir árangur í stökki. Jón var aðallega í stökki og á þessum árum tíðkaðist ekki að keppa í norrænni tvíkeppni, þ.e. göngu og stökki. Fljótlega eftir að Jón hlaut titilinn fór hann á sjó og hætti að keppa. Hann fórst í sjóslysi árið 1941.  [1]Gunnar M. Magnúss. Virkið í norðri: sæfarendur. 3.bindi. Reykjavík, 1950.

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya