Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 23. júní 2008 Ađ heimili Rögnvalds Ţórđarsonar og Sjafnar Stefánsdóttur, Laugarvegi 32 Siglufirđi. Rögnvaldur Ţórđarson er fćddur á

Rögnvaldur Ţórđarson

23. júní 2008

Að heimili Rögnvalds Þórðarsonar og Sjafnar Stefánsdóttur, Laugarvegi 32 Siglufirði.

Rögnvaldur Þórðarson er fæddur á Siglufirði 10. júlí 1944. Hann hefur alltaf átt heima á Siglufirði og starfaði hjá Pósti og síma í 47 ár. Hann fór í iðnskólann á Siglufirði, síðan fór hann í línumannsnám hjá Pósti og síma, svo fór hann í símsmíðanám og símsmíðameistaranám. Rögnvaldur hætti að starfa hjá Pósti og síma þegar fyrirtækinu var skipt upp. Hann réði sig til Póstsins og var fulltrúi þar til hann tók við stöðvarstjóraembætti árið 1998. Hann hætti þeim störfum árið 2007 og er núna sumarafleysingamaður hjá Olís. Foreldrar hans voru Þórður Jónsson símaverkstjóri, fæddur í Reykjavík 29. september 1909 og Sigríður Aðalbjörnsdóttir húsmóðir, fædd 1917 í Siglufirði. Þau eru bæði látin.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Ég var nú eiginlega í sjálfu sér ekki mikill skíðamaður. Ég að vísu keppti svona í innanfélagsmótum þegar ég var yngri, eða frá því að maður var unglingur. En mesti áhuginn kveiknaði náttúrulega þegar synir mínir fóru að stunda skíðaíþróttina. Þá kveiknaði mjög mikill áhugi hjá mér og fljótlega var maður svona mjög aktívur í félaginu og eftir það varð ég formaður.“ Rögnvaldur var formaður Skíðafélags Siglufjarðar - Skíðaborg í 15 ár. Búið var að sameina félögin þegar Rögnvaldur byrjaði að starfa við þetta en hann segist hafa heyrt að það hafi verið mikill rígur á milli félaganna. ,,Það gekk nú dálítið langt því það kom fyrir að þegar Skíðafélag Siglufjarðar var að keppa í stökki hér á Stóra-bola þá komu Skíðaborgarmenn og voru að keppa í göngu og þá urðu Skíðafélagsmenn að bíða meðan þeir gengu framhjá brekkunni. Þetta var svona gott dæmi um það hvernig þetta var. Það var jafnvel þannig að þeir voru ekki í sömu félögum, jafnvel bræður, þeir voru jafnvel í sitthvoru félaginu.“ Rögnvaldur fór að starfa fyrir Skíðafélagið í kringum 1970. Hann byrjaði þó eitthvað fyrr að starfa í kringum Skarðsmótin. ,,Sem voru heilmikil mót sem fóru fram að vori til og var eiginlega svona punkurinn yfir i-ið yfir öll skíðamót sem fram fóru á landinu. Það var mikið fjölmenni sem mætti og keppti á þessum mótum. Það var landsmót, það var punktamót eins og kallað var, en síðan var þetta lagt niður sem punktamót 1976.“ Punktamót þýddi það að menn söfnuðu sér punktum. Eftir því sem menn voru með færri punkta yfir tímabilið, þeim mun betra start fengu þeir þegar þeir kepptu næsta ár á eftir. Sá sem var fyrstur fékk enga punkta, annar fékk einhverja punkta og sá þriðji enn fleiri og svo framvegis. Þannig var þetta í alpagreinunum. Það var talað um að besta startið væri svona frá 1-10. Það var nú sérstaklega út af því að það voru engir troðarar og brautirnar voru fóttroðnar. Þá var langbest að fara fyrstur, þá fékk maður bestu brautina því brautin átti það til að grafast niður. Það voru kannski um 30 keppendur sem renndu sér niður og brautin smá versnaði með hverjum keppanda. Í göngunni var þessu öfugt farið, það þótti best að vera aftastur. Þannig fékk sá sem átti besta tímann að ganga aftast. Seinna var farið að nota frystiefni og það var yfirleitt notað á Skarðsmótunum því þá var snjórinn farinn að bráðna. Rögnvaldur segir að félagsstörfin hafi aðallega verið unnin um helgar og mest var að gera um Hvítasunnuhelgina þegar Skarðsmótið var haldið.       

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Fljótlega eftir að Rögnvaldur byrjaði að starfa fyrir félagið fékk það til liðs við sig norskan þjálfara sem þjálfaði göngu og stökk, eða svokallaða tvíkeppni. Þetta var í kringum 1974 og á þeim tíma var mjög mikil aðsókn í norrænu greinarnar. Síðan hafa verið Siglfirskir þjálfarar, bæði í alpagreinum og göngu.  

Hversu oft var æft yfir vetrartímann?

Það var æft 3-4 sinnum í viku yfir veturinn. Það var mikill áhugi fyrir íþróttinni. Rögnvaldur segir að eftir að Skarðsmótið lagðist af þá hafi þetta verið hálfgert unglingastarf. Þeir sem voru mest að æfa voru krakkar á aldrinum 7-16 ára.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segðu frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks

Árið 1976 var fyrsta alvöru skíðalyftan reist. Hún var reist í Hólshyrnunni og var tekin í notkun árið 1977. Vinnan við lyftuna var sjálfboðaliðavinna og fékk Skíðafélagið fjölmörg fyrirtæki í bænum til að styrkja sig, bæði í formi peninga og mannafls. Áður höfðu verið minni lyftur, knúnar áfram af dráttarvélum, en þær þóttu hættulegar. ,,Þetta breytti alveg rosalega miklu fyrir okkur hérna á Siglufirði vegna þess að við vorum farin að dragast svolítið aftur úr, vegna þess að aðrir staðir voru komnir með, og þá náttúrulega sérstaklega Ísafjörður, Akureyri og Reykjavík. Þá voru þeir komnir með alvöru skíðalyftur. Nú síðan breyttist þetta enn meira hjá okkur því að þeir voru komnir síðan með snjótroðara og ekki við, og þetta var orðið slæmt ástand hjá okkur, þannig að það voru nokkrir góðir menn sem komu þar að máli og það var keyptur nýr troðari frá Austurríki.“ Snjótroðarinn var keyptur stuttu eftir að lyftan kom, einu eða tveimur árum síðar. Það var fengin maður frá Austurríki til að hjálpa til við að taka ákvörðun um það hvar best væri að setja upp lyftuna. Því miður var hún þannig staðsett að hún snjóaði oft í kaf, þá var reynt að handmoka til að hægt væri að komast upp eftir henni, en það gekk ekki til lengdar. Því var ákveðið að færa lyftuna upp í Siglufjarðarskarð.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn?

Helsti kostnaðurinn var fólginn í græjunum sjálfum. Rögnvaldur segir að það sé töluverður kostnaður fólginn í græjunum, sér í lagi ef börnin eru mörg. Sjálfur á hann fjóra stráka sem allir stunduðu skíði, þrír í alpagreinum og einn í göngu. Það er orðið þannig í dag að yngri krakkarnir mega ekki keppa á sömu skíðunum í svigi og stórsvigi og Rögnvaldur segir að þetta sé með ólíkundum. Einnig er töluverður ferðakostnaður fólginn í keppnisferðalögum.

Segðu frá gullpeningum og bikurum

Fyrirtæki og stofnanir borguðu verðlaunagripina.

Hefur þú komið að skipulagningu margra Íslandsmóta?

Rögnvaldur hefur tekið þátt í skipulagningu þriggja Íslandsmóta sem haldin voru á Siglufirði. Eftirminnilegasta mótið var þegar Siglfirðingar unnu allar greinar sem keppt var í, en það var áður en Rögnvaldur fór að starfa fyrir Skíðafélagið. Hann byrjaði á að starfa sem ræsir á mótum og sá um að ræsa keppendur í alpagreinum. Eitt sinn var hann ræsir á móti sem fram fór við Leikskála, sem fóru síðar í snjóflóði. Á meðal keppenda var Kristinn Benediktsson, langbesti skíðamaður landsins á sínum tíma. Það var kolvitlaust veður og skipuleggjendur mótsins grófu sig ofan í snjóskafla til að skýla sér fyrir veðrinu. Þegar búið var að bíða svolítinn tíma var ákveðið að ræsa og þá áttu allir að vera komnir upp í startið. En Kristinn Benediktsson var ekki kominn upp. Hann traðkaði upp brautina og stoppaði keppnina af. Hann átti að koma inn í röðina og hann var beðinn um að færa sig út af brautinni því næsti keppandi átti að fara af stað. Hann neitaði því og það endaði með því að hann var kærður út úr mótinu og dæmdur úr keppni. Þetta var dálítið sorglegt vegna þess að þetta var besti skíðamaður landsins og átti örugglega sigurinn vísan, segir Rögnvaldur.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

,,Það var nú ekki á meðan ég starfaði, það var löngu áður en að ég starfaði.“ En Rögnvaldur man eftir að hafa heyrt þetta. ,,Ég er nú hræddur um það.“ Þetta var notað á árum áður og þótti voða flott á sínum tíma. Rögnvaldur nefnir nokkra Siglfirðinga sem fengu titilinn skíðakóngur: Guðmund Guðmundsson, Jónas Ásgeirsson og Jón Þorsteinsson. Skíðadrottningar voru Aðalheiður Rögnvaldsdóttir og fleiri sem Rögnvaldur kann ekki að nefna.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Ég held að það hafi skipt bara töluvert miklu máli fyrir þessa menn sem voru í þessu, því að þetta voru náttúrulega menn sem, þessir bestu, þeir voru búnir að fara erlendis að æfa.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

,,Hann þurfti náttúrulega að búa yfir ýmsum hæfileikum.“ Menn þurftu að vera reglumenn til að stunda skíðaíþróttina.

Lýstu skíðum, skíðaskóm, festingum og skíðastöfum

Fólk var ólað niður í svigskíðin í gamla daga, þannig að það dytti ekki upp úr skíðunum. Af þessum sökum var oft mikið um fótbrot. Þegar menn duttu þá losnuðu skíðin ekki af þeim. Síðan breytist þetta, það kemur öryggistá á alpagreinaskíðin. Nú er kominn öryggishæll líka, þannig að núna eru skíðin bæði með öryggishæl og öryggistá. Menn eiga að losna úr skíðunum ef þeir detta. Sumir herða öryggið of fast þannig að skíðin sitja föst og ,,þá getur brugðið til beggja vona“ segir Rögnvaldur.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Slys voru algeng, sérstaklega í alpagreinunum. Rögnvaldur rifjar upp landsmót sem haldið var í Hólshyrnunni, en þá brotnuðu tveir sama daginn. Þá voru ekki komnir troðarar og brautirnar voru grafnar, auk þess sem skíðabúnaðurinn var ófullkominn og sat fastur á fótunum. Það var töluvert um fótbrot. Rögnvaldur man eftir alvarlegu slysi á starfsmanni á einu Skarðsmótinu. ,,Hann lenti út í mel, hann var að renna sér niður með fullt af stöngum, svigstöngum, lenti út í möl og lenti á höfðinu og hann beið þess aldrei bætur eftir það. Og lést frekar ungur. Það brotnaði höfuðið á honum og hann náði sér aldrei eftir þetta.“ Þetta var Kristinn Rögnvaldsson.

Lýstu fatnaði. Annars vegar æfingafatnaði og hins vegar keppnisbúningum.

,,Þetta var náttúrulega bara svona venjulegar skíðabuxur sem menn voru í til að byrja með. Þegar fram liðu stundir þá voru komnar svona hlífðarbuxur sem voru utan um, bara áður en að menn lögðu í hann. En hinir eiginlegu keppnisgallar, svona alvöru keppnisgallar eins og menn eru á í dag, komu mikið seinna.“

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna?

,,Það lá við að það væri jafnt af stelpum og strákum í keppni í alpagreinum, það voru alveg ótrúlega margar stelpur sem voru í þessu.“ Það eru fáir unglingar frá Siglufirði að keppa í alpagreinum í dag, ekki nema einn eða tveir, segir Rögnvaldur. En það voru allt upp í átta krakkar að keppa í hverjum flokki þegar hann var að starfa í félaginu og flokkarnir voru fimm. Þetta þótti mjög góð þátttaka.

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?  

Í gegnum tíðina hafa það verið Akureyringar, Ísfirðingar, Ólafsfirðingar og Reykvíkingar.

Hvernig var keppnisandinn?

,,Ég held að hann hafi verið bara mjög góður. Menn kynntust vel hverjum öðrum, menn eignuðust góða vini og það lifir ábyggilega enn þann dag í dag.“ Rögnvaldur segir að það sé mikil vinátta á milli félaga, sérstaklega var alltaf góð vinátta á milli Siglfirðinga og Ísfirðinga.

Segðu frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks

Skíðaborg reisti skíðaskála við Steinaflatir og Skíðafélag Siglufjarðar átti skíðaskála á Saurbæjarásnum sem hét Skíðafell. Skálarnir eru báðir horfnir og það var ekkert hús reist fyrr en lyftan er sett við Hólshyrnuna. Þá var reist nokkurs konar lyftuhús. Þegar lyftan við Hólshyrnuna var færð upp í Skarð var húsið flutt upp eftir líka. Húsið var stækkað og varð að alvöru skíðaskála. Síðan voru lyfturnar færðar ennþá ofar en skálinn fór ekki með heldur keypti Rögnvaldur hann og gerði að sumarbústað. Bærinn lét svo reisa nýjan skíðaskála. Núna eru lyfturnar orðnar þrjár.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir?

Þetta hefur mikið breyst á undanförnum árum, núna er varla snjór í janúar og febrúar svo skíðatímabilið er ekki nema bara mars og apríl. Áður fyrr byrjaði það strax í september og stóð fram undir Hvítasunnu.

Hvernig er stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Ég held að hún sé frekar svona léleg, ég held að hún hafi farið dálítið mikið niður á við.“ Á meðan Rögnvaldur starfaði við þetta var þetta mjög vel auglýst og krakkarnir voru mjög spenntir fyrir mótum. Þátttaka var mjög góð, sérstaklega í yngri flokkunum, bæði í göngu og alpagreinum. Stúlkur voru hlutfallslega færri í göngu en alpagreinum.

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Það var yfirleitt farið með rútu, en áður fyrr varð að fara frá Siglufirði með bát, því Strákagöngin voru ekki opnuð fyrr en 1967 og Siglufjarðarskarð ófært yfir veturinn. Ferðalögin voru kostnaðarsöm en Skíðafélagið leitaði ýmissa leiða til að afla fjár. Það var til dæmis alltaf haldinn dansleikur á Páskadagskvöld á miðnætti og einnig var alltaf dansleikur um Hvítasunnuna. Allur ágóði rann til Skíðafélagsins. ,,Þetta var haldið á Hótel Höfn, sem þá var og hét, og það var stappað út úr dyrum alveg ár eftir ár í þessu.“ Skíðamót Íslands var alltaf haldið um páska, byrjaði alltaf á þriðjudegi og stóð alla páskavikuna. ,,Ég er nú alveg viss um það að það hafa nú ekki margar konur verið voðalega ánægðar með suma þegar þeir þurftu að fara og vera kannski alla vikuna í burtu, á þessum tíma. Það hefur ábyggilega verið svoleiðis. En þetta þóttu voðalega mikil skröll og vel sótt. Þetta var svona eiginlega aðalfjáröflunin, svo var náttúrulega verið með bingó og spilakvöld og svona ýmislegt, gengið í hús og betlað, þetta bara var þannig á þessum tíma sko.“ Dansleikirnir voru fyrir 16 ára og eldri. Það var ekkert vínveitingaleyfi þá, menn bara komu með sopann sinn sjálfir.

Manstu eftir einhverjum sérstökum viðburðum/atburðum?

Rögnvaldur man hvað hann var þakklátur á síðasta Skarðsmótinu, 1976, en þá fékk hann viðurkenningu frá Skíðasambandi Íslands fyrir störf að skíðamálum.

Rögnvaldur var aldrei dómari á mótum, enda þurfti að taka sérstakt námskeið til að mega vera dómari. Mótmæli og kærur voru mjög sjaldgæfar á mótum og hann man ekki eftir öðrum sem gerðist brotlegur en Kristni Benediktssyni. Stökkið var eina greinin sem þurfti að gefa einkun fyrir. Það voru gefin ákveðin stig fyrir stökklengdina en svo var ýmislegt fleira sem þurfti að reikna inn í líka, eins og stíll og niðurkoma. Það voru stökkdómarar sem sáu um einkunagjöfina, einkunir voru venjulega á bilinu 15-18 stig. Á Íslandsmótum var mótsstjóri og var hann skipaður yfir öllu mótinu, öllum greinum. Síðan var þessu skipt niður í alpagreinar og göngu. Í göngunni var svo sérstakur göngustjóri, formaður hliðvarða, brautarstjóri og markstjóri. Í alpagreinunum var svigstjóri, brautarstjóri, formaður hliðvarða, markstjóri og tveir ræsar. Í stökki var stökkstjóri, pallstjóri og formaður dómaranefndar. Pallstjóri sá um að stökkpallurinn væri tilbúinn fyrir keppni. Í stökki var einnig brekkustjóri sem sá um að brekkan væri klár áður en fyrsti keppandi fór af stað. Í alpagreinunum var það svigstjórinn sem stjórnaði keppninni, síðan var það formaður hliðvarða eða portavarða, eins og það var stundum kallað. Hliðverðirnir færðu formanni hliðvarða skýrslu sem eftirlitsdómari fór yfir og tók úrslitaákvörðun um það hvort einhver var úr leik. Menn höfðu korter í kærufrest. Til dæmis ef einhver hafði sleppt hliði og það var kært þá var hægt að gera athugasemd við það. Dómnefnd var skipuð þremur mönnum og þeir tóku ákvörðun um það hvort viðkomandi fékk að halda áfram eða ekki. Í stökkinu voru menn ekki dæmdir úr leik þó þeir dyttu, heldur fengu þeir bara færri stig fyrir vikið. Í göngunni var heldur ekkert verið að dæma úr leik. Það varð alltaf að vera læknir og björgunarsveit á landsmótum, það mátti ekki halda mótin öðruvísi. Seinni árin hefur Rögnvaldur verið kallari og séð um að vera með gjallarhornið á mótum. Kallari á að tilkynna alla tíma, þegar einhver kom í mark var það tilkynnt í gjallarhornið. Þá var yfirleitt líka sagt frá því hvort hann hefði náð besta tímanum, eða öðrum eða þriðja besta tímanum, það var ekki farið lengra aftur en það í fyrri ferð. Síðan las kallari upp tíma allra í seinni ferðinni. Það var líka kallari í stökki og göngu.

Áður fyrr var notuð skeiðklukka en svo kom rafmagnstímatökutæki sem er orðið alveg sjálfvirkt í dag. Núna er skylda að hafa viðurkennd tæki til tímatöku, þau þurfa að vera viðurkennd af Skíðasambandi Evrópu. Í göngunni var notast við skeiðklukkur mun lengur en í alpagreinunum.

Það þurfti að tilkynna þátttöku til mótsstjórnar með minnst vikufyrirvara, en með lengri fyrirvara á Íslandsmótum. Það höfðu allir jafnan þátttökurétt. Núna eru komin keppnisgjöld, sem Rögnvaldur telur að séu komin út í öfgar á Íslandi, það fær enginn að keppa nema borga keppnisgjöld. ,,Þetta þýðir ekkert annað en það að það fækkar krökkunum sem eru í þessu og hefur gert það.“ Rögnvaldur segir að það hafi fækkað mikið í greininni um land allt, ekki bara á Siglufirði. Kröfurnar eru orðnar svo miklar og miða við erlenda staðla, sem Rögnvaldur segir að sé ekki raunhæft. Íslendingar geti ekki verið meðal þeirra fremstu nema hreinlega búa erlendis, vegna þess að veðráttan bíður ekki upp á það.

Nú er ekki lengur keppt í stökki og ekki er heldur keppt í tvíhliðasvigi lengur. Tvíhliðasvig var þannig að það fóru tveir af stað í einu, þeir fara sitthvora brautina og skipta svo yfir í seinni ferðinni. Þetta er eina breytingin sem hefur orðið á keppnisgreinum. Keppt er í svigi og stórsvigi og ýmsum vegalengdum í göngu. Bæði er keppt í hefðbundinni göngu og frjálsri göngu, en frjáls ganga er stundum kölluð skaut. Í göngu fóru 13-14 ára strákar 3,5 km en stelpur 2,5 km, 15-16 ára strákar fóru 7,5 km og stelpur 5 km. Í alpagreinunum voru brautirnar nokkurn veginn jafn langar hjá 13-14 ára flokki og 15-16 ára en brautirnar voru lengri fyrir fullorðna, 17 ára og eldri.  

Það var skipt í stráka og stelpuflokk og aldurskiptingin var sú sama hjá báðum kynjum. Það var 7-8 ára, 9-10 ára, 11-12 ára, 13-14 ára, 15-16 ára. Á unglingameistarmóti var keppt í 13-14 ára stáka- og stelpuflokki og 15-16 ára stáka- og stelpuflokki. Það var unglingameistaramót Íslands en í dag er orðið svo fámennt og kröfurnar svo miklar að nú er búið að troða 15 ára krökkum að keppa við fullorðið fólk. ,,Þannig er þetta í dag, þetta er bara ekkert annað en kröfurnar sem gera það að verkum að þetta dalar svona rosalega.

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya