15. desember 2010
Að heimili Sigurgeirs Svavarssonar, Beykilundi 8, Akureyri.
Sigurgeir Svavarsson er fæddur 20. maí 1967. Sigurgeir ólst upp á Ólafsfirði. Hann þjálfaði skíði á Ólafsfirði á árunum 1991-1993. Þá voru um 12-15 krakkar að æfa gönguskíði. Sigurgeir fór í Verkmenntaskólann á Akureyri að loknu grunnskólanámi og lærði húsasmíði. Hann er byggingameistari í dag.
Ólafur Hartwig Björnsson er fæddur á Ólafsfirði 3. október 1967. Ólafur ter alinn upp á Ólafsfirði. Hann er íþróttakennari að mennt og útskrifaðist 1992 frá íþróttakennaraskólanum í Osló. Hann fór að kenna í framhaldsskóla rétt fyrir utan Lille Hammer sama ár og hann útskrifaðist. Þar kenndi hann íþróttir í níu ár og þjálfaði skíði. Ólafur flutti til Akureyrar frá Noregi 2001 og hélt áfram að kenna íþróttir og þjálfa skíði. Hann starfar sem íþróttakennari og skíðaþjálfari í dag.
Var íþróttalífið á Ólafsfirði öflugt þegar þið voruð að alast upp?
Ólafur: ,,Já, menn voru annað hvort á skíðum eða í fótbolta. Eða fótbolta á sumrin, margir hverjir og svo voru skíðin á veturnar. Langflestir voru bæði í fótbolta og á skíðum. Það voru ekkert rosalega margar aðrar íþróttagreinar sem voru stundaðar, aðeins frjálsar.“ Þeir eru sammála um það að þátttaka í íþróttum hafi almennt verið góð á Ólafsfirði. Sigurgeir og Ólafur byrjuðu 14 ára að æfa gönguskíði en höfðu verið að æfa svigskíðisem krakkar. Haukur Sigurðsson var þeirra þjálfari í skíðagöngu til að byrja með en seinna tók Gottlieb Konráðsson við því hlutverki. Það voru um tíu strákar að æfa gönguskíði á Ólafsfirði á þeim tíma.
Hvenær farið þið svo að keppa?
Ólafur keppti fyrst á landsmóti 16 ára gamall. Hann keppti bæði í stökki og göngu. Gangan var 10 km löng og honum þótti ansi mikið stökk að fara 10 km í stað þess að ganga 5 km eða 7,5 km eins og í unglingaflokkunum. Ólafur: ,,Nú eru miklu yngri krakkar að ganga miklu lengra í dag, heldur en við vorum að ganga. Ég komst inn á landsmót af því að mér hafði gengið vel í norrænni tvíkeppni á unglingameistaramóti. Og fékk þess vegna að keppa á landsmóti. Af því að þá þurfti maður að vera í verðlaunasæti til að fá að keppa, sem sagt verðlaunasæti á unglingameistaramóti til að fá að keppa upp fyrir sig í landsmóti, það var 17-19 ára.“ Ólafur var í stökki á meðan hann keppti í alpagreinunum. Hann hafði þá ekki neinn eiginlegan þjálfara en faðir hans Björn Þór hélt utan um krakkana. Það voru alltaf skipulega æfingar í göngunni og þá var æft nánast daglega, sama hvernig viðraði. Ef það var ekki færi eða veður til að leggja göngubrautir þá var gengið á götunum eða vatninu. Það var hægt að æfa allan veturinn vegna þess að snjóalög voru mun stöðugri þá en nú og meiri snjór. Skipulagðar æfingar hófust þó ekki fyrr en eftir áramót. Það var yfirleitt talað um Ólafsfjörð og Siglufjörð sem snjóakistur. Strákarnir fóru svo til Akureyrar í framhaldsskóla. Sigurgeir: ,,Það voru dálítil viðbrigði. Það var erfiðara að æfa, í staðinn fyrir að maður gat hlaupið, eða farið á skíðin heima hjá sér og rennt sér í brautina, þá þurfti maður að fara að redda sér fari upp í fjall eða út í Kjarnaskóg, af því að maður hafði ekki bíl. Og það var svona dálítið erfitt að æfa hérna fyrst. Ég held að maður hafi ekki æft jafn mikið eins og maður hefði gert annars.“ Ólafur tekur undir þetta. Auk þess segir Sigurgeir að það hafi ekki alltaf verið tilbúin göngubraut í fjallinu, það var tilviljunarkennt hvenær brautin var troðin og hvenær ekki. Ólafur og Sigurgeir kepptu fyrir Ólafsfjörð öll skólaárin og héldu því áfram í nokkur ár eftir að þeir fluttu til Akureyrar, eftir 2000. Þeim þótti erfitt að fara að keppa fyrir Akureyri, og þótti það svik við heimabæinn sem alltaf hafði stutt þá dyggilega. Ólafur var búinn að vera skíðaþjálfari á Akureyri í tvö ár áður en hann fór að keppa fyrir Akureyri. Á Ólafsfirði fengu þeir bæði fjárhagslegan og móralskan stuðning. Sigurgeir: ,,Það voru allir að klappa á bakið á mann hvar sem maður kom. Mjög mikið fylgst með manni, allir vissu í hvaða sæti maður lenti og svona þegar maður var að keppa. Þannig að það var mjög mikið fylgst með göngunni.“ Stemmningin var mest í kringum Ólafsfjarðarmót og þá fundu þeir best fyrir stuðningnum. Það var alltaf mikið af áhorfendum á göngu- og bikarmótum á Ólafsfirði. Fyrirtækin í bænum voru að styðja þá og skíðadeild Leifturs. Ólafur: ,,Við náttúrulega héldum ansi lengi áfram, miðað við marga aðra. Þannig að við náttúrulega komumst þarna í landslið og vorum þar í nokkur ár.“ Það var nokkuð fjölmennur hópur að æfa gönguskíðin á landsvísu þegar þeir félagarnir byrjuðu að æfa. Nokkrir héldu áfram á unglings- og fullorðinsárum, eins og þeir Ólafur og Sigurgeir.
Aðspurður segir Ólafur að það hafi gengið illa að undanförnu að fá fjölmiðla til að fjalla um skíðaíþróttina, nema bara í kringum landsmót: ,,Við vorum að keppa kringum tvítugt á bikarmótum, þá kom alltaf í útvarpinu, úrslit, allavega mjög oft, það kemur ekki lengur.“ Sigurgeir vann sitt fyrsta mót á Ísafirði þegar hann var 18 ára gamall. Hann var ekki nema 19 eða 20 ára þegar hann komst inn í landsliðið, og ári seinna komst Ólafur í landsliðið. Ólafur: ,,Við vorum alltaf samstíga í þessu, náttúrulega bjuggum í sömu götunni í Ólafsfirði, bekkjarfélagar og æskuvinir og æfðum saman.“ Þeir þvertaka fyrir það að samkeppni þeirra á milli hafi haft einhver áhrif á vinskapinn. Ólafur: „Ekki einu sinni þegar við vorum að byrja, þá skiptumst við á að vinna, það voru oft svona sekúndur á milli bara.“
Hverjir voru helstu keppinautar Ólafsfirðinga?
Ólafur Valsson á Siglufirði var bestur á landsvísu þegar þeir voru að byrja í göngunni. Það voru fleiri Siglfirðingar sem voru mjög góðir, t.d. Steingrímur Óla og fleiri. Þeir fóru á unglingameistaramót á Siglufirði þegar þeir voru í flokki 15- 16 ára og unnu boðgönguna og kom það bæði þeim sjálfum og öðrum á óvart. Sigurgeir: ,,Við vorum sem sagt ekki neitt sigurstranglegir fyrirfram, því Siglfirðingarnir voru með langbesta liðið eða sterkasta.“ Ólafur: ,,Það var svakalega gaman. Svona í minningunni þá var alveg ótrúlega margt fólk að horfa á. Og þvílík stemmning sko, á meðan boðgangan var. Við áttum ekkert að vinna, við áttum að vera það langt á eftir Siglfirðingunum. Það svona atvikaðist þannig að við náðum að hanga í og vel það og svo var bara endasprettur.“
Hvernig var tengslum eða vinskap háttað á milli mismunandi félaga?
Tengsl voru góð og það myndaðist vinskapur sem hefur í mörgum tilfellum þroskast og þróast til dagsins í dag. Sigurgeir: ,,Þegar maður hittir einhvern sem hefur verið á skíðum í gamla daga, það eru alltaf einhver tengsl.“ Ólafur: „Það hefur verið góður andi svolítið í skíðagöngunni.“ Þegar farið var á mót á Siglufirði eða Ísafirði var oft gist heima hjá skíðastrákunum sem þar áttu heima og þannig kynntust þeir enn betur. Til Siglufjarðar var farið með bát, flugvél eða snjótroðara. Eitt sinn þegar farið var til Siglufjarðar var keyrt upp á Lágheiði eins langt og bíllinn komst, þá tók snjótroðari við sem fór með þá inn í Fljót. Í Fljótunum beið þeirra rúta sem svo keyrði þá til Siglufjarðar. Ólafur: ,,Við vorum orðnir frekar hristir þegar við komum upp í Fljót.“ Einu sinni fóru þeir með bát á landsmót á Siglufirði og voru ekki komnir fyrr en daginn sem fyrsta gangan átti að fara fram. Þeir voru ekki mættir nema um klukkutíma fyrir gönguna, í 30 km göngu og höfðu ælt alla leiðina svo úthaldið var ekki upp á sitt besta.
Hver var svona hvatamaður ykkar, að þið byrjuðuð á skíðum?
Aðspurður segir Ólafur að faðir hans hafi ekki verið að ýta honum út í skíðaíþróttina. ,,En það var náttúrulega mikið um skíði á heimilinu, og einhvern veginn var það bara eðlilegt að fara á skíði og ég byrjaði á svigskíðum.“ Þeir voru báðir 5-6 ára þegar þeir byrjuðu að fara á skíði. Ólafur fótbrotnaði illa á svigskíðum á Akureyri mánuði fyrir fermingu. Hann þurfti að liggja mánuð á sjúkrahúsinu, slapp út daginn áður en hann fermdist. Veturinn á eftir ákvað hann að sleppa svigskíðunum og fara á gönguskíði og eftir það einbeitti hann sér að göngu og stökki og hætti í alpagreinunum. Faðir Sigurgeirs var mikið á skíðum en ekki keppnismaður. Hann fylgdi syni sínum eftir í íþróttinni og þegar hann fann að áhugi sonarins á svigskíðum var farinn að minka stakk hann upp á því við hann að prófa gönguskíðin. Sigurgeir prófaði það og líkaði vel. Upp frá því varð hann fyrst og fremst göngumaður. Þeir eru sammála um það að félagsskapurinn hafi verið góður í göngunni og það hafi líka hjálpað til. Stelpur og konur voru að koma sterkar inn í gönguna á þessum árum en í sviginu voru stelpurnar álíka margar og strákarnir. Þátttaka beggja kynja var því nokkuð almenn. Sigurgeir: ,,Á öðrum stöðum var oft mikill rígur á milli göngu og alpagreina, en á Ólafsfirði var þetta allt miklu meira þjappað sko. T.d. eins og mínar systur voru á svigskíðum og ég á gönguskíðum. Hans systkini voru á svigskíðum en Óli á gönguskíðum. Þannig að þetta var meira blandað.“
Hvaða konur getið þið bent mér á að tala við?
Dalla Gunnlaugsdóttir, Sigurlaug (búsett á Siglufirði), Harpa (búsett á Akureyri), Guðný Ágústdóttir, Magnea Guðbjörnsdóttir (búsett á Ólafsfirði), Lena Rós Marteinsdóttir (búsett í Rkv.), Telma Marteinsdóttir. Stelpurnar voru margar en þær héldu ekki eins lengi áfram eins og strákarnir.
Var eitthvað annað gert til að halda sér í formi, voruð þið markvisst að æfa einhverja íþrótt á sumrin til þess að halda ykkur í formi fyrir skíðin?
Sigurgeir: ,,Við vorum að hlaupa á sumrin, eða sérstaklega á haustin.“ Ólafur: ,,Jájá við hlupum á haustin og seinna meir hjólaskíði.“ Þeir voru líka virkir í íþróttum allt sumarið, tóku þátt í þríþrautum, hjólakeppnum og svona ýmislegt. Það var um 18 ára aldur sem þeir fóru að æfa af kappi yfir sumarið líka.
Hvað þarf til, hvað þarf góður skíðamaður að hafa í sér til þess að ná langt? Hvaða eiginleikar eru mikilvægir?
Sigurgeir: ,,Að hafa hausinn í lagi. Allt annað er náttúrulega hægt að þjálfa upp. Þeir sem eru teknískir þeir hafa náttúrulega forskot.“ Ólafur: ,,Svo þarf bara þolinmæði af því það tekur mörg ár að byggja upp afreksfólk, sérstaklega í skíðagöngu, eða þolíþróttunum. Það sést best á því að afreksfólk í dag, í heiminum, að það eru margir hverjir upp undir fjörtíu ára aldur, á topppnum.
En hvernig var svona rútínan hjá ykkur, meðan þið voruð í landsliði? Út á hvað gekk það?
Ólafur: ,,Það var svona pínu misjafnt sko, það var náttúrulega farið svolítið eftir peningum hjá skíðasambandinu. Nokkur ár þarna var mjög fínt upplegg, við fengum þarna þjálfara. Það var nú þarna í kringum tvítugt, 19 ára, 20 ára. Svo komu sænskir þjálfarar, eða sænskur þjálfari þarna fyrst og þá vorum við bæði hérna heima, náttúrulega æfðum við og svo fórum við í æfingaferðir, keppnisferðir, til Norðurlandanna. Það fannst mér rosalega skemmtilegur tími. Sá tími sko. Spennandi, þetta var eitthvað nýtt fyrir manni og við æfðum mikið og kepptum.“ Þeir þurftu alltaf að vinna með. Ólafur: ,,Það gekk eins og við æfðum en hefði maður ætlað að gera eitthvað meira þá hefði maður þurft að minnka við sig.“ Sigurgeir: ,,Maður hefði þurft að stíga skrefið til fulls og hætta að vinna. Og vera bara í þessu, það hefði skilað miklu meiri árangri því að maður var oft að vinna framm til kannski sex og fara svo út að hlaupa og koma heim af æfingu klukkan kannski tíu.“ Líkaminn var einfaldlega orðinn of þreyttur til að móttaka æfinguna til fulls eftir langan vinnudag. Ólafur: ,,En ég held að við höfum æft ansi mikið miðað við að vera að vinna og í skóla með.“ Ólafur segist hafa æft mest meðan hann var í námi í Osló og það hafi verið auðveldara að æfa mikið með skóla heldur en með vinnu. Á meðan hann dvaldi úti kom hann alltaf heim til að keppa á landsmótum. Sigurgeir flutti til Svíþjóðar um svipað leyti og var að vinna hálfan daginn með æfingunum. Hann átti ekki annarra kosta völ en að vinna með því styrkirnir dugðu ekki fyrir uppihaldinu. Sigurgeir viðurkennir að helst hefði hann viljað geta æft þarna tvisvar á dag.
Var/er dýrt að vera á skíðum?
Sigurgeir: ,,Það er ekki mjög dýrt að vera á gönguskíðum, auðvitað kostar þetta allt saman en gönguskíðin eru ekki dýr miðað við t.d. alpagreinarnar.“ Þeir fengu skíðin á góðum kjörum meðan þeir voru í landsliðinu og stundum jafnvel frítt. Þannig að það var ekki búnaðurinn heldur uppihaldið sem þeir þurftu að leggja kostnað í. Ólafur: ,,En við vorum tiltölulega heppnir með svona útbúnað, á þeim árum sem við vorum þarna, þá var svona tiltölulega auðvelt að fá ódýrar græjur hjá framleiðendum. Þannig að við vorum nokkuð heppnir með það held ég.“
Muniði eftir ykkar fyrsta Íslandsmóti?
Sigurgeir: ,,Ég man bara eftir þessu fyrsta móti sem ég keppti á hér upp í Hlíðarfjalli. Ég keppti í stökki og var ekki búinn að æfa neitt mikið fyrir það. Þeir voru að segja við mig heima, pabbi Óla, að ég ætti að vera með í stökkinu upp á tvíkeppnina. Og ég fór nokkrum sinnum á stökkskíði og keppti. Og lenti í verðlaunasæti, öðru eða þriðja sæti og komst þess vegna á landsmót og þá þurfti ég að keppa í tvíkeppni á landsmóti. Þá var stokkið af 50 metra palli, sem ég hafði náttúrulega aldrei stokkið á og ég man að ég var mjög smeykur, að fara að stökkva. Og svo var gangan náttúrulega lengri en hún hafði verið á unglingameistaramóti og ég hélt að ég ætlaði aldrei að koma í mark og ég held að ég hafi ekki verið í neitt sérstaklega góðu formi þegar kom þarna að landsmótinu. Það hefur verið aðeins á niðurleið því mér leið ekkert sérstaklega vel í göngunni, ég hélt að hún ætlaði aldrei að enda, þessi ganga.“ Þetta hefur verið á árunum 1982-4. Ólafur keppti fyrst í stökki og norrænni tvíkeppni 16 ára og keppti upp fyrir sig, fór 16 ára í karlaflokkinn. Þeir sem voru í verðlaunasæti í 16 ára flokki á unglingameistaramóti fengu að keppa á Íslandsmóti.
Hvað með verðlaunapeninga og bikara, var það alltaf, voru alltaf verðlaunapeningar?
Það voru aðallega verðlaunaspjöld, handskrifuð. Alveg frá því að þeir voru litlir þar til þeir urðu unglingar fengu þeir verðlaunaspjöld en ekki peninga eða bikara. Spjöldin voru með borða í íslensku fánalitunum og þóttu mjög flott. Sigurgeir á enn fyrsta verðlaunaspjaldið sitt og Ólafur á einnig eitthvað af verðlaunaspjöldum.
Áttuð þið einhverjar fyrirmyndir, íslenskar eða erlendar?
Ólafur átti sér ekki erlenda fyrirmynd til að byrja með en hann leit upp til þeirra stráka sem voru eldri, t.d. Hauks Sigurðssonar og Gottliebs Konráðssonar, sem báðir voru að þjálfa þá. Sigurgeir bætir við að það hafi verið mjög góður hópur skíðamanna sem voru þremur til fjórum árum eldri en þeir. Það voru Þorri, Siggi, Gústi, Hannes og Finni Víðir. ,,Þetta voru allt strákar sem voru mjög framarlega.“ Þegar þeir Ólafur og Sigurgeir fluttu til Akureyrar í skóla var að byrja að myndast góður hópur í göngunni þar. Það voru ekki skipulagðar æfingar á Akureyri þá, en þeir voru nokkrir sem hittust og æfðu saman.
Var talað um skíðakónga eða skíðadrottningar?
Sigurgeir: ,,Já örugglega, það held ég. Steinunn Sæmundsdóttir var kölluð skíðadrottning í alpagreinunum.“ Óafur: ,,Já var ekki eitthvað talað um þetta í sambandi við landsmót.“ Þeir voru ekki nefndir skíðakóngar þrátt fyrir að hafa nælt sér í nokkra Íslandsmeistaratitla. Ólafur varð Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni, stökki og boðgöngu. Sigurgeir varð Íslandsmeistari í göngu og boðgöngu. Þeir áttu um tíma dálítið erfitt með að mynda boðgöngusveit frá Ólafsfirði, því þegar þeir voru 18 ára voru þeir bara tveir í göngunni. Árin á undan höfðu Ólafsfirðingar verið með mjög sterka boðgöngusveit, svo tóku Ísfirðingar við. Sigurgeir: ,,Það var mikið lagt upp úr boðgöngunni, það var svona rúsínan í pylsuendanum.“
Þurfti ekki svolítið keppnisskap í þetta?
Keppnisskapið var mikilvægt en það var aldrei neinn rígur. Það var þvert á móti mikill vinskapur á milli manna og á milli liða.
Urðu einhverjar mikilvægar breytingar í íþróttinni meðan þið voruð að æfa og keppa?
Í dag eru tvær stílgreinar í göngunni, hefðbundin ganga, sem er ganga með gamla laginu og svo það sem kallað er skaut eða frjáls aðferð. Skautið var alveg nýtt þegar Ólafur og Sigurgeir voru í framhaldsskóla en þá fóru þeir að prófa sig áfram með þessa nýju aðferð. Sigurgeir: ,,Ég man eftir fyrsta mótinu sem ég keppti í skauti, ég hef verið svona 18 ára eða eitthvað, þá vorum við búnir að semja um það keppendurnir að smyrja allir undir skíðin. En það endaði með því að við skautuðum allan tímann og það var í síðasta skipti sem maður smurði í skauta keppni.“ Það komu betri skór, ný skíði og stafirnir lengdust um u.þ.b. 10 sentimetra. Skíðin styttust og urðu betri. Skíðin voru orðin tvenns konar í göngunni, annars vegar skauta skíði og hins vegar hefðbundin skíði. Skórnir voru með betri stuðningi við öklann.
Hvað með keppnisbúninga?
Sigurgeir: ,,Þegar við byrjuðum vorum við í hnébuxum.“ Háum sokkum og hnébuxum. Ólafur: ,,Svo komu náttúrulega þessir þröngu gallar og þeir eru svosem ekkert mikið frábrugðnir því sem að er í dag.“ Gallarnir eru mjög þunnir og því klæðast menn yfirleitt ullarnærfötum innan undir.
Er eitthvað sérstakt sem stendur upp úr á ferlinum?
Ólafur og Sigurgeir eiga báðir langan feril að baki á skíðum og voru óvenju lengi að, að eigin sögn. Ólafur hætti 26 ára og Sigurgeir 27 ára. Það var þá sem þeir hættu að keppa, enda var þá stefnan að yngja upp í landsliðinu svo þeir þurftu að víkja fyrir yngri mönnum. Þeir fengu að vera með áfram en þurftu þá að halda sér uppi sjálfir og fengu ekki lengur styrki frá skíðasambandinu til að taka þátt. Þeir héldu eitthvað aðeins áfram eftir þetta, 2-3 ár en það var um 1994 sem þeir hættu að æfa með landsliðinu. Ólafur: ,,Það sem kannski stendur upp úr er að við vorum náttúrulega þarna lengi og svona síðustu árin voru náttúrulega ekkert margir en það var alltaf einhvern veginn svo gaman í kringum þetta, fannst mér. Þó að við værum fáir þá einhvern veginn var alltaf gaman. Og áhuginn svona hélst ansi lengi.“ Sigurgeir: ,,Það sem stendur upp úr eru náttúrulega þessar ferðir til Austurríkis, æfingaferðir.“ Þar var verið að æfa uppi á jökli í ágúst eða september. Þá var tekin fyrripartsæfing á skíðum uppi á jökli en seinnipartsæfingin fór fram á láglendinu þar sem enn var sumar og 20 stiga hiti. Svo fóru þeir á heimsmeistaramót í Svíþjóð og í Tékkóslóvakíu. Mótið í Tékkóslóvakíu var eftirminnilegt vegna þess að það var eins og að ferðast 30 ár aftur í tímann. Einnig vegna þess að þar voru 60 þúsund áhorfendur og það komu allir fótgangandi til að horfa á. Þeim gekk ágætlega á heimsmeistaramótum en voru þó vel aftan við miðju á heimsvísu. Sigurgeir náði einu sinni lágmarkinu til að komast inn á Olympíuleika en það var ekki tekið gilt af skíðasambandinu. Ólafur: ,,Það að ná inn á þessi stórmót, þá ertu orðinn nokkuð góður skíðamaður. Það er langt síðan einhver hefur náð inn á Olympíuleikana.“ Það er orðið erfiðara að komast á stórmót nú heldur en áður vegna þess að það eru komin alþjóðleg lágmörk og kröfurnar eru alltaf meiri og meiri. Þessar reglur voru að komast á þegar þeir Ólafur og Sigurgeir voru að keppa og hafa smám saman orðið strangari og strangari. Sigurgeir: ,,Þetta er alltaf að verða meiri og meiri atvinnumennska, og harðari bisness heldur en var.“ Ólafur: ,,Fyrstu ferðirnar þá vorum við alveg nokkrir strákar sem vorum að æfa svolítið vel. Ólafur Valsson á Siglufirði, Sölvi Sölvason á Siglufirði, Haukur Eiríksson Akureyri, Einar Ólafs og Rögnvaldur Ingólfs. Þannig að þetta voru ansi skemmtilegar ferðir. Baldur Hermannsson Siglufirði.“
Þeir eru sammála um að það hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir vöxt og framgang skíðaíþróttarinnar á Ólafsfirði hvað það var stutt að fara á skíði. Það þurfti ekkert að keyra eða fara neitt til að komast á skíði og börnin því ekki háð foreldrum sínum eða öðrum að komast á æfingar eða skreppa á skíði. Sigurgeir: ,,Það var annað hvort að vera heima hjá sér eða fara á skíði, það var ekki mikið annað um að vera.“ Börn fóru bara á skíði þegar þeim langaði til. Skíðalyftan sem nú er á Ólafsfirði var tekin í notkun á þeim árum sem þeir voru að æfa. Sigurgeir: ,,Áður en hún kom þá var svona stykkjalyfta, lítil og stykkið var geymt heima hjá Óla og til þess að kveikja á lyftunni þurfti að fara heim til Óla og ná í stykkið.“ Þetta stykki var startið sem tengt var við lyftuna. Krakkarnir þurftu að hafa einhvern 12 ára eða eldri með sér til að ná í startið og tengja það við lyftuna, það var enginn lyftuvörður. Sigurgeir: ,,Það er nú búið að banna þessar lyftur núna, þær eru svo hættulegar.“ Það urðu aldrei slys á börnum í lyftunni en það mátti stundum litlu muna.
Hafði þessi mikla ástundun ekki áhrif á fjölskyldulífið?
Sigurgeir segir í gamansömum tón að þeir hafi nú passað sig á því að vera ekkert að festa ráð sitt fyrr en þeir
voru hættir. ,,Það hefði aldrei gengið.“ Skíðin áttu hug þeirra og ekki var tími til að stofna fjölskyldu. Þeir voru
mikið erlendis við æfingar, mest á Norðurlöndunum en einnig í Austurríki. Oftast voru þeir í hálfan mánuð til
þrjár vikur við æfingar á hverjum stað. Slíkar æfingaferðir voru farnar einu sinni til þrisvar á ári. Þá var
æft tvisvar sinnum á dag, tvo til þrjá tíma fyrripartinn og einn og hálfan til tvo tíma seinnipartinn, sex daga vikunnar. Þegar þeir voru
að æfa erlendis kynntust þeir mörgum fremstu skíðamönnum heims. Þeir nefna Gunde Svan og Thomas Wassberg, báðir frá
Svíþjóð. Svíarnir voru mjög framarlega í íþróttinni á þessum árum.