Skķšasaga fjallabyggšar

Ólafur Baldursson er fęddur į Hvanneyrarbraut 54, Siglufirši žann 18. aprķl 1952. ,,Eins og allir Siglfiršingar į žeim tķma, sem fęddust annaš hvort inn

Ólafur Baldursson

Ólafur Baldursson er fæddur á Hvanneyrarbraut 54, Siglufirði þann 18. apríl 1952. ,,Eins og allir Siglfirðingar á þeim tíma, sem fæddust annað hvort inn í síldarsöltun eða skíðin. Faðir minn var einn af forkólfum skíðafélags Siglufjarðar þannig að ég fékk áhugann strax og hvatningu frá honum að vera á skíðum. Lífið snerist um það allan veturinn að vera á skíðum. Móthald var strax sett á, það var mikið um mót. Siglufjarðarmót, stefnan var að taka þátt í Siglufjarðarmóti, það var toppurinn.“ Ólafur vann í fyrsta sinn til verðlauna á skíðamóti árið 1962. Það voru 1. verðlaun fyrir göngu í flokki 9-10 ára. Mótið var haldið á Ólafsfirði. Ekki voru alltaf veitt verðlaun, stundum hlutu sigurvegarar viðurkenningarskjal.

Ólafur var alltaf í því að leggja brautir fyrir landsmót og segir að mesta æfingin hafi verið fólgin í því. Það var líka mikið um keppnir á milli bæjarhluta á Siglufirði. Það voru ,,brekkuguttar“ og ,,bakkaguttar“ sem kepptu og mikill rýgur var á milli hverfa. Brekkuguttarnir skipuðu mjög gott göngulið en Suðurbæingar voru betri í svigi og stökki. Faðir Ólafs var Baldur Ólafsson en hann sá mikið um skíðagöngur fyrir Skíðafélag Siglufjarðar og Skíðasamband Íslands. Var hann búsettur út í Bakka, og hafði mikil áhrif á krakkana þar að stunda skíðagöngu. Stúlkurnar voru ekki síður duglegar að stunda skíði en strákarnir. Bryndís systir Ólafs var t.d. dugleg í svigi. Svo var allur þessi barnafjöldi sem bjó í Verkamannabústöðunum svokölluðu mjög duglegur að leika sér á skíðum á kvöldin. Það voru kannski allt upp í 11 börn í hverri íbúð á þessum árum og því mikið líf og fjör. Krakkarnir fóru bæði í brekkurnar fyrir ofan Hvanneyrarbrautina og eins þar fyrir neðan, alveg niður við sjó. Svo var farið upp í Hvanneyrarskál og í fjallshlíðarnar þar fyrir ofan, alveg eins hátt upp og hver þorði og svo renndu þau sér beint niður. Það var mjög mikið líf í kringum þetta – og þetta var lífið á Sigló í hnotskurn. Það snerist allt um skíði yfir veturinn og svo þessi ár milli 1960 og 1970, þá var það síldin á sumrin.

Ólafur byrjaði 10 ára að ganga á skíðum sem voru 2,15 metrar að lengd. Það voru skíði sem hann fékk frá föður sínum og voru á þeim tíma bestu skíði sem hægt var að fá. Þetta voru plastskíði með plastsólum. Það þótti gott að smyrja skíðin og þau runnu vel. Honum gekk ágætlega á þessum skíðum þrátt fyrir að þau væru svona löng og vann á þeim áðurnefnd verðlaun.

Skíðaskálinn Skíðafell var á Saurbæjarásnum, þar sem nú er verið að koma upp útsýnisskífu. Út frá skíðaskálanum voru allar skíðagöngur haldnar. Það var yfirleitt gengið inn í Skútudal, út Saurbæjarásinn og út undir Skútuána og upp með sveitabænum Tungu, sem þarna var.  Hólsdalurinn var lítið eða ekkert notaður þá. Það var ekki fyrr en skíðafélagið tekur við Hóli 1965-6 sem farið er að ganga þar að einhverju viti. Leikskólinn Leikskálar var oft notaður þegar það voru skíðalandsmót. Svigmót voru haldin þarna og leikskólinn notaður sem afdrep eða bækistöðvar mótsins. Skarðið var eingöngu notað þegar hið árlega Skarðsmót var haldið. Seinna voru haldin landsmót í svigi þar uppfrá.

Ólafur hefur gefið skíðaminjadeild FÁUM skíði, verðlaunagripi o.fl. Fyrstu gönguskíðin sem hann eignaðist sjálfur hefur hann t.d. ánafnað félaginu og þeim fylgir líka skemmtileg saga. Skíðin sem faðir hans átti voru fyrstu gönguskíðin sem Ólafur eignaðist en þau brotnuðu þegar Ólafur var 15 ára gamall. Þá voru góð ráð dýr. Foreldrar hans voru á þessum tíma að byggja sér hús og ekki var til mikill peningur til að kaupa skíði eða annað. Ólafur hafði augastað á skíðum sem fengust í Kaupfélaginu og gerðist svo djarfur að spyrja hvort hann gæti fengið skíðin og borgað fyrir þau með sumarvinnunni. Gunnar Möller, sem var þá verslunarstjóri í sportvörudeild Kaupfélags Siglufjarðar, var mikill áhugamaður um skíðaíþróttina og samþykkti hann þessi viðskipti við Ólaf. Ólafur fékk bæði gönguskíði og svigskíði ásamt skóm og bindingum gegn loforði um að þetta yrði allt saman borgað um sumarið. Ólafur segir að þetta hafi verið ,,rosa pakki“ og að reikningurinn hafi verið ,,déskoti hár.“ Hann hafði ekki fengið leyfi frá foreldrum sínum til að gera þetta. Ólafur fór með skíðin niður á trésmíðaverkstæði til að láta setja bindingana á þau. Þar tóku á móti honum þeir Reynir Sigurðsson og Hreinn Júlíusson, báðir miklir áhugamenn um skíði. Það má segja að það hafi orðið vinnustopp þegar Ólafur mætti með skíðin, því þetta þóttu svo flottir gripir. ,,Seinna um daginn kemur þar maður inn, faðir minn, og hann segir, hvað var einhver að fá happdrættisvinning? Hver er svona efnaður í dag? Þá urðu þeir vandræðalegir og vissu eiginlega ekkert hvað þeir áttu að segja. Sögðu: jú hann sonur þinn kom með þetta, við erum að setja bindingar á skíðin fyrir hann, hann var að kaupa þetta.“ Þetta var árið 1967.

Árið 1967 var unglingameistaramót Íslands haldið í Reykjavík. Þá urðu Siglfirðingar í þremur efstu sætunum, Sigurður Steingrímsson var fyrstur, Ingólfur Jónsson annar og Ólafur Baldursson í þriðja sæti. Ári seinna, frostaveturinn mikla 1968, var skíðamót á Ólafsfirði. Keppt var í 22-3 stiga frosti. Fararstjóri var Gunnar Guðmundsson, margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu. Gunnar var mikill fagmaður og sá til þess að strákarnir smyrðu skíðin sín í það minnsta tíu sinnum fyrir keppnina. Siglfirðingum gekk vel á mótinu og það voru sömu þrír sem deildu með sér toppsætunum. Í þetta sinn varð Ólafur í fyrsta sæti, Ingólfur í öðru og Sigurður í því þriðja. Á þessum árum var það umtalað hvað Siglfirðingar áttu gott lið í norrænum greinum. Það voru þrír aðrir Siglfirðingar sem voru mjög framarlega, meðal annars Kristján Möller, sem keppti í norrænni tvíkeppni með ágætum árangri. Árið 1969 var haldið mjög flott skíðamót á Siglufirði og tók Ólafur þátt í því móti, þrátt fyrir að vera farin að snúa sér að öðru. Það ár var það Fljótamaður sem varð sigurvegari. Ólafur hafði ekki undurbúið sig nógu vel fyrir það mót. ,,Ég var bara kærulaus, vantaði sem sagt aðhaldið sem ég hafði haft frá föður mínum, að nú skyldi ég snúa mér að þessu.“ Faðir Ólafs, Baldur, hafði alla tíð haft mikil áhrif á ástundun hans en þarna var hann nýlega fallinn frá. Baldur var ekki keppnismaður sjálfur en hann sá um skíðamót og lagði brautir og lagði mikla vinnu á sig fyrir Skíðafélagið. Hann var oft fararstjóri Siglfirðinga á landsmótum. Árið 1965 sá hann um úrtökumót fyrir Ólympíuleikana sem fóru fram 1966. ,,Það er mér minnisstætt þegar þeir komu Birgir Guðlaugsson og Þórhallur Sveinsson, sem fóru á Ólympíuleikana, gáfu honum skíðagönguskó og það eru skórnir sem fylgja skíðunum sem ég er búin að gefa hérna inn. Á þeim var stimpill Ólympíuleikana, en hann hefur máðst af. Þetta var svona gjöf frá þeim til hans. Með fyrstu skóm sem adidas framleiðir sem skíðagönguskó.“

Árið 1972 fór Ólafur með siglfirsku strákunum til Ísafjarðar til að mynda boðgöngusveit en þá hafði hann ekki keppt síðan 1969. Eftir það hætti hann að taka þátt í landsmótum en keppti í nokkrum Skarðsmótum. Ólafur segir að það hafi verið mikið framboð af alls kyns íþróttum og það hafi m.a. orðið til þess að hann hætti að leggja jafn mikla stund á skíðaíþróttina. ,,Árið 1967, þá kemur til mín Haraldur Erlendsson íþróttakennari, faðir Róberts Haraldssonar, þjálfara, og spyr mig hvort ég sé ekki tilbúin til að fara á Norðurlandsmót í sundi, ég hafði ekkert verið að æfa, mér hafði bara gengið ágætlega í sundkennslu.“ Ólafur lét til leiðast og gekk vel á mótinu. Árin á eftir var sunddeild KS að styrkjast og það fjölgaði í liðinu. Árið 1970 vann svo KS Norðurlandsmeistaratitilinn í sundi. Um tíma var Ólafur að æfa bæði sund og skíði og segir að það hafi farið vel saman. Í dag keppir Ólafur enn í sundi en fer aðeins á skíði sér til gamans. Hann segist bara fara á skíði á Siglufirði og hvergi annars staðar! Hann er mikill áhugamaður um skíðasvæðið og hefur tekið þátt í uppbyggingu þess, m.a.s. eftir að hann flutti frá staðnum, 29 ára gamall.
 
Ólafur keppti fyrst og fremst í göngu en fór líka á svigskíði til að æfa rennsli og jafnvægi. Göngurnar upp á Hvanneyrarhyrnu voru líka tilvaldar til að æfa styrk í fótunum. Þarna var labbað upp dag eftir dag, stundum tvisvar á dag, bara til þess eins að renna sér niður aftur. Á þessum árum var ekki keppt í bruni, en það var keppt í svigi og stórsvigi. Siglfirðingar voru frægir fyrir það að vera með langar stórsvigbrautir. Þær voru meðal annars upp á Illviðrishnjúk og ein náði hér um bil upp í Hestskarð. Þetta var um 1962.

Aðspurður um fyrirmyndir segir Ólafur: ,,Ég heillaðist náttúrulega alltaf af göngulagi Gunnars Guðmundssonar og svo voru þessir strákar Birgir Guðlaugsson, Þórhallur Sveinsson og Sveinn Sveinsson. Sveinn var svona karakter sem var rosalega gaman að fylgjast með ganga.“ Ólafur fylgdist líka með norskum skíðaköppum og einn veturinn kom hingað norskur skíðakennari og dvaldi í tvær vikur. ,,Það eru vikur sem maður gleymir aldrei. Og hvað maður lærði mikið. Eiginlega besta kennslan sem við fengum.“ Öllum var kennt saman, ungum og eldri, og áhersla var lögð á tækni. Í lok kennslunnar var svo keppni, þeir yngri fengu t.d. færi á því að keppa við hina eldri. ,,Það var rosaleg spenna í því, þá sá maður hvað maður hafði lært.“ Ólafur segist hafa keppnisskap og telur að það hafi hjálpað honum mjög mikið, bæði í sundi og á skíðum. Hann hefur þann háttinn á fyrir mót að gefa sér tíma til íhugunar. ,,Ég þarf að hafa svona ákveðið móment sem ég tek og íhuga hvernig ég ætla að gera þetta. Eins og t.d. með skíðagönguna, ef ég vissi hvar gangan átti að vera, þá var ég búin að kortleggja brautina í huganum. Þó maður væri kannski ekki alveg viss, þá var þetta svona útfærsla á því hvernig maður myndi ganga. Þegar göngurnar voru hérna á Siglufirði þá vissi maður yfirleitt svona, af því að maður hafði farið svo oft í það að leggja brautirnar, þá vissi maður svona að það gat í sjálfu sér ekki verið mikið frábrugðið frá því sem maður hafði farið. Þá gat maður ímyndað sér hvernig brautin væri svona sirka bát.“ Ólafur var alltaf í því að aðstoða föður sinn við að leggja brautir eða merkja þær.

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður að búa yfir, fyrir utan áðurnefnt keppnisskap?
,,Númer 1,2 og 3 var að hafa áhugann, æfa, skipuleggja tíma sinn. Nú og ég held – að vera bindindismaður frá A-Ö. Hvorki tóbak né áfengi. Bara alls ekki, það bara fer ekki saman og gengur aldrei.“

A-liðið á Siglufirði fékk galla, sem var hvít treyja og bláar buxur og rauðir sokkar. ,,Þegar við fórum á stór mót fengum við þessa galla lánaða. Það var nú t.d. ein sérviskan, að ef ég var ekki í gallanum hans Hauks Jónssonar, sem vinnur hjá Rauðku, og á bátinn hérna Steina Vigg, ég varð að vera í galla af honum.“ Ólafur segist ekki getað neitað því að vera svolítið hjátrúarfullur að þessu leyti. Honum fannst hann þurfa að vera í gallanum hans Hauks því honum gekk alltaf svo vel þegar hann var í honum. Hann telur að slík hjátrú sé algeng á meðal íþróttamanna. 

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?
,,Í göngunni voru það náttúrulega Ísfirðingar og síðan náttúrulega Fljótamenn.“ Magnús Eiríksson var sterkastur Fljótamanna. Ísfirðingar voru með stóra sveit. Siglfirðingar voru með góða sveit í göngunni en það hamlaði þeim hvað það var erfitt og dýrt að fara á mót. Samgöngur voru lélegar en Strákagöngin opnuðu ekki fyrr en 1967 og fyrir þann tíma var erfitt að komast, nema þá bara sjóleiðina.

Stemmningin í bænum var mikil fyrir keppnir og mót og gríðarlegur fjöldi sem safnaðist saman til að horfa á.

Skíðatímabilið hófst með æfingum í nóvember og vertíðinni lauk svo með Skarðsmóti um Hvítasunnu. Skarðsmótinu var svo alltaf slitið með knattspyrnuleik á milli heimamanna og aðkomumanna. Ólafi finnst að það ætti að taka þennan góða sið upp aftur og halda Skarðsmót á nýjan leik.

Þegar Ólafur hætti að keppa tók hann að sér að vera ræsir í svigi. Hann tók þetta hlutverk að sér í mörg ár og var í þessu á milli 1970-80. Fyrst með Rögnvaldi Þórðarsyni og bróður hans, Gunnari Þórðarsyni. Síðan með Birni Hannessyni, syni Hannesar Balvinssonar. Árið 1974 eða ´75 voru Siglfirðingar fyrstir til að mæla tímann með digital klukku á móti sem haldið var í Hólsdal. Þetta vakti mikla athygli. Þeir voru með digital klukku sem tengd var við tímatökutækin. Þannig var hægt að lesa tímann upp jafn óðum. ,,Við prófuðum líka, á landsmóti sem haldið var í Skarðinu, að vera með þráðlaust. Það gekk mjög vel en var mjög stressandi, við vorum með það í stórsviginu en tókum ekki séns á því í sviginu. Ákváðum að setja út vír.“ Ólafur segir að Siglfirðingar hafi verið mjög nýjungagjarnir á þessu sviði og óhræddir við að prófa nýjar leiðir, sem vakti athygli annars staðar á landinu.header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya