Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 25. júní 2008 Ađ heimili Magnúsar Eiríkssonar og Guđrúnar Pálsdóttur, Ađalgötu 14, Siglufirđi. Magnús Eiríksson er fćddur 17. nóvember 1951 á

Magnús Eiríksson og Guđrún Pálsdóttir

25. júní 2008

Að heimili Magnúsar Eiríkssonar og Guðrúnar Pálsdóttur, Aðalgötu 14, Siglufirði.

Magnús Eiríksson er fæddur 17. nóvember 1951 á Stóru-Reykjum í Fljótum í Skagafirði. Á uppvaxtarárum sínum í Fljótum fékk hann sín fyrstu kynni af skíðaíþróttinni. Magnús átti heima í Fljótum þar til hann fór suður til Reykjavíkur að vinna 19 ára gamall. Hann bjó í borginni í 2-3 ár en flutti síðan til Siglufjarðar árið 1973. Eftir að hann kom til Siglufjarðar fór hann að læra trésmíði og öðlaðist seinna meistararéttindi. Hann hefur starfað sem smiður og byggingameistari og núna seinni árin hefur hann einnig unnið sem umboðsmaður Tryggingafélagsins Vís á Siglufirði.

Faðir Magnúsar var Eiríkur Ásmundsson, fæddur á  Stóru-Reykjum í Fljótum í Skagafirði. Móðir Magnúsar er Hulda Ingibjörg Magnúsdóttir frá Sauðárkróki. Magnús og Hulda hófu búskap á Stóru-Reykjum í kringum 1950 og bjuggu þar til 1966. Þá fluttu þau til Haganesvíkur, þar sem faðir hans gerðist kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Fljótamanna. Hann starfaði sem kaupfélagsstjóri í sjö ár en eftir það fluttu þau vestur á Króksfjarðarnes. Þar var Eiríkur kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Króksfjarðar í önnur sjö ár. Eftir það fluttu hjónin norður á Svalbarðseyri en Eiríkur lést árið 2004.  

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Maður var alltaf að fikta við skíði alveg frá blautu barnsbeini, síðan ég man eftir mér, þá var maður mest kannski á gömlum svona eikarskíðum, að renna sér og stökkva og leika sér, eins og krakkar gerðu þá. Síðan smám saman vaknaði áhugi á skíðagöngu en svona fyrir alvöru fór ég ekki að stunda skíðagöngu neitt að ráði fyrr en um eða eftir fermingu. Þá fór ég að æfa svona, að vísu ekki reglulega, en töluvert á veturnar og hef nánast verið í þessu síðan.“

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun?

,,Já það má eiginlega segja það, svona óbeint, föðurbróðir minn, sem bjó þarna í Fljótunum, hann stundaði töluvert mikið skíðagöngu og keppti á landsmótum þannig að hann var svona nokkurs konar kveikja hjá manni í þessu og var til þess að maður öðlaðist meiri áhuga.“ Þetta var Lúðvík Ásmundsson, en hann er nú látinn. Hann varð aldrei Íslandsmeistari en hann keppti á einhverjum landsmótum. Flest ferðalög á milli bæja varð að fara á skíðum á veturna og skíði voru mikilvæg til að komast á milli staða. Fljótamenn áttu góðan skíðamann sem varð Íslandsmeistari í íþróttinni og við það vaknaði mikill áhugi á gönguskíðum í Fljótum. Þetta var á árunum milli 1960 og 1970.

Guðrún Pálsdóttir er fædd 5. maí 1955 á Siglufirði. Guðrún hefur alltaf átt heima á Siglufirði, fyrir utan tvö ár sem hún bjó í Reykjavík. Hún er starfsmaður í Sparisjóði Siglufjarðar. Foreldrar Guðrúnar eru Kristín Ólafsdóttir fædd og búsett á Siglufirði og Páll Halldórsson búsettur í Reykjavík. Fósturfaðir Guðrúnar er Ingólfur Steinsson, úr Fljótunum, og er hún alin upp hjá honum frá fimm ára aldri. Ingólfur var mikill skíðamaður og áhugamaður um íþróttina. Hann hvatti Guðrúnu óspart áfram til að stunda íþróttir og segir hún að það hafi verið mest fyrir hans tilstuðlan að hún varð íþróttamanneskja. Hún fór þó ekki að stunda gönguskíði fyrr en eftir að hún kynnist Magnúsi. ,,Við skulum bara segja að hann hafi bara svona óbeint sett mig á gönguskíði eins og alla aðra í fjölskyldunni“ segir Guðrún og hlær. ,,Það var landsmót hér 1981 og hann svona manaði mig upp í að vera með þá og ég æfði fyrir það landsmót í, ég veit ekki hvað ég á að segja, í einn og hálfan mánuð eða eitthvað svoleiðis. Fór ekki fyrr en á kvöldin, þegar hann kom heim, því þá vorum við með tvö lítil börn, annað bara nokkura mánaða. Mér fannst þetta bara gaman, ég æfði hérna á íþróttavellinum og tók þátt í þessu landsmóti og vann þær greinar sem ég keppti í þar og það svona ýtti undir að halda áfram og þannig er þetta tilkomið.“ Þetta var hennar fyrsta landsmót á skíðum.

Fyrsta landsmótið sem Magnús keppti á var á Ísafirði 1969. Þá keppti hann í 17-19 ára flokki í fyrsta sinn. Næstu tvö ár keppti hann í þessum sama flokki og vann alla titlana öll árin. Árið 1972 flutti hann suður til Reykjavíkur og hætti að stunda skíði það árið. Árið 1973 flutti hann aftur til Siglufjarðar og keppti á landsmóti sem þar var haldið. Eftir það hefur hann keppt á hverju einasta landsmóti til dagsins í dag. Magnús á því langan feril að baki og er enn að.

Hvernig hefur gengið að samhæfa fjölskyldulífið með þessu öllu saman?

Magnús segir: ,,Það var bara eitt sem var hægt að gera í því sambandi og það var að setja börnin líka á skíði. Það bara gekk ótrúlega vel og búið að vera virkilega skemmtilegur tími og börnin voru mjög fljót að tileinka sér þetta, byrjuðu mjög ung á þessu, bara um leið og þau fóru að geta gengið þá fóru þau á skíði líka, enda voru þau afreksfólk í greininni, það var ekki spurning.“ Guðrún segir: ,,Jájá, það var ekkert vandamál að sameina þetta þegar allir voru í þessu. Ef ég ætti að spóla til baka og byrja upp á nýtt, ég myndi engu breyta, það er bara þannig. Þetta var mjög skemmtilegt.“ Magnús og Guðrún eru sammála um það að þetta sé mjög góð fjölskylduíþrótt auk þess sem þetta sé virkilega góð hreyfing sem hægt sé að stunda mun lengur heldur en margar aðrar íþróttagreinar, t.d. fótbolta og annað. Magnús segir að gönguskíðin séu hentug fyrir fólk sem komið er á miðjan aldur og eldra en það. Hann hefur alltaf verið göngumaður en Guðrún keppti í svigi sem unglingur og aðalíþróttagrein hennar var sund á árum áður. Guðrún synti með landsliðinu þegar hún bjó í Reykjavík og æfði með sundfélaginu Ægi. Magnús var í fótbolta og frjálsum þegar hann var ungur en aðalgreinin hans hefur alltaf verið skíðaganga. Eftir að þau stofnuðu heimili og eignuðust börn þurftu þau að vinna mikið og Magnús segist oft hafa verið að vinna til sjö og síðan farið að æfa og æft til níu eða tíu á kvöldin. Magnús segir: ,,Maður var ungur þá og maður þoldi þetta en ég held að maður mundi ekki bjóða sér þetta í dag, en þetta er orðið svolítið léttara í dag, börnin eru náttúrulega farin að heiman. En yfirleitt var þetta þannig að þegar börnin voru í þessu þá var verið að fara klukkan sex eða sjö á daginn, eftir vinnu með börnin og þetta var eins og maður segir rútína. Mjög skemmtilegur tími bara.“ Guðrún segir: ,,Matartíminn heima hjá okkur var yfirleitt um níu leitið á kvöldin, það var bara svoleiðis.“ Svo var alltaf farið á skíði um helgar líka. ,,Þetta hefur náttúrulega litað heimilislífið, bara alfarið, ekkert gríðarlega mikið heldur alfarið. Því að þegar við flytjum hérna norður 1973, flytjum 1. desember, við eigum okkar barn um vorið og hann er á skíðum allan veturinn. Þannig að þetta er sem sagt alveg frá upphafi, að þetta hefði ekkert gengið, þetta hefði ekkert gengið nema peppa hvort annað upp því auðvitað koma brekkur í svona líf eins og annað, þá meina ég íþróttalífið, auðvitað eru brekkur í því líka og allt svoleiðis. Hann lenti í því hérna að fótbrjóta sig í fótbolta að haustinu, illa, það þurfti að negla hann og ýmislegt og þá mátti hann ekki fara á landsmót og það er í eina skiptið sem ég hef sagt að það hafi séð á gólfteppinu heima hjá mér, þegar hann gekk um.“ Þetta var veturinn 1977-1978 og Magnús íhugaði að hætta alveg að keppa. Ekki varð þó úr því og hann hélt áfram veturinn á eftir og fór á landsmót 1979. Eftir það fór Guðrún að taka þátt í þessu með honum og árið 1981 unnu þau bæði til margfaldra verðlauna. Þetta var hátindur þeirra saman, þar sem þau unnu allar göngurnar. Eftir það fór Magnús smám saman að draga úr skíðaiðkun sinni og eyða meiri tíma með börnunum. Hann fór reyndar á heimsmeistaramót 1982 en næstu árin á eftir helgaði hann fjölskyldulífinu. Fyrir tíu eða tólf árum síðan hellti hann sér svo út í þetta af fullum krafti aftur.   

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

Þegar þau voru upp á sitt besta voru þau mikið að hlaupa og ganga á fjöll. Eftir að hjólaksíðin komu þá voru þau mikið notuð á sumrin. ,,Það má segja að það sé meiri skíðun á hjólaskíðum heldur en á venjulegum skíðum í dag og það er mjög góður undirbúningur“ segir Magnús. Hjólaskíðin eru mun styttri en venjuleg skíði og eru á hjólum þannig að hægt er að nota þau á malbiki og Magnús segir að þau séu notuð á þjóðvegunum. Síðustu árin hafa þau hjónin tekið þátt í Vasagöngunni í Svíþjóð sem er 90 km ganga. Þessi langa ganga byggist mikið á því að geta ýtt sér og hjólaskíðin eru mjög góð æfing fyrir það. Magnús hefur farið tólf Vasagöngur og Guðrún þrjár og þau stefna á að halda áfram að taka þátt.

Er dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju er helsti kostnaðurinn fólginn?

Guðrún segir: ,,Jú, það er gríðarlegur kostnaður en hann er þess virði, það er bara svoleiðis.“ Magnús segir að búnaðurinn sé mjög dýr, keppnisfólk þarf að eiga góðar græjur og hann telur að búnaðurinn kosti á bilinu 3-400 þúsund nánast á hverjum vetri. Hann segir að hann hafi orðið nægjusamari með árunum og nýti búnaðinn betur núna en þegar hann var á fullu að keppa.

Getið þið sagt mér frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað?

Magnús segir að það hafi ekki orðið eins róttækar breytingar á fatnaði eins og á skíðunum. Hann byrjaði á tréskíðum en svo komu plastsólaskíði og síðan plastskíði. Mesta breytingin hefur orðið á búnaðinum. Skórnir hafa breyst og bindingar, stafirnir og allt saman. ,,Tæknin hefur líka breyst töluvert í skíðagöngunni frá því að þessir gömlu voru í þessu, sem þú hefur sennilega talað við núna, þessa eldri göngugarpa sem voru hérna uppi 1960-70 og fyrir þann tíma. Þá voru þessi tréskíði og þau runnu ekki eins vel og brautirnar voru ekki eins harðar og vel troðnar, þar af leiðandi var miklu meira, eins og við köllum það vanagangur, það var gengið bara á skíðunum. Í dag er þetta orðið miklu meira að maður sé að ýta sér áfram, maður notar miklu meira hendur í dag heldur en maður gerði þegar maður var yngri, þá var allt lagt á fæturnar nánast, því það þýddi ekkert að nota stafi nema að takmörkuðu leiti því þeir sukku bara og brautirnar voru ekki nógu harðar og skíðin runnu ekki eins hratt eins og þau gera núna, þannig að þetta er allt annað í dag heldur en þetta var áður fyrr. Þetta er mikil breyting“ segir Magnús. Snjótroðarar komu ekki fyrr en um 1980, áður var allt troðið með snjósleða með spora aftan í. Upp úr 1980 kom svokölluð skautatækni í skíðagönguna og Guðrún tileinkaði sér hana strax.

Áttuð þið einhverjar fyrirmyndir, íslenskar eða erlendar?

,,Maður fylgdist alltaf vel með því sem var að gerast erlendis og vissulega átti maður einhverjar fyrirmyndir á þessum árum, maður varð hrifin af mörgum göngumanninum, sem voru virkilega góðir. Ég man eftir Oddvar Bro, á þessum árum sem ég var upp á mitt besta, þá keppti ég á heimsmeistaramótinu í Osló, 1982, þá var hann upp á sitt besta og gríðarlega góður göngumaður. Og það voru fleiri þarna, Tomas Wasserberger, á þessum árum. Síðan seinna Gunde Svan, Bill Kock, Bandaríkjamaður, þetta voru stjörnur í augunum á manni“ segir Magnús. Guðrún tekur undir og segist enn vera að fylgjast með afreksfólki sem er að koma fram núna. Guðrún segist ekki hafa átt sér neinar sérstaka fyrirmyndir en Magnús nefnir fleiri erlenda skíðakappa. Það komu reglulega skíðakennarar frá Noregi og öðrum Norðurlöndum sem kenndu skíðatækni. Magnús segir að slíkir kennarar hafi komið til Siglufjarðar á um það bil fimm ára fresti. Þessir kennarar fóru á milli sveitafélaga til að kenna en seinna réðu skíðafélögin þjálfara til sín. Veturinn 1979-1980 kom norskur skíðakennari til Siglufjarðar og var þar einn vetur. Á fyrstu árum Magnúsar í skíðaíþróttinni var ekki sjónvarp en með tilkomu sjónvarps og útsendinga af skíðamótum erlendis breyttist margt. Fólk horfði á afreksfólk í skíðaíþróttum, eignaðist fyrirmyndir og lærði tækni þeirra af skjánum.       

Segið frá gullpeningum og bikurum.

,,Gripirnir hafa stækkað, þeir eru orðnir óþarflega stórir“ segir Guðrún. Að öðru leiti hafa gripirnir lítið breyst en mótin eru orðin fleiri og þar af leiðandi fleiri verðlaun í boði. Það hefur alltaf verið eitthvað um farandbikara og er enn í dag, til dæmis í Íslandsgöngum. Það hafa verið farandbikarar á Fljótamótum og Siglufjarðarmótum.

Er ykkur kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

,,Já, að vísu ekki kannski skíðadrottning. Skíðakóngur var lengi sá sem að vann stökk og norræna tvíkeppni, eða hvort það var norræn tvíkeppni, það var skíðakóngur Íslands alltaf krýndur á árum áður, þegar norræn tvíkeppni var í gangi, það er að segja ganga og stökk, það var lagt saman árangurinn“ segir Magnús og bætir því við að þetta hafi ekki verið opinber titill og ekki veittur sérstakur bikar fyrir það. Þetta var því í raun og veru ekki annað en nafnið.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Gríðarlega miklu máli“ segir Guðrún. ,,Ja, ætli það sé ekki stór hluti líka í þessu, því að ef þú hefur ekki keppnisskap, ekki bara í keppninni sjálfri heldur þarftu að hafa þetta líka til þess að geta undirbúið þig undir keppnina. Þú þarft virkilega að hafa keppnisskap og dugnað og allt þetta, til þess að geta náð þessum árangri, að komast í fremstu röð. Það er alveg klárt mál að keppnisskapið spilar mjög stórt inn í. Maður hefur horft á menn sem eru vel þjálfaðir og eru góðir oft á æfingum en þegar komið er í keppni þá er eins og allt klikki, þannig að þá vantar eitthvað keppnisskap, það vantar eitthvað. Ég hef horft á margar göngur og orðið vitni að, og jafnvel lent í því sjálfur, að skapið hefur oft fært manni titillinn. Það litla sem upp á hefur vantað hefur oft dugað, þá hefur keppnisskapið oft dugað til þess að ná því“ segir Magnús og Guðrún tekur undir það. Guðrún segist sjálf hafa unnið göngur á keppnisskapinu. Hún var mjög keppnisvön þegar hún fór að keppa í göngu, enda mikil íþróttamanneskja. Magnús segir að keppnisskap sé ekki eitthvað sem hægt sé að þjálfa upp heldur eitthvað sem er fólki áskapað. Guðrún segir að þetta sé hungur í að sigra. Hún  ætlaði sér að keppa til sigurs á sínu fyrsta landsmóti þrátt fyrir að hafa aðeins haft einn og hálfan mánuð til undirbúnings og æfinga og henni tókst það. Þau segja bæði að fólk hafi talið útilokað að hún gæti átt möguleika á að vinna. Guðrún segir: ,,Þá göngu vann ég á þráanum og skapinu, það er bara svoleiðis.“ Magnús var í sínu besta formi þennan vetur og Guðrún viðurkennir að hún hafi ætlað að sýna honum hvað hún gæti. Þau hafa alltaf hvatt hvort annað áfram og það hefur hjálpað þeim báðum mikið. Magnús segir að þau hefðu ekki verið svona framarlega nema fyrir stuðning hvors annars.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

Þau hjónin hafa ekki slasast eða meitt sig á skíðum. ,,Það er nánast engin slysahætta á gönguskíðum, þó svo að það geti alltaf gerst eitthvað en hún er held ég mjög, mjög fátíð, það er mjög fátítt að það verði slys á gönguskíðum. Þannig að maður þarf ekki að óttast það, það er helst að maður geti orðið fyrir álagsmeiðslum eða eitthvað slíkt, vegna mikilla æfinga“ segir Magnús.

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

,,Það sem náttúrulega prýðir góðan íþróttamann hvort sem það er gönguskíðamaður eða hvað, það er í rauninni þessi mikli dugnaður, það þarf mikinn dugnað til þess að gera þetta. Og maður þarf að hafa mikinn svona sjálfsaga. Það er töluvert mikið mál að rífa sig út á æfingar í öllum veðrum kannski, allan ársins hring, nánast. Það getur tekið mikið á þannig að þú þarft að hafa mikinn metnað, sjálfsaga og dugnað og svo bætir þú restina upp með keppnisskapinu. Síðan þarftu vissulega, til þess að komast í fremstu röð, eitthvað af náttúrulegum hæfileikum“ segir Magnús. Guðrún bætir við fleiri eiginleikum, eins og reglusemi. Hún tekur undir það að það þurfi dugnað. Auk þess þurfi áhugi fyrir útivist og hreyfingu að vera til staðar. Hún segir að þetta geti flestir en það þurfi að vera löngun og almennur íþróttaáhugi.

Með hvaða skíðafélagi æfðuð þið?

Magnús byrjaði sinn feril hjá Skíðafélagi Fljótamanna. Tvö fyrstu árin eftir að hann flutti til Siglufjarðar keppti hann fyrir hönd Skíðafélags Fljótamanna en 1976 færði hann sig yfir í Skíðafélag Siglufjarðar – Skíðaborg og hefur ætíð keppt þar síðan. Guðrún hefur verið í Skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg frá upphafi.

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu?

Magnús segir frá: ,,Í skíðagöngunni var nánast ekki til að stelpur, eða kvenfólk, væri í því fyrstu árin sem ég er í þessu. Fyrstu árin var ekki keppt í kvennaflokki. Kvennaflokkurinn kemur ekkert inn í þetta fyrr en milli 1970 og 1980, að mig minnir. Ég held að Guðrún sé bara með þeim fyrstu hér á Siglufirði til að keppa á landsmóti í fullorðinsflokki, við vorum búin að eiga svolítið af stelpum hérna á Andrésarleikunum og unglingameistaraótum þarna milli 1970 og 1980 en þær voru alltaf miklu færri, stelpurnar heldur en strákarnir. Þetta var miklu meiri strákaíþrótt fyrst.“  Á þessum fyrstu árum Guðrúnar voru þær þrjár til fjórar að keppa frá Siglufirði.

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

Magnús segir: ,,Það var nú svo skrítið að þessi mikli skíðabær, með þessa miklu skíðasögu, hér voru bara skíðafólk í fremstu röð ár eftir ár, sérstaklega milli 1960 og 1970 og þar á undan líka, 1950-1970 má segja. En þegar ég kem hérna 1973, flyt í bæinn, þá er þetta nánast að deyja út. Þá er bara nánast enginn á gönguskíðum hérna og fyrstu árin mín, fyrstu tvö árin kannski, var ég hérna einn og þess vegna keppti ég fyrir hönd Fljótamanna, ég hafði enga hérna með mér. En smám saman fóru hjólin að snúast, það fóru að koma strákar með mér og þetta svona smá jókst þannig að þetta varð alveg fínn félagsskapur. Eftir að ég byrjaði hérna þá fór ég að þjálfa líka yngri krakka og það bættist alltaf í hópinn og við áttum fjöldann allan á Andrésarleikunum sem kepptu í göngu á þessum árum.“ Það var alltaf aðeins meira líf yfir alpagreinunum en það varð lægð í þeim líka á þessum tíma. Magnús telur að ástæðan fyrir því hafi meðal annars verið sú að það var meira að gera yfir vetrarmánuðina en áður fyrr. Á meðan atvinnlulífið dróst saman á veturna var meira líf yfir skíðaíþróttinni. Félagslífið var blómlegra þegar fólk hafði meiri tíma yfir vetrartímann. Guðrúnu fannst keppnisandinn góður þegar hún var að byrja og mikið líf á skíðasvæðinu við íþróttamiðstöðina á Hóli. Þar var opið alla eftirmiðdaga, nema mánudaga, þá var lokað. ,,Það var mjög mikið líf og mjög góður andi og skemmtilegt, mjög skemmtilegt.“

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppenda?

Magnús og Guðrún hafa kynnst mörgu fólki í gegnum skíðaíþróttina og eignast marga góða vini og kunningja. ,,Ég held að það sé mjög samheldinn hópur sem er í þessari skíðagöngu á landinu, þannig að það er töluverð samheldni í þessu og mikil samskipti á milli fólks“ segir Magnús. Hópur göngumanna á Íslandi er ekki mjög fjölmennur og því þekkja nánast allir alla. Þau eiga kunningja á Akureyri, Ísafirði, Reykjavík, Ólafsfirði, Húsavík, Hólmavík og öllum þeim stöðum þar sem skíðaganga er stunduð.  

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?

,,Við elduðum oft grátt silfur saman, Siglfirðingar og Ólafsfirðingar, í skíðagöngunni. Þetta eru nágrannasveitafélög sem eru nú orðin sameinuð núna þannig að þetta var svolítið skrítið fyrir okkur að sameinast Ólafsfirði, því að þetta voru höfuðandstæðingarnir á þessum árum og það var oft bitist hart í göngubrautinni á milli þessara félaga. Sérstaklega man ég eftir mörgum einvígum á Andrésarleikum þegar við vorum með marga góða krakka og Ólafsfirðingar mættu líka með hóp af góðum krökkum, þetta var einvígi oft þarna á milli, hver næði titlunum, hvort það væru Ólafsfirðingar eða Siglfirðingar.“ Þegar Magnús var að keppa voru líka mjög góðir göngumenn á Ólafsfirði, hann er búinn að etja kappi við þá nokkra þar. Á seinni árum komu Akureyringar og Ísfirðingar sterkir inn í gönguna. Þau vilja ekki viðurkenna að það hafi verið rígur á milli keppenda, en kannski ,,aðeins svona spenna.“

Hver var þinn skæðasti keppinautur?

Magnús nefnir Halldór Matthíasson, Hauk Sigurðsson, Jón Konráðsson og Trausta Sveinsson úr Fljótunum. Guðrún segir að hennar fyrsti andstæðingur hafi verið Guðbjörg Sigurðardóttir frá Reykjavík og eftir það hafi það verið María Jóhannsdóttir frá Siglufirði, æskuvinkona hennar. Guðrún segir að þetta hafi ekki spillt vináttu þeirra, þær hafi bara verið andstæðingar í brautinni og svo var það bara búið. Þær eru ennþá miklar vinkonur.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar?

Guðrún segir að skíðaskálinn á Siglufirði hafi verið langbestur. Magnús segir: ,,Fyrstu árin sem ég kem hérna, og öll árin sem ég hef verið hérna hefur okkar aðstaða, gönguaðstaða, verið á Hóli, hérna íþróttamiðstöðinni á Hóli og það má segja að þar sé toppaðstaða fyrir skíðagöngu, landslagið, brautirnar sem við gátum lagt þarna, þær voru alveg frábærar og þetta hús sem við höfum þarna alveg frábært en það er einn galli á þessu, að núna seinni árin er mjög sjaldan orðið snjór á láglendi, af því að Hóll stendur svo lágt, flestir veturnir hafa verið þannig að við höfum ekkert getað nýtt þetta svæði, þetta frábæra svæði okkar. Þetta er kannski einhver smá tími á hverju ári, einn mánuður sem það er snjór þarna, sem við getum nýtt en svo er bara, því miður,  þessi aðstaða bara nýtist ekki í þessu árferði sem er búið að vera.“ Magnús hefur einkum æft sig á hjólaskíðum, bæði á sumrin og veturna. Það er einhver aðstaða upp í Skarði en það er bara fyrir þá allra hörðustu, það er ekki fyrir byrjendur og því er erfitt að æfa unga fólkið upp í skíðagöngu. Árferðið hefur því haft mikið að segja varðandi framgöngu íþróttarinnar og vöxt. Magnús hefur séð miklar breytingar á síðustu tíu árum hvað þetta snertir. Áður fyrr var nægur snjór mest allan veturinn á Hóli og hægt að stunda þar skíðagöngu allan veturinn. Það kom stundum einn mánuður sem ekki var snjór en núna hefur dæmið snúist við þannig að það er kannski bara snjór í einn mánuð. Aðstaðan á Hóli er til fyrirmyndar, þar er bæði búningsaðstaða, sturtur og gufubað. Heimafólkið hefur þó ekki mikil not fyrir slíkt þar sem stutt er að fara og fólk kemur fullbúið á staðinn og fer heim í sturtu eftir æfingar. Aðkomufólk hefur hins vegar getað nýtt sér þetta og það hefur verið sofið í skálanum þegar það eru keppnir og mót. Á Hóli var líka skemma fyrir skíðaútbúnaðinn. En Hóll er ekki bara skíðaskáli heldur alhliða íþróttamiðstöð allt árið, á sumrin er það fótbolti og golf og á veturna gönguskíði. Guðrún segir að það hafi verið full þörf á því að færa alpagreinarnar upp í Skarð og aðstaðan þar sé ein sú besta á landinu. ,,Við höfum allt til að bera til að vera í fremstu röð“ bætir Guðrún við. ,,Það vantar bara snjóinn“ segir Magnús.

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Það var gríðarleg stemmning þegar við vorum upp á okkar besta, á þessum árum, en svo náttúrulega eftir að þessir vetur urðu svona leiðinlegir og þetta fór að dvína þá fór að fækka í þessu og krakkarnir eru horfnir alveg út úr þessu, þá hefur náttúrulega stemmningin, því miður, bara hún er nánast horfin. Þannig að það er bara ekkert nema í minningunni eftir. En það var alveg gríðarleg stemmning, ég held að ég hafi aldrei keppt í eins mikilli stemmningu eins og hér á Siglufirði. Það kom bara nánast allur bærinn, maður var hvattur alveg óspart. Það var alveg svart af fólki þegar það var stórmót þarna framfrá“ segir Magnús. Þetta hafði mjög hvetjandi áhrif á keppendur.

Segið frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Magnús: ,,Það var nú oft erfitt að komast, eins og þegar maður var að fara vestur á Ísafjörð, þá var nú yfirleitt reynt að fljúga, þá var ekkert hægt að keyra, á þessum fyrstu árum sem við vorum í þessu, það var yfirleitt alltaf flogið. Það var nú ekkert alltaf flugveður þannig að maður lenti nú í ýmsum ævintýrum í kringum það. Ég man sérstaklega eftir því að einu sinni vorum við þarna í viku og það var aldrei hægt að fljúga. Það var búið að redda varðskipi til að flytja okkur heim og þegar varðskipið var búið að leggjast við bryggju og við vorum að fara niður í skipið þá opnaðist smá rifa í loftið og flugvélin gat lent þannig að við sluppum í flugvélina, þurftum ekki að fara í varðskipinu heim. Þannig að þetta voru oft mjög mikil ævintýri í kringum þetta, en síðan var yfirleitt keyrt til Akureyrar og Ólafsfjarðar og Reykjavíkur.“ Það var stundum farið í rútu, svona eftir því hversu fjöldinn var mikill. Stundum bara í einkabílum. Stundum var farið með skipi eða bát. Það var jafnvel farið með fiskibát til Ólafsfjarðar, því það var svo löng keyrsla og mun fljótlegra að fara með bát á milli.

Guðrún: ,,Ég fór í keppnisferð á skíðum sem ég fór held ég í öll farartæki sem fyrirfundust á Íslandi. Við fórum í rútu, við fórum í einkabíl, við fórum í snjóbíl, við fórum í varðskip og við fórum í flugvél.“ Þetta var austur á Seyðisfjörð, á unglingameistarmót 1969 þegar Guðrún var 14 ára. Siglfirsku krakkarnir gistu í heimahúsum en Akureyringarnir sváfu allir í einhverjum sal. Það var töluvert um það að það væri gist í heimahúsum á árum áður.   

Magnús hefur verið göngustjóri á landsmótum á Siglufirði frá því að hann hætti að keppa. Hann hefur séð um gönguna á þessum landsmótum og séð um að fá mannskap til að vinna verkin og halda utan um allt starf þar í kring. Fyrir landsmót er skipaður göngustjóri, alpagreinastjóri og mótsstjóri. Magnús og Guðrún hafa verið í stjórn Skíðafélagsins í einhvern tíma á milli 1980 og 1990. Guðrún var gjaldkeri félagsins. Þau voru fararstjórar í ein 15 ár og héldu utan um siglfirsku börnin sem fóru á Andrésarleikana og Magnús hefur verið þjálfari til margra ára. Guðrún segir að þetta hafi verið mjög gefandi starf og yndislegt að fá að kynnast þessum krökkum. 

Magnús var göngustjóri á landsmótinu 1989, sem haldið var á Siglufirði um páskana. Á þeim tíma var hann að vinna í Fljótum, hann lagði af stað heim til sín með flutningabíl klukkan þrjú á Skírdag, í arfavitlausu veðri. Það reyndist vera ófært og Magnús þurfti að fara sjóleiðina og var ekki komin til Siglufjarðar fyrr en klukkan þrjú, aðfararnótt Föstudagsins langa. Það var oft mjög mikið ævintýri í þessum ferðum og menn þurftu oft að hafa mikið fyrir því að komast á milli staða sökum ófærðar. 

Fljótlega eftir að Magnús flutti til Siglufjarðar fór hann að taka krakka í þjálfun. Hann tróð slóðir á íþróttavellinum fyrir þau og lét þau fara í boðgöngur og ýmislegt. Börnin höfðu gaman að þessu og þetta vatt smám saman upp á sig og var orðin töluverður hópur. Seinna fékk Skíðafélagið hann til að taka að sér þjálfun og hann sinnti starfi þjálfara flesta vetur upp frá því.

Er eitthvert fleira sem stendur upp úr í minningunni hjá ykkur?

Guðrún: ,,Kannski ekkert eitt framar öðru, það er bara allt þetta skíðalíf, auðvitað stendur það bara upp úr í okkar lífi því að það hefur náttúrulega ansi mikið snúist í kringum það. Það þurfti að hagræða öllu miðað við að það væru ekki mót. Við létum okkur hafa það að mæta ekki í fermingarveislur hjá yngstu systkinum hans, vegna þess að það var skíða- eitthvað. Það var aldrei hægt að plana neitt innan ættar, alveg stór radíus, ef það var skíða- eitthvað, það sat fyrir öllu.“ Magnús bætir við: ,,Og það er gott að minnast á það líka að þegar dóttir okkar var fermd, þá var skíðamót hérna sama dag og hún fermdist og hún var drifin bara úr fermingarfötunum þegar hún kom úr kirkjunni og beint fram á Hól á skíðamót, svona var lífið.“ Sama var upp á teningnum þegar sonur þeirra var fermdur. Magnús og Guðrún eiga þrjú börn og þau voru öll á fullu í skíðaiðkun. Annar sonur þeirra sagði einhverju sinni: ,,ég valdi ekki gönguskíði, við vorum sett á gönguskíði.“ Þetta var hárrétt hjá honum segir Guðrún. Þau voru að fara á gönguskíði og tóku börnin með mjög snemma. Þar af leiðandi byrjuðu þau mjög ung og náðu góðum tökum á þessu. Tvö eldri stunduðu skíðagöngu þar til þau fóru í framhaldsskóla 16 ára gömul. Yngsti sonur þeirra hætti 14 ára, því hann valdi fótboltann og er enn á fullu í boltanum. Eldri krakkarnir fluttu suður og þar er erfiðara að þjálfa, að sögn Magnúsar. Eldri sonur þeirra hefur þó eitthvað haldið áfram og meðal annars tekið þátt í boðgöngu með föður sínum á landsmóti. Hann ætlar sér að fara í Vasagönguna ásamt foreldrum sínum næsta vetur. 

Er eitthvað að lokum sem þið viljið bæta við?

Guðrún ,,Það eina sem ég get sagt er að mér finnst eiginlega alveg sorglegt að þetta skuli vera að leggjast af, ekki bara á Siglufirði, þetta hefur náttúrulega verið í lægð allsstaðar, því þetta er svo ofboðslega gefandi og gaman og þetta þroskar alla, að fá að vera í svona, og ég tala nú ekki um að fá að vinna með krökkum og koma þeim svona af stað í einhverju, þetta er ofsalega mikið gefandi, alveg ofsalega mikið, enda erum við búin að starfa með krökkum hérna í íþróttum rosalega mikið. Það er alltaf jafn gaman, það er alveg sama á hvaða aldri maður er.“   

Magnús: ,,Í dag er náttúrulega meiri samkeppni um þessi börn, eða íþróttagreinarnar orðnar miklu fleiri heldur en þær voru hérna áður fyrr. Þannig að þetta er oft erfitt að fá orðið krakka til að þjálfa til dæmis þessa skíðagöngu, hún er erfið, þetta er erfið íþrótt, oft erfitt að koma sér af stað í hana, hún er dýr, dýrt sport, þannig að þetta á svolítið undir högg að sækja, gagnvart því að ég held að það sé erfitt alltaf að minnsta kosti að ná upp einhverjum fjölda í þessu, hefur mér sýnst. Í gegnum árin, alveg síðan ég byrjaði í þessu þá hefur þetta verið þannig að þetta eru börn sem eiga foreldra sem hafa verið í þessu. En að sjálfsögðu hafa komið mörg önnur börn líka inn í þetta, sem hafa ekki átt foreldra í þessu, en þau hafa yfirleitt enst frekar stutt, en hin hafa hins vegar enst lengur. Það er mikið meiri samkeppni núna orðin í að fá börn í þessa íþrótt heldur en var hérna áður fyrr.“

Þau leggja áherslu á að það hafi fyrst og fremst verið snjóleysið sem hafi orðið til þess að skíðaíþróttin “lagðist nánast af.” Þessar breytingar á snjóalögum hafa komið harðast niður á göngunni en börnum hefur líka fækkað mikið í sviginu. Áður fyrr voru börn á Siglufirði öll á skíðum en nú stendur þeim til boða að æfa fleiri íþróttagreinar.

Talið berst aftur að Vasagöngunni. Hvernig er tilfinningin – að koma í mark eftir 90 kílómetra göngu?

Guðrún ,,Það er ólýsanleg tilfinning, það er voðalega erfitt að lýsa því, maður er náttúrulega afskaplega þreyttur, allavega í mínu tilviki, sem hef ekki verið að þjálfa svona ofsalega mikið. Maður er afskaplega þreyttur, afskaplega glaður og sigurinn er svo stórkostlegur, að fara í mark að það er í rauninni ekkert hægt að lýsa þessu en þetta er dásemdar tilfinning, að klára þetta. Það er bara svoleiðis.“ Magnús bætir því við að fólk sem er að ganga þessa göngu er í misjöfnu formi. Fólki er skammtaður tími til að klára gönguna, það þarf að ljúka henni á tólf tímum og það er aldrei stoppað nema til þess að fá að drekka. Þeir sem eru best á sig komnir eru innan við fimm tíma að ganga þessa 90 kílómetra, á meðan sumir rétt ná þessu á 10-12 tímum.

Hvað var það sem réði röð keppenda í leik?

Í Vasagöngunni er það tíminn sem ræður því í hvaða rásröð þú lendir og það er skipt í tíu ráshópa. 200 bestu eru í svokallaðri elite grúbbu, svo koma næstu 300 í fyrstu grúbbu, síðan koma næstu 500-1000 í annarri grúbbu. Hérlendis er raðað eftir punktum á almennum mótum og svo er líka dregið. Í Vasagöngunni eru um 15 þúsund þátttakendur og það er raðað eftir getu einstaklingana, þú att auðveldara með að komast áfram eftir því sem þú ert framar, því fyrsta brekkan er fljót að stíflast af fólki. Vasagangan er til þess gerð að fólk er kannski fyrst og fremst að keppa við sjálft sig og reyna að ná betri árangri ár frá ári. Magnús hefur alltaf lent í annarri og þriðju grúbbu í Vasagöngunni en markmið hans er að reyna að komast í fyrstu grúbbu. Það hefur munað ofboðslega mjóu tvö síðustu skiptin sem hann hefur tekið þátt. Síðast munaði 1 mínútu og þar áður 30 sekúndum, sem er gríðarlega lítið á þessum 90 kílómetrum. Það munaði ekki nema 10-18 sætum, þannig að hann er alveg við þennan þröskuld. ,,Þetta er svona hálfpartinn þráhyggja í mér, kannski get ég komist þetta. En aldurinn er að vinna á móti mér náttúrulega, maður er alltaf að eldast.“      

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya