Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/ 24. júní 2008 Ađ heimili Kristínar Ţorgeirsdóttur, Hafnargötu 14 Siglufirđi. Kristín Ţorgeirsdóttir er fćdd 12. júlí 1941 á Siglufirđi. Hún

Kristín Ţorgeirsdóttir

24. júní 2008

Að heimili Kristínar Þorgeirsdóttur, Hafnargötu 14 Siglufirði.

Kristín Þorgeirsdóttir er fædd 12. júlí 1941 á Siglufirði. Hún er alin upp á Siglufirði og hefur verið búsett þar alla tíð. Kristín starfaði í síldinni á sumrin og vann í verslun. Lengst af hefur hún unnið hjá Póst og síma, fyrst við símavörslu og síðan við póstafgreiðslu á pósthúsi. Síðustu árin hefur hún starfað á sjó ásamt manni sínum. Þau fara á trillu þegar vel viðrar og veiða. Aðalvertíðin er á vorin, þá veiða þau grásleppu.

Móðir hennar var Ágústa, fædd 1906 og kom úr Eyjafirði. Faðir hennar var fæddur sama ár og kom frá Fáskrúðsfirði. Faðir hennar lést 55 ára að aldri en móðir hennar varð 79 ára. Faðir hennar var smiður og móðir hennar húsmóðir og fiskverkakona.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Það bara, það eiginlega bara var þannig. Það voru allir á skíðum, lítið annað að gera. Það var ekkert farið út í íþróttahús. Það var ekkert sjónvarp og engar tölvur og ekkert, þannig að við vorum bara úti að leika okkur. Það byrjaði bara þannig. En svona skíðin tóku yfir af þessum leikjum. Ég held að ég hafi verið 15 ára þegar ég fór á mitt fyrsta mót, minnir mig 1957.“ Kristín segir að krakkarnir hafi nánast fæðst með skíðin á fótunum. Það var farið beint á skíðin heima við bæinn og haldið upp í fjall, á milli þess sem börnin fóru í skólann. Það var enginn í fjölskyldu Kristínar sem hafði áhrif á hana, hún segir að þetta hafi bara komið sjálfkrafa. Á þessum árum voru skíði ekki mikilvæg til að koma sér á milli staða. Það var bara gengið á milli húsa í bænum á tveimur jafnfljótum og menn voru ekkert að fara í ferðalög út fyrir bæinn á veturna.

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Ekki var um skipulagða kennslu að ræða en Kristín segir að menn eins og Jóhann Vilbergsson hafi gert mikið fyrir krakkana. Hann tók að sér að kenna börnunum og ef þau mættu ekki á æfingar fór hann og sótti þau. Jóhann dreif börnin áfram, þó auðvitað hafi verið fleiri góðir menn sem kenndu og leiðbeindu þeim sem yngri voru. Kristín hlaut aldrei skíðakennslu frá erlendum kennara.

Hversu oft var æft yfir vetrartímann?

,,Sko, það voru engar svona æfingar, það var bara farið á skíði og við vorum alla daga á skíðum ef það viðraði þannig.“ Sá hópur sem tók þátt í mótum hittist reglulega í fjallinu fyrir mót til að æfa. Það var labbað upp á Strákafjallið til að ná sér í góða bunu niður.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn?

Kristín er ekki langskólagengin en segir að skíðaiðkunin hafi ekki haft nein áhrif á skólasókn.

Var einhverjum sérstökum  aðferðum beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

,,Nei, þá vorum við bara að vinna. Þetta var bara veturinn. Það var ekkert verið að þjálfa neitt yfir sumarið, alls ekki sko. Það tók bara eitthvað annað við.“

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn?

Það var ekki dýrt að æfa skíðaíþróttina, það þurfti ekki að kaupa sér lyftumiða eða keyra börn á æfingar. Helsti kostnaðurinn var fólgin í skíðunum og skíðaútbúnaðinum. Ekki var um sérstakan fatnað að ræða, heldur bara hlý hlífðarföt sem allir þurftu að eiga hvort sem er. Ekki var um neina sérstaka keppnisbúninga að ræða. Það var bara reynt að hafa fötin sem þægilegust og helst ekki mjög víð. Ekki voru til einkennisbúningar fyrir félagið. Þegar Kristín byrjaði að vera á skíðum voru þau fest með ólum. Ólarnar voru vafðar utan um skíðin og upp á fótlegginn. ,,Þú varst bara föst í þessum skíðum, sama hvað upp á kom.“ Næst komu gormabindingar og síðan komu þær bindingar sem eru notaðar í dag. Hætta á meiðslum hefur minnkað mikið með nýjum útbúnaði vegna þess að núna losna skíðin ef eitthvað ber út af. Kristín segir mesta furða hvað fólk slapp samt alltaf vel og slys voru fátíð, þó eitthvað hafi verið um fótbrot. Skórnir hafa líka þróast mikið, í byrjun voru skórnir lágir og veittu lítinn stuðning. Kristín telur sig heppna að hafa ekki slasast á sínum ferli, en hún tognaði aðeins einu sinni. Kristín æfði aldrei í pokabuxum, stretsbuxur komu fljótt og þóttu voðalega fínar. Það voru þröngar buxur með bandi undir ilina. Stretsbuxur voru ekki hlýjar og voru einkum notaðar til að keppa í. Fyrir keppni var fólk yfirleitt í öðrum buxum utan yfir til þess að halda hita á liðunum.

Hvenær byrjaðir þú að keppa?

Fyrsta Íslandsmótið sem Kristín tók þátt í var á Akureyri 1957. Tveimur kvöldum fyrir mótið hitti hún Jóhann Vilbergs í bíó og hann sagði: ,,Þú ert að fara á Íslandsmót.“ Síðan var bara reynt að gera hana klára fyrir mótið. Hún fékk lánuð skíði með stálköntum og sums staðar vantaði inn í stálkantinn, en það var látið duga. ,,Það gekk ótrúlega vel miðað við allar aðstæður. Ég hafði engan tíma til að hugsa. Þetta var svona það fyrsta sem ég fór. Það var gaman, mjög gaman. Ég var alveg yngst af þeim. Þær voru þetta kannski, upp undir átta eða tíu árum eldri en ég, þær sem ég var mest með að keppa. Skemmtilegar konur.“ Á þessu móti voru átta eða níu konur. Keppendur voru oft hátt í 90 manns og u.þ.b. 10% konur.    

Hvaða grein/greinar lagðir þú fyrir þig?

Kristín stundaði alpagreinarnar: svig og stórsvig, og brun á meðan það var. Brunið lagðist af sem keppnisgrein snemma á sjöunda áratugnum. Kristín telur að ástæðan fyrir því að það datt upp fyrir hafi verið sú að það hafi ekki verið almennilegar brekkur fyrir það. Uppáhaldsgrein Kristínar var stórsvig, henni þótti það alltaf skemmtilegast.

Hverjar voru helstu keppnisgreinar auk alpagreinanna?

,,Það var stökk og svo náttúrulega göngugreinarnar allar. Það var 30 kílómetra ganga, 15 kílómetra og 10 kílómetra, gott ef það var ekki 7 og hálfur kílómeter líka.“

Segðu frá flokkaskiptingu (eftir aldri, getu, kyni)

Í alpagreinunum var bara einn kvennaflokkur og þess vegna var Kristín oft að keppa við konur sem voru allt að tíu árum eldri en hún. Seinna komu svokölluð öldungamót og Kristín tók tvisvar þátt í slíku móti. ,,Þá komu gömlu brýnin, hittust þau. Ég fór á eitt mót á Akureyri og annað í Reykjavík. Það var virkilega gaman. Þá hittumst við, þessar gömlu. Það var bara alvöru mót.“ Öldungamótin voru fyrir þrjátíu ára og eldri.  

Segðu frá gullpeningum og bikurum.

,,Eitt árið, meðan brunið var, þá var ég fjórfaldur Íslandsmeistari á Akureyri. Þá vann ég allar greinarnar. Síðan kemur sko, það var svig, stórsvig og brun og svo er alpaþríkeppni þá vann ég náttúrulega allt samanlagt, þannig kom þessi fjórfaldi Íslandsmeistari út. En það ár unnum við Siglfirðingarnir allar greinarnar á mótinu.“ Sama ár varð Jóhann Vilbergsson fjórfaldur Íslandsmeistari. Þetta var árið 1960. Bikarar voru til eignar, ekki var um farandbikara að ræða.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

Þetta var stundum notað, en Kristínu þótti það ekkert flott.

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?

Kristín segir að hún hafi ekki átt sér sérstakar fyrirmyndir en hún vissi af þremur góðum keppniskonum á Ísafirði, Jakobínu, Mörtu og Karolínu. ,,Jakobína var alltaf í uppáhaldi hjá mér, enda var hún voðalega góð við mig alltaf, litlu stelpuna. Þótti vænt um hana. Þetta var mjög samheldin og góður hópur.“

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Það hefur náttúrulega bara heilmikið að segja, en það þarf auðvitað að beita því vel. En maður verður að hafa pínu skap ef maður ætlar að ná árangri.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir?

,,Maður þurfti náttúrulega að vera frískur og passa vel upp á heilsuna. Þú borðaðir bara það sem var á borðunum og þú fórst út að skemmta þér. Maður þurfti náttúrulega að hafa pínu tilfinningu fyrir því sem þú varst að renna þér á. Þetta voru alls konar landslög og maður þurfti að lesa þetta svolítið. Læra pínu á brautirnar áður en maður fór í þær. Maður fékk tækifæri til þess að skoða.“ Keppendur fengu að þjappa niður í gegnum brautirnar, svona á hlið, til þess að skoða þær.

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú?

Kristín æfði með skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg. Það var búið að sameina félögin tvö þegar hún byrjaði að stunda íþróttina. Ísfirðingar voru með mjög sterkt lið kvenna og voru konurnar þar helstu keppinautar siglfirskra kvenna. Kristín nefnir Jakobínu sem sinn skæðasta keppinaut í brautinni. Siglfirðingar voru mjög framarlega í stökki og síðar Ólafsfirðingar einnig. Gönguna áttu Siglfirðingar, með Gunnar, Birgi og Svein í fararbroddi. ,,Það voru alveg hörkumenn.“

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

,,Þetta var mjög samheldinn hópur, við fórum alltaf bara saman á skíði eða reyndum það og þeir sem voru eldri og reyndari þeir reyndu að leiðbeina okkur yngri og þetta var bara mjög góð samvinna.“ Keppnisandinn var líka góður á milli félaga. ,,Í minningunni eru þetta bara skemmtilegheit. Það er langt um liðið en ég man ekki eftir neinum leiðindum. Keppnisandinn hefur breyst mikið að sögn Kristínar. Núna henda krakkarnir skíðastöfunum í jörðina og fá skapvonskukast ef illa gengur, en það þekktist ekki þá. ,,Það þarf að læra að tapa.“ Þegar hún var ung var allt miklu erfiðara og það þurfti að hafa meira fyrir hlutunum. Börnin fengu t.d. mjög mikla þjálfun af því að það voru ekki lyftur. ,,Við urðum bara að gjöra svo vel og labba. Og það voru engir troðarar, við bara þjöppuðum sjálf okkar brautir þannig að þetta var heljarinnar þjálfun í sjálfu sér.“              

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppnismanna mismunandi félaga?

,,Það glöddust allir yfir sigrum hinna, það var ekkert, það var aldrei neitt svona streð eða neitt í gangi. Það voru bara allir glaðir ef allir komu heilir niður og öllum gekk vel.“

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar?

,,Ég ólst upp niður á eyri og skíðabrautin sem ég var mest í, það var gerð ljósabraut eiginlega í beinni stefnu heiman að og upp í fjallið. Þar gátum við verið þó það væri farið að dimma. Ef við vorum í skólanum eitthvað lengi. Þangað var hægt að skreppa fram að kvöldmat. Þar vorum við ansi mikið.“ Það var ekkert í skarðinu og íþróttamiðstöðin á Hóli kemur seinna. Ljósabrautin var komin þegar Kristín byrjaði að æfa. Ekki var notast við skíðaskála. ,,Einu sinni man ég að sjö daga í röð þá löbbuðum við eina ferð upp á Strákafjall og renndum okkur niður. Það var mikil æfing. Ég var komin í að vera einn og hálfan tíma að labba upp með skíðin á bakinu og í skónum náttúrulega og öllum græjum, til að renna eina ferð.“ Hún gat rennt sér alla leið heim að dyrum, því þegar ljósabrautinni lauk var örstutt heim til hennar. Að því leiti var þetta mjög þægilegt.    

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

Viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum var mjög jákvætt og það myndaðist alltaf mikil stemmning í bænum. Fólk safnaðist saman til að horfa á.

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Það var eitt landsmót, eitt Skarðsmót og svo heimamót. ,,Það var ekkert verið að ferðast á milli og keppa eins mikið og gert er í dag.“ Farið var á landsmót til Akureyrar, Ísafjarðar og Reykjavíkur. Oftast var farið sjóleiðina. Einu sinni var farið með varðskipi frá Ísafirði til Siglufjarðar og það þótti Kristínu eftirminnilegt. Lengsta sjóferð sem Kristín hefur farið í var 33 tímar, það var vont í sjóinn og allir urðu sjóveikir. Einu sinni man Kristín eftir að hafa farið með flugvél frá Siglufirði til Reykjavíkur. Það var vél sem lenti á sjónum. Þegar farið var í keppnisferðalög reyndi hver og einn að verða sér út um gistingu og fæði. Kristín átti ættingja á Akureyri og kunningja á Ísafirði svo hún var aldrei í neinum vandræðum með það. Þeir sem ekki gátu reddað sér hjá ættingjum eða vinum gátu yfirleitt fengið að gista í skólanum á staðnum.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Getur þú sagt mér frá því?

Eftirminnilegasta skíðamótið segir Kristín hafa verið þegar hún varð fjórfaldur Íslandsmeistari og Siglfirðingar sópuðu að sér öllum verðlaunum. 

Kristín hvatti dóttur sína til þess að leggja skíðaíþróttina fyrir sig og þá fór hún sjálf að starfa sem fararstjóri. Hún segir að það hafi verið skemmtilegur tími því þá hafi hún hitt aftur konur sem hún hafði verið að keppa við á yngri árum, sem voru líka farnar að starfa í félagsstörfum. Kristín keppti síðast 1966 en upp frá því tók barnauppeldið við. Hún keppti á móti á Ísafirði 1964 og eignaðist barn sama ár. Kristín hefur ekkert farið á skíði síðustu tvö ár en árin á undan hefur hún farið upp í Skarð. ,,Þetta er bara toppurinn á tilverunni, hefði maður haft þetta. Þetta er æðislegt svæði þarna upp frá og gaman, alveg svakalega gaman. Það er mjög mikið gert fyrir almenning þarna.“

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya