Skasaga fjallabyggar

g er fddur hr Siglufiri 27. aprl 1921 og hef dvali hr alla mna vi. g byrjai ungur a leika mr skum eins og ttt var um krakka hr

Jn orsteins

Ég er fæddur hér í Siglufirði 27. apríl 1921 og hef dvalið hér alla mína ævi. Ég byrjaði ungur að leika mér á skíðum eins og títt var um krakka hér í þá daga. Þegar ég var 11 ára fór ég að keppa á skólamótum og vegnaði oftast vel, þó komu fyrir óhöpp, maður  datt úr skíðum og tafðist og það þurfti ekki langa töf til að missa af fyrsta sætinu. Útbúnaðurinn var nú líka heldur bágborinn í þá daga, furuskíði, sem ekki mátti mikið á reyna svo þau hrykkju í sundur. Það vildi mér til happs að ég átti góðan afa sem var mjög lagtækur og oft var hann búin að setja klampa á skíðin fyrir mig eftir að strákur hafði ætlað sér um of. Þessi furuskíði voru í rauninni bara tunnustafir sem voru lagaðir til og síðan settir á leðurólar sem bindingar. Fljótlega fóru þó að koma betri skíði sem þoldu meiri átök.
Það varð okkur krökkunum í Siglufirði  mikil lyftistöng þegar norskur skíðakennari Helge Torvö að nafni var fengin hingað til að leiðbeina á skíðum. Helge dvaldist hér í tvö vetur, hann var ákaflega mikill íþróttamaður og afburða skíðastökkvari. Þegar Torvö tók þátt í stökkmótum hér kom allur þorri bæjarbúa að horfa á og ég man vel hvað fólk var eins og dáleitt að horfa á hann enda lenti hann svo mjúklega að það sást varla. Vera Helge Torvö lyfti ákaflega undir skíðaáhugann hér í Siglufirði og ekki síst hjá mér sem snerist mikið í kringum hann meðan hann dvaldist hér. Um þetta leyti var ég 11 ára og mér er það minnisstætt að þá náði ég að stökkva 11 metra og þótti það talsvert afrek.              

Náði 40 metra stökki 14 ára gamall
Síðan þróaðist þetta svona áfram næstu árin. Ég var nánast á skíðum frá morgni til kvölds allan veturinn þann tíma sem ég var ekki í skólanum. Smám saman byggðum við strákarnir stærri stökkpalla, auk þess komu sterkari og betri skíði sem gerðu okkur mögulegt að ná lengri stökkum. Þegar ég var 14 ára stökk ég 40 metra sem var með því lengsta sem stokkið var á þeim tíma hér í Siglufirði. Um þetta leyti komu til sögunnar Siglufjarðarmót á skíðum. Þar réði ávalt úrslitum samanlagður árangur í göngu og stökki svo mikið reið á að vera jafnvígur á báðar greinarnar, en flestir sem æfðu verulega á skíðum á þessum tíma voru í öllum greinum, það er að segja göngu, stökki og svigi og margir nokkuð jafnvígir á þær allar. Þegar ég var  fjórtán ára tók ég þátt í mínu fyrsta göngumóti, það er að segja í flokki fullorðinna. Ég man vel eftir þessari keppni. Við vorum tuttugu keppendur og gengum átján kílómetra, sem var algengasta keppnisvegalengdin á þessum árum. Ég startaði númer 9 og hafði af að koma fyrstur í mark og sigra í göngunni og ég held ég megi segja að það hafði þótt vel af sér vikið því flestir keppinautar mínir voru um og yfir tvítugt. Ég var hins vegar frekar stór eftir aldri og bráðþroska svo þetta reyndist mér alls ekki svo erfitt.  Þessi Siglufjarðarmót  tókst mér að vinna þrjú ár í röð og hlaut fyrir stóran verðlaunabikar til eignar.

Thulemótin í Reykjavík
Um veturinn 1937 þegar ég var 15 ára fréttum við Siglfirðingar af því að halda ætti opið skíðamót í Reykjavík. Það var strax mikill áhugi hjá okkur strákunum að komast á mótið þótt lítið væri um peninga því á Siglufirði var oft lítið um atvinnu yfir vetrarmánuðina á þessum árum. Þá var gripið til þess ráðs að ganga í hús og safna peningum. Söfnunin gekk svo vel að það var hægt að senda all stóran hóp héðan á mótið. Rétt er að fram komi að þá voru tvo skíðafélög starfandi í bænum, Skíðafélag Siglufjarðar, sem ég var ávalt í, og Skíðafélagið Skíðaborg. Það var einkum göngukeppnin á Thule mótinu sem við lögðum áherslu á. Hún var í rauninni sveitakeppni þar sem árangur fimm bestu frá hverju félagi kom til útreiknings, þar af leiðandi þurftum við Siglfirðingar að senda stóran hóp þar sem félögin voru tvö. Verðlaun fyrir Thule gönguna voru ákaflega veglegur farandgripur sem átti að vinnast til eignar af því félagi sem hlyti hann þrisvar í röð eða fimm sinnum alls, auk þess voru einstaklingsverðlaun fyrir þrjá fyrstu menn. Við Siglfirðingar héldum suður rúmum hálfum mánuði fyrir mótið. Farkosturinn var eins og oft síðar er við fórum á skíðamót eitt af strandferðaskipum Eimskipa félags Íslands. Veran um borð með tilheyrandi sjóveiki og vanlíðan þar sem við höfðumst aðallega við í lest skipsins var tæpast mönnum bjóðandi. En við urðum að láta okkur hafa það því öll kojupláss voru upp pöntuð þegar við komum um borð. Þegar til Reykjavíkur kom skildu leiðir okkar Siglfirðinga. Við Skíðafélagsmenn héldum upp að Kolviðarhóli þar sem við bjuggum þar til mótinu lauk, hins vegar bjuggu Skíðaborgarmenn í Jósepsdal í skála Ármenninga. Fram að mótinu var svo æft kappsamlega nánast frá morgni til kvölds enda áhugi mikill. Ég minnist þess t.d. að ég gat varla sofið svo var spenningurinn mikill en þetta var mín fyrsta keppnisferð í annað byggðalag og ég lang yngstur í okkar hóp.

Þurfti undanþágu til að fá að keppa en sigraði samt
Það varð að fá undanþágu hjá ÍSÍ svo ég mætti taka þátt í göngukeppninni á mótinu. Undanþágan var veitt en samt þótti vissara að láta lækni skoða mig áður en ég fór í gönguna. Doktorinn skoðaði mig í krók og kring en fann ekkert athugavert. Þetta var gert vegna þess að menn voru hræddir um að ég myndi ofreyna mig í svo harðri keppni en flestir keppendurnir voru um tvítugt og þaðan af eldri. Thule mótið var síðan haldið uppí Hveradölum í ágætu veðri og færið mjög létt því hjarn var yfir öllu. Mótið vakti mikla athygli. Reykvíkingar þyrptust uppeftir svo þúsundum skipti til að fylgjast með keppninni, þá var að vísu lítið um snjóruðningstæki, en menn létu það ekki aftra sér og óku bílunum bara eftir hjarninu, harðfennið var svo mikið.Keppnin gekk mjög vel fyrir mig, ég var vel upplagður og tókst að sigra í göngunni eftir hörku keppni við Ísfirðinginn Magnús Kristjánsson. Auk þessa persónulega sigurst náðum við Skíðafélagsmenn bestum árangri sem sveit í göngunni og hlutum því bikarinn góða til varðveislu í fyrsta skiptið sem um hann var keppt. Í stökkkeppninni náði ég einnig góðum árangri, varð í öðru sæti á eftir Alfreð Jónssyni, Siglfirðingi, sem undan farin ár hefur búið í Grímsey. Það mátti því alveg segja að hið mikla kapp við æfingar sem ég lagði á mig þennan vetur hafi skilað allgóðum árangri, að minnsta kosti var ég mjög sáttur við mína frammistöðu á mótinu.

Glæsilegt tilboð frá Morgunblaðinu
Sigurinn í göngunni vakti talsverða athygli sérstaklega vegna þess hver ungur ég var. Samt var ég alveg undrandi þegar ég var boðaður á fund forráðamanna Morgunblaðsins einn daginn meðan á dvölinni syðra stóð. Erindi Morgunblaðsins við mig var að segja mér að blaðið biðist til að kosta mig til náms í skíðaskóla í Noregi næstu eitt til tvö árin. Þetta boð Morgunblaðsins var auðvitað ákaflega höfðinglegt og einstakt á allan hátt. Foreldrar mínir voru hinsvegar ekki þess físandi að ég færi til Noregs, töldu mig of  ungan og óþroskaðan til að fara til langdvalar í öðru landi. Ég var heldur ekkert ósáttur við þessa afstöðu pabba og mömmu og hraus hálfpartinn hugur við þeirri tilhugsun um að eiga að dvelja einn fjarri fjölskyldu og kunningjum á ókunnum slóðum. Maður var ef til vill barnalegur að hugleiða ekki þetta fallega boð nánar, en ég var nú aðeins 15 ára og gerði mér kannski ekki fullkomna grein fyrir þeim möguleikum sem frekara nám í íþróttinni hefði getað skapað mér.
Fékk skíði ólympíumeistarans og heimsmeistarans að gjöf
En Jóni hlotnuðust fleiri viðurkenningar fyrir snilli sína á skíðum á þessum árum, meðal annars hlaut hann stökkskíði norska ólympíu- og heimsmeistarans Birgis Ruud að gjöf og lét Ruud svo ummælt við það tækifæri að Jón væri frábært skíðamannsefni og eitt það mesta sem hann hefði fyrir hitt.

Í tilefni af 25 ára afmæli skíðafélags Reykjavíkur 1937 var sérstaklega til Thule mótsins vandað. Af því tilefni var Norska skíðastökkvaranum Birgi Ruud boðið til mótsins. Ruud hafði þá orðið sjö sinnum heims- og ólympíumeistari í skíðastökki og er tvímælalaust einn snjallasti skíðastökkvari sem til hefur verið. Stökkpallurinn var byggður skammt frá skíðaskála Reykjavíkur og þarna sýndi kappinn listir sínar þrátt fyrir að úrhellis rigning væri þennan dag. Meðal þess sem Ruud sýndi var að hann fór heljarstökk á skíðum og kom rétt niður. Þetta hafði fólk ekki séð áður og þótti mikið til koma, enda var leikni Ruud á skíðum þvílík að það mátti kallast undur. Á þessu móti sigraði ég í stökki og svigi. Fyrir sigurinn í stökkkepninni gaf hann mér skíðin sín sem viðurkenningu auk þess sem hann hafði lofsverð ummæli um frammistöðu mína. Þetta fannst mér ákaflega mikill heiður og fallega gert af þessum kunna skíðagarpi. Af skíðunum er hinsvegar það að segja að á þeim keppti ég oft næstu árin og á þau enn heil og óskemmd. 

Til keppni á Holmenkollen
Árið 1947 voru 50 ár liðin frá því fyrst var keppt á Holmenkollen í Noregi. Af því tilefni voru fjórir keppendur valdir af Skíðasambandi Íslands til að keppa á mótinu. Þetta voru ég og Jónas Ásgeirsson, sem áttum að keppa í stökki og Guðmundur Guðmundsson og Ásgrímur Stefánsson til keppni í svigi. Við félagarnir héldum út um það bil einum og hálfum mánuði fyrir mótið og dvöldum í Kongsberg við æfingar. Ég varð fyrir óhappi þarna í Kongsberg þegar ég stökk af palli sem var vitlaust hannaður. Þetta orsakaði að ég fékk mjög harða lendingu og við það mörðust á mér hælarnir, síðar frétti ég að Norðmennirnir voru ávalt með gúmmí í hælunum þegar þeir stukku. Þetta óhapp tafði mig frá æfingum í einar tvær vikur sem mér þótti ákaflega miður. Við kepptum þarna á nokkrum mótum og náðum þokkalegum árangri. Okkur var ákaflega vel tekið af Norðmönnum hvar sem við komum, vorum jafnvel bornir á háhesti um salarkynni eftir mótin. Íslendingar höfðu nefnilega lítið keppt á skíðamótum í Noregi til þessa og því þótti frændum okkar sérstakur heiður að við skyldum komnir alla leið frá Íslandi til að taka þátt í mótum hjá þeim, okkur voru meðal annars gefnir bikarar og minjagripir auk margskonar heiðurs sem við urðum þarna aðnjótandi. Daginn áður en keppt skyldi á Holmenkollen fórum við Jónas að líta á aðstæðurnar. Ekki leist okkur meira en svo á, þó við létum ekki á neinu bera. Það sem gerði þetta mest frábrugðið því sem við áttum að venjast var hinn gríðarlega hái turn sem keppendur renndu sér úr. Slíkum mannvirkjum áttum við ekki að venjast. Hér heima renndu menn sér bara niður fjallshlíðina að pallinum. Þegar við komum að skoða stökkpallinn var talsverður vindur. Þarna voru 10-20 ungmenni að reyna pallinn, nokkur þeirra voru flutt burt slösuð því þegar þau voru að stökkva tók vindurinn þau og bar langt út fyrir brautina þannig að stökkva við þessar aðstæður var í rauninni stórhættulegt.

Keppnisdagurinn rann síðan upp bjartur og fagur og veðrið var eins og best varð á kosið. Eins og mörgum er vafalaust kunnugt er aðeins keppt einu sinni á ári á Holmenkollen. Mótin drógu að sér gríðarlegan fjölda áhorfenda enda mótsdagurinn nokkurskonar hátíðisdagur meðal Norðmanna. Þarna voru að þessu sinni samankomnir hátt í 100 þúsund manns sem var að sjálfsögðu mesti mannfjöldi sem við Íslendingarnir höfðum nokkurntíman keppt fyrir framan. Ég held í hreinskilni sagt að við Jónas höfum ekki verið sérstaklega upplitsdjarfir þegar við vorum að þramma upp turninn. Okkur hafði komið saman um að leggja meiri áherslu á að standa stökkin en stökklengdina. Við vorum sammála um að of langt væri farið til að sperrast við að ná einhverri sérstakri stökklengd en eiga svo kannski á hættu að kútveltast niður hina snarbröttu brekku neðan við stökkpallinn fyrir framan allan þennan skara af fólki. En keppnin gekk alveg þokkalega fyrir okkur félagana, við stóðum stökkin í báðum umferðum og stökklengdin var 60-64 metrar en sigurvegarinn stökk 72 metra. Það kom í minn hlut að stökkva á undan og þegar ég var lentur á flötinni fyrir neðan pallinn var spilaður þjóðsöngur Íslendinga. Það fannst mér ákaflega tilkomumikið og verður þessi stund mér áreiðanlega ógleymanleg. Stemningin þennan dag á Holmenkollen var ólýsanleg, en sýndi vel hvað skíðaíþróttin skipaði háan sess í hugum Norðmanna. Bestu skíðamenn þeirra nutu almennrar hylli á þessum árum og fólk þyrptist að þar sem þeir kepptu. Mér fannst ákaflega mikill heiður að því að fá tækifæri til að keppa á Holmenkollen og tel það í raun hápunkt á mínum keppnisferli.

Jón Þorsteinsson hætti þátttöku í skíðakeppni um þrítugt. Á ferli sínum hafði hann unnið til fjölda verðlauna sem báru hróður hans og Siglufjarðar um allt land. Á fyrsta skímamóti Íslands 1938 hlaut Jón Íslandsmeistaratitilinn í svigi og hafnaði í öðru sæti í göngu. Þá varð hann Íslandsmeistari í stökki árin 1940, 1944 og 1947 og ennfremur Íslandsmeistari í Norrænni tvíkeppni  á móti Guðmundi Guðmundssyni en þeir unnu titilinn sitt á hvað frá 1943-1948.

Á keppnisferlinum hafði ég hlotið Íslandsmeistaratitil í göngu og svigi einu sinni, norrænni tvíkeppni tvívegis og stökki þrívegis. En þrátt fyrir að ég stæði ekki lengur sjálfur í eldlínunni sagði ég ekki skilið við skíðafólkið, ég byggði t.d. oft stökkpalla og var stökkstjóri á mótum næstu árin og einnig fararstjóri þegar Siglfirðingar sendu unglinga til keppni í önnur byggðalög. Það er ljúft að rifja upp minningar frá þessum árum, ferðalögin voru vissulega mörg og sum erfið þar sem samgöngurnar voru svo gjörólíkar því sem er í dag. En félagsskapurinn var skemmtilegur og ánægjustundirnar margar og þrátt fyrir að ekkert væri gefið eftir þegar út í keppnina var komið voru menn yfirleitt bestu félagar að henni lokinni.

Hverjir voru aðalkeppinautar þínir á þessum árum?
Í göngu voru það Magnús Kristjánsson frá Ísafirði og Guðmundur Guðmundsson Siglufirði, sem síðar keppti fyrir Skíðafélag Akureyrar. Einnig Jóhann Jónsson Strandamaður og síðar Jón Kristjánsson Þingeyingur sem var mjög sigursæll á árunum 1950-60. Í stökkinu voru það Alfreð Jónsson Siglfirðingur, sem nú býr í Grímsey og Jónas Ásgeirsson. Einnig má nefna Ketil Ólafsson Siglufirði, sem var jafnvígur á stökk og svig. Ég keppti hinsvegar mun minna í sviginu og fylgdist þar af leiðandi minna með frammistöðu einstakra manna í þeirri grein.

Nú hefur heyrst að keppnisferðir ykkar Siglfirðinga t.d. til Reykjavíkur hafi verið hálfgerðar svaðilfarir á þessum árum. Viltu lýsa einni ferð fyrir lesendum að lokum?
Já, það gekk ekki alltaf þrautalaust fyrir sig að komast á leiðarenda á þessum árum. Eins og komið hefur fram fórum við Siglfirðingarnir oftast með strandferðaskipum á mótin til Ísafjarðar og Reykjavíkur. Yfirleitt urðum við að láta okkur nægja að búa í lestum skipanna því kojupláss voru venjulega öll upptekin þegar skipin komu til Siglufjarðar að austan, auk þess sem ávalt var reynt að ferðast á sem ódýrastan hátt. Veran í skipalestunum var auðvitað misjöfn, bærileg í góðu veðri en slæm þegar vont var í sjó. Þegar maður hugsar til baka finnst manni í rauninni furðulegt að engin skuli hafa orðið fyrir varanlegu heilsutjóni í þessum lestarferðum þegar fólk lá jafnvel fárveikt úr sjóveiki í ísköldum lestunum svo sólahringum skipti. En norður var ekki farið nema á bílum og gekk á ýmsu í þeim ferðum, enda vegirnir ólíkir því sem er í dag og ár óbrúaðar. Mér verður ávalt minnisstæð ein ferð hingað til Siglufjarðar eftir að við höfðum tekið þátt í skíðamóti í Reykjavík. Við höfðum búið á Kolviðarhóli nokkrir Siglfirðingar og byrjuðum á að draga pjönkur okkar á sjálfum okkur niður á Sandskeið þar sem við fórum í bílana, sem voru fimm talsins. Í þeim var að sjálfsögðu fleira fólk en við, meðal annars kvenfólk, börn og gamalmenni. Farkostarnir voru öflugir trukkar, enda þýddi lítið annað en bílarnir væru öflugir því ekki var um snjómoksturstæki að ræða á þessum árum. Ferðalagið gekk vel í fyrst en þegar kom upp í Borgarfjörðinn fór að hvessa og skafa snjó og bílarnir fóru að ganga illa enda var mikið frost og fór harnandi eftir því sem á daginn leið. Þetta silaðist svona áfram upp Borgarfjörðinn. Smám saman heltust farkostirnir úr lestinni og þegar við áttum um það bil 20 km ófarna að Fornahvammi var aðeins bíllinn sem flutti okkur skíðafólkið eftir gangfær. Þegar svona var komið sögðum við bílstjóranum að þetta gæti ekki gengið, við tækjum bara skíðin sem voru uppi á bílnum og gengjum og létum fólkið sem mest þurfti á bíl að halda hafa bílinn okkar. Nú þarna tökum við skíðin og göngum og klukkan tvö um nóttina vorum við komin í Fornahvamm og voru víst allir fegnir þegar þangað var komið. Þá var, og reyndar lengi eftir þetta, rekið hótel í Fornahvammi og var staðurinn yfirleitt síðasti áningarstaður ferðamanna áður en lagt var á Holtavörðuheiðina. Það er hinsvegar af bílnum sem við yfirgáfum að segja að hann kom í Fornahvamm um fimmleytið um morguninn. Og næstu þrjá daga héldum við kyrru fyrir á hótelinu í Fornahvammi. Veðrið var slæmt á Holtavörðuheiðinni þannig að bílstjórarnir áræddu ekki að halda áfram þrátt fyrir að veður væri skaplegt í Norðurárdalnum. Á fjórða degi var svo loksins haldið áfram og var því ekki að neita að við vorum orðin ansi óþreyjufull að komast heim. Þennan dag gekk ferðalagið ágætlega enda veður hið besta. Við fórum á bílunum sem nú voru aðeins þrír sem leið lá að Blöndu, en hún var óbrúuð. Yfir hana gengum við á ís og fórum í bíl sem við höfðum fengið frá Sauðárkróki til að sækja okkur. Ferðalagið til Sauðárkróks gekk áfallalaust og þegar þangað kom var aðeins síðasti áfanginn eftir. Hann fórum við með því gamla og góða strandferðaskipi Drang sem flestir Siglfirðingar ferðuðust með á þessum árum, áður en akvegurinn um Siglufjarðarskarð var lagður. Heim komum við því liðlega fimm sólahringum eftir að lagt var af stað úr Reykjavík. Ég held að þetta sé ein tímafrekasta ferð sem ég fór á mínum keppnisferli.
header
Hafa Samband
moya - tgfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya