Skķšasaga fjallabyggšar

/* /*]]>*/ 23. jśnķ 2008 Viš frķstundahśs fjölskyldunnar, Noršurgötu 12 Siglufirši. Jóhann Vilbergsson er fęddur 20. mars 1935 į Siglufirši. Fyrstu 30

Jóhann Vilbergsson


23. júní 2008

Við frístundahús fjölskyldunnar, Norðurgötu 12 Siglufirði.

Jóhann Vilbergsson er fæddur 20. mars 1935 á Siglufirði. Fyrstu 30 ár ævinnar bjó hann á Siglufirði og starfaði m.a. í síldinni og við beitningar meðan hann bjó þar. Síðan flutti hann til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan og keyrt leigubíl í 47 ár. Foreldrar hans voru Rósa Jónsdóttir og Vilberg Þorláksson. Faðir hans var fæddur 1910 á Hofsósi en flutti ungur til Siglufjarðar. Móðir hans var fædd 1912 á Dalvík en kom til Siglufjarðar að vinna í síldinni þegar hún var ung og settist þar að. Rósa vann í síld á sumrin og Vilberg var bólstrari og vann hjá Jóa dívani. Á seinni árum keyrði hann vörubíl.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina? ,,Ég er bara Siglfirðingur, við byrjum bara snemma, við byrjuðum bara fimm, sex ára á skíðum. Þó ég taki það ekkert alvarlega fyrr en ég var 14-15 ára.“ Jóhann byrjaði strax að keppa í barnaflokkum en slasaðist þegar hann var 13 ára og braut á sér hnéð. Fóturinn á honum styttist um 4 og ½ cm og þá gat hann ekki lengur verið í göngu og stökki sem hann keppti í áður. Hann skipti því um keppnisgrein og fór í svigið og var í því það sem eftir var. Jóhann slasaðist ekki við skíðaiðkun heldur brotnaði hann um borð í Goðafossi, þegar skipið var nýkomið til landsins. ,,Það datt engum í hug að maður hefði brotnað við það að skoða skip, svoleiðis að ég vissi það nú ekki fyrr en sex árum seinna að ég hefði brotnað, það var alltaf talað um tognun.“ Um leið og hann komst á kreik aftur fór hann að iðka skíðaíþróttina af krafti. Óhappið átti sér stað um vorið og hann var orðin góður um haustið.

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun? ,,Nei, nei, þetta var bara svona innbyggt hérna, við vorum bara í þessu, á skíðum. Við vorum stundum á skíðum til klukkan ellefu á kvöldin. Það var farið í refaleik hérna í skriðunni. Þar var allt liðið, stundum á annað hundrað manns í eltingaleik á skíðum, öll kvöld. Mest gaman þegar það var blindbylur og maður sá ekki á milli húsa, þá var aðalfjörið.“ Þetta var einn liður í að æfa sig á skíðum en svo fóru krakkarnir að æfa þetta af meiri alvöru í brautum. Fyrir ofan bæinn var ljósabraut og þar var mikið æft, einnig var mikið æft í Hvanneyrarskálinni.

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum? ,,Hérna þurftum við ekki að vera á skíðum til að komast á milli staða. Hérna vorum við bara á skíðum til að renna okkur og svona. Í sveitinni gengu menn á milli bæja á skíðum. En hérna er svo stutt í allt, það tók því ekki að fara á skíði til þess.“

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna? Það var skíðakennsla þegar Jóhann var strákur, þá voru Siglfirðingar með erlenda þjálfara, bæði í göngu, stökki og svigi. Þjálfararnir voru þýskir, austurrískir, norskir og sænskir. Jeppen Erikson þjálfaði stökk og þá fóru allir að æfa stökk. Jóhann lærði á gönguskíði hjá sænskum þjálfara þegar hann var átta eða níu ára. Eftir það keppti hann í göngu, þar til hann slasaðist á hnénu. Simmerman var einn af þeim allra frægustu sem komu til Siglufjarðar til að þjálfa. Hann var sjálfkjörin á ólympíuleikana 1960 og þurfti ekki að keppa um það einu sinni. Simmerman þjálfaði svig og Jóhann segir: ,,Hann var orðinn svo spældur fyrir rest því að ég vann hann alltaf í öllum keppnum, hann var ekkert sáttur við það. Svo þegar við komum á ólympíuleikana þá vildi hann ekkert tala við okkur, hann var hálfspældur bara.“

Hversu oft var æft yfir vetrartímann? Það var æft á hverjum degi, sama hvernig viðraði. ,,Það var bara kjörorðið, maður fór bara í fjallið hvernig sem viðraði, hvort sem það var rigning eða rok eða stórhríð eða hvað.“ Það var ekki nema það væri blindstórhríð að ekki var farið í fjallið. Það voru ekki skipulagðar æfingar á vegum skíðafélagsins heldur mættu bara þeir sem höfðu áhuga og metnað. Oft var heldur enginn sérstakur þjálfari en skíðaiðkendur voru samtaka í því að mæta og æfa.

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið? ,,Maður var ekkert að pæla í einhverju sérstöku formi, það er seinni tíma mál. Maður bara æfði eftir þörfum og bara eins og manni langaði til. Maður mætti ekki á neinar sérstakar æfingar klukkan þetta eins og allir í dag. En ég man eftir því að á sumrin þá voru alltaf dansleikir hérna frá 17. júní og fram í miðjan september, á hverju einasta kvöldi og alltaf fullt húsið.“ Dansleikirnir voru haldnir í samkomuhúsi bæjarins. Eitt sumarið fór Jóhann eins oft og hann gat á dansleiki og komst að því að hann hafði aldrei verið í betri þjálfun en eftir dansinn.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn? Jóhann er á þeirri skoðun að krakkar sem stunda íþróttir standi sig yfirleitt betur í skóla en hinir sem ekki stunda íþróttir. Ástæðan er sú að íþróttakrakkarnir læra að skipuleggja tímann sinn betur og nýta allar stundir. Jóhann smakkaði aldrei vín og hefur aldrei á ævinni reykt. ,,Maður varð bara að vera alveg í reglunni og standa sig.“ Jóhann telur að reglusemi sé algjört lykilatriði ætli menn að komast áfram í íþróttum og í lífinu sjálfu og nefnir Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara sem dæmi. Bogi er einn þriggja bræðra sem stunduðu skíðaíþróttina af kappi á Siglufirði á sínum yngri árum.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn? Það var ekki dýrt að æfa skíðaíþróttina á Siglufirði, það kostaði ekkert að æfa en kostnaðurinn var einkum fólgin í skíðum og útbúnaði. ,,En við vorum nú svo nægjusamir að við vorum bara á gömlum skíðum.“ Jóhann fór eitt sinn til Austurríkis til að keppa á heimsmeistaramóti og ráku aðrir keppendur upp stór augu þegar þeir sáu skíðin hans. Þeir vissu að Jóhann ætlaði að keppa og spurðu hann hneikslaðir hvort hann ætti þessi skíði, þegar hann jánkaði því hristu þeir hausinn í forundran. Þetta voru skíði með skrúfuðum köntum. Skrúfurnar voru kúptar og drógu því tölvert úr rennslinu. Pabbi Jóhanns átti skíði sem hann fékk til að byrja með og því þurfti Jóhann aldrei að renna sér á tunnustöfum.

Lýstu skíðum, skíðaskóm, festingum og skíðastöfum. ,,Ég er nú eiginlega einn af fyrstu í heiminum sem að fór á fyrstu öryggisbindingarnar. Það var á heimsmeistarakeppni í Badgastein 1958 þá voru allir á nýjum öryggisbindingum frá Marker.“ Þetta var í fyrsta sinn sem öryggisbindingar voru fáanlegar. Jóhann varð líka fyrsti karlmaðurinn í heiminum til að keppa á atomic skíðum. Þarna var ný tegund af skíðum að koma á markað og fyrirtækið vildi fá einhvern til að prófa nýju skíðin. Það vildi engin keppa á nýju skíðunum nema Jóhann. Hann fékk 14 pör af skíðum og var hæstánægður með það. ,,Ég vissi að ég myndi ekki gera neinar rósir hvort eð var. Þau voru ekkert verri heldur en hin skíðin. Það var líka ein stelpa sem keppti, við vorum tvö á svona skíðum.“ Það varð einnig ör þróun á skíðaskónum, fyrst voru þeir reimaðir, síðan komu smellur. Árið 1958 lét Jóhann smíða á sig skó með smellum og það voru fyrstu smelltu skórnir sem hann eignaðist. Jóhann prófaði að láta sérsmíða á sig skó, með tilliti til þess að annar fóturinn var styttri en hinn, en segir að það hafi ekki skipt neinu máli í sviginu, vegna þess að menn standa bara á annarri löppinni í einu. Jóhann lét sér því nægja að nota hefðbundin skíðaútbúnað, en það sem truflaði hann mest var hversu máttlaus hann var í hnénu á styttri fætinum.   

Lýstu fatnaði. Annars vegar æfingafatnaði og hins vegar keppnisbúningum. ,,Það var náttúrulega svolítið vandamál því við vorum bara í gömlu sauðaklæðunum hérna. Pokabuxum, eins og maður sagði, sko. Það var ekki fyrr en maður fór að fara þarna erlendis að maður keypti þá teygjubuxur og svoleiðis, sem var þægilegt að vera í. Það var eiginlega byrjunin hjá mér og fleirum. Ég keypti slatta af svoleiðis buxum handa krökkunum hérna í leiðinni.“ Einnig fékk Jóhann eitthvað af fatnaði í verðlaun á mótum. Stundum valdi hann föt handa strákunum heima á Siglufirði. Svo var ýmislegt keypt erlendis sem ekki fékkst hér heima á þeim tíma, t.d. fínir hanskar og fleira. Það var bæði lítið úrval á Íslandi og útbúnaðurinn dýr. Jóhann telur að allur útbúnaður hafi verið hlutfallslega dýrari þá en í dag.

Segðu frá fyrsta Íslandsmótinu sem þú tókst þátt í. ,,Ég keppti á Akureyri 1952. Ég fékk bara að vera í flokkasvigi því ég var bara 15. Ég gleymi því nú aldrei því annar vinur minn frá Ísafirði, Björn Helgason, hann var nú góður á skíðum. Hann sagði: ég ætla sko að vinna þig. Og hann gerði það. Ég var nú með betri tíma í annari ferðinni en í hinni lenti ég í því að krossleggja skíðin og beint á stöng. Svo ég sat bara fastur á stönginni. Ég held að ég hafi verið í tíu mínútur og ég gat ekki hreyft mig.“ Þetta varð til þess að sveitin hans Jóhanns tapaði en það var enginn að skammast í honum fyrir þetta. Jóhann segir að þetta hafi verið hans fyrsta afrek og hlær.

Hverjar voru helstu keppnisgreinar? Jóhann byrjaði í sviginu 14-15 ára gamall. Hann var í svigi, stórsvigi og bruni.

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda? ,,Við vorum náttúrulega að reyna að stæla suma þarna. Maður lærði nú af ýmsum, ég lærði mikið af Zimmerman, til dæmis. Svo voru svona frægir karlar eins og Molter og Toni Sailer. Toni Sailer var náttúrulega rosa flottur, ég keppti við hann einu sinni, á heimsmeistarakepnninni í  Badgastein 1958. Ég gat náttúrulega ekki neitt, eða þannig.“ Jóhann hefur nokkrum sinnum keppt erlendis fyrir Íslands hönd, fyrsta mót hans erlendis var á Holmenkollen 1957. Þá var hann búin að vera í Svíþjóð að æfa í heilann mánuð og fór síðan til Osló að keppa á Holmenkollen. Það voru nokkrir Íslendingar saman og þeir lentu í kringum 20. sæti í flestum greinum. Einnig hefur Jóhann keppt á tvennum Ólympíuleikum, árin 1960 og 1964. Árið 1960 var hann fyrstur Íslendinga í bruni og hafnaði í 30. sæti, sem þótti nokkuð gott þar sem ekki var æft brun á Íslandi á þeim tíma. Hann fékk einnig tækifæri til að fara á Ólympíuleikana 1968 en segir að þá hafi hann verið komin með svo stóra fjölskyldu að hann hafði ekki efni á þessu lengur. ,,Maður fékk ekki neina aðstoð til þess að fara.“ Þetta varð þó ekki til þess að Jóhann legði skíðin á hilluna, því hann er að enn þann dag í dag. Börnin og barnabörnin hafa einnig lagt stund á skíðaiðkun og nú á fjölskyldan frístundahús á Siglufirði sem mikið er notað yfir vetrartímann.

Segðu frá gullpeningum og bikurum. ,,Ég á nú ekki mikið, ég var alltaf á hausnum útaf fætinum, margir héldu að ég væri bara svona valtur en það var nú bara af því að fóturinn klikkaði. Maður var nú ekkert að tjalda því. Ég held að það viti það nú fáir að hann sé styttri, sko. En ég varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari, 1963, þá vann ég hérna allt saman. 1962 varð ég fyrsti Íslandsmeistarinn á Akureyri, í stórsvigi.“ Einnig vann hann Skarðsmótið í mörg ár. Íslandsmeistaramótið 1963 var haldið á Siglufirði og er það frægt mót sökum veðurs. Það var blindbylur á Siglufirði í þrjár vikur. Halda átti mótið upp í Skarði en það var hætt við það vegna þess að það var ekki fært þangað. Því var mótið flutt í Hvanneyrarskál. ,,Ég held að ég hafi unnið bara vegna þess að ég þekkti veðrið svo vel, maður sá náttúrulega ekki neitt, maður sá varla á milli hliða í stórsviginu. En ég hafði það af, ég varð fyrstur í sviginu og stórsviginu. Þá var ekkert brun, það var hætt að keppa í bruni. Ég var annar í bruni hérna 1960, þá var keppt á Hólstúni, markið var þar sem að göngin eru núna, gatið.“

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? ,,Jájá. Eða ekki drottning, það voru svo fáar drottningar hérna. Kóngstitillinn kom út af því að þeir sem voru fyrstir í norrænni tvíkeppni, göngu og stökki, samanlagt. Sá sem vann það, hann var skíðakóngur Íslands.“ Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni var opinberi titillinn en menn voru nefndir skíðakóngar. Einn þeirra sem hlaut þennan titil var Guðmundur Guðmundsson frá Siglufirði. Jóhann segir frá: ,,Hann var fluttur til Akureyrar og keppti fyrir Akureyri. Það endaði með því að hann varð skíðakóngur Íslands á kostnað okkar hérna, því þeir strækuðu á að vera með því hann stytti sér leið í göngunni, allavega var hann kominn í mark, það var einn sem tók fram úr honum í göngunni og þá tók hann á móti honum í markinu. Þar af leiðandi hættu þeir að keppa, kepptu ekki í stökkinu, sko.“

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?,,Ég veit það ekki, ég held að það sé bara aðalatriðið að vera bara jákvæður og vera bara ákveðinn. Reyna að standa sig, að það sé bara númer eitt. Annað hvort stendur maður eða fellur maður. Ég hef aldrei pælt í því neitt. En það er ekki verra að vera ákveðinn.“ Jóhann bætir því við að þeir sem unnu alltaf voru ekkert vinsælir, sjálfum þótti honum best að vera annar eða þriðji.

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir? Fólk þarf að búa yfir einhverjum hæfileikum en Jóhann segir að aðalatriðið sé að vera með og æfa. Auk þess er mikilvægt að vera ákveðinn í að standa sig. ,,Sumum er þetta í blóð borið. Ég virðist hafa verið þannig, eitthvað. Pabbi var á skíðum þegar hann var yngri. Hann var bara í göngu. Þá var nú eiginlega bara gengið hérna, mest, í þá daga.“

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú? Jóhann æfði fyrst með Skíðafélagi Siglufjarðar, síðan var það sameinað Skíðafélaginu Skíðaborg og heitir nú Skíðafélag Siglufjarðar – Skíðaborg. Þegar Jóhann flutti til Reykjavíkur gekk hann í KR og hefur verið þar síðan.

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu? ,,Aðalvandamálið var að fá stelpurnar til að æfa. Þær voru eitthvað uppteknar í öðru. En okkur tókst að koma hérna nokkrum á legg, eins og maður segir. Þær urðu bara Íslandsmeistarar ár eftir ár. Við áttum Íslandsmeistara í kvennaflokki í hátt í fimmtán ár, að minnsta kosti. Fyrst var það Kristín Þorgeirsdóttir, hún var fædd í þetta, bara um leið og hún byrjaði þá varð hún Íslandsmeistari með það sama. Svo tók við Árdís Þórðardóttir, frænka mín, og það var sama sagan hjá henni, hún var svona líka. Svo var Sigríður Þórdís Júlíusdóttir, hún var Íslandsmeistari einu sinni. Hún var alltaf rétt á eftir Dísu, sko. Þær voru alltaf kallaðar Dísurnar, þær voru tvær á skíðum og hétu báðar Dísur.“ Þetta voru þær sem mest sköruðu fram úr á sínum tíma.

Var einhver samkeppni á milli félaganna tveggja á Siglufirði? ,,Ja það var svolítill rígur á milli, eins og alltaf, eins og þú sérð á nafninu, það var ekki hægt að sameina öðruvísi en að hafa bæði nöfnin.“ Sameiningin gekk nokkuð greiðlega fyrir sig og var gengið frá henni á tveimur fundum.   

Hvaða kosti/ókosti hafði sameiningin í för með sér? ,,Ja, hún hafði náttúrulega þá kosti að þá hættu menn að rífast. En þetta voru nú allt saman bestu vinir, þess á milli.“ Jóhann var alltaf hlynntur sameiningunni og telur að hún hafi verið til bóta. Á þeim tímapunkti var íbúum Siglufjarðar farið að fækka: ,,svoleiðis að þetta var eiginlega þrautarlending bara, að sameina félögin, það var ekkert vit í öðru, tvö félög í svona litlum bæ. Þó að metnaðurinn hafi kannski minnkað.“

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga? ,,Það hafa alltaf verið Ísfirðingar og Akureyringar og Reykvíkingar. Svo hefur komið svona einn og einn annars staðar frá. En þetta er aðaluppistaðan í skíðaíþróttinni, það er Reykjavík, Ísafjörður, Siglufjörður og Akureyri.“

Hver var þinn skæðasti keppinautur? ,,Ja, þeir voru nú margir, þá voru menn rosalega góðir á skíðum. Þegar við vorum að keppa hérna 1958 og 1960 þá vorum við bestir bara hérna á Norðurlöndunum, Íslendingar, sko.“ Eysteinn Þórðarson frá Ólafsfirði og Kristinn Benediktsson frá Ísafirði voru á meðal helstu keppinauta Jóhanns.

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppanda? ,,Þetta voru náttúrulega allt saman bestu vinir, þetta voru einu sönnu vinirnir, eins og alls staðar. Skíðamenn alls staðar eru bara bestu vinir, alveg sama í hvaða félagi þeir eru. Allavega lít ég þannig á það. Það eru mínir bestu vinir, það er skíðafólkið, bara yfirleitt, alveg sama í hvaða félagi það er. Ég hef aldrei verið að pæla neitt í svona félaga stússi, sko. Ég man eftir því þegar við fórum til Akureyrar, það var verið að skjóta á okkur og kalla okkur alls konar nöfnum og svona, það var eiginlega verst þar, sko. Ég sagði við strákana að við skyldum bara brosa, bara afgreiða þá í fjallinu í staðinn.“ Jóhann bætir því við að það voru ekki sjálfir skíðamennirnir sem létu svona heldur áhorfendur og fólkið sem var í kring. Árið 1956 var Eysteinn Þórðarson að keppa á landsmóti á Ísafirði og þó var hrópað: ,,dettu, dettu, dettu.“ Það vildi  þannig til að hann datt og lenti á steini og þá var fagnað. En hann var fljótur að standa upp aftur og klára brautina, þrátt fyrir að hafa brotnað við byltuna. Eysteinn stóð uppi sem sigurvegari en Jóhann var undanfari á mótinu og keppti ekki. Siglfirðingar fóru í verkfall og kepptu ekki vegna þess að þeim þótti stökkbakkinn ekki nógu langur. Jóhann hefur séð eftir því alla tíð síðan að hafa ekki keppt fyrir hönd Ísfirðinga á mótinu, en hann stóð með sínum mönnum frá Siglufirði þrátt fyrir að vera fluttur suður á þessum tíma. Jóhann byrjaði að keppa fyrir hönd KR 1965. Árið 1970 var Íslandsmót á Siglufirði og Jóhann keppti fyrir hönd KR með góðum árangri. ,,Ég var Siglfirðingur fyrir það. Ég verð náttúrulega Siglfirðingur á meðan ég stend í tærnar. Ég hef alla tíð verið það, stend með Siglufirði í öllu, alveg hreint.“   

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segðu frá skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks. Það voru tveir skíðaskálar á Siglufirði en þeir voru lítið notaðir, því það var ekkert verið að æfa í kringum skálana. Fólk fór bara út um dyrnar heima hjá sér og á skíði og kom svo bara beint heim aftur. Það voru ekki neinar lyftur, heldur gekk fólk bara upp fjallið með skíðin á öxlinni. Þetta var gert dag eftir dag og fólk nýtti allar auðar stundir og fór jafnvel í fjallið í hádeginu. Á landsmóti árið 1963 var búið að koma dráttarvél fyrir upp í Skarði en það var ekki hægt að nota hana á mótinu því það skall á svo brjálað veður. Árið eftir kom dráttarvélin að góðum notum í Hvanneyrarskálinni. ,,En við höfðum svo litla peninga að við höfðum ekki efni á að kaupa almennilegan kaðal, hann var alltaf að slitna.“ Seinna kom lyfta fram á Hóli.     

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir? Var mikill munur á milli ára? ,,Við vorum oft byrjaðir í endan á september-október, þá vorum við byrjaðir að fara á skíði sko, en aðalfjörið var eftir áramótin, þá byrjuðum við náttúrulega að keppa.“ Jóhann bætir því við að upp í Skarði sé snjór eiginlega allt árið. Þar voru haldin svokölluð Skarðsmót á hverju ári um Hvítasunnuna. Þegar það var mikill snjór var ófært alla leið upp og þá var mótið fært neðar í fjallið.

 Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum? ,,Ja, það var bara rosalega góð stemmning því að þetta var eini staðurinn á landinu sem maður sá alltaf fullt af fólki að horfa á mótin, það var hérna, hérna kom fólk að horfa á.“

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli? Það var ekki mikið um það. Sjálfur hefur Jóhann aldrei meitt sig á skíðum.

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

,,Í þá daga var nú ekkert hægt að komast héðan nema með skipi. En það voru rosalega fínar samgöngur hérna samt. Maður gat farið úr bænum á hverjum degi. Allan veturinn sko. Því það var alltaf póstbátur á milli Akureyrar og Siglufjarðar og Sauðárkróks. Síðan var Esjan og Heklan og Skjaldbreið og Herðubreið og alltaf einhver skip. Ég var svo svakalega sjóveikur að ég var alltaf alveg að drepast.“ Það var 3-4 tíma ferðalag til Akureyrar með skipi.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Getur þú sagt mér frá því? ,,Það var eiginlega þegar ég endurfæddist í þessu, ég kom aftur 1957, þá vorum við á Akureyri, á landsmótinu þar.“ Á mótinu varð eitthvað rifrildi á milli Siglfirðinga og Akureyringa yfir því hverjir ættu að vera saman í grúbbu. Þá var atriði að vera í fyrstu og annarrri grúbbu en Akureyringar vildu ekki setja Jóhann í fyrstu grúbbu af því að hann hafði ekki keppt á landsmótinu árinu áður. Jóhann endaði í annarri grúbbu og keppti í svigi í leiðinda veðri og kulda. Siglfirðingarnir voru vanir logni í fjallinu og notuðu sjaldan síðbrók eða föðurland, en Jóhann segir að það hefði ekki veitt af því í kuldanum á Akureyri. Jóhann átti ekki skíði á þessum tíma en fékk lánuð skíði sem voru alltof stór á hann, 2,15 metrar að lengd. Jóhann náði besta tímanum en undanfari var Tony Speesh, olympíufari. Flestir áhorfendur fóru niður úr fjallinu um leið og fyrsta grúbba hafði rennt sér niður og töldu þá úrslitin ráðin. Annað kom á daginn þegar Jóhann renndi sér niður og hlaut besta tímann. Hann fékk meira að segja betri tíma en undanfarinn, Tony Speech. Eysteinn Þórðarson hafði fengið besta tímann í fyrstu grúbbu og því reiknuðu allir með að hann myndi vinna keppnina. Árangur Jóhanns varð til þess að áhorfendur sneru við til að horfa á seinni umferðina. Í seinni umferð var Jóhann orðin spenntur og keyrði greitt, svo hann var bara á öðru skíðinu í gegnum fyrstu hliðin. Það endaði með því að hann valt út af þegar hann átti þrjú hlið eftir og rann á maganum að markinu. Hann fór þó ekki í gegnum markið svo hann náði að snúa við og hlaupa upp þrjú hlið og renna sér svo í markið. Þarna tapaði hann dýrmætum tíma en náði samt að verða annar. Það munaði sáralitlu að hann yrði fyrstur, þrátt fyrir byltuna.

Hvað merkir það að vera undanfari? Sá sem er undanfari gerir för í brautina, þannig að hinir sem á eftir koma rati niður brautina. Yfirleitt eru leyfðir þrír undanfarar, eftir því hvernig færið er. Ef það er vont færi þá er kannski bara einn undanfari til að prófa brautina. Jóhann var sjálfur undanfari á Ísafirði 1956, ásamt Árna nokkrum frá Ísafirði. Seinna voru þeir tveir sendir á Ólympíuleika.

Segðu frá flokkaskiptingu eða grúbbuskiptingu. Keppendur söfnuðu punktum og fjöldi punkta sagði til um hvar í röðinni þeir störtuðu. Best var að vera ekki aftar en tíundi í röðinni. Jóhann var oft númer þrjátíu eða fjörtíu í röðinni, en þá voru mun fleiri keppendur en í dag. ,,Ég stóð mig eiginlega alltaf best þegar ég var aftarlega í númeri. Svona númer fjörtíu, þá var ég ágætur. En ef ég lenti framarlega í starti, maður kunni ekkert á það sko, þá voru engvir grafningar og ekki neitt og ekkert gaman að renna sér niður.“

Manstu eftir einhverjum sérstökum viðburðum/atburðum? Árið 1968 var sögulegt mót á Siglufirði. Startið var á toppnum á Illviðrahnjúki, en þar eru landamærin á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Keppendur sneru afturendanum í átt til Eyjafjarðar og störtuðu ofan í Skagafjörð. Það voru teknar sjö til átta beygjur ofan í Skagafjörð en svo var komið á fullri ferð inn í Eyjafjörðinn aftur. Á mótinu voru tveir Norðmenn og unnu þeir stórsvigið en Jóhann varð fjórði, á eftir Ívari Sigmundssyni frá Akureyri. Í sviginu unnu Norðmenn en Jóhann kom næstur á eftir þeim. Brautin var 2,6 kílómetrar að lengd og höfðu Norðmennirnir aldrei lent í svona stórri stórsvigsbraut. Þeim fannst alveg svakalega gaman að keyra hana því það voru svo flottar beygjur í henni. Jóhann lagði brautina og segir að hann hafi alltaf lagt gleiðar brautir til þess að ná miklum hraða í stórsviginu. Þetta var hálfgert risastórsvig, en risastórsvig var ekki til sem keppnisgrein á þeim tíma. Siglfirðingar höfðu mikið land og langar brekkur og voru því farnir að leggja slíkar brautir á undan öðrum landsmönnum.

Hvað átt þú af gripum sem tengjast skíðaástundun þinni? Jóhann á 10-15 pör af skíðum, en elstu skíðunum er hann búin að henda. Gormabindingum og smellubindingum er hann líka búin að henda. Hann er fús til að láta gripina sína á safn eða sýningu ef til þess kemur. Jóhann á auk þess eitthvað af verðlaunagripum, myndum og blaðaúrklippum. Í einni blaðagreininni eru skemmtilegar lýsingar á óförum Jóhanns á skíðamóti í Aspen í Bandaríkjunum. Hann varð fyrir því að brjóta hælinn á skíðinu, þannig að hann stóð beint upp í loftið. Í blaðagreininni stóð eitthvað á þessa leið: ,,Okkar maður féll og skíðið brotnaði og okkar maður tók taglið af skíðinu, svo hélt okkar maður áfram eins og ekkert hefði í skorist, en féll svo fljótlega aftur.“ Á þessum tíma var Jóhann að bíða eftir Atomic skíðum, en þau komu svo seint að hann gat ekki beðið eftir þeim, heldur keppti á öðrum lélegri skíðum.

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya