SkÝ­asaga fjallabygg­ar

/* /*]]>*/ 30. j˙nÝ 2008 A­ heimili Hˇmsteins ١rarinssonar, Fossvegi 10, Siglufir­i. Hˇlmsteinn ١rarinsson er fŠddur ß Siglufir­i 1. desember 1926.

Hˇlmsteinn ١rarinsson

30. júní 2008

Að heimili Hómsteins Þórarinssonar, Fossvegi 10, Siglufirði.

Hólmsteinn Þórarinsson er fæddur á Siglufirði 1. desember 1926. Hólmsteinn er ættaður frá Siglufirði og Héðinsfirði langt aftur í ættir og er því komin af skíðafólki. Föðurættin er frá Héðinsfirði en móðurættin frá Siglufirði. Hann hefur alltaf búið á Siglufirði, en síðustu 12 árin hefur hann haft veturbúsetu í Reykjavík. Hólmsteinn fór á skíði en keppti ekki í íþróttinni. Hann var aftur á móti virkur þáttakandi þegar kom að því að undirbúa keppnir og mót. Hólmsteinn var meðal annars skrifari á mótum og skrifaði niður tímann hjá hverjum keppanda. Dómarar sáu um að taka tímann og voru þeir tímaverðir. Helgi Sveins var mótshaldari eða mótsstjóri á þeim tíma og aðalmaðurinn, eins og Hólmsteinn orðar það.

Hólmsteinn man eftir stökkmóti í Stóra bola árið 1936. Var það fyrsta landsmótið sem haldið var í skíðaíþróttum. Stökkpallarnir voru nefndir Stóri boli og Litli boli og nöfnin tilkomin vegna þess að pallarnir stóðu niður undan svokallaðri Nautaskál. Árið 1938 var haldið stökkmót upp í Hvanneyrarskál, farið var norður hólinn og alveg fram eftir botni. Stefán Þórarinsson stökk 46 metra á mótinu og setti Íslandsmet sem stóð í mörg ár.

Hólmsteinn var ungur þegar skíðafélagið klofnaði og til urðu tvö skíðafélög. Hann segir að það hafi byrjað með því að 10-12 ungir strákar sögðu sig úr félaginu. Aðalmennirnir í þessu voru Gestur Fanndal og Guðlaugur Gottskálksson, hinir voru með betri strákum á skíðum, að sögn Hólmsteins. Einhver óánægja varð til þess að þeir tóku þessa ákvörðun en Hólmsteini er ekki kunnugt um hvers eðlis hún var. Það var einhver rígur á milli félaganna, en aldrei neitt alvarlegt. Bræður Hólmsteins voru í sitt hvoru félaginu en hann var sjálfur bara mitt á milli og tók enga afstöðu. Þrátt fyrir að bræðurnir væru ekki í sama félagi þá fylgdi því aldrei neinn ágreiningur. Hólmsteinn segir að afleiðingar klofningsins hafi verið þær að það var mikið meiri keppni og menn æfðu sig meira og lögðu sig betur fram. Bestu mennirnir voru sendir á Thule mót í Reykjavík. Þar var helst keppt í göngu og voru þá göngusveitir, fjögurra manna sveitir sem kepptu. Bæði félögin frá Siglufirði sendu sínar göngusveitir á Thule mót og þá myndaðist keppni á milli þeirra. L.H. Möller í Reykjavík stóð fyrir þessum Thule mótum, sem alltaf voru haldin fyrir sunnan. Lengi vel voru Ísfirðingar helstu keppinautar Siglfirðinga í göngu. Seinna komu Ólafsfirðingar sterkir inn og eru enn. Vinátta og tengsl voru góð á milli keppenda mismunandi félaga.

Það voru tveir skíðaskálar. Skíðafélag Siglufjarðar átti Skíðafell sem stóð á Ásnum, hinumegin í firðinum en hitt félagið átti skíðaskála við Steinaflatir, rétt sunnan og neðan við Stóra bola. Í skálanum var hægt að fá heita drykki og einhverja hressingu. Lengst af voru engar lyftur og menn urðu að þramma upp með skíðin á öxlinni. 

Hólmsteinn telur að sameiningin hafi verið til góðs en þrátt fyrir það hafi orðið lægð í skíðaíþróttinni um svipað leiti og félögin sameinast: ,,Það er bara eins og allt sé farið úr, fokið út í veður og vind. Þetta hvarf allt þegar síldin fór hér áður fyrr. Þá var þetta bara, það var frí á haustin og fram á vor, það var ekkert að gera. Unglingarnir voru þá í þessu frekar en öðru og það var að vissu leiti gott. Svo komu frystihúsin og fólk fór að vinna og þá datt þetta allt saman niður.“ Atvinnulífið hafði því mikið að segja í þessari þróun.

Það voru aldrei nema 2-3 stúlkur að keppa frá Siglufirði.

Jón Stefánsson var skíðakóngur Íslands á fjórða áratugnum. Seinna var Jón Þorsteinsson skíðakóngur í mörg ár. Þann titil hlutu menn fyrir besta árangurinn í stökki og göngu, samanlagt. Skíðakóngur á eftir honum var Guðmundur Guðmundsson.         

Aðspurður hvort veðráttan hafi ekki breyst og þar með skíðatímabilið svarar Hólmsteinn:

,,Manni fannst alltaf vera vetur þegar það var vetur og svo kom bara vor og sumar þegar það átti að koma. En það var eiginlega sama hvort það var blindbylur eða hvað, það var farið á skíði.“ Hið eiginlega skíðatímabil byrjaði sjaldan fyrr en í desember og hófst af krafti eftir áramót. Tímabilið stóð alveg fram á vor.

Þegar farið var á mót til Reykjavíkur var yfirleitt farið með flutningaskipum, það var ekki um annað að ræða. Hólmsteinn man eftir sérstöku móti í apríl 1963. Þá var mót upp í Siglufjarðarskarði. Gangan var þannig skipulögð að það var gengið fram á Súlur og aftur til baka. Það gerði allt í einu hörku hríð og byl og fólk var í vandræðum með að komast niður aftur. Gangan var rétt búin þegar þurfti að smala fólkinu saman. Það var ekki um annað að ræða en að ganga til byggða. Skyggnið var þannig að ekki sást út úr augum en allir komust heilir heim. Þennan dag urðu miklir skipskaðar við Norðurland vegna óveðurs. Á þessu móti var það Fljótamaður sem bar sigur úr bítum.

Hólmsteinn segir að það hafi verið mikil stemmning á Siglufirði fyrir keppnir og mót og það hafi strax verið mikil eftirvænting í bæjarbúum fyrir fyrsta mótið sem haldið var í bænum. Aðsóknin var góð og áhorfendur margir, þrátt fyrir töluverðar vegalengdir sem þurfti að ganga.

Blómaskeið skíðaíþróttarinnar á Siglufirði var á stríðsárunum og rétt fram undir 1950. En þetta tímabil var ekki aðeins blómaskeið skíðaíþróttarinnar heldur var Siglufjörður eins og paradís á þessum árum, að sögn Hólmsteins. ,,Þá fylltist allt af fólki á sumrin og þetta var eins og stór borg bara.“

Helstu keppnisgreinar voru ganga, stökk og svig, en svigið var kallað slalom. Einnig var keppt í bruni en Hólmsteinn man ekki nákvæmlega hvernig það fór fram: ,,Ætli menn hafi ekki verið með broddstafinn í klofinu til að draga af, eins og gert var í gamla daga, þá voru menn með broddstaf þegar þeir fóru yfir fjöll og settust svo á hann og létu sig renna niður, það var tæknin þá, sko.“

Númeravörður setti rétt númer á keppendur fyrir allar keppnisgreinar. Í göngunni var dregið um röð keppenda en í öðrum greinum réð stigamunur röðinni. Kallari sá um að kalla nöfn keppenda til áhorfenda. Hólmsteinn minnist þess ekki að menn hafi verið að brjóta leikreglur en stundum fóru menn öfugu megin í portin og þá var dregið af þeim. Í sviginu voru portverðir sem fylgdust með að menn færu rétt í portin.

header
Hafa Samband
moya - ┌tgßfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya