SkÝ­asaga fjallabygg­ar

/* /*]]>*/ 19. j˙nÝ 2008 A­ heimili Gunnars, Su­urg÷tu 34, Siglufir­i. Gunnar Gu­mundsson er fŠddur 14. mars 1943 a­ Brautarholti Ý Ëlafsfir­i.

Gunnar Gu­mundsson

19. júní 2008

Að heimili Gunnars, Suðurgötu 34, Siglufirði.

Gunnar Guðmundsson er fæddur 14. mars 1943 að Brautarholti í Ólafsfirði. Foreldrar Gunnars eru Guðmundur Antonsson og Árný Sigurlaug Jóhannsdóttir, bæði fædd og uppalin í Fljótunum. Þau bjuggu fyrstu búskaparárin sín á Nefstöðum í Fljótum. Þegar Gunnar var þriggja ára gamall flutti fjölskyldan til Siglufjarðar og þar hefur Gunnar átt heima síðan. Faðir hans var lengi verkstjóri á síldarplani og svo starfaði hann í verslun Kaupfélagsins. Seinni árin vann hann í Sigló síld og Þormóði ramma. Móðir hans vann í síldinni. Gunnar byrjaði í síldinni, ,,þar sem peningarnir voru.“ Síðan lærði hann múrverk og er múrarameistari. Gunnar var lögregluþjónn en er nú húsvörður í grunnskólanum.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina? Gunnar byrjaði sinn feril þriggja ára gamall, á eldhúsgólfinu á Nefstöðum. Faðir hans smíðaði handa honum tunnustafaskíði sem hann gekk á. Eftir að Gunnar flutti til Siglufjarðar var hann á skíðum frá morgni til kvölds.

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun? Ekki fékk hann beina hvatningu frá neinum í fjölskyldunni en íþróttakennarinn hans, Helgi Sveinsson, hvatti hann seinna til að keppa. Gunnar segir að Helgi hafi verið mikill skíðaunnandi og duglegur að hvetja krakkana áfram. Móðir Gunnars var mikil keppnismanneskja og hafði gaman af því að fylgjast með stráknum sínum.  

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum? ,,Þau voru náttúrulega geysimikið notuð, en það var eiginlega ekkert mokað fyrstu árin sem ég er hérna. Það bara tróð hver fyrir sig. Þegar ég fór að ganga í skóla hérna þá notaði maður bara slóðina eftir þá sem fóru í vinnuna klukkan sjö. Svona voru þessi ár. Þetta voru góð ár.“

Hvernig var skíðakennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna? Gunnar fékk fyrst skíðakennslu í göngu árið 1958. Kennarinn var finnskur og hét Alle Leine og var á Siglufirði tvo vetur. Hjá honum lærðu allir sem voru á gönguskíðum. Hann kenndi líka stökk. Gunnar man eftir 3-4 erlendum skíðakennurum sem kenndu á Siglufirði. ,,Allavega tveir Norðmenn og þessi Finni.“

Hversu oft var æft yfir vetrartímann? ,,Það má segja að það hafi verið á hverjum degi, þegar það var þannig veður. Það þurfti að vera ansi vont veður til að það væri ekki farið á skíði. Maður var alltaf á skíðum, það var bara hlaupið heim úr skólanum og beint á skíðin og svo var gengið hér í fjarðarbotnana, dag eftir dag. Það voru engir snjótroðarar eða neitt þá. Þá bara gekk hver fyrir sig.“

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið? Fótbolti var mikið stundaður og svo var gengið eða hlaupið á fjöllin í kring.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? ,,Ekki á þeim tíma, maður þurfti skíðin og stafina og skóna. Til að byrja með voru þetta ekki merkileg skíði. Bara tréskíði, mismunandi góð. Ég hugsa að ég hafi verið orðinn ellefu ára þegar ég fékk fyrstu alvöru gönguskíðin. Það var líka mikil breyting. Ég byrjaði á svigskíðum sem faðir minn sagaði utan af og það voru mín fyrstu gönguskíði.“ Það þurfti ekki sérstaka skíðaskó á þessi skíði heldur voru smellubindingar á skíðunum og það var hægt að nota hvaða skó sem var.

Hvenær byrjaðir þú að keppa? Gunnar var níu eða tíu ára þegar hann byrjaði að keppa á innanfélagsmótum. Hann segir að skíðabakterían hafi byrjað fyrir alvöru þegar hann fór að keppa.

Segðu frá fyrsta Íslandsmótinu sem þú tókst þátt í. ,,Það var 1960 hérna á Siglufirði. Þá var ég í 15-16 ára flokki og lenti í öðru sæti. Það var mjög skemmtilegt, virkilega skemmtilegt. Annað mótið var á Akureyri 1962, þá var ég komin upp í 17-19 ára og vann þann flokk. Maður vildi helst vera í fyrstu sætunum alltaf. Það var ekkert gaman öðruvísi.“ Gunnar viðurkennir að hafa haft mikið keppnisskap.

Hverjar voru helstu keppnisgreinar? Það var ganga, svig og stökk. Gunnar var í stökki til þrettán eða fjórtán ára aldurs en keppti aldrei í þeirri grein. Gangan var hans keppnisgrein.

Um hvaða vegalengdir var að ræða? Það voru 10, 15 og 30 kílómetrar. Gunnar segir að það hafi ekki verið mikið erfiðara að ganga 30 km heldur en 10 km og takturinn hafi verið gjörólíkur.

Segðu frá gullpeningum og bikurum. Gunnar á tvo bikara frá mótinu á Ísafirði 1964, annar er fyrir 15 km göngu og hinn fyrir 30 km göngu. Gunnar fékk hvíld í einn dag á milli. Skíðamótin á þessum árum byrjuðu á þriðjudegi og voru búin á sunnudegi. Það var keppt í boðgöngu, 15 km og 30 km göngu. Boðgangan var fjórum sinnum 10 km. Gunnar vann allar göngurnar á Ísafirði 1964. Ári seinna var mót á Akureyri og þá vann hann 30 km göngu. Árið 1967 var landsmótið haldið á Siglufirði og þá vann Gunnar 15 km göngu. Einnig hefur Gunnar verið Siglufjarðarmeistari í 10-15 ár. ,,Maður varð alltaf að vinna hérna sko.“   

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda? ,,Já, það voru góðir göngumenn.“ Árið 1954 var Skíðamót Íslands haldið upp á Súlum upp í Skarði. Gunnar var ellefu ára og fór upp í fjall til að horfa á. Gunnari er það í fersku minni þegar Fljótamaðurinn Sigurjón Hallgrímsson kom öllum á óvart og vann 15 km gönguna. ,,Hann gekk alveg ofboðslega vel. Alveg ofboðslega vel. Ég tók til þess. Svo var annar hér, Siglfirðingur, Viðar Magnússon, sem gekk alveg óhemjuvel en hann sigraði nú aldrei. Hann gekk alveg svakalega fallega. Þetta er svona það sem ég ætlaði mér að ná og mér tókst það, þessum göngulögum.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir? ,,Það er náttúrulega fyrst og fremst að vera í góðri þjálfun. Alveg feikilega góðri þjálfun og geta helst hlaupið frá morgni til kvölds. Síðan það að hafa þessa tækni. Að nota tæknina, láta sig renna í sporinu, fjaðra vel í hnjánum, um það snerist þetta.“

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst? ,,Það skiptir miklu. Þessi sem ég nefndi áðan, þessi Fljótamaður, hann er nú frændi minn, hann er nú dáin núna, hann sagði við mig: maður gefur sig aldrei fyrr en maður finnur blóðbragð í munninum.“ Gunnari var oft hugsað til frænda síns þegar hann var að keppa.

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú? Gunnar æfði með Skíðafélagi Siglufjarðar Skíðaborg, hinu sameinaða félagi. Strákarnir hittust og æfðu saman en það var engin þjálfari eða skipulagðar æfingar á vegum skíðafélagsins. ,,Það bara gekk hver með sínu nefi.“

Hvaða kosti/ókosti hafði það í för með sér að hafa tvö skíðafélög? ,,Þetta var slæmt meðan að félögin voru tvö, eftir því sem mér er sagt. Þá var svo mikill rígur á milli félaganna og það kom bara niður á bæjarfélaginu. Það var ekki hollt.“ Gunnar telur að sameiningin hafi verið til bóta. 

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu? Það var mikið meira af drengjum á þeim tíma.

Hvernig var keppnisandinn í félaginu? ,,Hann var góður, það var mjög gaman þegar við vorum að fara á skíðalandsmótin og þetta, virkilega gaman.“ Það var mikill vinskapur á milli keppenda.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? ,,Já, skíðakóngur, ég kannast við það. Guðmundur Guðmundsson skíðakóngur, sem hér átti heima og flutti síðan til Akureyrar. Ég man nú ekkert eftir honum, það er það langt síðan.“ Gunnar segir að þessi titill hafi ekki verið notaður á hans ferli, eða á meðan hann var sjálfur að keppa. Menn voru bara Íslandsmeistarar ef þeir unnu á landsmóti, ekkert annað.

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga? Það voru Ísfirðingar, Fljótamenn, Akureyringar og Ólafsfirðingar.

Hver var þinn skæðasti keppinautur? ,,Það var mikill vinur minn á Ísafirði, Kristján Rafn Guðmundsson, við vorum samtíða allan tímann. Við vorum svona að vinna til skiptis. Til dæmis 1965, þegar ég vinn aðra gönguna þar þá vinnur Krisján Rafn hina. 1967 vinn ég 15 km og þá vinnur hann 30 km. Þetta var mikið svona. Nema þarna 1964, það er ekki oft sem menn hafa unnið alveg allar göngurnar.“ Þrátt fyrir að veita hver öðrum mikla samkeppni í skíðagöngu voru þeir góðir félagar og vinir. Gunnar segist vera steinhættur að fara á skíði en að Kristján sé ennþá að. Gunnar lauk sínum ferli þegar hann fór að byggja sér hús og var í því öllum stundum, þegar hann var ekki að vinna. Þá var ekki lengur tími til að stunda skíðaíþróttina.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segðu frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks. ,,Það voru nú ekki neinar skíðalyftur til að byrja með. Þær koma miklu seinna, sko. En við bara smurðum skíðin okkar heima og stigum svo bara hérna út á snjóinn. Þá var alltaf snjór. Það þurfti ekki að fara neitt til að fara á skíði, þá bara labbaði maður hér fram fjörðinn og í hringi, ýmist í öðrum dalnum eða báðum. Og oft kom það fyrir að maður var að koma heim og þá voru einhverjir aðrir að fara og þá fór maður með þeim aftur. Þennan sama rúnt, sko.“ Skíðaskálinn Skíðafell stóð yfir á ásnum hinum megin í firðinum. Þar var einn stór salur og eldhús. Gunnar minnist þess ekki að þar hafi verið salernisaðstaða. ,,Þetta var ekkert notað. Þetta var notað þegar það voru landsmót, þá notuðum við þetta til að smyrja bara í þessu. Jú, stundum voru kvöldvökur þarna yfir veturinn.“ Það var einkum skíðafólkið sem sótti þessar kvöldvökur og það var oft mikið líf og fjör.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir? Var mikill munur á milli ára? ,,Maður byrjaði alltaf svona um svipað leiti og skólinn byrjaði, að æfa. Þá fór maður að hreyfa sig, hlaupa og nota fjöllin og svona. Síðan bara var byrjað á skíðunum um leið og snjórinn kom. Það var svolítið misjafnt.

header
Hafa Samband
moya - ┌tgßfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya