Skķšasaga fjallabyggšar

9. desember 2010 Aš heimili Gunnars aš Drekagili 14, Akureyri Gunnar Bergur Įrnason er fęddur į Ólafsfirši 26. september 1924. Fašir hans var Įrni

Gunnar Įrnason

9. desember 2010

Að heimili Gunnars að Drekagili 14, Akureyri

Gunnar Bergur Árnason er fæddur á Ólafsfirði 26. september 1924. Faðir hans var Árni Bergsson kaupmaður og útgerðarmaður og móðir hans var Jóhanna Magnúsdóttir, ættuð frá Akureyri. ,,Þannig að ég naut nú þeirra fríðinda sem barn, og við bræður, sérstaklega við tveir eldri bræðurnir, að við áttum alltaf tvö heimili, annað náttúrulega hjá foreldrum okkar á Ólafsfirði, hitt hér inní Aðalstræti 15, hjá ömmu minni, og móðursystur og móðurbróður mínum. Nú ég ólst náttúrulega upp í Ólafsfirði og tók þátt í flestu sem strákar bralla á þessum stöðum. Þetta var hrein paradís að alast upp fyrir okkur strákana. Það snerist nú mikið um sjóinn. Þetta var geysimikil þorskveiðistöð, Ólafsfjörður, á sínum tíma.“

Gunnar átti fósturbróður og náfrænda sem alinn var upp með þeim bræðrum. Foreldrar hans tóku hann að sér þegar hann var sex ára gamall. Þetta var Brynjólfur Sveinsson, sem seinna varð þekktur um allt land fyrir innflutning og framleiðslu á skíðum. Brynjólfur var fæddur á Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Árni Bergsson, faðir Gunnars, og Sveinn Bergsson, faðir Brynjólfs voru báðir frá Hæringsstöðum og komu úr sjö bræðra hópi. Faðir Brynjólfs lést ungur, rétt rúmlega 30 ára gamall og fór hann þá í fóstur til frænda síns á Ólafsfirði.

Gunnar flutti frá Ólafsfirði 16 ára gamall. Hann flutti til Akureyrar og fékk vinnu í Landsbankanum þegar hann var nýorðin 17 ára. Þar vann hann öll stríðsárin eða fram til 1944. ,,Það var þannig að Brynjólfur fósturbróðir okkar, sem sá nú um verslunina að miklu leyti, hann byrjaði 1935 að flytja inn sportvörur og telur að sitt fyrirtæki hafi verið stofnað það ár. Það er gaman að segja frá því að þetta byrjaði svolítið sérstaklega – íþróttafélaginu Leiftur vantaði fótbolta og það var ekki svo gott að nálgast þá á sínum tíma. Og Brynjólfur hafði engar vöflur með það að hann bara pantaði hann frá Þýskalandi. Og það sérstaka við það var það að boltinn var kominn eftir hálfan mánuð frá því að hann var pantaður. Það hefur hist svona vel á ferðir, nú voru þetta ekkert nema skipaferðir á þeim árum. Þetta fór að vinda upp á sig og hann fór að versla með skíði og var sérstaklega þekktur bara um allt land í sambandi við skíðasöluna. Hann flutti inn skíði frá Noregi og þetta jókst nú svona með hverju ári hjá honum.“ Árið 1944 varð þetta að fjölskyldufyrirtæki og verslunin flutti til Akureyrar. Þá hætti Gunnar að starfa hjá Landsbankanum og tók við verslunarrekstrinum. ,,Við áttum þetta fyrirtæki í 41 ár. Þrjú fyrstu árin var það í Hafnarstræti þar sem að var reyndar inngangan í Hótel Hörpu, sem er sambyggt við Hótel KEA. Og svo keyptum við, og það meira að segja eignarkönnunarárið, en það var mikið umstang, það var farið ofan í allar sýslur og farið í bankana og allt hvað heitir, skatturinn og það var gerð allsherjar eignakönnun á öllu landinu. Ég keypti þetta í tvennu lagi, en sem sagt það voru bara þrjú ár sem við vorum þarna innra og eftir það var verslunin í Skipagötu 1, verslunin heitir núna Toppmenn og sport, ef ég man rétt.“ Þarna ráku þeir Sportvöruverslun Brynjólfs Sveinssonar hf. sem var alhliða sportvöruverslun og var rekin til ársins 1985. Eftir að verslunarsambönd við Noreg rofnuðu vegna stríðsins fór Brynjólfur að flytja inn skíði frá Ameríku. Þá höfðu Ameríkanar fengið leyfi frá Peter Østbye í Osló til að framleiða samlímd skíði, sem voru límd úr mörgum lengjum, af mismunandi viðartegundum. ,,Það var nú gallinn við skíðin sem voru bara gerð úr einum planka, að þau vildu stundum vindast.“ Eftir að innflutningur hófst á þessum skíðum frá Ameríku var svo mikið að gera hjá bræðrunum að þeir höfðu varla undan þegar mest var. ,,Það var það mikil sala í þessu, við seldum þetta út um allt land og líklega stærstan hluta til Reykjavíkur. Þetta var allt saman sent í póstkröfum, ég man það að ég varð skinnlaus á fingrunum fyrir hverja póstferð. Við fengum geysilega góðar viðtökur með þessi skíði og við þurftum að leigja okkur stórt geymsluhús, að vísu að parti til hafði meira að segja verið efnisgeymsla fyrir tunnuverskmiðjuna og við höfðum þar helminginn af því, þetta kom allt saman í trékössum og ákaflega vel frá gengið. Þetta stóð á meðan að stríðið var og innflutningshöftin öll sömul.“

Á þessum árum var Frímann Guðmundsson verslunarstjóri sportvörudeildar KEA. Frímann seldi einnig skíði, en veitti þeim bræðrum ekki mikla samkeppni hvað skíðasöluna varðaði. Verslun Brynjólfs Sveinssonar varð elsta sportvöruverslun landsins, en hún starfaði óslitið frá 1935-1985.

Gunnar segir að skíði hafi alltaf tilheyrt á stöðum eins og Siglufirði og Ólafsfirði. ,,En þetta var til heimilisbrúks, til að komast á milli bæja, og það sem þurfti að fara. Og ansi oft voru þau búin til úr tveimur tunnustöfum.“ Gunnar man vel eftir tunnustafaskíðum, en notaði þau aldrei sjálfur. Fyrstu skíðin hans voru smíðuð úr eik. ,,Þau voru fleiri sentimetrar held ég í beygjunni, þau voru svo klossuð og þung.“ Seinna eignaðist hann skíði sem Brynjólfur flutti inn frá Noregi. ,,Það voru virkilega góð skíði og það var úr seinustu sendingunni sem náðist áður en allt lokaðist frá Noregi fyrir stríðið.“  

,,Það má nú segja að áhuginn fyrir skíðakeppnum hafi skapast við það að það var haldið skíðamót hér á Akureyri. Þá voru staddir af tilviljun tveir bræður, Sigursveinn og Jón Árnasynir. Þeir voru lengi vel kenndir við Kálfsá í Ólafsfirði. Einhvern veginn atvikaðist það þannig að þeir tóku þátt í skíðagöngu þarna. Ég held að þeir hafi nú ekkert verið neitt sérstaklega vanir skíðamenn en þeir voru þræl sterkir og léttir á sér. Og það var ekkert með það, þeir þurftu að fá lánuð skíði, báðir, þeir voru ekki í neinum skíðahugleiðingum þegar þeir fóru til Akureyrar. Siggi sem alltaf var nú kallaður, hann sagði mér það einu sinni að hann hefði verið á vinnukonugeplum. Þetta var nú voðalega lélegur útbúnaður, það var eitt táband um ristina og búið, venjulega var það úr kúskinni. Nú, þeir urðu náttúrulega frægir af þessum verðlaunum sínum, þeir bræður.“ Báðir urðu þeir trilluútgerðarmenn og formenn. ,,Nú, ég held að þetta hafi orðið til þess að menn fóru að hugsa allt öðruvísi um skíði, að þau væru ekki bara svona þarfagripur, þau væru til að skemmta sér á þeim og hafa gaman af. Nú, þetta fór svo að vinda upp á sig, menn fóru að eignast betri skíði, sérstaklega eftir að Brynjólfur fór að flytja inn góð skíði frá Noregi. Það var nú þannig að þetta var mestmegnis í sambandi við skíðastökk. Það var enginn maður með mönnum sem stundaði skíði nema hann ætti stökkskíði. Hann flutti þau inn frá Gressvik í Noregi. Þetta voru virkilega vönduð skíði á heimsmælikvarða því Norðmenn voru mjög framarlega í framleiðslu á skíðum. Svo kom að því að það kom til Siglufjarðar norskur skíðakennari, Helge Torvö. Hann kom og kenndi þarna, og sýndi stökk í svokölluðu Kleifarhorni, það er vestan við ósinn. Það var nú búin til bara bráðabirgðabrekka þar og löguð svolítið en tilfellið var að brekkan sjálf var frá náttúrunnar hendi bara mjög góð sem stökkbrekka. Við kölluðum þetta loftkast, það var alltso það sem stokkið var af, það gekk undir því nafni alltaf þegar ég var strákur. Venjulega bjuggum við þetta til á staðnum úr snjókögglum. Og hann stökk þarna 50 metra, ég hef heyrt talað um 40 en það voru ábyggilega 50 metrar sem hann stökk. Nú, hann var þarna í nokkra daga og það lifnaði ákaflega mikill áhugi fyrir þessari íþrótt. Strákarnir höfðu jú verið að stökkva 25 metra eða eitthvað svoleiðis áður en þetta var. Svo hélt nú þessi áhugi lengi. En ég man eftir því að við höfðum byggt okkur snjóhengju strákarnir á svokölluðu Randverstúni, það er nú ekki allt saman byggt, það er beint austan við frystihúsið í Ólafsfirði, í brekkunni þar. En þetta voru náttúrulega engin rétt hlutföll í þessari brekku. Loftkastið var hátt man ég var en svo var bara ekki nálægt því nógu mikill bratti fyrir neðan og maður var eiginlega svífandi hátt í lofti þarna, þó maður stykki ekki langt.“ Helge Torvö hristi bara höfuðið þegar hann sá þetta og sagði þeim að þeir þyrftu að útbúa betri brekku. Gunnar var ekki mikið farin að vera á skíðum þegar Helge kom og lærði því ekki undir hans handleiðslu, eins og hinir eldri strákarnir. ,,Ég í rauninni lærði aldrei neitt á skíðum, ég var óskaplegur tossi í þessari íþrótt, ég hef komist lengst í stökki 20 metra, til að standa.“ Gunnar keppti aldrei á skíðum en Magnús bróðir hans keppti á nokkrum mótum.

Brynjólfur varð þekktur fyrir framleiðslu á skíðum sem urðu vel þekkt um landið undir nafninu „Binna skíði.“ Skíðin voru merkt með þessu heiti en Brynjólfur lét framleiða þau í Hafnarfirði. ,,Það var nú svolítið gaman af því að við seldum stóran hluta af þessu til Reykjavíkur svo það fór nú dálítið stóran sveig áður en það kom til kaupenda, en það var nú ekkert um það að tala.“ Þetta voru eins konar milliskíði, þau voru breiðari, þyngri og sterkbyggðari heldur en gönguskíði. Þegar þetta var þá var slalomið byrjað, eða svigið. Hermann Stefánsson íþróttakennari við Menntaskólann á Akureyri fór út til Noregs og lærði svig, eða slalom, og kom svo með það til Akureyrar 1938. Hann hafði hóp nemenda með sér í fjallið, stráka sem eitthvað höfðu verið á skíðum. Þeirra á meðal var Magnús, bróðir Gunnars og Halldór Gunnlaugsson frændi þeirra, sem þá átti heima á Hornbrekku á Ólafsfirði en býr nú á Dalvík. ,,Og svo var mjög flinkur maður, mikill myndarmaður, Hörður Ólafsson frá Ísafirði og Jón á Helluvaði Sigurgeirsson. Hann var frá Helluvaði í Mývatnssveit. Mikill dugnaðarmaður að öllu leyti og þeir voru nú í þessum hópi sem ég man eftir og sjálfsagt hafa verið einhverjir fleiri strákar úr skólanum. Ég kom í skólann einmitt ´38, þetta haust og fylgdist nú með þeim þessum. Þá voru meira að segja haldin skíðamót í brekkunni framan við Lystigarðinn. Það voru engin tré þarna, ekki eitt einasta tré í brekkunni sem er orðin algróin upp af trjám núna, myndarlegur skógur. Svo var haldið skíðamót í Búðargili, sem er nú í innbænum og það var hægt að notast við ýmsilegt þó það væri ekki voðalega fínt. En þarna byrjuðu nú þessir strákar. Svo verður það að 1939 þá er í raun og veru haldið fyrsta reglulega skíðalandsmót á Íslandi. Það er haldið á Ísafirði.“ Skíðaráð Akureyrar sendi flokk manna á mótið, þeirra á meðal Magnús bróður Gunnars. Magnús varð Íslandsmeistari á mótinu, fyrsti Íslandsmeistari á landinu í svigi. ,,Ég hef nú gaman af því að geta þess að búskapurinn var nú ekki betri en það að hann var nú ekki kominn á þessi samlímdu skíði, hann var á skíðum úr aski. Sem var nú að mörgu leyti góður viður nema hann var svolítið gljúpur og þau slitnuðu svo mikið að neðan, skíðin, á rennifletinum, það þurfti mikið að vanda sig að bera á þau skíði. Hann átti nú enga almennilega skíðastafi en hann fékk lánaða skíðastafi hjá mér sem ég var nýbúinn að fá úr þarna seinustu sendingunni sem Brynjólfur fékk frá Noregi. Og þeir voru dálítið nýstárlegir að því leyti að utan á þeim var hörð plasthúð. Þeir voru ekki úr þessum bambus sem hafði verið áður, það var kallað tonkín, þetta efni. Það kom frá Austur Asíu einhvers staðar. Það voru engir svona liðir á því eins og er á bambusnum þannig að þetta leit miklu betur út. Þessir stafir eru til ennþá og ég notaði þá á meðan ég fór eitthvað á skíði en nú eru þeir á Minjasafninu á Akureyri og fylgir þeim svona saga þeirra. Það er svolítið gaman að eiga þetta svona gamalt.“ Gunnari dettur í hug að þar séu einnig til tunnustafaskíði. Slík skíði voru úr sér gengin þegar Gunnar fór fyrst að muna eftir sér og hann segist ekki muna eftir að hafa séð menn nota tunnustafaskíði. „Ég veit að þau eru til, ég held ég fari rétt með það, það eru til eiginlega fræg skíði á safninu á Húsavík og þau voru í eigu hins fræga Fjalla-Bensa.“

Var ekki dýrt að kaupa sér svona útbúnað?

,,Jújú, þetta var dýrt miðað við þennan tíma. Þú getur nú bara hugsað þér, þegar ég er þarna orðinn 17 ára, ég fæ útborgað fyrsta mánuðinn 325 krónur í Landsbankanum á Akureyri.“ Gunnar man ekki hvað skíði kostuðu en ímyndar sér að það hafi verið hátt í mánaðarlaun. Sjálfur þurfti hann ekki að leggja út fyrir miklum kostnaði og naut frændseminnar við Brynjólf. ,,Það var nú þónokkrum árum seinna, það voru pantaðir alveg sérstaklega, sem sagt ný tegund, vandaðir skíðaskór fyrir einn skíðamanninn, Þorvald Ingimundarson, og þeir kostuðu 180 krónur og þóttu alveg hryllingur. Þeir voru pantaðir sérstaklega fyrir hann en svo stóðu þeir í búðinni í mánaðavís, hann gat ekki leyst þá út og það var verið að skoða þessa dýrgripi þarna í búðinni allan tímann. Ég man að karlarnir voru að segja: er hann alveg vitlaus hann Valdi að vera að leggja í svona kostnað fyrir eina skó. Það þótti alveg rosalegt. En þetta voru ákaflega miklir framúrstefnu skór miðað við það sem maður hafði séð áður, þá. En þetta var nú eins og ég segi, nokkrum árum seinna, en þó þarna fyrir stríðið samt.“

Voru mest strákar á skíðum eða voru stelpur eitthvað á skíðum líka?

„Það var nú ekki mikið um að stelpur væru á skíðum en ég vil nú ekki fortaka það að það hafi einhverjar stelpur eitthvað verið en ég man nú ekki eftir því, ég verð nú að segja alveg eins og er.“

Ekkert svona að leika sér sem krakkar eða svoleiðis?  

,,Ja, það væri þá helst það að þær hafi verið eitthvað að damla svona. Ég man ekki eftir þeim í brekkunum þarna, það kom náttúrulega ekki til á stökksvæðinu þarna í Kleifarhorninu. En það voru náttúrulega ljómandi góðar skíðabrekkur þarna ofan við bæinn og svo færðum við nú, eða þessir sem bestir voru, sko kúnstin var í raun og veru á þeim árum áður en svigið kom að geta farið nógu hratt á beinu skriði beint niður. Þá var farið að fikra sig upp eftir fjöllunum ofan við bæinn, það voru þrír hjallar þarna sem ennþá eru og skíðasvæðið er nú þar.“

Hvaða greinar voru það sem var verið að keppa í þarna fyrst?

,,Ja, það voru ganga og stökk og svig, ég hugsa að það hafi ekki verið fleira.“ Brun og stórsvig var ekki byrjað þarna á fyrstu landsmótunum. ,,En svo má segja að þetta brekkuskrið sem kallað var, að renna sér beint niður brekkurnar hafi nú verið í áttina að bruninu þó að það hafi þurft að taka smá beygjur á milli stórra hliða þarna.“ Gunnar segir að það hafi ekki verið mikið byrjað að keppa í göngu á Ólafsfirði þegar hann fluttist úr bænum 1941. ,,Það kemur allt seinna og þeir urðu mjög framarlega í göngu og eru ennþá og sérstaklega var það gott með það að unga fólkið byrjaði svo snemma að taka þátt í því. Björn Þór Ólafsson, hann var nú mikill brautriðjandi eftir að hann komst á legg, það er bara eftir að ég er farinn úr bænum. Og það má nú kannski þakka honum mikið áframhaldið sem varð þarna. En mig langar að segja frá því að 1938 þá kemur fyrsti skíðakennarinn til Leifturs, en þá var sá gallinn á að við áttum ekkert nema stökkskíði strákarnir. Hann hét Jósep Andrew frá Ísafirði, sonur Gunnars Andrew en hann var eitthvað held ég af breskum uppruna og var ansi góður skíðamaður. Og ég man að hann var svo fínn í tauinu þegar hann kom, hann var í gulum kamelullarfrakka. Gerði mikla lukku í þorpinu, þetta var myndarlegur maður þar að auki, meira en meðalmaður á hæð.“ Hann var ráðinn frá Ísafirði til að kenna svig. ,,Og við fórum að reyna á stökkskíðunum en það var náttúrulega engin mynd á því, við náðum þessu alls ekkert sko, því stökkskíðin voru með þremur röndum að neðan og voru gerð til að þau færu beint áfram og ekkert beygjuvesen í sambandi við það, þannig að þetta gekk nú svona svolítið illa. En svo í framhaldi af þessu, þá var það nú seinna, ætli það hafi ekki verið ´39, þá kemur Magnús heim með skíðin sín héðan frá Akureyri, svigskíði sem hann átti, og fer í svigi niður hjallana þarna sem við höfðum rennt okkur beint niður. Það var þarna hópur sem stóð þarna niður á plássi og við vissum um að hann myndi renna sér þarna niður og ætlaði að fara þessar beygjur. Það var ákfalega fallegt veður, nýsnævi ofan á hjarni, svona mjöll alveg og það þyrlaðist upp í sólinni þegar hann tók beygjurnar og þá heyrðist nú í sumum strákunum: uss þetta er enginn hraði á honum! Sko, þá voru þeir allir í þessu, eins og við höfðum gert áður, að renna sér nógu hratt beint niður hjallana. En svo heyrist í einum, sem var nú einn af betri skíðamönnunum þarna heima, Friðrik Magnússon: svona skíði ætla ég að fá mér! Ég man alltaf þegar hann sagði þetta, mér fannst það nú svolítið skrítið, það var eins og hann héldi að ef maður keypti sér svigskíði þá hlyti maður að geta gert þetta – farið í þessar svigbeygjur. Svo komu nú fleiri þarna, Haraldur Kröyer, frændi okkar. Hann varð seinna sendiherra víða um lönd fyrir Íslandshönd. Haraldur var í þessum fyrsta hópi sem Hermann Stefánsson kenndi.“

Manstu eftir að hafa heyrt talað um skíðakóng eða skíðadrottningu?

„Já ég er nú hræddur um það.“

Hvaða merkingu hafði það?

,,Það var sá sem var stigahæstur á landsmóti. Lengi vel var það nú Jón Þorsteinsson, á Siglufirði. Hann var mjög góður skíðamaður og sérstaklega var hann góður stökkvari. Svo kom Guðmundur Guðmundsson, sem að flutti nú seinna hingað til Akureyrar og átti nú í hálfgerðu stríði við sína gömlu félaga frá Siglufirði, það var nú frægt alveg.“ Einhverju sinni eftir landsmót á Akureyri vildi Guðmundur ekki koma á lokahófið en Gunnar, sem var á þeim tíma formaður skíðaráðs Akureyrar, dreif hann með sér á lokahófið. ,,Þar fór allt í bál og brannd, hann hellti sér yfir Siglfirðingana alveg hreint upp á hundrað og ég held að hann hafi nú svo farið út nema ég dauðsá eftir því að hafa sótt hann en mér fannst það bara ekki tilhlíða að hann, sjálfur skíðakóngurinn, væri ekki á lokahófinu, þar sem hann átti nú að taka á móti verðlaunum. Þetta var vegna þessa misklíðar á milli hans gömlu félaga á Siglufjarðar, og hans, hann var svolítið þungur í skapi.“ Þeir Gunnar og Guðmundur voru góðir vinir en Gunnar segist aldrei hafa skilið um hvað málið snerist. Guðmundur var virkilega góður skíðamaður en það voru fleiri góðir frá Siglufirði, t.d. Alfreð Jónsson, Jón Þorsteinsson, Haraldur Pálsson og Jónas Ásgeirsson. ,,Það má nú segja að Norðlendingarnir hafi nú ansi mikið einokað þessa titla, til að byrja með. En svo fóru þeir nú að æfa meira upp keppni fyrir sunnan. Þeir voru alltaf góðir Ísfirðingarnir, þeir voru mjög góðir í göngu alltaf en Siglfirðingarnir, þeir í raun og veru voru eiginlega bestir í stökkinu en Ólafsfirðingar, við áttum mjög góða stökkmenn líka. Ég skal segja þér t.d. að þegar verið var að keppa í Miðhúsabrautinni sem kölluð var hér, eiginlega við endann á golfvellinum sem nú er, þá var mest hægt að stökkva, með góðu móti 29, metra í henni, þeir fóru stundum 30 en þá voru þeir bara komnir alveg niður á slétta grund. Þetta var mjög góð brekka og vel löguð, fyrir bara styttri stökk. En á þeim sama tíma voru þeir, sérstaklega tveir bræður, Ólafur, pabbi Björns Þórs og Kristinn bróðir hans, þá voru þeir að stökkva 50 metra, eins og Helge Torvö hafði stokkið. Ég man það að við fórum einu sinni í leiðangur, bara til að leita að góðri stökkbrekku upp á Burstabrekkudal, fundum ágætan stað, það var alltso brekkan sjálf, hún var fallega löguð fyrir neðan, en við vorum ekki einu sinni með skóflur með okkur, hvað þá annað. Það var tekið til við að höggva köggla, snjóköggla og hlaða upp loftkast eins og það var kallað þá og það var ekkert með það nema þeir stukku bara 50 metra strax, þeir bræður báðir.“ Á þeim tíma var siður að „djöflast“ með handleggjunum í stökkinu en Þóroddstaðarbræður  höfðu séð það á myndum einhvers staðar erlendis frá að hafa handleggina beint fram fyrir sig. ,,Þeir gátu svolítið stýrt sér með lófunum. Þeirra stökk voru í raun og veru miklu fallegri fyrir vikið. Það voru bara tveir þeirra, á þessum árum, sem voru farnir að standa sig vel, og það voru Jón Þórðarson, hann var elsti bróðirinn og svo Sigurður.“

Manstu eftir einhverjum minnistæðum atburðum eða viðburðum?

Eitt sinn var haldið stökkmót á Akureyri, upp í Glerárgili, rétt við skíðaskála Menntaskólans sem hét Útgarður, hann var nú næstum því niður á gilbarminum. ,,Það var útbúin stökkbrekka þarna. Þegar niður kom þá var nú ekki svo mikið undirlendi niður í gilinu. Alfreð stökk þarna ansi langt stökk og stóð. En það var mikil ferð á honum. En upp í hallanum bara töluvert upp í brekkunni hinu megin situr telpa, kannski 10 ára eitthvað svoleiðis og var ábyggilega bara að horfa á þarna.“ Alfreð stefndi beint á stelpuna þar sem hún sat en náði að bregðast skjótt við og gat gert sig gleiðan þannig að stúlkan varð á milli fóta hans og henni varð ekki meint af. ,,Það voru margir sem fylgdust með þessu því að það var nú alltaf tekið eftir Alla vini mínum þar sem hann fór. En þetta var nú virkilega gaman að sjá, hvernig hann fór að þessu.“ Alfreð Jónsson var kallaður Alli King Kong vegna þess hversu sterklegur hann var þegar hann var upp á sitt besta. Hann var kraftmikill og þrekinn.

Gunnar sýnir mér að lokum nokkrar myndir frá Ólafsfirði þar sem húsin eru meira og minna á kafi í snjó og fólk þurfti að grafa sér göng til að komast inn og út. Hann segir að þetta hafi verið algengt á Ólafsfirði yfir háveturinn. Á þessum árum var allt handmokað enda ekki til nein snjóruðningstæki. Stundum tóku íbúar í einstaka götum sig til og handmokuðu hver fyrir utan hjá sér til að gera leiðirnar greiðfærar.

Gunnar starfaði fyrir Skíðaráð Akureyrar og fylgdist því mikið með framgöngu skíðaíþróttarinnar. ,,Þeir stóðu sig alltaf mjög vel, Ólafsfirðingarnir. Stundum tóku þeir nú bara öll verðlaunin í göngunni. Nú Siglfirðingar, þeim líkaði það nú ekki vel, þeir voru nú helvíti harðir líka.“ Gunnar man ekki eftir því að það hafi verið rígur á milli Ólafsfirðinga og Siglfirðinga. ,,Siglfirðingarnir komu stundum yfir til Ólafsfjarðar til að vera á skíðum með strákunum þar. Ég man það að þeir höfðu meiri leikni á skíðunum Siglfirðingarnir heldur en okkar strákar því að þetta var bundið bara við stökkið hjá þeim, á þessum stóru þungu skíðum, lengi vel til að byrja með. Já, ég sagði þér nú áðan að ég fór nokkrar ferðir þarna fram af fjöllunum þarna fyrir ofan og ég hélt að ég mundi nú ekki verða eldri þarna í fyrsta sinn, ég náði varla andanum. Það stóð svona á móti manni, hraðinn var svo mikill og það var ekkert um það að tala að ætla að reyna að stoppa sig neitt. Maður lét renna á meðan skíðin runnu, og maður rann stundum yfir tjörnina.“

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya