Skķšasaga fjallabyggšar

/* /*]]>*/ 19. jśnķ 2008 Aš heimili Gušmundar og Regķnu, Hvanneyrarbraut 29 į Siglufirši. Gušmundur Įrnason er fęddur 4. febrśar 1929 į Ólafsfirši. Sjö

Gušmundur Įrnason

19. júní 2008

Að heimili Guðmundar og Regínu, Hvanneyrarbraut 29 á Siglufirði.

Guðmundur Árnason er fæddur 4. febrúar 1929 á Ólafsfirði. Sjö ára gamall fluttist hann til Siglufjarðar og kynntist þá skíðaíþróttinni fyrir alvöru. Á sínum yngri árum starfaði hann hjá Síldarverksmiðju Ríkisins. Guðmundur starfaði sem stöðvarstjóri Pósts og síma í Kópavogi í nokkur ár, en leiddist fyrir sunnan svo hann flutti aftur til Siglufjarðar en vann áfram hjá Pósti og síma. Alls vann hann í fimmtíu ár hjá fyrirtækinu. Móðir Guðmundar var Guðrún Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Ólafssonar í Ólafsfirði. Faðir hans hét Árni Guðmundsson og var ættaður frá Hofsósi. ,,Hún var húsmóðir og hann var bara venjulegur vinnumaður, vann bæði við smíðar og ýmislegt svona sem til féll.“  

Faðir Guðmundar gaf honum fyrstu skíðin sem hann eignaðist. Það voru stökkskíði sem Sigtryggur Stefánsson átti, hann var góður skíðamaður en dó snemma. Sigtryggur og Guðmundur voru bræðrasynir. Eitthvað þurfti faðir Guðmundar að borga fyrir skíðin og lagði mikið á sig til þess, enda voru ekki til miklir peningar á þeim árum. Guðmundur var að vonum ánægður, enda segist hann ekki hafa þráð neitt annað en að vera á skíðum. Hann byrjaði nokkuð snemma að fara á skíði, enda voru allir á skíðum þá.   

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum? Þau voru ekki svo mikið notuð til að koma sér á milli staða heldur miklu frekar til skemmtunar. ,,Það voru mikil sambönd hérna við Fljótamenn. Bræður tengdaföður míns voru í Fljótunum og þeir stofnuðu til skíðakeppni þar.“ Skíðakeppnin var kölluð brekkukeppni og gekk út á það að vera fljótastur niður brekkuna. ,,Þetta eru bara fyrstu angar af því sem verður hin raunverulega íþrótt.“

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna? Guðmundur var á meðal þeirra sem tóku að sér kennslu. Þeir voru nokkrir sem skiptu á milli sín keppnisgreinum og kenndu. Sjálfur kenndi Guðmundur stökk. Baldur Ólafsson og Egill Rögnvaldsson tóku að sér að kenna göngu og Hjálmar Stefánsson sá um svigið. Það komu einnig erlendir kennarar, aðallega Norðmenn, má þar nefna Birgrr Ruud, Jeppen Erikson, Helge Torvö og fleiri.

Hversu oft var æft yfir vetrartímann? ,,Klukkan sagði ekki neitt. Við notuðum enga klukku. Það var bara farið af stað þegar vel gafst.“ Reyndar voru hádegishlé gjarnan notuð til æfinga en það var lokað hjá Pósti og síma milli klukkan tólf og tvö. Guðmundur og Jónas Ásgeirsson unnu saman á pósthúsinu á Siglufirði og þeir settu sér það markmið að stökkva 100 stökk fyrir áramót. Guðmundur segir að þetta hefði ekki verið gerlegt í dag vegna breyttrar veðráttu. Þeir voru ánægðir ef þeir náðu þremur stökkum í hverju hádegishléi, en þeir þurftu að ganga upp á Stóra bola eftir hverja ferð því það voru engar lyftur. Það var mikil þjálfun fólgin í því að ganga. Ekki var neitt sérstakt gert á sumrin til að halda sér í formi.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn? Helgi Sveinsson íþróttakennari lét krakkana æfa jafnfætis stökk innanhúss og Guðmundur segir að það hafi verið góð æfing. Krakkarnir misstu eitthvað úr skóla vegna skíðaiðkunar, ,,en það tilheyrði bara” segir Guðmundur.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? ,,Það var allt dýrt hérna.“

Hvaða grein/greinar lagðir þú fyrir þig? Guðmundur var í stökkinu. Þegar hann var að kenna voru aðeins þrír strákar sem æfðu stökk en þeir hættu því og stökkið lagðist alveg af um tíma. Það var ekki fyrr en byggðir voru stökkpallar upp í Skarði sem stökkið fór að blómstra aftur. Íslandsmót í skíðastökki var haldið í Skarðinu 1954, þar sem lyfturnar eru núna.

Var mikil samkeppni? ,,Það var til dæmis ein saga um það, að tengdafaðir minn átti það til að setja bindingar í skíði og svo var einhver piltur sem keppti við mig, ég held að það hafi verið Jón Sveinsson, og gárungarnir sögðu við hann: í Guðs bænum láttu ekki Lauga Gosa setja bindingar í skíðin því þau reisast, hann bara platar þig. Svona var hugsanagangurinn, þannig að það var annar sem setti í skíðin hans, bindingarnar, því það skipti máli hvar bindingarnir voru settir á stökkskíði.“ Það var mikil samkeppni á meðan skíðafélögin voru tvö. ,,Skíðafélag Siglufjarðar var staðsett þarna hinu megin og Skíðaborg var hérna. Ég held ég hafi aldrei farið, fyrr en Skíðafélag Siglufjarðar var lagt niður, þarna yfir um. Það var svo bardaginn á milli félaganna.“ Guðmundur segir að menn hafi verið vinir um leið og þeir komu í bæinn ,,en ekki framfrá.“ Guðmundur var alltaf í nýja félaginu: ,,Þetta byggðist allt á kunningsskap. Það var náttúrulega búið að skrifa mig inn í nýja félagið áður en ég vissi af.“ Tengdafaðir Guðmundar var einn af höfuðpaurunum í nýja félaginu.

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu? ,,Maður verður nú að segja eins og er að stúlkurnar voru ekki nógu góðar í að koma sér á framfæri. Við áttum náttúrulega Aðalheiði Rögnvaldsdóttur.“

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga? ,,Það komu góðir skíðamenn frá Ólafsfirði, góðir skíðamenn frá Akureyri og einn og einn úr Fljótunum, sem voru á landsmælikvarða, og Þingeyjarsýslu. Svo aftur byrja Reykvíkingar, að mínum dómi miklu seinna.“ Þingeyingar komu mjög sterkir inn í gönguna í nokkur ár og ógnuðu Siglfirsku skíðamönnunum. Sjálfir áttu Siglfirðingar ágæta menn í svigi, Guðmundur nefnir Jóhann Vilbergsson, Hákon Ólafsson og bræðurna Boga, Gústaf og Ólaf Nilssyni. Í stökkinu nefnir hann Jónas Ásgeirsson, Skarphéðinn Guðmundsson, Jón Sveinsson og að lokum sjálfan sig. Jón Þorsteinsson var hættur keppni á þessum tíma. Guðmundur segir að það hafi verið lítil keppni í stökkinu en meiri keppni í svigi. Eftir að stökkið lognaðist útaf á Siglufirði kom Björn Þór Ólafsson frá Ólafsfirði sterkur inn. ,,En þá voru bara brautirnar allar orðnar miklu minni. Það þótti ekki neinn maður með mönnum nema hann stykki minnst 50 metra.“  

Hvaða kosti/ókosti hafði það í för með sér að hafa tvö skíðafélög? ,,Það voru bæði kostir og ókostir. Kostirnir voru þeir að þegar það var keppt út á við þá var engin rimma. Þá gleymdum við því að hann var í gamla félaginu og hinn í nýja félaginu. En þegar það var hérna á Siglufirði, það var allt annað upp á teningnum þá. Gamla félagið, þeir voru eldri, þetta voru svona yngri strákar í hinu. Kostirnir voru nefnilega miklir af þessari keppni á milli félaganna. Það hafi mikið að segja. Menn fóru að æfa, æfa meira heldur en þeir hefðu gert annars, að ég held. Svo svona lognaðist þetta útaf og þetta verður eitt félag. Það kemur bersýnilega í ljós að það fer smám saman að draga úr, þangað til allt í einu, það er að byrja núna aftur.“

Hvernig gekk að sameina félögin tvö? ,,Alveg prýðilega, ágætlega alveg, því þetta voru allt vinir í raun og veru. Það var aldrei hasar nema þegar, eiginlega, húsin eru grunntónninn í hasarnum. Þetta er gamla félagið og þarna er nýja félagið. Svo þegar þau voru rifin, húsin voru bæði farin og Hóll er orðið aðalsvæðið þá var þetta allt í lagi. Þá voru menn búnir að gleyma því hverjir voru í nýja félaginu og hverjir voru í gamla félaginu.

Hvernig var tengslum og vinskap háttað milli keppenda? ,,Alltaf góður, alltaf góður. Þetta voru elsku vinir alveg hreint, þó þeir væru keppendur.“

Hvenær byrjaðir þú að keppa? Guðmundur tók þátt í skíðamóti í Reykjavík 1947 en var byrjaður að keppa eitthvað fyrr. Árið 1948 tók hann þátt í móti á Akureyri og 1949 var aftur mót í Reykajavík. Á þessum árum er hann unglingur, 17, 18 og 19 ára og vinnur öll árin. Árið 1952 varð Guðmundur Íslandsmeistari í stökki og aftur árið 1954.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? Guðmundur rifjar upp nokkrar sögur.

Hafsteinn Sæmundsson var félagi Guðmundar og voru þeir hálfgerðir prakkarar. Á einu mótinu á Kolviðarhóli voru þeir að sniglast alls staðar og hvergi þarna í kring. Það endar með því að fararstjórinn, Alfreð Jónsson, nær í þá félaganna og setur þá undir sinn hvorn handlegginn og fleygir þeim svo niður og segir þeim að hreyfa sig ekki meira. Þeir hlýða því og fara að sofa en daginn eftir kemur Alfreð með skíði handa Guðmundi og segir: ,,jæja Guðmundur minn, hérna eru gönguskíðin.“ Ha? Ég er ekki í göngu, svaraði Guðmundur en þá segir Alfreð: ,,Ja, þú ferð í göngu.“ Nei, nei ég fer ekkert í göngu segir Guðmundur þá. ,,Þú ferð í göngu og ef þú ferð ekki í göngu þá stekkur þú ekki.“ Guðmundur varð að láta sig hafa það og var á meðal tólf keppenda í göngu. Sjálfur fékk hann númerið 13 og varð hann að fara fyrstur af stað. Þegar lagt var af stað í gönguna voru áhorfendur í kaffi. Svo kemur fólkið og verður heldur en ekki hissa þegar það sér að númer 13 er í forustu og hugsar með sér að hann hafi aldeilis tekið fram úr hinum. Þetta er eina gangan sem Guðmundur hefur tekið þátt í. Alfreð var ekki bara fararstjóri á þessum árum heldur var hann ,,allt muglig man“ að sögn Guðmundar. ,,Hann var alveg hreint dýrðlegur. Allt saman hreint.“   

Árið 1947 voru þeir að koma frá Holmenkollen, Jón Þorsteinsson og Jónas Ásgeirsson. Jónas var að bera einhvern nýjan áburð á stökkskíðin og Guðmundur biður hann um að gefa sér áburð. ,,Farðu til andskotans“ var svarið og hann sparkaði Guðmundi út. Guðmundur segir þá við hann: ,,Ég skora á þig að stökkva á móti mér á morgun.“ Hinir strákarnir hristu hausinn yfir dirfskunni í Guðmundi, sem hafði auk þess veðjað upp á kók á línuna, án þess að eiga nokkurn pening. Þegar kom að mótinu átti Guðmundur að stökkva fyrstur. Hann stekkur 46 metra, en var viss um að Jónas myndi stökkva lengra. Jónas komst hvorki lönd né strönd vegna þess að áburðurinn var ekki orðinn þurr. ,,Með það vann ég. Mikið djöfull stóðstu þig vel, sögðu strákarnir við mig. En Jónas borgaði aldrei kókið.“

Á skíðamóti sem haldið var á Kolviðarhóli 1952 eða 1953 var óskapleg snjókoma og engar vistir hægt að fá úr bænum. Það var sáralítið til að borða. Siglfirðingarnir koma inn í matsalinn og Jónas Ásgeirsson segir stundarhátt, svo allir heyra: ,,hefur engin orðið var við hundinn?“ Það kannast engin við að hafa séð hundinn og þá segir Jónas: ,,Það er nú það, ég ætla þá ekkert að borða“ og gengur út. Þarna hafði verið hundur á vappi og Jónas gaf í skyn að hundurinn sé á boðstólnum.

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?,,Það voru allir hrifnir af Birgi Ruud og svo af Jeppen Erikson. Guðmundur segir frá skíðastökkmóti í Stóra bola, upp úr 1950. ,,Þarna var gaman að stökkva. Jeppen stökk 53 metra, það var lengsta stökkið í brautinni, ég stökk 54 en datt. Það er ekki tekið til greina.“ Þetta mót er Guðmundi minnisstætt vegna þess að að honum tókst að sigra Jónas Ásgeirsson. Jeppen hlaut fyrsta sætið, Guðmundur annað og Jónas þriðja.

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? ,,Nei það bjó þetta einhver til, okkar maður. Það er hvergi skráð að það sé til. Hann bjó þetta til sjálfur hann Guðmundur Guðmundsson hérna, sagði skíðakóngur, hann sendi skeyti, við ætluðum að brjálast úr hlátri.“ Guðmundur skrifaði jólaskeyti og skrifaði Guðmundur Guðmundsson skíðakóngur undir. Guðmundur segir að titillinn hafi bara verið notaður í gríni eftir það, það hafi ekki nokkur maður borið þennan titil.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?,,Það er alveg hreint, það er númer eitt og tvö. Það er alveg keppnisskapið. Sko, þú getur ekkert ef þú ferð ekki í keppnisskap og ert vel fyrir kallaður. Það er alveg hreint segin saga.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir? ,,Það er keppnisskapið. Það fleytir manni áfram. Svo náttúrulega kunnáttan og skapið verður líka að vera til staðar. Altso heilbrigt skap.“

Lýstu skíðum, skíðaskóm, festingum og skíðastöfumog segðu frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað. ,,Stökkskíði hafa eiginlega ekkert breyst. Alla mína tíð hefur þetta ekkert breyst.“

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Aðstaðan var ágæt. Menn notuðu skíðaskálana lítið. Þar var engin búningsaðstaða heldur mættu menn í æfingagallanum á staðinn. Í skálunum var kaffisala þar sem hægt var að fá heita drykki og sætabrauð og voru það helst konur skíðakappanna sem störfuðu við veitingasöluna.  

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? Hvert var farið í keppnisferðalög?

Guðmundur gekk í Menntaskólann á Akureyri og keppti því oft á Akureyri. Einhvern tíma keppti hann fyrir hönd Menntaskólans, ásamt öðrum Siglfirðingi. Guðmundur fór á öll landsmót. Það var farið með skipi til Akureyrar, Ísafjarðar og Reykjavíkur, en það voru þeir staðir sem keppt var á. ,,Þetta voru löng ferðalög, stelpurnar voru allar saman sjóveikar. Menn þekktu ekkert betra. Það varð bara að búa við það.“

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Það var nú eiginlega aðallega fyrir stökkin, þegar þeir voru allir saman, sko, strákarnir allir, Ari Guðmundsson, Skarphéðinn Guðmundsson, hann fór út til Skoale, þá var ég formaður félagsins, það man ég, það átti að vera einhver reiði um það hver ætti að fara og ég þrýsti á Skíðasamband Íslands að hann yrði valinn af því að hann stóð alveg hreint fyrir því. Hann var mjög góður, þá var hann komin á sitt besta, því að menn dala og aðrir koma í staðinn, annað væri ekki gaman.“

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli? ,,Þau voru voða sjaldgæf. Einu sinni kom það fyrir að ég datt illa og fláði skinnið af andlitinu á mér. Það var ekkert, það vildi bara svo til að konan var ófrísk af annarri stelpunni og þeir þorðu ekki að fara með mig heim, strákarnir. Þeir löguðu þetta bara, ég held að ég hafi ekkert farið til læknis.“ Það tíðkaðist ekki að hafa lækna nema á landsmótum, þá var alltaf læknir á staðnum.

Eftir 1960 sneri Guðmundur sér að félagsstörfum og var um árabil í stjórn Skíðafélagsins og þar af formaður í nokkur ár. Guðmundur tók skíðadómarapróf árið 1960 og var fyrst yfirdómari á Skíðamóti Íslands á Akureyri 1962. Eftir það var hann oft skíðadómari á mótum en var sjálfur hættur keppni á þessum árum. Helgi Sveinsson og Bragi Magnússon gegndu einnig hlutverki yfirdómara á einhverjum mótum. Þeir sem voru yfirdómarar þurftu að hafa löggildingu og það var ákveðin dómnefnd sem úrskurðaði um það hver ætti að vera dómari fyrir hvert mót. Einhverju sinni var Guðmundur yfirdómari á Íslandsmóti á Siglufirði. Þarna voru komnar talstöðvar og Guðmundur kallar upp að keppnin hefjist eftir 5 mínútur. Að 5 mínútum liðnum kallar hann og spyr hvort það séu allir mættir. Kristinn Benediktsson var á meðal keppenda og var hann ekki mættur í startið á tilsettum tíma. Hann var þá þegar orðin Íslandsmeistari í svigi og Guðmundur telur að með þessum hætti hafi hann verið að sýna veldi sitt. Guðmundur ákveður að gefa honum 5 mínútur til viðbótar og ekki sekúndu meira til að koma sér á sinn stað. Kristinn kom ekki eftir aðrar 5 mínútur heldur stóð sem fastast í miðri brautinni. Guðmundur skipaði svo fyrir að hann skyldi fara úr brautinni og vera dæmdur úr leik. ,,Þarna urðu vinslit milli okkar í þrjú eða fjögur ár. Það varð oft að taka á svona hlutum. Það er þetta sem fór verst með mann, að þurfa að gera þetta, þetta var voðalega erfitt.“ Aðspurður hvort það hafi verið mikið um svona leikbrot segir Guðmundur að það hafi alltaf verið einhverjar ,,drottningar“ sem héldu að þær gætu ráðið öllu. Hann segir að svona hafi Jónas Ásgeirs eða Jón Þorsteinsson aldrei látið, þrátt fyrir að vera mun frægari en Kristinn.      

Hversu algeng voru mótmæli og kærur? ,,Það var voða lítið um það, voða lítið um það. Ég held að það hafi bara verið hending ef það kom fyrir. Ef það hefur komið kæra þá var leist úr henni strax.“

Hvað getur þú sagt um einkunnagjöfina? Það var einkunagjöf í stökkinu, en ekki í öðrum greinum. Hraðinn réði úrslitum í sviginu, tímatakan í göngunni, en í stökkinu var það stökklengd og einkunagjöf. Dregið var af mönnum ef þeir hreyfðu sig á einhvern hátt óeðlilega, eða á þann hátt sem ekki þótti fallegt. Dómarar lærðu það hvernig átti að gefa fyrir viss atriði.

Hvernig var mótstjórn skipuð? Mótstjórn var skipuð af félagsstjórninni. ,,Þetta var gríðarlega mikið verk að sjá um þetta. Við skiptum verkum með okkur.“ Einhvern tíma á árunum 1961, 1962 eða 1963 geymdi mótsstjórnin allt sitt dót niður frá hjá bænum. Guðmundur var yfirdómari í stökki og svigi. Daginn fyrir mót fór Guðmundur í fylgd annars manns uppeftir í grenjandi stórhríð og byggðu þeir sér snjóhús til að skýla sér fyrir veðrinu. Þarna fóru þeir til að undirbúa mótið og gera brautirnar tilbúnar.

Hverjir skipuðu leikstjórn? Félagsstjórnin skipaði vana og góða menn í leikstjórn. Oft á tíðum var sama leikstjórn fyrir stökk og göngu. Aðrir sáu um svigið. ,,Það var miklu meira sem þurfti að vinna í svigi heldur en nokkurn tíma öðru. Það var ekkert sem þurfti að gera í göngunni, eða miklu minna en í sviginu. Þessi leikstjórn réði framúr öllu. Þegar til kastana kom þá fengu ekki aðrir að fara í leikstjórn heldur en þeir sem höfðu getu og próf til þess að geta úrskurðað.“  

Nefndu starfsheiti þeirra starfsmanna sem komu að mótum. Í stökki voru  þrír stökkdómarar, mælingarmenn niðri og ræsir uppi. Í sviginu eru hliðverðir, þeir skipta sér niður á brautina og taka 4-5 hlið hver og fylgjast með því að menn fari rétt í hliðin.

Hvaða áhöld voru nauðsynleg við mót? Það voru skeiðklukkur í sviginu. Í stökkinu var búið að mæla stökklengdirnar fyrirfram og því þurfti ekki að mæla með málbandi hjá hverjum og einum. Guðmundur var eitt sinn yfirdómari á móti í Reykjavík og segir að þar hafi menn verið miklir ,,akkurat menn“ þegar kom að því að mæla.  

Hvað var það sem réði röð keppenda í leik? ,,Það var alltaf dregið um það.“

Hverjar voru tegundir leikja (keppnisgreinar)? Stökk, ganga og svig.

Hvað getur þú sagt um stökkbrautir? ,,Þá settum við annað hvort línu yfir, hættumerki á rautt og blátt þar fyrir ofan, eða til hliðar, en það virkaði alltaf betur ef þú settir það bara í fönnina. Brekka sem leyfði 50 metra stökk að hámarki, þú settir rautt þar. Svo upp að 45 metrum þá settir þú blátt. Annað var ekki gert. Jú, það voru sett flögg á stökkpallinn, báðu megin. Það var ekki þannig að það væru ákvæði um það, þú gekkst frá þessu eins og þér fannst best.“

Guðmundur segist hafa hætt alltof snemma að stunda skíðaíþróttina en hann var bæði í fótbolta og frjálsum íþróttum. Hann og bróðir hans æfðu oft stökk í leikfimisalnum.

 

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya