Skķšasaga fjallabyggšar

18. nóvember 2010 Į Lögregluvaršstofunni į Siglufirši, vinnustaš Jóns Įrna Konrįšssonar. Haukur Siguršsson er fęddur į Ólafsfirši 26. mars 1956. Gušmundur

Gušmundur, Haukur og Jón Įrni

18. nóvember 2010

Á Lögregluvarðstofunni á Siglufirði, vinnustað Jóns Árna Konráðssonar.

Haukur Sigurðsson er fæddur á Ólafsfirði 26. mars 1956. Guðmundur Ólafur Garðarsson er fæddur á Ólafsfirði 17. mars 1959. Jón Árni Konráðsson er fæddur á  Ólafsfirði 4. júlí 1959.

Jón byrjaði að æfa skíðagöngu um 7 ára aldur og æfði lítillega skíðastökk með þar sem þá var keppt í norrænni tvíkeppni. Ekki var mikið um mót, önnur en þau sem haldin voru í Ólafsfirði. Aðeins var keppt með hefðbundinni aðferð þar sem skautatakið kom ekki inn sem keppnisgrein fyrr en um 1985. Eftir að hann komst upp úr unglingaflokkunum 17 ára var byrjað að keppa á svokölluðum punktamótum og síðan tóku bikarmótin við eins og við þekkjum þau í dag. Jón var valinn í landsliðið 1978 og var í því þar til 1982. Á unglingameistaramótum var aðeins keppt í einni gönguvegalengd og boðgöngu en á Skíðamóti Íslands var keppt í tveimur vegalengdum og boðgöngu en á móti kom að keppt var í norrænni tvíkeppni; stökki og göngu, sem nú hefur lagst af.

Guðmundur keppti fyrst á unglingameistaramóti á Ísafirði 1973 en hafði fram að því aðeins keppt heima í Ólafsfirði. Árið 1975 tók hann þátt í tveimur punktamótum í flokki 17-19 ára í Reykjavík og í Fljótum. Hann keppti síðan með liði Ólafsfjarðar á öllum helstu mótum til 1980. Guðmundur var í landsliðinu í skíðagöngu 1978-1980 og tók á þeim tíma m.a. þátt í æfingum og keppnum í Svíþjóð.

Allir ólust þeir upp á Ólafsfirði þar sem skíðaiðkun var mjög almenn. Það var ekki mikið um skíðagöngu þá, heldur fyrst og fremst svig. Það er ekki fyrr en um 1965 sem farið er að æfa gönguskíði fyrir alvöru og keppa í greininni. Svigið og stökkið var meira áberandi fram að því. Gönguskíði voru vissulega notuð til þess að fara á milli bæja en tíðkaðist ekki sem keppnisgrein. Menn notuðu sömu skíðin í allt. Það voru notuð sömu skíðin fyrir göngu, stökk, brun og svig. Hefðin er mjög sterk og menn voru í öllum þessum greinum svigi, stökki og seinna í göngu. Flestir byrjuðu svoleiðis, og voru bara í öllu. Nánast allir voru á skíðum meira eða minna.

Ýmislegt varð til þess að gangan fór að verða hærra skrifuð á Ólafsfirði. Það var Íslandsmeistaramót á Ólafsfirði 1967 eða ´68, svo árið 1972 fær Björn Þór einn fremsta tvíkeppnismann Norðmanna, Dag Jensen til að koma og kenna. ,,Þá varð náttúrulega sprenging í þessum gönguskíðum.“ Á sama tíma var stökkpallurinn á Ólafsfirði byggður. Þá varð vinsælt að keppa í norrænni tvíkeppni, göngu og stökki. Haukur fékk skíðabakteríuna þegar norski skíðakennarinn kom, þá var hann 13 ára. Haukur: ,,Reyndar fékk ég ekki skíði þá, fyrr en hann var farinn, en ég sat og horfði á, allar æfingar. Það var nú bara þannig heima hjá mér að það stóð ekkert til að kaupa skíði, ég átti svigskíði og það var nóg. Síðan fékk ég gönguskíði þegar hann er farinn.“ Það var svo ári seinna sem Haukur tók þátt í unglingameistaramóti og það var upphafið að því að hann byrjaði á gönguskíðum.       

Þeir Guðmundur og Jón byrjuðu á svigskíðum líkt og Haukur. Jón keppti þó ekki nema einu sinni á svigskíðum. Guðmundur: ,,Ég man eftir því að ég þurfti að hafa talsvert mikið fyrir því að væla út fyrstu gönguskíðin, maður þurfti að gráta pínu.“ Þá voru hinir tveir búnir að fá gönguskíði. En þessir guttar byrjuðu allir á fullorðins gönguskíðum sem voru 2,10 metrar að lengd og skíðaskórnir voru númer 42 og þurfti að troða bómull í tána.

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða?

Jón átti heima í sveit og hann gekk alltaf í skólann á skíðum. Þegar Jón var kominn í gagnfræðaskóla fór hann alltaf heim í mat, en það voru 2 km í bæinn. ,,Stundum fór ég heim með töskuna og svo í íþróttir og svo heim og svo var æfing á eftir, þannig að ég var kannski að fara 6-7 ferðir. Ég man eftir því þegar við vorum í eldri bekkjunum í gagganum þá fórum við alltaf með mjólkina á vélsleðum, þá var bara troðin slóð, það dugaði mér alveg fimm mínútur af því að ég gat ýtt mér alla leið. Ég átti svona 200 metra í skólann þegar bjallan hringdi og þá náði ég. Amma var alveg hreint vitlaus, ætlaru ekki að fara að drífa þig, ætlaru ekki að fara að drífa þig.“ Það var ágætis æfing fólgin í þessu. Það var ekki alltaf mokað og því var ekki um annað að ræða en að fara á skíðum, fyrir þá sem bjuggu ekki í bænum. Upp úr þessu kaupir Konráð, faðir Jóns, snjósleða og fer að leggja brautir. Einnig lét hann smíða plóg aftan í sleðann til þess að gera spor og það er eiginlega upphafið að því að farið var að æfa við þokkalegar aðstæður, þó að þær þættu ekki góðar í dag. Það var spor fyrir skíðin, en ekki fyrir stafina. Konráð gerði þetta allt í sjálfboðavinnu og stóð straum af öllum kostnaði, bensíni og öðru. Þarna æfðu allir og gengu og þetta var mjög mikil bylting. ,,Ég man svo vel eftir því þegar við vorum að fara að morgni í kafsnjó og ganga hringinn, til þess að leggja brautina og reka niður prikin sko, troða braut, svo var þetta bara bylting þegar snjósleðinn kom.“

Konráð Gottliebsson, faðir Jóns, er fæddur 1930 og var hann mjög áhugasamur um skíðaíþróttina. Hann var ekki mikill skíðamaður sjálfur, en mikill íþróttamaður og stundaði aðallega fimleika. Faðir Hauks var einnig mikið í fimleikum, og þjálfaði fimleika um skeið. Einn nemenda hans í fimleikunum var Björn Þór Ólafsson.

Guðmundur keppti á unglingameistaramótum í flokki 17-19 ára en hætti fljótlega upp úr því. Þeir Haukur og Jón héldu hins vegar áfram. Þeir voru allir þrír í skíðalandsliðinu ásamt Gottlieb, bróður Jóns sem einnig æfði með sænska landsliðinu um tíma.

Jón: ,,Manstu þegar við gengum yfir Drangann og til Dalvíkur. Í hnédjúpum snjó. Ótrúlegt, það myndi engum detta það í hug í dag sko. Fórum yfir Drangaskarðið og yfir til Dalvíkur og aftur til baka sama dag. Við vorum heilan dag, þetta var svo djúpt. Allir svo skaðbrunnir í sólinni.“ Svo var líka skroppið yfir í Bjarnargil í kaffi til Trausta Sveinssonar, sem var mikill skíðamaður. Þetta var um tveggja tíma ganga hvora leið. Jón segir: ,,Á þessum tíma, á þessum gullárum sem við vorum þarna, frá svona ´76-´85 þá var skíðamenningin svona eins og knattspyrnan er í dag, þessu var útvarpað og þessu var sjónvarpað, og nánast krakkarnir eltu mann. Standardinn var þarna eins og knattspyrnan í dag.“

Þeir fóru út nokkrum sinnum til að þjálfa og keppa, og stundum dvöldu þeir erlendis í lengri tíma. Þá snerist allt um að ,,éta, æfa, keppa og sofa“ eins og Haukur segir. Þeir voru með alls kyns fjáraflanir í gangi til að standa straum af kostnaðinum. Guðmundur segir: ,,Það var ýmislegt sem var gert. Einu sinni gengum við boðgöngu í tvo sólahringa, það áttu að vera tveir en það var stytt vegna veðurs.“ Haukur: ,,Markmiðið var að ganga frá Ólafsfirði til Reykjavíkur og við tókum það á 33 tímum.“ Það var alltaf einn að ganga, en þeir voru fjórir þannig að hver gat hvílt sig í 3 tíma og gengið svo aftur í einn klukkutíma. Markmiðið var að ganga 15 km á þessum klukkutíma. Brautin var inni í bænum og svo var alltaf merkt inn á hana áfangastaðirnir til Reykjavíkur jafn óðum. Bæjarbúar fylgdust spenntir með hvernig strákunum miðaði áfram. Á meðan á þessu stóð dvöldu þeir á hótelinu þar sem þeir hvíldust inn á milli. Seinni nóttina var svo ball á Ólafsfirði. Vegna veðurs var ákveðið að þeir færu allir út í restina og tækju síðasta klukkutímann allir saman, en þá voru þeir alveg að ná markmiðinu. Þá var stefnt að því að þeir ættu að koma inn í Tjarnarborg, félagsheimilið þar sem ballið var, um leið og þeir væru búnir. Guðmundur: ,,Við vorum hylltir þar eins og hetjur upp á sviði. Þetta var alveg geðveikt sko.“ Fyrir gönguna höfðu þeir safnað áheitum með því að ganga í hús í bænum. Fólk var beðið um að heita ákveðinni upphæð á hvern km, það gat verið króna eða 10 krónur og flestir tóku þátt.  

Það voru alltaf fleiri hundruð manns að horfa á keppnir og mót á Ólafsfirði.     

Það var ekki erfitt að fá styrki á þessum árum því að allir bæjarbúar stóðu við bakið á þeim. Útgerðirnar voru t.d. duglegar að styrkja þá. Þeir unnu mikið hjá útgerðunum, bæði við löndun og fiskverkun. Vinnudagurinn var oft erfiður en þeir höfðu sveigjanlegan vinnutíma og gátu komið því þannig fyrir að þeir kæmust á æfingar, án þess að það kæmi niður á vinnunni eða laununum.

Þeir eru sammála um það að skíðamennskan hafi ekki verið dýrt sport. Í raun sé þetta ekkert dýrara en hestamennska eða golf eða hvað annað. Þeir fóru fyrst að finna fyrir kostnaðinum þegar börnin þeirra fóru að keppa. Elsta dóttir Jóns fór t.d. í skíðaskóla og kostnaðurinn var 2 milljónir á ári, alls 6 milljónir.    

Skíðaferðirnar voru skrautlegar margar hverjar og oft var hálfófært eða algjörlega ófært en menn reyndu hvað sem þeir gátu til að komast á mót. Einhverju sinni voru þeir að fara að keppa á Ísafirði og þurftu að moka sig í gegnum skafl í Múlanum til að komast í flug frá Akureyri. Þegar þeir voru á leiðinni heim aftur var Múlinn orðinn algjörlega ófær og fóru þeir sjóleiðina frá Dalvík til Ólafsfjarðar. Eftir ævintýralegan dag og langferð frá Ólafsfirði til Akureyrar og frá Akureyri til Ísafjarðar og aftur heim sama daginn, var farið á ball heima í Ólafsfirði. Voru þeir þá búnir að keppa með ágætum árangri á mótinu. Nú fara Haukur og Jón að rifja það upp hver hafi unnið hvern á þessu móti og öðrum.

Hafði það ekki áhrif á vinskapinn að vera að keppa innbyrðis?

Haukur: ,,Nei, það var náttúrulega rosa keppnisrígur, eða sko metnaður, við erum allir þannig, við erum vinnerar.“ Það er reyndar ekki fyrr en 1980 að þeir fara allir að keppa í sama flokki – karlaflokki. Fyrir þann tíma voru þeir í aldursskiptum unglingaflokkum.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

Haukur: ,,Öllu. Maður þarf að hafa metnað.“ Jón bætir fleiri eiginleikum við; einrænn og þrjóskur og segir að ekki séu þetta allt jákvæðir eiginleikar. Haukur: ,,Það er bara þannig að ef þú ert að æfa skíðagöngu og ætlar að vera í fremstu röð þá verðuru fyrir það fyrsta að neita þér um ansi margt. Og vera með rosalega mikinn sjálfsaga, bæði í sambandi við æfingar og svo bara annað líferni. Það þýðir ekkert að vera að æfa skíðagöngu og vera drekkandi eða fullur einhvers staðar, það bara gengur ekki.“ Það var mikil reglusemi hvað áfengi varðaði, þeir fóru á böll en smökkuðu ekki áfengi.

Jón: ,,Standardinn var nokkuð hár sko, á heimsmælikvarða, við vorum bara í miðri röð í heiminum. Þetta er miklu aftar núna.“ Að vísu er erfitt að bera þetta saman við það sem er í dag vegna þess að nú hafa nokkur ríki orðið að fleirum, Rússland splittaðist og Júgóslavía splittaðist í sjö ríki, þannig að það urðu til fleiri góðar þjóðir. Jón og Haukur tóku þátt í boðgöngu á heimsmeistaramótinu í Osló 1982. Þar lentu þeir í 12. sæti af 18 sveitum. Þeir unnu t.d. Sviss, sem er núna með fremstu þjóðum í heimi á skíðum. Þessi árangur Íslendinganna vakti verulega athygli. Haukur: ,,Við vorum að ganga rosalega góða göngu þarna.“ 

Einu sinni þegar keppt var á Siglufirði á punktamóti eða bikarmóti fyrir 13 ára og eldri fór full rúta af keppendum frá Ólafsfirði. Haukur: ,,Svo var farið heim og þá var þetta þannig að þegar við komum að Ketilás, þá segi ég við Björn Þór: veistu, ég nenni ekki að sitja í rútunni heim, ég ætla bara að labba heim. Þá náttúrulega vildu fleiri koma með.“ Haukur, Jón, Guðmundur, Björn Þór, Gottlieb og Jói Sig ákváðu að yfirgefa rútuna og labba yfir fjallið. Haukur: ,,Við vorum ekki alveg á því að taka þennan Jóhann með okkur, hann var stökkvari. En við veðjuðum sem sagt að við yrðum á undan rútunni. Og allir nýbúnir að keppa.“ Það var sól og heiðskýrt þegar þeir fóru af stað en svo þegar þeir nálgast toppinn þá lenda þeir í þoku og snjókomu og skyggnið var ekkert. Haukur: ,,Björn Þór var alveg viss um hvar við værum, að við værum í Ólafsfjarðarskarði, sem er náttúrulega alveg óravega í burtu. Ég byrja að leita svona með stöfunum að brúninni, svo fer stafurinn fram af, því við sáum ekkert, það rann allt saman.“ Guðmundur hafði farið yfir Ólafsfjarðarskarð áður og var sannfærður um að þeir væru ekki á réttri leið. Björn Þór sinnti því ekki, hann var sá fullorðni í hópnum og tók ákvörðun um það að fara þarna niður. Þeir tóku af sér skíðin og létu sig vaða niður, svo fóru þeir aftur á skíðin og voru búnir að ganga á þeim nokkurn spöl þegar Björn Þór áttar sig og segir: ,,Stoppiði við erum í Héðinsfirði!“ Þeir gengu áfram og fóru í slysavarnarskýlið í Héðinsfirði þar sem þeir gátu gert viðvart og beðið þess að verða sóttir. Faðir Guðmundar, Garðar, sótti þá svo á 25 tonna bát, Guðmundi Ólafssyni ÓF 40. Þegar lagst var að bryggjunni á Ólafsfirði komu fyrsu strákarnir hlaupandi úr rútunni fyrir Múlann, en rútan hafði bilað á leiðinni.

Björn Þór var eiginlega eini keppandinn í karlaflokki þangað til að þeir komust upp í þann flokk. ,,Í rauninni er þetta að byrja með okkur, fullorðins, Björn Þór var svona mikið einn að þvælast í stökkinu, en í sambandi við gönguskíðin þá er Haukur eiginlega sá fyrsti.“ Þeir segja að Björn Þór hafi haldið utan um þetta allt saman, en þeir hafi þó mikið verið að æfa án hans. Haukur: ,,Það koma þarna náttúrlega svaka hópar, Finnur Víðir og Þorri og Hannes og þessir strákar. Við vorum náttúrulega ákveðin fyrirmynd í sjálfu sér og krakkarnir sáu það náttúrulega að við vorum bestir. Við fórum hvert sem er og við unnum nánast undantekningarlaust mót. Og þetta hafði náttúrulega geysileg áhrif á krakkana.“ Jón: ,,Toppurinn er svona ´85, eitt árið unnum við alla flokkana, alveg.“ Guðmundur: ,,Við unnum allt í norrænum greinum 1978, allt saman, karlaflokkinn, unglingaflokkinn og niður úr ´78.“

Hverjir voru helstu keppinautar ykkar Ólafsfirðinga?

Siglufjörður og Ísafjörður voru sterkastir ´60-´68. Það er svo tæplega tíu árum síðar að Ólafsfirðingar eru orðnir sterkari. Ólafsfirðingar áttu t.d. mjög góða boðgöngusveit á þessum árum. Oftast voru þeir þrír, Gotti, Jón og Haukur í boðgöngusveitinni. Þegar Ólafsfirðingar unnu boðgönguna í fyrsta sinn var Björn Þór í sveitinni ásamt Hauki og Jóni. Jón var í flokki 15-16 ára og Haukur í flokki 17-19 ára en þeir fengu undanþágu til að keppa því talið var að þeir ættu enga möguleika. Þeir Jón og Haukur höfðu báðir unnið Íslandsmeistaratitla í sínum flokkum og töldu sig því eiga möguleika.

Áttu þið ykkur einhverjar fyrirmyndir?

,,Málið var að maður hafði svosem enga fyrirmynd heima í þessu. Nema þá í svigi – það var Svanberg Þórðarson. Hann var mjög góður skíðamaður og bróðir hans náttúrulega líka, Eysteinn.“ Björn Þór var mjög góður, hann hefði hugsanlega getað unnið Íslandsmótið ´74 en hann var mjög óheppinn á því móti. ,,Hann fær rás númer eitt og lendir í að troða fyrir alla hina.“ Það þótti best að vera síðastur. Þegar það var vont færi þótti a.m.k. ekki gott að vera fyrstur. Haukur nefnir Thomas Wassenberg frá Svíþjóð sem sína erlendu fyrirmynd.

Konráð á Burstabrekku gerði fleira heldur að en leggja brautir fyrir strákana, hann setti líka stóra ljóskastara norðan á húsið sem vísaði í átt að bænum. Hann hafði því þó nokkur áhrif á skíðaiðkun drengjanna sinna og annnarra. Guðmundur hafði æft mjög lítið veturinn sem Björn Þór var erlendis, ´73-´74. Guðmundur: ,,Þá voru þeir bræður í Burstabrekku að æfa mjög grimmt, ég var svona annað slagið eitthvað að dóla sko. Síðan kemur pabbi þeirra til mín og spyr hvort ég vilji ekki koma aðeins á skíði til þess að vera með þeim í boðgöngu. Og jújú, síðustu tvær vikurnar fer ég að skíða doltið með þeim, fer alltaf frameftir. Og svo förum við hérna á Siglufjörð, unglingameistaramót og það var þá sem Bubbi var að keppa í Reykjavík. Og ég man eftir því að þá var hann að veðja um boðgönguna við hina, því þá var keppt á sama tíma í karlaflokki, alltaf um páskana, og hann var að veðja því að við myndum vinna boðgönguna, Gotti var of ungur þá, hann fékk undanþágu, eins og Jón, að keppa með okkur í 13-14 ára. Og það var keppt í 13-16 ára, það var bara einn flokkur, og við höfðum boðgönguna.“ Ævintýrið endurtók sig, Ólafsfirðingar fengu undanþágu vegna aldurs en unnu samt sem áður á mótinu.

Haukur var fyrstur til að æfa annað en fótbolta á sumrin, er hann fékk sér hjólaskíði. Þá fyrst fór hann að æfa markvisst á sumrin til þess að halda sér í sem bestu formi fyrir næsta skíðatímabil. Árið 1982 var Jón að æfa 450 tíma og það þykir ekki mikið. Skíðamenn í dag eru að æfa 7-800 tíma. Þeir fóru á skíði hvern einasta dag yfir veturinn á meðan færi gafst.

Það er ekki fyrr en 1986 sem göngunni er skipt í tvær greinar: hefðbundna aðferð og skaut. Það var 1985 sem menn fara að bera sílikon neðan í skíðin og stytta þau. Eftir að skíðin styttust til muna þó fór að verða auðveldara að skauta. Menn fóru að taka syrpur í að skauta í brautinni en þá voru þeir að eyðileggja sporið fyrir hinum sem komu á eftir. Þess vegna var tekin ákvörðun um að skipta göngunni í þessar tvær greinar.

Fyrstu skíðin þeirra voru tréskíði með trébotnum. Tjöruáburður var notaður til að herða sólann. Ef það var hjarn eða frosinn snjór þá þurfti að bera áburð yfir allt skíðið, annars fór beygjan af eða eyddist upp því það var enginn plastsóli til að hlífa skíðinu. Seinna kemur plastsóli og síðan einhver húð og loks svokallaður pípusóli. Nú er komin steinslípun í þetta og rákir til þess að fá loft. En svo er það nýjasta einhvers konar rifflujárn sem rúllað er yfir skíðið áður en farið er af stað og svo kemur sólinn upp aftur. Hægt er að setja misgrófar rifflur eftir því hvernig snjórinn er. Tæknin er orðin ótrúleg við þetta. Líklega eru þeir síðasta kynslóðin sem byrjar að ganga á skíðum á stígvélum. Fyrstu bindingarnir voru breiðir og nudduðust alltaf utan í sporið. Í dag er hægt að velja sér skíði eftir líkamsþyngd, þau eru misstíf og stífleikinn er valinn með tilliti til þyngdar viðkomandi. Skíðin og skíðastafirnir eru orðin mun léttari en áður tíðkaðist.

Haukur: ,,Ég held að ég geti nú fullyrt það að í sambandi við smurningu, sem er náttúrulega alveg heilt ævintýri og mjög flókið, þá held ég nú að ég og Nonni séum nú einna bestu smurningsmenn á landinu í dag og höfum alltaf verið held ég. Við erum ótrúlega glöggir á að sjá, ég er ekkert að hæla mér neitt sko, við erum ótrúlega glöggir í að sjá, og menn skyldu það stundum ekki og þegar við vorum að fara með börn á Andrésarleika þá var þetta bara einvígi á milli þjálfara, hver finndi réttu smurninguna.“ Svo mátti ekki deila þessum mikla leyndardómi á milli héraða. Jón fór erlendis á skíði fyrir tveimur árum og keypti áburð fyrir 200 þúsund krónur. Jón: ,,Þarna eru peningarnir, skíðin eru ekkert svo rosaleg sko, þó þau kosti 100 þúsund kall parið. Þú ert þá með par sem þú getur notað í mörg ár. En þú ert að eyða kannski í áburðinn 100 þúsund á ári.“ Guðmundur treysti alltaf á Hauk og Jón þegar kom að því að smyrja. Það var aldrei leyndarmál á milli einstaklinga sem voru í sama liðinu hvaða áburð var verið að nota, jafnvel þó keppt væri innbyrðis. Haukur: ,,Þegar við vorum að keppa þá vorum við að keppa fyrir Ólafsfjörð, það var nú eiginlega, held ég hafi alltaf legið í loftinu hjá öllum sko, þó við værum að keppa innbyrðis þá var það metnaður hjá okkur að allavega einhver okkar yrði þá í verðlaunasæti.“ Jón: ,,Maður hefur svo oft séð, þó maður hafi sjálfstraust í að smyrja, þá hefur maður svo oft séð eitthvað nýtt sem maður hafði enga trú á, sem að virkaði alveg í topp. Bara eins og fyrir tveim árum þegar mönnum dettur allt í einu í hug að setja engan áburð neðan í. Nota bara sandpappír. Þá varstu kominn með snjó sem var þannig að það var bara ekki séns að finna neitt sko, það var bara sandpappír.“ Haukur: ,,Við unnum nú einu sinni boðgöngu hérna á tréskíðum.“ Þá var færið þannig að það var ómögulegt að finna rétta áburðinn. Þeir brugðu til þess ráðs að fá lánuð gömul skíði. Það skyldi enginn í þessu, að þeir hafi unnið mótið á þessum gömlu skíðum.

Jón segir að fyrstu tíu árin sem þeir voru að æfa þá hafi allt snúist um að æfa allt í botn. Skíðin og útbúnaðurinn skiptu minna máli. Núna snýst allt um að æfa í botn en þú átt ekki séns nema eiga toppgræjur. Jón og bræður hans fengu fín skíði frá foreldrum sínum. Haukur fékk skíði frá foreldrum sínum þegar hann var búin að sanna það að hann gæti eitthvað á skíðum. Haukur fór í A-landsliðið 1976 og þá fékk hann græjur frá Skíðasambandi Íslands. Eftir það þurfti hann ekki að kaupa sér græjur. Þegar þeir fóru út fengu þeir græjur í gegnum  Skíðasambandi Íslands, sem var búið að semja við skíðaframleiðendur. Fisher skíðin sem þeir fengu voru merkt Íslandi. Á árunum 1984-1994 var miklum peningi varið í skíðaíþróttina. Jón segir að Gotti bróðir hans hafi verið að fá allt upp í tíu pör af skíðum yfir veturinn þegar hann var í landsliðinu. Haukur fékk átta pör 1979. Fyrst þegar þeir fóru að fara út að keppa tóku þeir með sér eitt par af skíðum og fengu yfirleitt gefins eitt par á mótinu. Síðan fara þeir að fá skíði og skó og stafi, og oft meira en eitt par af græjum.

Jón: ,,Þegar ég var tíu ára, og fékk að keppa í 13-14 ára og vann, þetta mundi aldrei geta gerst í dag. Að krakki sem er þremur, fjórum árum yngri, hann á enga möguleika í dag. Þannig að þá, ef maður var í formi, og á samskonar græjum, eða heldur betri en hinir, þá var maður sko, það var svo ótrúlegt hvað maður gat unnið stóra krakka sko, þetta gerist ekki í dag.“

Kannist þið við hugtökin skíðakóngur og skíðadrottning?

Guðmundur: ,,Sá sem vann mest á skíðalandsmóti fékk þennan titil.“ Haukur vann öll bikarmót 1979 og varð fjórfaldur Íslandsmeistari á landsmótinu. Í Dagblaðinu var svo greint frá því að Haukur Sigurðsson væri skíðakóngur Íslands. Skíðadrottning það ár var Steinunn Sæmundsdóttir. Þetta var ekki opinber titill þá en fjölmiðlar landsins notuðu þetta þegar fjallað var um skíðamót.

Haukur átti einu sinni að keppa í boðgöngu í Bláfjöllum með Finn Víði og Yngva Óskars fyrir hönd Ólafsfjarðar. Finnur var hins vegar svo reiður eftir að hafa tapað einstaklingsgöngunni deginum áður að hann neitaði að taka þátt í boðgöngunni. Haukur gekk þá tvisvar sinnum 10 km og Yngvi Óskars kláraði síðustu 10 km og þeir unnu.

Þremeningarnir eiga allir börn sem hafa verið á skíðum. Haukur var skíðaþjálfari í tíu ár og síðan tók Jón við. Jón hefur einnig unnið mikið að uppbyggingu skíðasvæðisins. Ólafsfirðingar eiga mjög góða göngubraut, upplýsta.

Guðmundur var eitt sinn að stökkva inn í Ytraárdal með Vali Hilmarssyni. Guðmundur stekkur fyrst og Valur kemur á eftir. Guðmundur tekur eftir því að Valur liggur bara í brautinni en fleiri eru að fara að stökkva og sjá hann ekki. Guðmundur hraðaði sér til hans og kemur að honum liggjandi í blóði sínu. Þá hafði hann rekið skíðið í munnvikið á sér og rifið það upp. Guðmundur kallaði til hinna og segir þeim að stökkva ekki.

Þegar þeir fóru að keppa erlendis fengu þeir keppnisbúninga og voru þá allir eins búningum. Fyrst var búningurinn hnésíður og sokkar upp að hnjám. Síðan varð þetta heilgalli með síðum skálmum. Nú er hann orðinn tvískiptur aftur, buxur og peysa. Treyjurnar voru þannig útbúnar að það var gat fremst á erminni fyrir þumalfingurinn til þess að erminn flettist ekki upp á handlegginn ef menn duttu á skíðunum. Ef menn duttu á hjarni gátu þeir nefnilega rispast ansi illa og flett húðinni af handleggnum. Þeir segja að það hafi ekki verið mikið um slys eða meiðsli.

Árið 1975 var skíðadeild stofnuð innan íþróttafélagsins Leifturs. Það voru alltaf einhverjar stelpur að æfa og keppa en þær hættu margar áður en þær komust upp í fullorðinsflokk. Þeir muna eftir Guðnýju frá Ólafsfirði sem tók þátt á landsmóti á Ísafirði 1979, en hún hefur líklega verið fyrst Ólafsfirskra kvenna til að keppa á landsmóti. Það voru nokkrar sem tóku þátt í unglingameistaramótum og Andrésar andar leikunum. Það er ekki fyrr en ´95 sem Ólafsfirðingar eignast Íslandsmeistara í kvennaflokki, en það var Svava dóttir Jóns sem vann þann titil. 

Drangur gekk á milli Ólafsfjarðar, Siglufjarðar, Akureyrar og Sauðárkróks og oft var ferðast með honum þegar farið var á skíðamót. Menn höfðu með sér smurt nesti fyrir helgina því reynt var að halda kostnaði í lágmarki. Haukur: ,,Það var alltaf viss athöfn þegar Nonni og Gotti opnuðu koffortið sitt, það var sko svo vel útilátið, náttúrulega úr sveitinni. Þetta var bara eins og heil frystikista fyrir tvo daga og auðvitað átu allir upp úr þessu með þeim. En þetta var svona, maður var bara með eitthvað sem maður var búinn að búa til. Ég man að einhvern tíma á einhverju móti hérna (Siglufirði) þá vorum við settir í eitthvað hús sem mátti ekki búa í útaf snjóflóðahættu. Og við vorum þar og sátum þar bara á gólfinu og vorum að éta upp úr þessum döllum okkar.“

Guðmundur rifjar upp aðra ferð á Siglufjarðarmót: ,,Við komum hingað á bát og fórum að keppa sama dag, í leiðindaveðri. Og svo kom annar og sótti okkur. Og mannskapnum var nánast hent um borð, það var svo leiðinlegt í sjóinn, hérna við bryggjuna.“ Það voru 17 börn og unglingar að keppa á mótinu og þetta var ferðamátinn, lítill bátur. Þegar það var gist á Siglufirði var síðan alltaf dvalið í húsum sem ekki mátti búa í vegna snjóflóðahættu.

Guðmundur segir frá unglingameistaramóti á Ísafirði 1973. Dvölin stóð yfir í tíu daga vegna þess að þeir komust ekki heim sökum færðar og veðurs. Þeir voru orðnir peningalausir og þurftu að láta símsenda sér peninga. ,,Síðan var maður að fara út í búð og kaupa dósir með pylsum í og hita þetta með kósengasinu.“ Kósengasið var notað til að brenna áburðinn neðan í skíðin. Haukur: ,,Við höfðum enga aura til þess að fara á matsölustað eða hótel.“ Árið 1979 unnu Ólafsfirðingar alla titla á bikarmóti á Ísafirði. Á því móti tepptust þeir aftur og voru fastir á Ísafirði í fleiri, fleiri daga.

Þeir eru sammála um það að andinn hafi verið góður og þeir eignuðust marga vini og kunningja víða af landinu. Tengslin haldast við, margir eru í þessu ennþá og taka t.d. þátt í Vasagöngunni í Svíðþjóð.

Var aldrei rígur á milli keppenda?

Haukur: ,,Ég man eftir því einu sinni, sem var svona varla líft. Þá vorum við úti sem sagt í seinna skiptið, þarna fyrir Olympíuleikana. Og þá voru menn að berjast náttúrulega um Olympíusæti. Og þá var spennustigið orðið svo hátt og við vorum þarna fjórir í landsliðinu og svo koma tveir utanaðkomandi, einn frá Ísafirði og einn úr Reykjavík og eru náttúrulega að reyna að vinna sér sæti. Og málið var að við stóðum svona frekar vel að vígi, við fjórir, við vorum að vinna þá í þessum mótum. En svo þarna dettur inn mót sem þeir vinna okkur.“ Það var síðasta mótið. Jón: ,,Þessi vetur var náttúrulega mjög sérstakur, vegna þess að þú varst eini í A-landsliðinu (Haukur), það var öruggt að þú fengir að fara, svo koma, hinn hópurinn, og hann átti að keppa um eitt sæti sko. Svo þegar uppi er staðið er ákveðið að senda einn Ísfirðing, einn Reykvíking og einn Ólafsfirðing sem var ákveðið að færi. Og þetta er ekki búið, vegna þess að síðan, á landsmótinu, þá vinn ég allt saman og þá geta þeir ekki hugsað sér að kjósa skíðamann ársins og þá var Björn Þór kosinn.“ Skíðasambandið var komið upp við vegg, þeir voru búnir að senda þrjá, einn frá hverjum stað, til að friða staðina og svo kemur fjórði maðurinn og vinnur landsmótiðtveimur mánuðum seinna og því var ekki hægt að tilnefna hann skíðamann ársins. Þetta var árið 1980. Haukur kláraði veturinn en hætti svo. Jón hætti alveg og kom ekki aftur fyrr en 1982.

Kapparnir segjast ekki eiga mikið af verðlaunagripum, en þeir eiga töluvert af blaðaúrklippum og myndum. Þegar þeir voru að keppa var keppt í færri greinum og verðlaunin voru bæði færri og minni. Oft voru hvorki bikarar né verðlaunapeningar, heldur einungis verðlaunaskjöl. Nú hefur þetta mikið breyst og Jón segir að dóttir hans eigi örugglega 400 bikara sem geymdir eru í tíu stórum kössum í bílskúrnum.

Guðmundur: ,,Við vorum í skíðasveit hjá björgunarsveitinni, á sínum tíma. Eiginlega áður en vélsleðar voru almennilega komnir í notkun. Og við lentum í björgunarleiðangri við Haukur einu sinni, og Björn Þór, við vorum þrír. Það sá ekki á milli húsa í bænum og það var fastur bíll utan á horninu í Múlann, alveg bara yst. Og við vorum sendir af stað á gönguskíðunum. Og við vorum komnir eitthvað áleiðis þegar okkur leist ekkert á þetta, við vorum bara á ruðningunum. Við komum í bæinn aftur, þetta var bara á miðnætti. Klukkan sjö um morguninn vorum við sendir aftur af stað. Og þá komumst við, þá voru búin að fara þvílíku snjóflóðin þarna um nóttina.“

Skíðatímabilið stóð lengur yfir í þá daga sem þeir voru að æfa og þeir muna eftir tveimur landsliðsæfingum sem hófust í september. Það var yfirleitt kominn nægur snjór í september til að æfa skíði. Bæjarbúar tóku mikinn þátt í að hvetja strákana áfram, þeir fundu mikinn velvilja hjá fólki og það voru margir tilbúnir til að aðstoða við að leggja brautir eða hvað annað sem þurfti að gera. Guðmundur: ,,Maður náttúrulega fór á gönguskíðin við útidyrahurðina heima hjá sér, en í dag verður maður að fara eitthvað. Æfingin hún byrjaði alltaf á lóðinni heima, þar sem maður steig á skíðin.“    

Skarðsmótin voru haldin á Siglufirði um Hvítasunnu til þess að ljúka vetrarvertíðinni og voru það hálfgerð djammmót, að þeirra sögn. Yfirleitt voru landsmótin haldin um páskana svo öllum alvöru mótum var lokið þegar kom að Skarðsmóti.


header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya