Bláa kannan á Akureyri, 28. desember 2010
Gottlieb Gunnar Konráðsson er fæddur á Ólafsfirði 9. febrúar 1961. Hann er alinn upp á Burstabrekku í Ólafsfirði. Lengst af hefur hann verið búsettur á Ólafsfirði en flutti þaðan árið 1998. Foreldrar hans eru Konráð Gottliebsson og Svava Friðriksdóttir. Þau stunduðu búskap á Burstabrekku, þar til fyrir um 20 árum, að þau fluttu í kaupstaðinn Ólafsfjörð.
Konráð faðir Gottliebs hafði mikinn áhuga á íþróttum og skíðaiðkun og ætlaði sér alltaf að verða íþróttakennari en ekki bóndi. Hann hjálpaði krökkunum mikið varðandi skíðaiðkun, ekki bara sínum eigin börnum heldur bæjarkrökkunum líka. Hann var fyrstur til að eignast vélsleða í Ólafsfirði og lét smíða plóg aftan í hann til þess að plægja brautir fyrir skíðakrakkana. Á kvöldin lýsti hann upp brautina með snjósleðanum þar til hann setti upp kastara á Burstabrekku sem lýstu hálfa leið í bæinn. Kastararnir voru á báðum stöfnum hússins, en göngubrautin lá í kringum bæinn og náði alla leið til kaupstaðarins. Gottlieb átti þrjá bræður og eina systur og þau voru öll á skíðum. Systkinin löbbuðu alltaf í skólann á skíðunum, alveg frá fyrstu tíð, en það voru um þrír kílómetrar frá Burstabrekku í kaupstaðinn. ,,Við fórum aldrei með skólabíl, ég man aldrei eftir að hafa farið með skólabíl. Hann gekk framm sveitina sko, en ég man aldrei eftir að hafa farið með skólabíl, aldrei.“ Skíði voru mikið notuð til að koma sér á milli staða og það var sama hvernig veðrið var. ,,Við vorum einu sveitakrakkarnir sem löbbuðu alltaf í skólann, það fóru allir með skólabílnum. Við löbbuðum á svigskíðum fyrst, gömlum, og svo fengum við skíði eftir að við kepptum í fyrsta mótinu. Við stóðum okkur það vel í mótinu að við fengum ný skíði þá.“ Skíðin sem bræðurnir fengu áttu að endast þeim alla æfi. Skíðin voru 2,10 metra löng og skórnir voru númer 43. Stafirnir voru það stórir að þeir rétt náðu upp í þá. Þeir settu ullarsokk fyrir framan tærnar til þess að geta notað skóna. ,,Beygjurnar á skíðunum voru bara lengst í burtu frá manni, þau voru svo löng skíðin.“ Gottlieb segir að þeim hafi gengið ágætlega að nota útbúnaðinn en skórnir hafi þó ekki enst þeim lengi því að þeir brotnuðu um miðju þar sem þeir voru of stórir.
Þegar Gottlieb var smástrákur kom sænskur þjálfari til Ólafsfjarðar. Þetta var í kringum 1970 og Gotti um tíu ára gamall. Hann segist mikið hafa haldið upp á hann, litið upp til hans og lært af honum. Þjálfarinn hélt líka upp á Gotta og gaf honum skíði þegar hann fór. Skíðin voru smíðuð úr birki. ,,Alveg fislétt, það mátti ekki vera á þeim einu sinni í harðfenni, það mátti bara vera í þeim í lausamjöll, annars mundu þau klárast sko. Ég hélt svo mikið upp á skíðin að þetta var eins og gull. Ég stillti þeim alltaf spes upp í þvottahúsinu eða var með þau inni í herbergi. Maður horfði á þetta bara þegar maður var að fara að sofa. Svo einu sinni voru þau frammi í þvottahúsi og ég ætlaði að fara á þau, ég fór bara á þau ef ég ætlaði að fara mjög hratt. Svo var ég búinn að græja mig og greip skíðin og þá duttu báðar beygjurnar af þeim. Svona fyrir neðan beygjur. Ég náttúrulega alveg truflaðist, þá kom það í ljós að tvíburarnir, bræður mínir, þeir stálu skíðunum, fóru aðeins þarna upp á tún og renndu sér niður og keyrðu beint á köggul og brutu báðar beygjurnar af. Settu þau svo inn í þvottahús og stilltu beygjunum ofan í sárin þannig að ég sá ekki einu sinni að þau væru brotin.“
Gottlieb fór á sitt fyrsta landsmót 12 ára gamall, en hafði þá keppt á nokkrum mótum heima í Ólafsfirði. Hann fékk undanþágu vegna þess að dómurunum þótti hann svo lítill og ræfilslegur og höfðu enga trú á því að hann gæti eitthvað. Ólafsfirðingar unnu boðgönguna: ,,og þá urðu þeir vitlausir, Siglfirðingarnir, alveg snælduóðir.“ Í boðgöngusveitinni voru ásamt Gotta, Jón bróðir hans og Guðmundur Garðarsson. Helstu keppinautar Ólafsfirðinga voru Siglfirðingar og Ólafsfirðingar. Gottlieb keppti bæði í göngu og stökki. Hann var fyrst og fremst göngumaður en stökk líka til að geta keppt í norrænni tvíkeppni. ,,Það voru eiginlega mest Siglfirðingar og Ólafsfirðingar sem stukku.“ Hefðin fyrir stökkinu var sterkust á þessum tveimur stöðum en það var keppt í stökki og norrænni tvíkeppni á öllum landsmótum, sama hvar þau voru haldin. Siglfirðingar og Ólafsfirðingar voru margir hverjir fyrst og fremst stökkmenn en kepptu í göngu líka til að geta verið með í norrænni tvíkeppni. Gottlieb var ekkert í alpagreinunum, enda fór hann fljótlega að æfa mjög mikið á gönguskíðunum. Hann æfði alltaf með betri og eldri mönnum, Hauki Sigurðssyni, Nonna bróður sínum og ,,þessum fullorðnu.“ Gotti náði fljótt góðum árangri: ,,ég fór mjög hratt upp þannig að fljótlega fór ég að skilja þá eftir.“ Hann var mikill keppnismaður að eigin sögn.
Hvað þarf góður skíðamaður að hafa til að ná góðum árangri?
,,Þetta er bara blanda af sitt af hverju. Fyrst og fremst að hafa aga. Ég var með mikinn aga. Ég var með rosalegan aga og það þarf rosalegan aga ef þú ætlar að ná árangri í skíðagöngu og bara öllum íþróttum.“ Það þarf að mæta á æfingar og hugsa um mataræði og svefn. ,,Ég gat farið að sofa, bara um venjulega helgi, þegar jafnaldrar mínir voru að fara á ball, því ég ætlaði á æfingu daginn eftir.“ Það þarf aga og ákveðni til að ná þeim markmiðum sem búið er að setja. Keppnisskap er líka eitthvað sem skiptir máli. Gottlieb segir að það hafi aldrei staðið neitt annað til en að ná langt á þessu sviði. ,,Það var ekkert í mínum huga annað eða þriðja sæti til. Það var bara fyrsta.“
Það var ekki um skipulagðar æfingar að ræða. Það komu stundum þjálfarar og dvöldu á Ólafsfirði tímabundið, t.d. í hálfan mánuð í senn og þá var æfingatörn. Gottlieb fór svo til Svíþjóðar að æfa 15 eða 16 ára gamall. Með honum voru Nonni bróðir hans, Haukur Sig og Guðmundur Garðars. ,,Svo þróaðist þetta svo hratt og ég var farinn að verða bara eftir úti og fara bara einn út. Þá var ég með Svíunum, og þá náttúrulega æfði maður eins og maður átti að æfa. Og auðvitað hefði maður bara átt að fara miklu fyrr út.“ Það var erfitt fjárhagslega að fara út í lengri tíma því þá var ekki farið að styrkja skíðaíþróttina eins og nú er gert. ,,Maður vann náttúrulega allan sólahringinn yfir sumarið og æfði líka. Til að ná endum saman, ég var að byggja og kominn með fjölskyldu, 18 ára var ég kominn með fjölskyldu. Ég var í lönduninni og ég var að leggja þökur á lóðir á kvöldin og fram á nótt og æfði í matartímum, æfði í hádeginu og svo aftur á kvöldin og svo fór ég að vinna eftir æfingu aftur. Þannig að þetta var eins og eiginlega pínu lygasaga.“ Þegar Gotti kom úr lönduninni stökk hann í strigaskóna og hlaupagallann og fór upp á fjallið fyrir ofan bæinn og til baka aftur. Hann fór upp á topp á 16 mínútum. Stundum hljóp hann til Siglufjarðar og til baka aftur og stundum til Dalvíkur.
Skíðafélagið styrkti hann smávegis þegar hann fór út. Stundum dugði það fyrir flugfarinu. En það endaði með því að Gottlieb varð að leggja skíðin á hilluna vegna þess að hann fékk ekki næga styrki og gat ekki lengur fjármagnað þetta úr eigin vasa. Hann fór á Olympíleikana ´84 og heimsmeistaramót ´85 en hætti upp úr því. Árangurinn sem hann náði á þessum mótum var mjög góður og hann náði lengra en nokkur Íslendingur hafði gert. Hann hafði ætlað sér að fara á Olympíuleika í Kanada ´88, en komst ekki vegna þess að hann hafði ekki efni á að halda áfram.
Áttiru þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?
,,Nei, nei. Ekkert þannig. En náttúrulega þegar maður var pínulítill þá var maður að horfa á stóru karlana, bara hérna á Íslandi, Trausta Sveinsson á Bjarnargili.“ Gottlieb nefnir einnig Sigurð Stefánsson á Hólakoti í Ólafsfirði. Sigurður var frá Héðinsfirði. ,,Ég elti hann mikið, þegar ég var pínu, pínu lítill. Hann kom oft á skíðum út í Burstabrekku, hann átti heima á næsta bæ fyrir framan okkur.“ Gotti fór snemma að elta hann til baka í slóðinni og fór svo aftur heim. Síðustu árin sem Gotti var að æfa æfði hann með sænska landsliðinu og segist hafa horft upp til þeirra sem þar voru.
Gottlieb átti fulla skúffu af viðurkenningum en segist ekkert hafa haldið upp á það. Það var ekki fyrr en hann var orðinn 16-17 ára sem það fara að koma bikarar. Það voru þó alltaf bikarar fyrir Íslandsmót. Gottlieb varð fimmfaldur Íslandsmeistari árið 1975 á Ísafirði og fékk styttur fyrir það allt. ,,Ísafjarðarmótin voru mjög skemmtileg alltaf, það voru mjög harðir strákar á Ísafirði sko, og þeir voru búnir að reyna alltaf að vinna mig, í mínum flokk, og yfirleitt reyndu þeir í svona þrjú ár og gáfust svo upp, þá kom næsti og reyndi kannski í þrjú ár líka og gafst upp. Það var fyrst Halldór Ólafsson, svo kom Jón Björnsson, það komu alltaf nýjir og nýjir og þeir urðu helvíti góðir. Og hefðu getað orðið mjög góðir ef þeir hefðu ekki gefist upp.“
Vinskapur og tengsl mynduðust milli keppanda mismunandi félaga þó það hafi alltaf verið stutt í keppnisskapið líka. ,,Ég á mjög góða vini og allt það, ennþá. Bara alls staðar sko. Eins og með þennan Jón Björnsson á Ísafirði, það var eitt punktamót, þrem vikum fyrir landsmót, landsmótið var á Ísafirði og ég var hálf lasin þegar punktamótið var á Ólafsfirði. Ég keppti samt og gat ekki neitt, það var eina mótið sem ég gat bara ekki neitt. Jón Björnsson var langt á undan mér, tvær mínútur á undan mér. Ég var bara skítlatur og gat ekki neitt. Það fauk svona í mig maður, ég svaf bara á skíðunum þessar þrjár vikur fram að landsmóti. Ég fór oft á skíði þegar það var tunglskin, á kvöldin og nóttunni. Mér fannst svo gaman að fara út í tunglskini, og hefur alltaf fundist. Ég bara svaf á skíðunum. Þegar ég kom til Ísafjarðar, eftir þrjár vikur þá sögðu Ísfirðingarnir: Jón er alveg öruggur með þetta, hann var tveim mínútum á undan honum fyrir þrem vikum, það er útilokað að hann nái því. Og ég bara hvarf, ég var rúmum tveim mínútum á undan honum.“
Gottlieb tók tvisvar sinnum þátt í Þingvallagöngunni, frá Hveradölum niður í Almannagjá. Í fyrsta sinn sem hann tók þátt náði hann þeim sem var að plægja brautina á vélsleða og fór fram úr honum. Móthaldarar höfðu ekki gert ráð fyrir að fá svona hraðskreiða þátttakendur. Þegar hann kom í mark eftir 60 km göngu þá var enginn í markinu og það var ekki fyrr en eftir 15 mínútur sem tímaverðirnir komu. Þeir höfðu komið með rútu en festu sig á leiðinni. Þeir voru rétt búnir að setja upp markið þegar næsti kom, en hann kom hálftíma á eftir Gotta. ,,Þannig að þetta var svona dálítið eftirminnilegt, að ég beið eftir tímavörðunum.“ Það var keppt tvisvar eða þrisvar í þessari göngu en síðan lagðist hún af. ,,Það urðu margir uppgefnir á þessari göngu, þetta var dálítið langt, upp og niður og allaveganna.“
Komstu þér upp einhverri sérstakri rútínu til að undirbúa þig fyrir mót, t.d. hugleiðslu?
,,Nei, við Burstabrekkustrákarnir vorum svo orginal að þegar menn voru að éta einhverjar sykursúpur og dót þá vorum við, mamma sendi okkur alltaf með koffort, eða kistu með feitu hangikjöti og sviðum og öllu draslinu sem menn mundu nú bara aldrei horfa á einu sinni fyrir mót. Mamma sendi okkur alltaf með svo mikinn mat með þegar við vorum að fara í ferðalög og svona að strákarnir voru stundum bara farnir að taka með sér gaffal og hníf og ekkert annað.“
Hvenær fóru að koma svona eiginlegir æfingagallar eða keppnisbúningar?
,,Fyrst byrjuðum við í svona stuttum göllum með sokkum upp að hnjám. Svo eftir að ég fór að fara út þá fór ég að skipta á þessu lopadrasli maður, ég þoldi aldrei lopann, skipti á þessu og göllum við strákana, þeir voru brjálaðir í lopapeysur.“ Íslensku lopaflíkurnar voru eftirsóttar erlendis og þetta þótti voða flott og fínt. Þegar hann fór út til Svíþjóðar klæddist hann búningi sænska landsliðsins, hvítum og gulum að lit.
Hvað geturu sagt mér um þátttöku kvenna í skíðaíþróttum á Ólafsfirði?
Konur á Ólafsfirði voru aðeins byrjaðar að æfa göngu þegar Gotti var að keppa. Hann nefnir t.d. Guðnýju Ágústdóttur, Lenu Matthíasdóttur og systur sína Sigrúnu Konráðsdóttur.
Var talað um skíðadrottningar og skíðakónga á þessum árum?
,,Sjálfsagt hefur verið minnst á skíðakóng og eitthvað svoleiðis en ég man ekki eftir því. Það voru aldrei fréttir með skíðunum, ekki þá, það er orðið helmingi meira núna. Það var ekkert nema bolti í fréttunum þá. Maður var oft svekktur yfir því að það var aldrei sagt neitt frá skíðagöngu eða stökki eða neitt svoleiðis. Það var sýnt frá Olympíuleikunum t.d. þegar ég var að keppa, það var orðið pínu breytt þá, en eins og Íslandsmótum sem voru hérna, það var aldrei sagt neitt frá þeim.“
Gottlieb rifjar upp eftirminnilega boðgöngu á Akureyri. Þá var hann að berjast við Einar Ólafsson frá Ísafirði. Þeir voru mikið saman, bæði úti og hér heima. ,,Við lögðum síðastir af stað í báðum sveitum, hann fyrir Ísfirðinga og ég fyrir Ólafsfirðinga, ég var aðeins á undan honum af stað, og ég bara dólaði þangað til hann kom til mín. Síðan röltum við bara hlið við hlið, í sitt hvorri slóðinni og ákváðum bara að spyrna upp síðustu tvær brekkurnar og það réði bara úrslitum. Ég var svona þrem metrum á undan honum í mark, upp þessar brekkur. Það var allt klikkað í markinu, það var eiginlega eftirminnilegasta boðgangan.“
Hvernig var svo stemmningin á mótum?
„Hún var bara mjög góð, það náttúrulega hefðu mátt vera miklu fleiri áhorfendur. Það hefur aldrei verið neitt mikið áhorf á mót. Svo þegar maður var að koma út sko þá var þetta bara eins og fótboltaleikur. Fólk hafði áhuga á þessu, að horfa á þetta og allt það.“ Það komu margir að horfa á Ólafsfirði, Ísafirði og Siglufirði. Í Reykjavík komu mun færri áhorfendur.
Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunnar?
Strákarnir þurftu sjálfir að hafa mikið fyrir því að leggja brautir. Það var enginn troðari til svo það var gengið á skíðum, tvo hringi til að búa til slóð og þá gátu menn byrjað að æfa. Gotti fór víða á skíðunum í harðfenni. Þá fór hann upp í fjöll og inn í dali án þess að fylgja ákveðnum brautum. Hann tók oft langar æfingar.
Hvernig var útbúnaðurinn – þurftu menn að eiga mörg skíði?
Gotti hafði ekki efni á því að eiga mörg skíði fyrst til að byrja með. Svo gerði hann samning við Fálkann og fékk skíði frá þeim. Þá eignaðist hann skíði fyrir blautt færi, og önnur fyrir þurran snjó. Áburðurinn skipti líka miklu máli. ,,Við vorum mjög seigir að bera neðan í, á Burstabrekku. Og ég gerði mikið af tilraunum með áburð. Svona fikraði mig áfram. Við vorum seigir að fá mikið rennsli þó það væri gott fatt eins og maður segir, maður rann ekki aftur á bak.“
Gotti var ofvirkur að eigin sögn og segir að skíðin hafi bjargað sér algjörlega. Þar fékk hann útrás fyrir þá miklu orku sem hann hafði. ,,Maður verður að vera pínu ofvirkur líka til að fara upp á eitt fjall í hádeginu.“ Skíðakrakkarnir voru mjög skemmtilegir og hressir og það voru aldrei nein leiðindi í hópnum.
Var íþróttalífið á Ólafsfirði almennt öflugt á þessum árum?
Það var fyrst og fremst fótbolti á sumrin og skíði á veturnar. ,,Á veturnar var náttúrulega ekkert nema skíðin, því að snjórinn var yfir öllu og allt á kafi, þetta er enginn vetur núna. Það var ekkert nema skíðin.“ Byrjað var að æfa í október og æft fram á vor. Það var mikill meðbyr með skíðaíþróttinni á Ólafsfirði. ,,Ég man að þegar ég fór að fara út og svona, þá voru gamlir menn sem áttu einhverjar útlenskar krónur og svoleiðis að hringja í mann og segja manni að koma og láta mann hafa það.“ Það var ekkert um opinbera styrki en einstaklingar í bænum og útgerðirnar reyndu að leggja sitt af mörkum. ,,Oftast þurfti maður að labba sjálfur í hús og betla. Ég sæji nú íþróttamenn í dag gera það! Vera á hnjánum fyrir utan hurðina og biðja um pening: gefðu mér pening svo ég geti haldið áfram að æfa. Þetta er ekkert skemmtilegt, að gera það.“
Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?
Gotti slasaðist aldrei á skíðum. Slys í stökki voru ótrúlega fátíð, en hann man þó eftir að Björn Þór slasaðist eitt sinn á stökkmóti.
Gotti rifjar upp sögu af Birni Þór: ,,Einu sinni var hann að keppa á Siglufirði, 30 kílómetrana og það var mjög vont veður og hann
var orðinn algjörlega uppgefinn. Mjög uppgefinn sko. Það var eins og bara kílómeter í mark og hann komst bara ekkert í mark. Hann var bara
búinn, punkteraður. Það var Gunnar Pétursson, gamall Ísfirðingur, sem keppti alltaf og labbaði alltaf með gin og vodka í fleyg í
rassvasanum. Hann labbaði alltaf með það. Þegar hann kom að Birni Þór þá gaf hann honum djús. Og Bubbi þambaði alveg úr
fleygnum. Og hann var eins og gormur eftir smá stund, því hann þaut í mark. En steinlá þegar hann kom í mark og bara lá.“ Hann
hafði ekki hugmynd um hvað var í drykknum og fann það ekki þegar hann drakk það, hann var svo
þyrstur.