Skíðasaga fjallabyggðar

14. nóvember 2010 Að Espilundi 2, Akureyri, heimili Hannesar Garðarssonar Finnur Víðir Gunnarsson er fæddur á Akureyri 17. janúar 1964. Finnur ólst upp á

Finnur Víðir, Hannes og Þorvaldur


14. nóvember 2010

Að Espilundi 2, Akureyri, heimili Hannesar Garðarssonar

Finnur Víðir Gunnarsson er fæddur á Akureyri 17. janúar 1964. Finnur ólst upp á Ólafsfirði og fór að heiman 18 ára gamall, er hann fór í skóla á Akureyri.

Þorvaldur Jónsson er fæddur á Ólafsfirði 17. maí 1964. Hann fór að heiman 16 ára gamall, er hann fór í Menntaskólann á Akureyri.

Hannes Garðarsson er fæddur á Ólafsfirði 1. júlí 1962. Hann ólst upp á Ólafsfirði en fór svo í framhaldsskóla til Akureyrar.

Hvenær fóruð þið svo að renna ykkur á skíðum?

Þorvaldur: ,,Við bjuggum fyrstu árin á Hornbrekkuvegi, stökkpallurinn, eini steypti stökkpallurinn á landinu, er þar 50 metra í burtu. Allavega sá mamma mig, ég stóð ekki á skíðum þegar ég fór niður þar fyrst, segir sagan.“ Þorvaldur man að þarna var enn verið að byggja stökkpallinn, það var bara uppslátturinn kominn en þannig var pallurinn notaður áður en hann varð fullgerður. Hannes les upp úr Árbók Ólafsfjarðar: ,,Á árunum 1967-´68 var steyptur stökkpallur í brekkunni norðan við sundlaugina.“ Þorvaldur: ,,Þá hef ég verið fjögurra ára, þegar ég reyndi að stökkva, ég tel víst að ég hafi ekki lent á skíðunum þegar ég fór fyrst fram af.“ Þorvaldur segist hafa verið að leika sér á svigskíðum þangað til hann varð 11 eða 12 ára og fór þá á gönguskíði. Þorvaldur keppti á skíðum í níu ár, frá 1977-1986.

Finnur telur að hann hafi byrjað að vera á gönguskíðum um sjö ára, hann var alltaf meira á gönguskíðum heldur en svigskíðum.

Hannes: ,,Ég byrja, án þess að ég geti tilgreint aldurinn, en það var þannig að það var tombóla í Ólafsfirði og aðalvinningurinn, það var sko núll í tombólunni, eða hlutavelta var þetta kallað, og það voru hengdir vinningarnir upp á vegg og þar voru skíði 1,20 alveg æðisleg og maður horfði á þetta og ég fékk núll og var ferlega stúrinn en tók gleði mína þegar Halldór frændi, föðurbróðir minn vann skíðin og gaf mér þau. Svo fór maður á Gullatúnið þarna, ég lagði nú aldrei í þennan pall. Ég hafði ekki þennan kjark.“ Gullatúnið er á milli stökkpallsins og sundlaugarinnar. Hannes heldur áfram: ,,En samt sem áður, þarna þurfti engan kjark á litlum pöllum sem voru hlaðnir upp og þá var látið bara vaða og það var alveg hættulaust þótt maður lenti á hausnum eða hvernig sem það var, en steypti pallurinn, hann óx mér í augum. En þarna var ég á þessum skíðum sem voru 1,20. Ég fór aldrei á svigskíði, ég fór aldrei í fjallið nema bara á gönguskíðum.“ Skíðin sem hann fékk á tombólunni voru með gormabindingum og hann fór á þau í stígvélunum.

Þorvaldur: ,,Mér tókst að fótbrjóta mig á á Gullatúninu þegar ég var að stökkva á svigskíðum, á bara einhverjum hól þarna neðarlega, lenti á sléttu og þá fékk ég að fara á sjúkrahúsið á Akureyri.“ Þorvaldur var þá um 10 ára gamall. Hann segir að dvölin hafi verið mjög leiðinleg, sérstaklega vegna þess að úti var mikill snjór og Múlinn ófær og hann þurfti að vera á spítalanum í heila viku án þess að fá eina einustu heimsókn.

Hinir segjast ekki hafa slasast alvarlega á skíðum. Hannes: ,,Einhvern tíma var maður að renna sér á gönguskíðunum af Ytraárdalnum eftir stökkmót og svo jókst alltaf hraðinn og það endaði með því að ég steinlá. Það var svona hjarn yfir, maður bara hruflaðist í andlitinu, en ekkert sem orð er á gerandi.“

Voru allir krakkar á skíðum á Ólafsfirði?

Hannes: „Meira og minna. Ég man eftir einu móti þar sem að, í mínum flokki vorum við 14, við vorum 12 í bekknum en við vorum 14, sem sagt að keppa á einu göngumóti. Síðan hafa aðrir, jafnvel verið ekki endilega á gönguskíðum heldur á svigskíðum, þannig að þetta hefur verið 80% af krökkum sem hefur verið á skíðum.“ Aðalleikvangurinn var Gullatúnið og þar lék sér meirihluti allra barnanna. Þetta var um 100 metra brekka, en hún þótti stór og mikil. Það var settur upp traktor og útbúin togbraut þarna. En oftast var bara labbað upp. Þeir segja að öryggið á þessari toglyftu hafi ekki verið upp á marga fiska. Finnur: ,,Þegar skíðalyftan er loksins komin, spjaldalyftan, þá er þetta start sem við kölluðum geymt inni í skúr. Svo datt manni í hug að fara á skíði upp í fjall og þá fór maður og náði í skíðin, fór uppeftir og inn í skúrinn, náði í startið, plöggaði því í lyftuna og ýtti á græna takkann, og lyftan komin í gang, þó maður væri bara tólf ára, eða tveir, þrír tólf ára að gera þetta.“ Ekki urðu nein slys á krökkunum þó að öryggismálum hafi verið ábótavant.

Þorvaldur man að það var oft verið á svigskíðum norðan við þar sem skíðasvæðið er núna. ,,Þar vorum við oft, upp í fjalli og þar var bara troðið, bara þjappað upp og svo voru bara einhverjar stangir og verið að skíða niður einhverja 70 metra eða eitthvað.“

Það var ekki svo mikið um aðra afþreyingu á Ólafsfirði, það var fyrst og fremst að vera úti í snjónum og vera á skíðum, gönguskíðum eða svigskíðum, að leika sér. Þetta var bara sjálfsagður hluti af því að alast upp á staðnum. Á sumrin var svo spilaður fótbolti og fyrirmyndirnar fengnar úr sjónvarpinu. Horft var á einn leik á laugardegi og eftir það var farið út og spilað eins og ensku leikmennirnir. Ekki var hægt að segja sömu sögu af fjölmiðlaefni úr skíðaheiminum, það var ekki fyrr en þeir komust á unglingsár sem slíkt efni fór að birtast í sjónvarpinu.

Áttu þið ykkur einhverjar fyrirmyndir?

Finnur: ,,Ég hafði náttúrulega mjög góða fyrirmynd, og sá sem kom mér á gönguskíði fyrst, hann gaf mér eitt stakt skíði til að byrja með, af því að það var eitthvað sem gekk af hjá honum.“ Þetta var maður úr Fljótunum, Frímann Ásmundsson, sem var í fæði og húsnæði hjá móður hans. Björn Þór Ólafsson gaf honum síðan annað skíði á móti. ,,Þetta voru tréskíði, sinn hvor liturinn og sín hvor týpan. Í þetta skellti maður sér bara í gúmmístígvélum eða gúmmískóm, og kreppti tærnar aftur til baka og lokaði bindingunum og þá var maður klár. Þetta voru skíði 2,10. Ætli ég hafi ekki verið svona sex ára þegar þetta var. Bara þegar ég byrja að fara á gönguskíði. Ég er aðeins að fikta við að fara á gönguskíði í dag og þá er ég á skíðum 2,05.“

Þorvaldur: ,,Ég hugsa að ég hafi verið meira á svigskíðum heldur en þeir, ég kem ábyggilega seinna inn í gönguna.“ Þorvaldur byrjaði að æfa þegar hann var 10 eða 11 ára og tók þá þátt í sínu fyrsta móti. Árið 1977 fengu þeir Þorvaldur og Finnur undanþágu til að keppa á unglingameistaramóti á Ísafirði, þá aðeins 12 ára gamlir. Þorvaldur: ,,Ég held að sá vetur, fyrir mér er hann nú svona skemmtilegasti veturinn, bara í minningunni. Að vísu gekk mér best þann vetur en það er ekki það, ég held að það sé vegna þess að það voru svo rosalega margir sem voru að keppa.“ Þeir kepptu á fleiri mótum þennan vetur með undanþágu, m.a. á Kristinsmótinu í Ólafsfirði. Það voru um 20 krakkar að keppa á því móti, tveir árgangar í hverjum flokki, með þeirri undanþágu að Finnur Víðir og Þorvaldur fengu að keppa með krökkum sem voru einu og tveimur árum eldri. Þarna var komin hefð fyrir Andrésar andar leikunum en á þeim var ekki keppt í göngu fyrr en löngu seinna. Þorvaldur fór á sína fyrstu Andrésar andar leika 1975, þegar hann var ellefu ára. Þá keppti hann í alpagreinunum og var það í fyrsta sinn sem hann tók þátt í stóru móti.

Finnur: ,,Einhver órói var kominn í okkur, allavega mig og Þorra að fá að spreita okkur einhvers staðar við einhverja annars staðar, einhverja aðra en bara okkur sjálfa.“ Þorvaldur segir að það hafi skipt þá mjög miklu máli að fá að keppa á landsmótinu ´77. Það var virkilega eftirminnilegt sökum þess að það kepptu fleiri en nokkurn tíma áður. Kristinsmótið var einnig mjög spennandi því það voru 9 eða 10 að koma inn á sömu mínútunni í 5 km göngunni. Veturinn 1977 kepptu þeir Þorvaldur og Finnur á Siglufjarðarmóti, Kristinsmóti, Þorra móti og á landsmótinu á Ísafirði.

Hvernig var ferðast á mót?

Það var alltaf flogið á Ísafjörð. Til Siglufjarðar var farið með bát, t.d. Drang eða einhverjum vertíðarbátnum frá Ólafsfirði. Faðir Hannesar, Garðar, gerði út bátinn Guðmund Ólafsson ÓF og sigldi hann stundum með strákana. Oft urðu menn sjóveikir á slíkum ferðum og eitt sinn kom það fyrir að ælt var yfir miðstöðvarmótorinn í bátnum svo súra ælulyktina lagði um allt. Þegar gist var á Siglufirði fengu Ólafsfirðingarnir lánað hús sem ekki mátti búa í vegna snjóflóðahættu. ,,Íþróttafélagið eignaðist tvö hús sem eyðilögðust meira eða minna í snjóflóði. Eftir það voru þau dæmd óhæf til búsetu yfir veturinn.“ Þessi hús voru svo aðallega notuð fyrir fótboltaþjálfara á sumrin en þarna var einnig gist um hávetur þegar haldin voru skíðamót á Siglufirði. Húsið var alltaf kallað snjóflóðahúsið, en menn voru ekkert að velta sér upp úr því heldur höfðu bara gaman. Haukur Sigurðsson mætti alltaf með gítar og munnhörpu og spilaði og skemmti á kvöldin. Þorvaldur ,,Þetta er svona það sem er sterkast í minningunni. Ég man aldrei hvernig brautirnar voru eða hver vann eða á hvaða tímum maður var, en maður man eftir smáatriðum úr ferðunum.“ Finnur: ,,Það var þessi ferðamáti sem notaður var þá sem myndi náttúrulega aldrei líðast í dag. Það var eins og þessar sjóferðir og ég man eftir einhverjum ferðum með snjótroðara til Siglufjarðar, með krakkana aftan á. Einhvern tíma fórum við yfir í Fljót með snjótroðara og það kom rúta frá Siglufirði og náði í okkur út í Ketilás.“   

Einhverju sinni var farið til baka með rútu frá Siglufirði til Ólafsfjarðar en þá þurfti að keyra allan Skagafjörðinn því Lágheiðin var lokuð, eins og lög gera ráð fyrir á þessum tíma árs. Elstu drengirnir fengu hins vegar að fara út hjá Ketilási og ætluðu að ganga þaðan yfir í Ólafsfjörð í góðu veðri. Meiningin var að ganga þar upp og yfir svokallað Ólafsfjarðarskarð sem er efst í Kvíabrekkudalnum og koma niður hjá bænum Kvíabekk. Eitthvað viltust þeir af leið og lentu niður í botni Héðinsfjarðar. Þeir töldu sig vera í botni Skeggjabrekkudals og voru komnir langleiðina niður þegar þeir áttuðu sig á því að þeir væru ekki á réttri leið. Rútuferðin fór þannig að rútan bilaði á leiðinni og drifskaftið brotnaði. Meðan beðið var viðgerðar bárust fréttir frá Ólafsfirði þess efnis að trilla væri á leiðinni þaðan og yfir í Héðinsfjörð til að sækja piltana sem viltust af leið. Þeir höfðu komist niður að slysavarnarskýlinu, þar sem þeir gátu gert viðvart og höfðust þar við uns trillan Guðmundur Ólafsson, kom og sótti þá. ,,Þegar við fréttum þetta vorum við fegnir að hafa ekki fengið að fara með.“ Þeir þrír voru allir í rútunni og það var ákveðið að halda af stað gangandi fyrir Múlann. Þá hófst keppni á milli þeirra sem vilst höfðu af leið og voru að koma siglandi frá Héðinsfirði, og þeirra sem setið höfðu í rútunni og þurftu að ganga heim. Þorvaldur: ,,Það var þannig að við komum á sama tíma, þeir sem voru fyrstir að hlaupa fyrir Múlann, við komum á sama tíma og skipið sigldi inn höfnina, allir svolítið á eftir áætlun.“ Öðru sinni, þegar þeir voru að koma af skíðamóti, var Múlinn alveg ófær og þeir þurftu því að fara fótgangandi síðasta spölinn og Björgunarsveitin kom á móti þeim. Þorvaldur: ,,Ég man að þetta var á sunnudegi og við vorum að koma heim af Þorra mótinu 1977. Við tókum ekkert dót með okkur. Þetta var fyrsta mótið sem ég keppti á, fyrir utan Ólafsfjörð og ég varð í öðru sæti og eina sem ég tók með mér var verðlaunapeningurinn. Hann var um hálsinn. Á þeim tíma voru engir gemsar og maður var ekkert að hringja, en þá meira að segja sagði útvarpið frá úrslitum á skíðamótum.“ Egill Rögnvaldsson, Siglufirði, varð í fyrsta sæti á þessu móti. Hannes: ,,Á þessum árum þegar við bjuggum við Múlann þá þurfti maður aldrei að óttast neitt og ég man aldrei eftir því að maður hafi verið hræddur í Múlanum, það var ekki fyrr en síðasta veturinn, þegar göngin voru að koma, þá komu smá ónot. En að fæðast inn í þetta samfélag, og svo kemur vegurinn og þetta var bara hluti af tilverunni, það var bara að fara þennan Múla. Og að vera hræddur – það var ekkert í boði. Ég man ekki eftir því að það væri neitt nema ævintýri, þessar ferðir einmitt, þegar björgunarsveitin kemur á móti okkur.“ Þorvaldur: ,,Ja, þið munið nú eftir því þegar við vorum að fara á Ísafjörð líka og það var allt kolófært og þeir fengu payloaderinn til að fara á undan okkur. Við ætluðum að leggja af stað klukkan fjögur og taka svo flug frá Akureyri. Náðum fluginu svo á laugardagsmorgninum. Við vorum komnir til Akureyrar klukkan hálf níu um kvöldið. Þá vorum við í þremur bílum, þetta voru allir bestu.“ Það voru þeir þrír og auk þeirra Gummi bróðir Hannesar, bræðurnir Jón og Gottlieb Konráðssynir, Björn Þór, Haukur og fleiri.

Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti ykkur áfram til skíðaiðkunnar?

Hannes: ,,Pabbi hafði verið á skíðum og sagði frægðarsögur af því þegar það var verið að stökkva í Kleifarhorninu og það þurfti að ná fram yfir svellbunkann, því ef maður náði því ekki þá var maður í vondum málum, þannig að það var bara spurning um að hafa bara fullan kjark eða engan kjark. Stærri breyta er bróðir minn, þremur árum eldri. Samt þurfti ekki neina fyrirmynd, þetta var bara okkar hlutskipti, þetta var bara okkar umhverfi. Maður bara fór og tók þátt í lífinu og það var á veturnar þá voru skíðin og á sumrin var fótbolti og reyndar vorum við á fullu í salnum líka þannig að við vorum ekki bara á skíðum á veturna, salurinn var – ég held að það hafi aldrei kólnað í salnum – bara út frá líkamshita.“ Það var mest verið að spila boltaíþróttir í salnum; fótbolta, handbolta og körfubolta. Hannes bætir við: ,,Þetta var bara samfélagið – það er skíðasamfélag.“ Finnur: ,,Svo náttúrulega skipti sköpum að gönguskíðabrautin var alltaf að hluta til inn í bænum, eftir þessu Gullatúni og í kringum skólann þarna, þannig að menn sáust alltaf, þeir sem voru á skíðum, það var mikil hvatning. Maður kannski ætlaði ekki að nenna á skíði eða nenna á æfingu, þetta voru kannski ekki skipulagðar æfingar þannig en það voru alltaf einhverjir á skíðum og það dró mann áfram. Það var mjög mikil hvatning í því.“ Einstaka sinnum var æft framm á Skeggjabrekku, þar sem golfvöllurinn er. Þá þurftu menn að labba um 3 km leið til að komast á æfingu. Þá var byrjað á því að ræsa snjósleða sem skíðadeildin átti þar og búa til brautina. Kveikja á ljósunum, smyrja skíðin og fara síðan að æfa. Finnur: ,,Eins og þetta var fyrst þá voru náttúrulega engin tæki eða tól til að gera brautir, Bubbi (Björn Þór) var að fara á skíði, eða eldri strákarnir, þá fórum við pjakkarnir með og fyrsti hálftíminn af þessari æfingu fór í að leggja brautina eins og þið munið. Það varð bara að troða. Útbúa hring. Svo ef við vorum heppnir og það snjóaði ekki þá varð þetta betra eftir því sem dagarnir liðu, þá þjappaðist þetta. En það kom líka æði oft fyrir að það skóf jafn harðann í þetta.“ Göturnar voru líka mikið notaðar, því þar var harðara undirlag. Gengið var Brekkugötuna, Hornbrekkuveginn og norður Hlíðarveginn og slaufað eitthvað til þess að reyna að koma fjölbreytni í þetta. Þorvaldur: ,,Það var nú samt hátíð að útbúa göngubraut miðað við að útbúa stökkbraut. Það var náttúrulega alveg ofboðslega erfitt. Enda líka - það var keppt í stökki en það voru ekkert margar æfingar yfir veturinn því að þetta var, eins og þegar við vorum í Kleifarhorninu, þar var í rauninni okkar aðalstaður, að það fór heill dagur í að undirbúa það. Það var aðeins verið að nota landslag, það þurfti að þjappa upp aðrennslið. En aðalvinnan var sjálf brekkan, það var búið að snjóa mikið og það þurfti að moka helling og það var allt bara með skóflum. Það var á laugardagsmorgni sem menn fóru af stað, þetta var kannski bara fimm tíma vinna. Bara að undirbúa brautina og menn náttúrulega orðnir dauðuppgefnir þannig að þá var kannski tekið eitt, tvö stökk og nýta svo sunnudaginn og þá náttúrulega snjóaði og skóf og allt til einskins, mjög oft, ekki alltaf. Þannig að það var enn erfiðara að reyna að æfa stökkið.“ Þarna er stökkið í miklum blóma, mesta ástundunin, flestir sem höfðu áhuga á þessu, flestir sem komu að þessu nenntu að koma og vinna við þetta.

Í febrúar árið 1979 fóru kapparnir allir erlendis í fyrsta sinn til að æfa skíðaíþróttina. Farið var til Finnlands og dvalið þar við æfingar í viku til tíu daga. Þorvaldur: ,,Þá sá maður aðstöðumuninn, það var alveg ótrúlega fyndið.“ Þorvaldur var Íslandsmeistari í skíðastökki í yngri flokk á þessum tíma en segist hafa verið lofthræddur á stökkpallinum þarna úti. Munurinn var svo gríðarlegur. Þorvaldur: ,,Aðalhræðslan var sú, úr því að þetta var bara stautur upp í loftið og það er bara fall niður, í sjálfu sér var þetta kannski, jú aðeins brattara en við vorum vanir, en þetta var alltaf partur af landslaginu þannig að það var ekkert sko, að maður gæti dottið einhverja þrjátíu metra niður, þannig að þetta var svo allt öðruvísi upp byggt, en ég var skíthræddur þarna.“ Það var ekki mikið um skipulagðar æfingar heima fyrir á þessum árum, þetta var bara vinna og aðstæðurnar voru ekki upp á marga fiska. Þorvaldur: ,,Þegar við fórum út vorum við líkamlega í mjög góðu ástandi, í alveg feikilega góðu formi en útaf aðstöðuleysinu þá var hraðinn á okkur ekki svo ýkja mikill. En þarna fórum við tvisvar á dag að ganga og tókum 5 km og það var bara 5 km og allt í botn. Það var eins veður, sama spor, 20 stiga frost þarna allan tímann. Þannig að það var hart færi og ég veit að við náðum að bæta hraðann á okkur, á þessari viku, því við vorum að æfa við þessar flottu aðstæður, alveg ótrúlega mikið.“ Þorvaldur og Finnur kepptu á nokkrum mótum þarna úti en Hannes, sem var í eldri flokk fékk ekki að keppa nema einu sinni. Hannes: ,,Við kepptum sem sagt í boðgöngukeppni, við vorum fimm strákar og Bubbi með okkur, fararstjóri.“ Þorvaldur: ,,Þegar við komum þarna út þá ætluðu þeir að senda okkur á skíðagöngunámskeið, kenna okkur að ganga á skíðum og þeir héldu að við kynnum ekki neitt.“ En þeir voru nú ekki sammála því. Svo var ákveðið að halda boðgöngukeppni, Ísland – Finnland eða Ólafsfjörður – Lovísa. Keppnin gekk út á að taka tvisvar sinnum 800 metra hring í einum spretti. Þegar allir voru búnir að ganga einn hring var hníf jafnt á milli liða. Í seinni hring byrjaði allt vel en Hannes lenti svo í vandræðum með andstæðing sinn. Hannes: ,,Hann étur mig upp alveg um leið og svo þegar hann ætlaði að fara fram úr mér, þá vildi ekki betur til en svo að trissan á stafnum hans, hún fer upp á skíðin mín, alveg upp að binding, þannig að við vorum bara fastir saman, tómt vesen sko. Hann lendir í hremmingum, hann þarf að losa stafinn frá og ég næ að rjúka strax af stað og næ einhverjum 5,6,7,8 metrum og svo nær hann mér bara en ég vil meina það að þetta hafi munað því að við unnum.“ Þorvaldur: ,,Í rauninni vorum við Finni, við vorum svolítið betri en okkar keppinautar. Við vorum líka tveir bestu skíðamennirnir þarna á svæðinu.“ Eftir sigurinn fengu þeir 6 kíló af appelsínum, 1 kíló á mann, í verðlaun. Einnig kepptu Þorvaldur og Finnur við finnana í tímatöku. Þorvaldur vann það mót og Finnur varð annar. Síðan var keppt á Héraðsmóti, þar sem allir störtuðu jafnt og það höfðu þeir aldrei reynt áður. Þeir þekktu ekki svona hópstart, heldur var alltaf hálf mínúta á milli keppenda. Þorvaldur: ,,Ég man að við komum þarna snemma um morguninn og við byrjuðum á því að labba þennan 5 km hring, allir saman, bara í rólegheitunum. Síðan er byrjað á þeim allra, allra yngstu og þetta voru bara krakkar, sem náðu bara rétt upp fyrir hné á manni, þetta var bara í bleiu næstum því, þessir fyrstu sem fóru út. Við vorum í elsta hópnum við Finni. Og ég man það þegar maður sá þessa krakka, þau voru svo ofboðslega góð, og það er kannski líka af því að við höfðum ekki svo mikin samanburð, þannig að maður áttaði sig ekkert á því hvað maður gæti en upplifunin að horfa á þessa krakka, þau voru hrikalega góð þegar þau fóru af stað og svo urðu þau eldri og eldri og nálguðust okkur og alltaf urðu þau betri og betri og við lentum í þeim sem voru bestir. Þannig að þetta var erfiður morgun hjá okkur Finna, allavega mér því við vorum til skiptis að fara á kamarinn. Því við vorum svo stressaðir, það var bara niðurgangur sko, áður en það var farið í þessa göngu. Það var bara kvíði. Því ég upplifði það að þessir krakkar sem voru tveimur til þremur árum yngri en við, að þeir væru betri en við. Þannig að við áttum ekki breik í þetta.“ Bubbi var jákvæður og bjartsýnn og stappaði í þá stálinu. Þorvaldur: ,,Þegar við fórum út úr startinu þá var ég fyrstur inn í skóginn, bara töluvert á undan, langfyrstur, það er eins og ég hafi fengið eitthvað nítró í rassgatið þarna.“ Keppnin fór þannig að Finnur Víðir vann og Þorvaldur varð annar.

Hvað þarf góður skíðamaður að hafa til að bera til að ná langt?

Hannes: ,,Góðan félaga, því að ég held að það sé nú það sem dreif mann mest áfram. Ég taldist nú aldrei góður, eina skiptið sem ég náði að komast upp í 1,2 eða 3 var þegar ég var í boðgöngu, þá var ég stundum með tíma sem hefði skilað mér verðlaunum. Það var eins og ég þyrfti einmitt þennan félagslega þrýsting, að ég væri að vinna fyrir félagana, þá allt í einu fór mér að ganga betur. En þessi kraftur sko, þessi félagsskapur, jújú auðvitað geta menn verið einhverjir afdalamenn og orðið góðir. En af því að við vorum að tala um hvað það voru margir, hvað það var mikils virði, að þetta er ekkert smá drifkraftur.“ Finnur: ,,Þetta er náttúrulega eitthvað hvernig menn eru skapaðir, bæði skapgerð og hvað menn gátu gengið nærri sér og tæknin í þessu er alveg 50% og svo náttúrulega bara ástund, ástund og aftur ástund. Margir fatta það ekki að skíðaganga er alveg gríðarlega mikil tæknigrein.“ Þorvaldur: ,,Þetta er ekki alltaf spurningin um styrk, og í rauninni ekki spurning um styrk. Þú getur verið með einhvern sem lítur út fyrir að vera miklu líklegri til þess að vinna, en þá kemur þessi tæknilegi hluti, að nýta orkuna.“ Hannes: ,,Eitt af þessu sem skipti gríðarlega miklu máli, og skyldi oft á milli þess hvað menn voru að ná góðum árangri, var að kunna að bera neðan í. Það voru algjörir sérfræðingar í því. Nonni var mjög framarlega og Finnur Víðir mjög góður.“ Finnur tekur undir það og segir að hann hafi verið með þeim bestu í því að bera neðan í, hluti af þessu var svo auðvitað að trúa á sjálfan sig. 

Þorvaldur telur að þeir Finnur Víðir hafi náð langt og lengra en margir aðrir, vegna þess að þeir höfðu hæfileika og voru duglegir að æfa. Það voru ekki neinar skipulagðar æfingar en þeir fóru út alla daga milli kl 16 og 17 og æfðu. Hannes: ,,Maður heyrði að það voru interval æfingar, og eitthvað svoleiðis, örlítið, og það var verið að tala um að maður ætti að lengja í sporinu og setja styrk í tveggja stafa takið, þannig að Bubbi var að leggja inn einhverja grunn þætti.“ Þeir segja að Björn Þór hafi alltaf verið meira eins og pabbinn í hópnum heldur en eiginlegur þjálfari en umfram allt var hann verulega mikill félagi þeirra strákanna.

Um keppnisskapið

Þorvaldur: ,,Við vorum bestir, við vissum það og við vorum fyrst og fremst í keppni við hvorn annan. Þannig að þegar ég lagði af stað út í braut þá sá ég að Finni Víðir var kannski við hornið á gagnfræðaskólanum, svo er þetta þriggja km hringur, þannig að það var alltaf viðmiðið, þar sem ég byrjaði; er Finni kominn framhjá horninu eða er hann ekki kominn að horninu, þá vissi ég hvort ég var að ganga hraðar en hann.“ Allar  æfingar voru í raun og veru keppni. Hópurinn var mjög breiður, þegar þeir voru 13-14 ára voru þeir að æfa með mikið eldri strákum og karlmönnum. Finnur: ,,Þannig að maður var ekki bara að bera sig saman við Þorra og Hannes, maður bar sig bara saman við alla. Maður tók mið, það voru þarna verðandi Olympíufarar sem voru þarna eldri og voru á skíðum þarna. Karlar sem áttu náttúrulega klárlega að vera betri en við og við miðuðum okkur við þá og ég held að þetta hafi líka dregið okkur áfram í þessa getu. Þessi tækni og þessi aðferðafræði sem var notuð þá, við vorum ýmist að keppa í stuttum skíðagöngum frá 5 og upp í 10 km. Af því að þetta var keppni á hverri æfingu þá voru menn í rauninni alltaf, allan veturinn að bæta sig.“ Bikarmótin byrjuðu svo í janúar og þá var farið að keppa á alvöru mótum. Þeir eru sammála því að keppnisskap skipti máli þegar kemur að því að ná árangri. Hæfileikar og rétt skapgerð þurfa að fara saman. Þorvaldur: ,,Blóðbragð í munni var ekkert óalgengt.“

Hafði þessi mikla keppni aldrei áhrif á vinskapinn, eins og t.d. vinskap ykkar tveggja? (Þorvaldur og Finnur)

Þeir segja að það hafi ekki verið. Þvert á móti hafi þeir stutt hvorn annan og hvatt áfram. Finnur: ,,Ef ég vissi að Þorri hafði farið á æfingu í gær sem ég hafði sleppt, þá var ég ekki alveg sáttur, þá ímyndaði ég mér það að þar með væri hann kominn með forskot. Kappið var svo mikið í manni. Þorri fór á æfingu í gær en ég ekki – þá fór ég tvær þennan dag. Þetta kom aldrei fram í neinum illindum, við náttúrulega börðumst alveg eins og ljón en svo vorum við alltaf saman á kvöldin og um helgar. Bjuggum í sömu götu og það var eitt hús á milli. Og þessi hópur sem fer til Lovísa ´79, við héldum rosalega mikið saman þarna.“

Var verið að æfa íþróttir á sumrin markvisst til þess að halda sér í góðu formi allt árið?

Þeir segja að svo hafi ekki verið. Það voru tvær íþróttagreinar sem voru mest stundaðar á Ólafsfirði þegar þeir voru að alast upp, það voru skíði og fótbolti. Þeir voru mikið í fótbolta á sumrin en þá var það alltaf leikurinn sem skipti máli. Hannes: ,,Þegar það fóru að koma fleiri íþróttagreinar þá fóru kraftarnir að dreifast og það eiginlega féll suðan á vissan hátt, það allt í einu var kominn körfubolti. Það þýddi það að það var ekki eins sterkur kjarni í skíðunum.“ Skíðagangan kom sér mjög vel þegar kom að því að spila fótbolta því þeir höfðu öðlast svo mikið þol og úthald. Enda hefur skíðagangan oft verið nefnd drottning loftháðu æfinganna. Finnur hætti að stunda fótboltann á undan Þorvaldi og Hannesi og fór þá að æfa gönguskíði á heilsársgrundvelli. Hann fór þá markvisst að taka æfingar yfir sumarið sem miðuðu að því að ná sem bestum árangri þegar kom að skíðaíþróttinni. Það voru t.d. fjallgöngur og hlaup. Finnur: ,,Strax eftir 9. bekk þá gekk ég með þær hugmyndir í maganum að ég ætlaði að fara út í heim og verða atvinnuskíðamaður. Og reyndi það og fór út til Noregs. Kom svo með skottið á milli lappanna heim. Eftir fáránlega mislukkaða dvöl. Ég ætlaði ekki að vera í skóla eða neitt, eina sem ég ætlaði að gera var bara að vera á skíðum. Svo var enginn snjór í Osló og þetta fór allt fyrir ofan garð og neðan.“ Hann kom heim rétt fyrir jól og segir að þá hafi draumurinn verið úti. Finnur: ,,Það snerist allt um þetta, maður ætlaði sér að ná virkilegum frama í þessu.“

Hvernig var aðstaðan til skíðaiðkunnar?

Það var farið á skíði alla daga, jafnvel þótt það væri snælduvitlaust veður. Til að byrja með voru ekki neinir snjótroðarar og því þurfti að hafa töluvert fyrir því að troða brautirnar á Slíkt reyndi ekki síður á þolið en æfingarnar sjálfar. Aðstöðuleysið kom aftur á móti niður á hraðanum. Seinna var það Konráð í Burstabrekku sem var duglegastur manna við að leggja brautir fyrir strákana. Hann átti vélsleða og lét smíða plóg aftan í hann til þess að gera brautir. Konráð var faðir þeirra Burstabrekkubræðra, Jóns og Gottlieb. Gallinn við þá braut var hins vegar sá að hún var svo mjó að það var bara troðið fyrir sjálf skíðin en ekki fyrir stafina. Á þessum árum var ekki til neitt sem hét frjáls aðferð, þannig að eingöngu var gengið með hefðbundinni aðferð. Skautað var þegar færi gafst en mest var bara gengið með hefðbundnu lagi.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir?

Þeir voru oft komnir á skíði í október og voru á skíðum alveg framm á Hvítasunnu. Skíðatímabilinu var slúttað með Skarðsmóti á Siglufirði en þeir fengu ekki að keppa, því það mót var aðeins fyrir 17 ára og eldri. Þegar unglingameistaramótið eða skíðalandsmót Íslands var afstaðið var vertíðin búin. Hannes: ,,Þá var helst að menn væru að fara fram á dal og vonast til þess að sjá einhverjar berbrjósta konur. Það dró mann áfram að vera aðeins lengur á skíðum á vorin.“

Þorvaldur segir að það hafi vantað alveg einhvern andlegan stuðning inn í þjálfunina. Hann var t.d. alltaf mjög kvíðin og stressaður fyrir mót. Svoleiðis stress getur gert það að verkum að menn fara of geyst af stað og eru svo kannski búnir með alla sína orku löngu áður en hringurinn er búinn. Þorvaldur segir frá móti á Siglufirði 1981: ,,Einmitt þennan vetur þegar Finni fór til Noregs, þá lenti hann í þessu, að springa í raunninni, í móti. Af því að þá er hann að keppa um að vera norrænu meistari, og hann er að keppa við Gottlieb Konráðsson og ég er að keppa í sama móti. Finni er náttúrulega miklu betri en ég. Í restinni á hringnum, þetta er sem sagt á golfvellinum á Siglufirði, þá er svona löng aflíðandi brekka og þetta er í seinni hring og neðst í brekkunni er Finni að koma að ná mér og nær mér. Þannig að ég fer bara til hliðar í sporið og hleypi honum fram úr. En það gerist ekkert hjá Finna. Hann komst ekki framm úr mér. Þá var hann náttúrulega búin að vinna á mig einhverjar 2,3,4 mínútur, eitthvað svoleiðis, þetta var 10 km ganga og það voru ekki eftir nema 1500 metrar eða eitthvað svoleiðis. En hann er bara alveg púnkteraður. Þá er hann náttúrulega með þessar væntingar, fara erlendis að æfa og í svona, og kannski spennan eitthvað að fara með hann, eins og hún hafði stundum farið með mig, og eflaust fleiri. En ég aftur á móti var bara búinn að stíla mína göngu á það að ég ætlaði að klára mig þegar ég kæmi í markið, ekkert áður. Við Finni vorum það miklir vinir og ég vissi að hann væri í keppni við Gottlieb að ná góðu móti þarna, þannig að ég geri þarna hlut, örugglega bara út af vinskap, að þegar ég sé að hann kemst ekki framm úr mér, ég var náttúrulega alveg drulluþreyttur en ég var ekki alveg búinn, en ég þurfti að fara upp þessa 150 metra, eða hvað það var brekku, og svo áfram. Þannig að ég fór aftur í sporið, sagði Finna að elta mig. Og ég æfði ekki en hann æfði á fullu sko og var eiginlega atvinnumaðurinn, og ég sagði honum bara að elta mig, því ég sá það að hann var bara alveg búinn. En maður getur, ef maður hefur eitthvað fyrir framan sig að elta þá nær maður meira út úr sér. Þannig að ég dró vagninn þarna upp á topp, fór alveg í 150 snúninga, prósent og Finni bætti í og svo þegar hann var kominn yfir þetta þá hafði hann náttúrulega miklu betri grunn. Svo ýtti hann sér framm úr og hvarf svo í markið.“ Úrslitin fóru þannig að Einar Ólafsson frá Ísafirði varð í fyrsta sæti, Finnur Víðir í öðru sæti og Gottlieb í því þriðja. Daginn eftir var keppt í boðgöngu og þá er Finnur í A-sveit Ólafsfjarðar með Gottlieb og Hauki Sig. Mótherjarnir voru svo meðal annars Magnús Eiríksson frá Siglufirði, Ingólfur Jónsson frá Reykjavík og Þröstur Jóhannsson frá Ísafirði. Þetta voru sterkustu göngumennirnir á þessum tíma. Haukur, Ingólfur og Þröstur höfðu farið á Olympíuleikana ári áður, 1980. Ólafsfirðingar urðu Íslandsmeistarar í boðgöngu á þessu móti. Finnur: ,,Þá var ég á yngsta árinu í 17-19 ára og ég var með 40 sekúndna betri tíma heldur en næsti maður, í öllum þarna í þessari boðgöngu. Þar voru átrúnaðargoðin, eins og maður segir, Olympíufararnir frá því árinu áður.“ Í báðum þessum göngum var Finnur Víðir að keppa upp fyrir sig, við sér eldri menn, á undanþágu. Finnur varð unglingameistari 1978, 1979, 1980 og 1981. Einnig var hann valinn íþróttamaður Ólafsfjarðar 1981 og 1983 fyrir árangur á gönguskíðum. Það var helst í boðgöngu sem hann hafði tækifæri til að spreita sig á móti eldri strákum og mönnum og þá kom í ljós að hann var mjög gjarnan að ná betri tíma en þeir. Finnur: ,,Ef þú varst í 15-16 ára þá var gangan hjá þér 10 km, boðgangan var þar af leiðandi 10 km. Þar af leiðandi máttiru ganga í henni, og styttri gangan í 17-19 ára, það voru tvær göngu á Íslandsmótum, var 10 km og svo 15 km, þannig að við Þorri höfum verið að keppa í 10 km göngu í flokki 17-19 ára, því á landsmótum voru alltaf 17-19 ára og 20 ára og eldri.“

Hvernig var stemmningin á Ólafsfirði fyrir keppnir og mót?

Hannes: ,,Þegar það voru skíðagöngukeppnir þá kom fólk til að fylgjast með. Það var þó nokkur fjöldi sem kom til þess bara að horfa á keppni. Þá voru menn komnir með talstöðvar út í braut og það var verið að gefa upp tíma, þannig að það var býsna vel að þessu staðið. Síðan voru fengnar forláta tímatökugræjur, þetta virkaði svona eins og vasareiknir, þetta var það stórt. Alveg svakalega flottar græjur og þá var einn útbúinn út í braut með svona til þess að geta upplýst hvernig staðan var. Og ég man sérstaklega eftir þegar það var farið til Siglufjarðar einhvern tíma og þá var sko bara eins og menn væru að fara á stórmót og undirbúa sig gagnvart upplýsingagjöf. Þetta var 17-19 ára keppni og Gummi bróðir var þarna fimmfaldur meistari. Þá man ég að þetta var stórmál að fara, Ólafsfirðingar, til þess að fara og fylgjast vel með og veita sem besta upplýsingagjöf til áhorfenda. Þannig að þetta var stórmál í samfélaginu, hvernig skíðagöngumönnum var að vegna.“ Finnur segir að þeir hafi fundið fyrir miklum meðbyr frá bæjarbúum. Þorvaldur man eftir stökkmóti sem haldið var á Burstabrekkudal. Þangað þurftu áhorfendur að labba í einn og hálfan til tvo klukkutíma til að koma og horfa á. Bæjarbúar létu það ekkert á sig fá og ýmist fóru fótgangandi eða á gönguskíðum. Fleiri tugir manna mættu til að fylgjast með og þannig var það alltaf.

Það sem mér þótti athyglisvert þegar ég fékk nafnalistann frá Birni Þór var að það var ekki nein einasta kona á listanum, hvernig stendur á því, voru konur eða stelpur ekkert að keppa?

Það var mjög lítið um það á þessum árum að konur og stúlkur á Ólafsfirði væru að æfa og keppa. Sigurlaug Guðjónsdóttir (Silla Gutta) sem nú býr á Siglufirði var að keppa þarna. Þeir segja að konur almennt á landinu hafi lítið eða ekkert verið að stunda skíðagöngu á þessum árum. Þær byrjuðu svo seinna að æfa og keppa í svigi. Það er ekki fyrr en undir 1980 sem konur fara að æfa og keppa af krafti. Stelpur léku sér samt mikið á skíðum alveg eins og strákar en fóru ekki út í það að æfa og keppa í íþróttinni eins og strákarnir.

Þorvaldur: ,,Þegar maður hugsar til baka, það sem gerði þetta svona skemmtilegt var það að æfingatíminn var kannski 2-3 tímar á dag en sjálf æfingin var ekki nema svona helmingurinn af því, það var tíminn sem menn voru að bera neðan í skíðin og svo var æfingin búin og þá voru menn að kjafta og þetta var félagslegt, þetta var meira heldur en bara að æfa. Þetta var þessi félagsskapur og vinskapur sem myndaðist.“

Hvernig var vinskap eða tengslum háttað á milli mismunandi félaga?

Finnur: ,,Ég kynntist mjög vel tveimur höfðingjum á Siglufirði sem voru að keppa við okkur og voru ´63 módelið, Birgir Gunnarsson, ég held ennþá sambandi við hann og Egill Rögnvaldsson. Þeir voru okkar andstæðingar, okkar Þorra, sem voru ekki í firðinum.“ Þorvaldur kynntist einnig þeim Birgi og Agli en segist ekki hafa myndað tengsl við aðra. Finnur og Einar Ólafsson fóru eitt sinn saman til Noregs til að æfa. Þeir dvöldu á sveitabæ rétt hjá Lille Hammer, en bóndinn á bænum var skíðakennari sem hafði komið til Siglufjarðar til að kenna. Þarna voru auk þeirra fimm Siglfirðingar við æfingar. Finnur: ,,Það er nú gaman að segja frá því að díllinn var svoleiðis, af því að þetta var sveitabær að við myndum fara einu sinni í fjós. Siglfirðingarnir höfðu gert það. Það var til þess að borga húsnæðið og fæðið. Mér var alveg slétt sama um þetta, því ég hafði, sem ungur drengur farið í sveit í Skagafjörð.“ Finnur og Einar voru þarna í hálfan mánuð og áttu alveg ógleymanlegar stundir. ,,Ekki bara gagnvart skíðamennskunni, heldur í fjósinu og lífinu þarna í sveitinni.“

Þorvaldur: ,,Ég bjó við það og við Ólafsfirðingar, þegar ég var að keppa í stökki, allavega upplifði ég það þannig, að þegar ég fór til Siglufjarðar að keppa þá þurfti ég alltaf að stökkva lengra en Siglfirðingarnir því þeir voru alltaf með betri stíl. Það var alveg sama þó þeir væru, sko það skipti engu máli hvernig þeir voru í loftinu, þeir fengu alltaf betri stíl en ég, af siglfirsku dómurunum, því það voru siglfirðingar sem dæmdu þar. Samanlagt var þetta stökkstig og stílstig sem mynduðu loka einkun. Ég var klárlega ekki með verri stíl en þeir. Ég er ekkert að segja að ég hafi verið betri en ég var ekki verri. Sama gerðist á Ólafsfirði, ég þurfti líka að stökkva lengra á Ólafsfirði, því þeir voru svo passasamir að vera ekki hlutdrægir, að þeir gáfu Siglfirðingunum meira fyrir stíl. Þá var maður bara í þeirri stöðu, ég þurfti að stökkva alltaf lengra. Þá voru menn svo rosalega mikið með skíðin hálfpartin teipuð saman, það þótti rosalega fallegt að vera með skíðin eiginlega alveg samsíða, það var bara æðislegt sko, það var bara hluti af þessu, að vera í stílnum, plús náttúrulega hreyfingar, að vera stapíll í skrokknum.“ Það var alltaf langt á milli skíðanna hjá Þorra, hann stökk alltaf dálítið gleiður og það þótti ekki fallegt. Hann segir að þetta hafi hann þróað með sér ómeðvitað og hann hafi svo tileinkað sér þennan stíl. Hann stökk yfirleitt lengra en aðrir og vann út á það, en fékk ekki hátt fyrir stílinn. Mörgum árum seinna benti Ólafur, sonur Björns Þórs, honum á að svona hefði hann stokkið og að hann hefði verið á undan sinni samtíð í tæknilegum hlutum. Síðar fóru menn að stökkva á þennan hátt og hafa bil á milli skíðanna. Þorvaldur: ,,Eina skiptið sem ég vann göngu, sem sagt einstaklingsgöngu var 1977, í 13-14 ára þegar við vorum á undanþágu, 12 ára, þá vann ég. Síðan varð ég Íslandsmeistari í stökki miklu oftar og norrænni tvíkeppni, samanlagt ganga og stökk, vann ég mjög oft, síðast ´86, síðasta árið sem ég æfði. Fyrir mér er það ekkert merkilegt, eða það sem skiptir máli, það eru bara minningarnar og skemmtilegheitin og vinskapurinn, það er það sem skiptir máli eftir þetta allt. Mér fannst alltaf leiðinlegasti hluturinn á mótum, það var verðlaunaafhendingin, án gríns, mér fannst það alltaf ömurlegt, kannski bara af því að maður var feiminn.“ Hannes: ,,Ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að safna úrklippum úr skíðaferlinum mínum, vegna þess að ég kom eiginlega aldrei í blöðin, en ég hef alltaf sagt samt í sambandi við skíðin að ég var bestur – í að detta. Því ég hafði svo gríðarlega mikla reynslu, ég var óttarlegur klaufi þegar kom að beygjunum, vegna þess að þá var ekkert troðið og ef maður missti skíðin út fyrir sporið þá var maður kominn á annann endann.“ Hannes tók þátt í unglingameistaramótum og lenti ansi oft í fjórða sæti. Hann segir: ,,Það er til meira í skíðaiðkun heldur en bara að vera sá besti. Og félagsskapurinn, hann var líka alveg stórkostlegur. Þetta voru skemmtistundir, þegar við fórum saman í ferðalög.“

Finnur: ,,Maður átti orðið þrjú, fjögur, fimm, ég man ekki hvað maður átti stundum mörg pör af skíðum. Svo kannski hafði maður einhver æfingaskíði sem maður kallaði, það voru skíðin sem maður gekk alltaf mest á. Af því að það voru æfingaskíði. Svo kom að móti og það var búið að taka veðrið og það var búið að mæla hitann í snjónum og vísindi og smyrja og svo var farið að láta renna og prófa, svo var að koma mót og maður var búinn að ákveða að maður ætlaði að fara á pari númer þrjú af stað. Svo gerðist það í nokkuð mörg skipti hjá mér að svo bara rétt áður en maður átti að fara af stað, fór ég alltaf á skíðin sem ég gekk mest á.“ Hannes: ,,Við sem vorum minni spámenn í þessu, við biðum bara eftir að heyra hvað Nonni eða Finni Víðir, eða þessir sem voru lengra komnir í að pæla og voru þessir spekingar í þessu, þeir sögðu okkur hinum hvað ætti að smyrja neðan í.“ Ólafsfirðingar fengu að vita hvað borið var neðan í, en hinir máttu alls ekki fá neinar upplýsingar frá þeim. Þorvaldur segist hafa pælt minna í þessu en Finni, sem lagði mikinn metnað í þetta.

Hannes átti ekki nema tvö pör af skíðum á sínum ferli. Fyrst átti hann Splittkein skíði og síðan Pelton skíði, sem voru svolítið frammúrstefnuleg skíði, með mjög háa og mjóa beygju. Pelton skíðin keypti hann í Finnlandi. Þorvaldur eignaðist líka Pelton í Finnlandi og þegar hann kom heim með þau fannst honum hann vera á miklu betri skíðum en allir hinir. Þorvaldur: ,,Þetta var öðruvísi, þetta var eitthvað nýtt. Þegar maður fór að ganga á þeim þá ímyndaði maður sér að maður væri kominn á undan öllum hinum, hvort sem að það var nú rétt eða rangt.“ Skíði voru auðvitað dýr og Finnur, sem var í landsliðinu, fékk ekki nema eitt par út á það. Öll hin skíðin þurfti hann að kaupa sjálfur og segist hafa nurlað saman hverri krónu sem hann vann sér inn auk þess sem foreldrarnir hefðu hjálpað til.

Þorvaldur: ,,Það var svona ákveðin stemmning sem myndaðist í hverri ferð fyrir sig. Talandi um mót, þá var alltaf eitt mót sem var áberandi leiðinlegra en önnur mót og það var Kristinsmótið, sem var í Ólafsfirði. Það var vegna þess að þá bjó maður heima hjá sér, þá hafði maður ekki þennan félagsskap.“ Mótin á Siglufirði eða Ísafirði voru skemmtilegust því þá voru allir saman. Ekki var eins gaman að vera í Reykjavík, því þá vildi hópurinn dreifast og margir gistu hjá ættingjum. Á Ísafirði var eitt sinn gist í Frystihúsinu og einu sinni í húsi Sjálfstæðisflokksins. Á Siglufirði var oftast gist í fyrrnefndum snjóflóðahúsum eða í íþróttasal barnaskólans.

 

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya