Skķšasaga fjallabyggšar

17. nóvember 2010 Aš heimili Björns Žórs Ólafssonar, Hlķšarvegi, Ólafsfirši. Björn Žór Ólafsson er fęddur  16.06.1941 į Ólafsfirši. Foreldrar hans voru

Björn Žór Ólafsson

17. nóvember 2010

Að heimili Björns Þórs Ólafssonar, Hlíðarvegi, Ólafsfirði.

Björn Þór Ólafsson er fæddur  16.06.1941 á Ólafsfirði. Foreldrar hans voru Ólafur Stefánsson og Fjóla Víglundsdóttir, bæði frá Ólafsfirði. Faðir hans var sjómaður alla sína tíð og móðir hans fiskverkakona. Björn hefur starfað sem íþróttakennari frá árinu 1961, fyrst við Hagaskóla í Reykjavík í tvö ár, síðan á Ólafsfirði frá 1963. Björn Þór var við smíðadeild Kennaraskólans og lauk smíðakennaranámi þar 1963. Hann kenndi því smíðar og íþróttir í barnaskólanum á Ólafsfirði og kenndi jafnframt líffræði í gagnfræðaskólanum.

Hvenær byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?

,,Ég held að það hafi verið mjög snemma.Það voru náttúrulega allir hér á skíðum meira og minna þegar ég er að alast upp. Mér er sagt að ég hafi verið farin að stela stökkskíðum nágrannanna  strax fimm ára gamall. Sem ég veit nú ekki hvort er alveg rétt, en allavega sex, sjö ára gamall er maður byrjaður að renna sér á skíðum.“ Björn Þór byrjaði strax á stökkskíðum. ,,Það háttaði þannig til að barnaskólinn, hann stendur hérna við brekku, og það var eiginlega fastur liður þegar snjór var kominn á vetrum, þá var farið út, skíðin höfð með í skólann, þá var búið til svokallað loftkast sem við kölluðum og stokkið allar frímínútur. Þannig að stökkið var þarna fyrst og fremst í upphafi.“ Skíðin voru jafnframt notuð til að koma sér í skólann, enda göturnar ekki mokaðar. Skíðanotkun var almenn og voru flest börn á skíðum á barnaskólaárum Björns Þórs. ,,Allavega flestir strákar voru á skíðum. Jújú, og töluverður hluti af stelpunum voru líka á skíðum. Svo seinna náttúrulega, þá var farið að fara í svig og svona.“  

Var einhver í fjölskyldunni sem hafði áhrif á skíðaiðkun þína?

,,Já, það var nú í fjölskyldunni og pabbi var mjög góður skíðamaður, kannski með þeim betri skíðamönnum sem hérna var og var skíðastökkvari fyrst og fremst. Hann að vísu var nú sjómaður og þegar ég fer að komast á legg þá var hann mjög lítið heima. En í ættinni, og sérstaklega í þessari ætt sem kölluð var miðbæjarætt hérna, var mjög mikil hefð fyrir skíðaiðkun.“

En hvað um skíðakennslu á þessum árum þegar þú ert að alast upp?

,,Hún var engin. Samt verð ég að segja það að það kom hérna íþróttakennari, líklega ´49, Sigurður Guðmundsson, hann var ekki mikill skíðamaður sjálfur en hafði brennandi áhuga fyrir skíðamennsku, hann notaði mjög mikið íþróttatíma á góðum dögum, bæði með skauta og skíði, þannig að hann var ábyggilega töluvert mikill valdur af því að við iðkuðum svona mikið skíðin, hérna krakkar. Við meira að segja fórum, sem var nú alveg nýtt, fórum með báti til Dalvíkur og vorum þar í þrjá daga, kepptum og vorum þar með jafnöldrum okkar á Dalvík og þetta þótti mjög merkileg lífsreynsla.“

Hvað um önnur svona skíðaferðalög, var svo ekki farið eitthvað annað, eða eitthvað lengra?

,,Það var mjög lítið á þessum tíma. Það sem ég er að tala um er svona barna- og unglinga, það er ekki fyrr en löngu seinna. Ég fer á skíðamót ´57, þá 15 ára gamall, og þá verð ég Íslandsmeistari í stökki unglinga og þá var það lengsta sem maður hafði komið, þá var það á Akureyri á þetta landsmót. Þá fór ég nú að kynnast þessum skíðamönnum og köppum frá Siglufirði sem að náttúrulega vöktu á þessum tíma mesta athygli, og þar var t.d. jafnaldri minn Birgir Guðlaugsson og frændi og við vorum keppinautar alveg þangað til að hann hætti á skíðum. Þetta var mjög skemmtileg upplifun að hitta þessa frægu menn þarna, Siglfirðingana, Skarphéðinn Guðmundsson, Jónas Ásgeirsson og fleiri. Jónas Ásgeirsson kom hingað síðan, eftir að ég kem hingað heim, þá kemur hann og er hérna hjá okkur mánaðartíma og kennir hér á skíðum og þá fyrst og fremst skíðastökk en það var hann sem kom mér á gönguskíði, ég hafði ekkert verið á gönguskíðum, ég hafði farið þarna á unglingameistaramót sem var nú mjög sögulegt. Það var nú þannig að við fórum hér með póstbátnum Drang í leiðindaveðri, það var farið til Akureyrar og við áttum að keppa þarna á unglingameistaramóti, sem við og gerðum og það var þarna 1957. Þegar við komum á Akureyri þá beið eftir okkur vörubíll. Við vorum sjálfsagt einir 10-12 strákar og við vorum drifnir upp á vörubílspallinn og keyrðir upp í Hlíðarfjall. Enginn okkar átti gönguskíði en okkur hafði verið útveguð gönguskíði á Akureyri, af Ólafsfirðingafélaginu sem þar var.“ Strákarnir höfðu því ekki annan fótabúnað en stökkskóna og á leiðinni upp í fjall var verið að bora neðan í skóna fyrir skíðabindingarnar. Þegar komið var upp í fjall var brjálað veður og 10-15 stiga frost. ,,Við kunnum ekkert að bera á og við förum þarna norður fyrir hús með allt dótið okkar og erum þar í stórhríðinni þegar Jónas Ásgeirsson kemur og segir: strákar hvað eruð þið að gera, komiði nú bara niður til okkar og við skulum hjálpa ykkur. Svo við förum þarna niður í kjallara og það er farið að smyrja og svo hefst nú keppnin og þá var veðrið svo brjálað orðið að það sást ekki á milli stika í brautinni. Og þegar ég kem í mark, aðframkominn, þá er það eina sem ég get stunið upp einginlega strax: þið verðið að fara að hjálpa honum Sveini. Það var Sveinn Stefánsson vinur minn sem var þá bara örmagna út í braut í þessu vonda veðri. Og það voru sendir menn til þess að ná Sveini og þá hétum við því hérna Ólafsfirðingar að við skyldum aldrei stíga á gönguskíði aftur. Þannig að gönguiðkun var eiginlega engin hérna fyrr en þarna að Jónas kemur og skorar á mig að fara á gönguskíði til þess að ég gæti verið með í norrænni tvíkeppni og það var mikið gæfuspor því að síðan hef ég verið mikill áhugamaður um skíðagöngu.“ Áður var Björn Þór í stökki og svigi. Fyrstu árin í karlaflokki keppti hann alltaf í svigi en síðan í stökki.

Hvenær byrjaðir þú að keppa?

Björn Þór hlaut fyrsta Íslandsmeistaratitilinn 15 ára gamall. Ári seinna varr keppt í Reykjavík og þá var Siglfirðingurinn Birgir Guðlaugsson, frændi Björns Þórs, í fyrsta sæti. ,,Ég man mjög vel eftir því að það var stokkið í stærstu brekkunni sem þá var hér á landinu, Kolviðarhóli, og það var alvöru svona stökkbrekka og við Birgir vorum mjög sprækir, og vorum náttúrulega bara í unglingaflokki, og svo þegar það var búið að fara prufustökkið þá sáu þeir það að við myndum líklega bara stökkva lengra heldur en fullorðnu karlarnir. Svo við vorum látnir færa niður aðrennslið, fengum ekki að fara eins hátt upp í fjallið eins og hinir, en stukkum samt þarna, ég held að við höfum verið með tvö næstlengstu stökk, og þá vinnur Birgir þetta árið. Áður höfðum við stokkið þannig að við sveifluðum höndunum í hringi en þarna hafði ég séð mynd í Morgunblaðinu og þar sagði að Finnar væru farnir að stökkva með svokölluðum finnskum stíl, með hendurnar niður með síðum, og við fórum að prófa þetta og það gekk bara ágætlega. Siglfirðingar höfðu fengið þennan sama vetur, þarna ´58, finnskan skíðakennara til að koma og hann gerði alveg usla í þessu á Siglufirði og kom öllum til þess að stökkva með hendur niður með síðum. Svo þegar hann kom þarna þá fór hann að spurjast fyrir um það hvaða strákur þetta væri og hver væri þjálfari þessa stráks frá Ólafsfirði. Síðan var komið til mín og ég spurður eftir því hver væri að þjálfa mig og ég hafði aldrei heyrt minnst á þjálfara. Og hvernig lærðiru þetta sagði hann, ég sagði: nú ég sá mynd í Morgunblaðinu! ´59 var ég alveg ákveðin í því að Birgir frændi skyldi ekki komast upp með að vinna mig aftur og æfði hér nánast eiginlega einn, löngum, hér yfir í svokölluðu Kleifarhorni sem er hérna fyrir handan, og þar var aðal stökkbrautin okkar. Og það þótti nú mörgum ég vera kaldur að vera þarna aleinn að stökkva dag eftir dag eftir dag. Svo kom að landsmótinu, sem átti að halda á Siglufirði og ég var komin út á bryggju, og við strákarnir, með allt okkar hafurtask þegar okkur var tilkynnt það að vegna þess að það var inflúensa sem var að ganga um landið þá yrði ekkert skíðamót á Siglufirði þannig að ég missti af þessu ´59 ævintýri þegar ég ætlaði fyrst að sýna Siglfirðingum að það væru nú fleiri sem gætu stokkið heldur en þeir.“ Á þessum tíma voru fleiri strákar að stökkva á Ólafsfirði, og Björn Þór nefnir vin sinn, Svein Stefánsson. Sveinn var mikill áhugamaður um skíði og átti seinna meir eftir að stuðla að vexti skíðaíþróttarinnar á staðnum. Hann átti jarðýtur og hann bjó til þessar flottu brekkur, allt í sjálfboðavinnu og hann gróf fyrir skíðalyftustaurunum og átti því mikinn heiður að uppbyggingu skíðasvæðisins.

Var vinskapur á milli skíðafélaganna eða samkeppni?

Björn Þór segir að það hafi ekki verið mikill vinskapur á milli félaga en samkeppnin var mikil. ,,Ég man eftir því alveg hreint að þegar ég var farin að geta eitthvað og var á Siglufirði, ég var nú Íslandsmeistari þarna 10-11 ár í röð í stökki. Þegar maður var að starta í göngunni á Siglufirði, þá var sagt: látiði nú Ólafsfirðinginn ekki taka ykkur! Þannig að það var svona keppni en ég man aldrei eftir neinum leiðindum eða neitt svoleiðis en þetta var mjög skemmtilegt tímabil.“ Þetta var mjög heilbrigð samkeppni.

Hvernig var æfingum háttað?

Björn Þór fór á skíði daglega meðan að færi gafst. Ekki var um skipulagðar æfingar að ræða. ,,Það var alveg gefið mál að ef það var einhvers staðar loftkast þá var ég komin þangað. Alveg frá því að ég man eftir mér sem barn. Hérna í bænum til dæmis, bara hérna niður undan húsinu, var svokölluð hundakofabrekka, það var stokkið hérna, þar sem Tjarnarborg er, bara fram af brekkunni það voru engin hús þar og rennt sér niður á planið sem er við Tjarnarborg. Þar var stokkið. Það var náttúrulega engin bílaumferð, en það þurfti alltaf að vera einhver einn þarna niður frá á planinu og kalla koma! Og vera á verði að það væri enginn bíll á ferðinni.“ Þarna var stokkið dag eftir dag eftir dag. Brekkan var kölluð hundakofabrekka því þarna stóð hundakofi sem notaður var þegar hundar voru hreinsaðir. Björn Þór segir að það hafi skipt sköpum fyrir Ólafsfirðinga að það var allt í nágrenninu, það þurfti ekki að fara neitt til að æfa sig.

Það kom ekki skíðalyfta fyrr en 1978. Menn þurftu að hafa töluvert fyrir því að stunda skíðaíþróttina. Stökkpallar voru búnir til úr snjó sem handmokaður var með skóflum. Oft þurfti að moka nýja palla, stundum hvern einasta dag, ef það voru umhleypingar eða vont veður. Björn Þór segir að það hafi orðið litlar framfarir varðandi aðstöðuna, eða aðstöðuleysið frá byrjun 20. aldarinnar og fram eftir miðri öldinni. Hins vegar hafi útbúnaðurinn batnað og skíðin sjálf þróast og orðið betri. Björn Þór eignaðist þó ekki skíði sjálfur fyrr en hann fermdist, en þá fékk hann skíði í fermingargjöf frá móðurbræðrum sínum. Áður hafði hann fengið lánuð skíði, en skíði voru lánuð hingað og þangað. Einn veturinn var hann á skíðum sem gamall maður hafði lánað honum, þau brotnuðu og þá stökk Björn Þór á einu skíði. Stóran hluta úr vetri stökk hann á einu skíði en hann gat stokkið 15-20 metra á því. Þegar Björn Þór var átta ára fékk hann skíði sem föðurbróðir hans kom með eftir vertíð. Hægt var að kaupa skíði á Ólafsfirði af Brynjólfi Sveinssyni kaupmanni, en það var ekki sjálfgefið að til væru peningar á heimilum til að fjárfesta í slíkum útbúnaði fyrir börn. Brynjólfur var mikill skíðaáhugamaður og flutti sjálfur inn skíði og seldi.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina?

,,Það var nú aldrei verið að tala um neinn kostnað, maður keypti sér skíði og átti þau í kannski 5,6,7 ár án þess að skipta. Jújú, auðvitað var það svoleiðis að maður var að vinna hérna sem unglingur, það var nóg vinna handa unglingum á þeim tíma. Og auðvitað varð maður að leggja eitthvað til og þá kannski voru mamma og pabbi farin að, svona aðeins, að gauka að manni, að maður gæti fengið sér einhverjar græjur sko.“

Aðrar íþróttir

Fótbolti var aðalíþróttin á sumrin. Skautar og skíði á vetrum. Sundið var einnig hátt skrifað og áttu Ólafsfirðingar Íslandsmeistara í sundi, Jón Þorvaldsson, föður Þorvaldar Jónssonar skíðamanns. ,,Eftir ´49, þegar barnaskólinn er byggður, þá er byggður líka íþróttasalur og þá fara að koma mikið fleiri íþróttir inn í þetta og körfubolti var t.d.töluvert mikið stundaður og fimleikar. Ég var nú svo heppinn að ég lenti strax inn í fimleikaflokki hjá Sigurði Guðmundssyni. Við vorum kallaðir litlu Arabarnir og fórum vítt og breitt um landið með Sigurði og þegar ég kem hingað heim ´63 þá stofna ég svona flokk.“ Flokkurinn hans Björns Þórs sýndi líka um allt land. ,,Þetta voru svolítið sérstakir fimleikar, voru kallaðir acrobatic, ég kastaði þeim hingað og þangað, þeir stóðu á höndum upp á höndunum á mér og á fótunum á mér og annað því um líkt og þótti merkilegt í þá daga. Við fórum meira að segja í sjónvarpið, fórum í barnatíma sjónvarpsins.“ Björn Þór segir að skíði og fimleikar hafi farið mjög vel saman.

,,Þegar ég kem heim hér ´63, ég verð nú eiginlega að segja eins og er, þá byrjar skíðaiðkun af einhverri alvöru. Þá er ég náttúrulega orðin íþróttakennari og verð þjálfari hérna fyrir börn og unglinga og þá varð alveg stökkbreyting. Svo fljótlega í framhaldi af því, ´65 minnir mig, þá stofnum við skíðadeild innan íþróttafélagsins og þá varð gróskan ennþá meiri. Þetta var alveg ótrúlegur tími, svo verð ég Íslandsmeistari ´65 í karlaflokki, fyrsti Íslandsmeistari Ólafsfirðinga sem keppti fyrir Ólafsfjörð. Það voru nú að vísu Ólafsfirðingar sem voru búnir að verða Íslandsmeistarar, eins og Eysteinn Þórðarson, og bróðir hans Jón Þórðarson. Þá keppti Eysteinn fyrir Reykjavík og Jón keppti fyrir Akureyri, eða Menntaskólann á Akureyri. Þannig að þeir töldust nú kannski ekki hafa keppt fyrir Ólafsfjörð. Svo er Svanberg Þórðarson Íslandsmeistari í stökki ´66 og ´67 og síðan varð ég bara Íslandsmeistari í mjög mörg ár. Þegar kemur einn svona maður, eða tveir, þá fylgir svo rosalega margt á eftir þessu. Og það bara flykktust allir hér til að fara að æfa stökk og svig og svo þegar gangan kom náttúrulega. Svo fer ég þarna til Noregs og er þar í einn vetur í íþróttaháskólanum og kynni mér þá þjálfun í stökki og göngu og það er ´73-´74 og eftir það vorum við bara einráðir hérna á stórum köflum sko. Það kom fyrir að við áttum hvern einasta Íslandsmeistara í skíðagöngu, bæði í unglingaflokkum og karlaflokki og svo skíðastökki. Þannig að þetta tímabil eftir ´65, það var alveg ótrúlegt. Ég var svo lítið heima að börnin mín sem seinna komu, þau þekktu mig ekki, því ef ég var ekki með krakka einhvers staðar á skíðum eða annað þvíumlíkt þá var ég niður í íþróttahúsi með körfubolta og annað þvíumlíkt. Þetta tímabil var alveg eins og ég segi ótrúlegt, það voru svo margir sem tóku þátt. Og svo fóru bæjarbúar að taka eftir þessu og þá fór þetta að verða allt svo mikið léttara. Bæjarbúar fóru að styrkja okkur mikið fjárhagslega.“ Mikið var um einstaklingsframlög og skíðafélaginu tókst að safna fyrir troðara með stuðningi frá bæjarbúum. Björn Þór var formaður bygginganefndar skíðalyftunnar og sat í bæjarstjórn í fimmtán ár. Skíðalyftan var tekin í notkun 1978 og þá fóru mjög margir að stunda svig. Einnig var sett upp lítil lyfta við stökkbrautina í Kleifarhorninu og það auðveldaði mönnum mikið. ,,Síðan bara hefur skíðaiðkun verið rosalega mikil og almenn.“ Á Ólafsfirði er líka lítill stökkpallur, sem er æfingapallur fyrir börn og var hann byggður í kringum 1967-´68. ,,Hann er bara byggður í sjálfboðavinnu, ég fékk verkfræðing í Reykjavík til þess að teikna þetta fyrir mig og svo fengum við þetta samþykkt, að setja þetta þarna á túnið og hann var rosalega mikið notaður. En hann hefur ekki verið notaður í tíu ár og það er fyrir það að stökkið hefur náttúrulega bara verið lagt niður sem keppnisgrein. Við vorum nánast orðnir bara einir hérna Ólafsfirðingar svo það var orðið tilgangslaust að vera með þetta. En því miður féll stökkið alveg út, það hefði mátt stökkva náttúrulega áfram en þegar engin hvati er framundan þá náttúrulega þýðir ekki að vera með neitt. Þannig að þessi stökkpallur er bara svona bæjarprýði.“

Björn Þór varð Íslandsmeistari í stökki og norrænni tvíkeppni ein tíu-ellefu ár í röð. Einnig var hann í fyrstu boðgöngusveit Ólafsfirðinga sem varð Íslandsmeistari. Með honum í sveitinni voru Haukur Sigurðsson og Jón Konráðsson. ,,Þá voru þeir eiginlega báðir unglingar og Jón meira að segja fékk að keppa á undanþágu. Ísfirðingarnir sögðu þegar það var beðið um undanþáguna: já, við leyfum stráknum að vera með, það var Jón Konráðsson og hann skilaði, ég man ekki hvað mörgum mínútum til næsta manns.“ Eftir það urðu Ólafsfirðingar Íslandsmeistarar í boðgöngu tíu ár í röð. ,,Þá var ég ekki í fararbroddi, því þá voru þessir ungu strákar, eins og Haukur og Jón og Gottlieb og Þorvaldur og Finni Víðir.“ Björn Þór segir að allir þessir strákar hafi verið alveg rosalega góðir. ,,Þorvaldur Jónsson væri á heimsmælikvarða hefði hann haldið áfram. Þetta var svo fjölhæfur íþróttamaður að það var alveg ótrúlegt.“ Þorvaldur er Íslandsmeistari frá ´82-´86. Björn Þór varð Íslandsmeistari 1981 en árið 1987 varð Ólafur, sonur Björns Þórs Íslandsmeistari. Björn Þór fór til Finnlands á vinabæjarmót með  Þorvaldi og Finni Víði. ,,Það var sett upp mót fyrir okkur og finnarnir voru svo gáttaðir sko, þeir unnu með miklum yfirburðum og urðu í tveim fyrstu sætunum. Að strákar frá Íslandi kæmu og sigruðu finna í skíðagöngu, það var merkilegt.“

 

Hafði þessi mikla skíðaástundun áhrif á vinnu eða skóla yfir veturinn?

,,Nei, það held ég ekki. Allir krakkarnir sem voru á skíðum og unglingarnir, þeir stóðu sig best í skóla, það var bara þannig. Það fer einhvern veginn saman finnst mér. Sko íþróttaiðkun, ef hún er stunduð af kappi þá skipuleggja krakkarnir oft tímann sinn öðruvísi og betur. Þannig að t.d. okkar krakkar allir voru alveg á kafi í þessu. Ég held að það sé ekki til heimili sem á fleiri Íslandsmeistaratitla en þetta heimili. Ég er þarna með 21, Ólafur er sjálfsagt með 10-15, Kristinn með, ja ég veit ekki hvað náttúrulega, eitthvað svipað sko, þannig að þetta hefur verið snar þáttur í þessu heimilishaldi, það er skíðaiðkun.“

Hvað með verðlaun, voru alltaf veittir bikarar?

Á Íslandsmótum voru alltaf bikarar. Það er ekki fyrr en á seinni árum, eftir 1970 sem bikarar fara að sjást á minni mótum. Björn Þór er með einn bikar í fórum sínum sem tilheyrði skíðakóngi Íslands frá 1936. Hann vill ekki láta hann af hendi fyrr en skíðasafn hefur verið sett á fótinn. Á bikarinn eru grafin nöfn þeirra sem hafa hlotið hann frá upphafi. Þegar Björn Þór var unglingur voru komnir verðlaunapeningar og svo voru alltaf veitt viðurkenningaskjöl.        

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?

,,Ég get nú varla sagt það. Maður sá myndir af Birni Wirlcola, Birgi Rooth, í myndablöðum og annað þvíumlíkt og auðvitað langaði mann til þess að gera eitthvað vel. Ég hef alltaf verið mjög ástundunarsamur, reglusamur náttúrulega.“

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður að búa yfir?

,,Það er fyrst og fremst maðurinn sjálfur, skapgerð hans og annað þvíumlíkt sem ræður því hvað maður nær langt.“ Viðkomandi þarf að setja sér raunhæf markmið og leggja hart að sér til þess að ná markmiðum sínum. ,,Ástundun og reglusemi er náttúrulega frumskilyrði fyrir því að menn nái langt. Þegar ég hugsa til minna krakka, eins og Kristins og Ólafs, þá er það fyrst og fremst það sem skóp þeirra skíðaiðkun, reglusemi og ástundun og vita það að maður þarf að leggja mikið á sig til þess að ná markmiðum sínum. Ég var aftur á móti ekki íþróttamaður sem var með nein stórkostleg plön um það að ná langt, ég hafði bara gaman af þessu. Ég hef alltaf haft gaman af því að vera meðal barna og unglinga. Ég er búin að vera hérna heima í Ólafsfirði í 46 ár, síðan ég kom úr skóla og ég hef aldrei tekið laun fyrir þjálfun. Það sýnir bara það að ég hafði áhuga fyrir því sem ég var að gera og það skipti mig ekki mjög miklu máli þótt ég væri ekki með vasa fulla af peningum.“

Hvað með keppnisskap? Hvaða máli skipti það fyrir árangur og afköst?

„Já, það skiptir mjög miklu máli, en það er ekki það að þú eigir að vera reiður, keppnisskap fellst ekki í því. Keppnisskap fellst í einbeitingu, að geta einbeitt sér að því sem þú ert að gera.“ Björn Þór segir að vissan um það að hann gæti gert það sem hann ætlaði sér, hafi hjálpað honum þegar hann var að keppa. Hann þurfti að einbeita sér að því að hann gæti gert hlutina og þá gekk allt vel.

Hafðir þú sjálfur einhverja aðferð til þess að fókusa, eða til einbeitingar fyrir mót eða keppni?

,,Nei, en svona hjátrúin sko. Það var þannig að ég var eiginlega ekki í rónni nema vera með vettlinga frá henni ömmu. Það er rosalega skrítið. Hún var mikil prjónakona og ég hafði mikið dálæti á henni og hún á mér. Alla tíð hafði hún prjónað vettlinga þegar hún vissi að ég var að fara á skíðamót, landsmót. Þetta voru alltaf hvítir prjónavettlingar. Ég hafði ákveðna öryggistilfinningu að hafa vettlingana, svo var það að hún deyr. Það er síðan skíðamót um páska, um vorið. Og hún er dáin. Þá kemur dóttir hennar með vettlinga og segir: þetta er frá henni mömmu. Þetta voru síðustu vettlingarnir.“

Kannastu við hugtökin skíðakóngur og skíðadrottning?

Björn Þór kannast við það. Skíðakóngur er sá sem er Íslandsmeistari í stökki og göngu eða norrænni tvíkeppni eins og það var kallað. Seinna var talað um skíðadrottningar. ,,Það má náttúrulega ekki gleyma því að það voru að koma þarna mjög frægar skíðakonur, sérstaklega frá Ísafirði, Marta Bíbí Guðmundsdóttir og Karolína Guðmundsdóttir og fleiri og fleiri, og auðvitað voru þær kallaðar skíðadrottningar.“ Ekki voru margar konur á Ólafsfirði sem kepptu í skíðaíþróttinni fyrr en Björn Þór kom aftur heim og byrjaði með skipulega æfingastarfsemi. ,,En við teljum okkur eiga fyrsta Íslandsmeistarann í svigi kvenna, en hún er skráð frá Siglufirði. Hún heitir Emma Árnadóttir.“

Getur þú lýst þeirri þróun sem verður í bindingum og skíðum og öllum útbúnaði?

,,Þegar ég fer að fara á skíði þá eru gormabindingar, bindingar sem eru með smellu og gormur aftur fyrir hælinn. Það voru allir á þessu, í mörg, mörg ár. Síðan kemur að því að það er farið að setja ól utan á skíðin og þá gat maður fest það yfir ristina þannig að maður var orðinn fastur í skíðinu, það var þegar maður var í sviginu. Það er um að gera að vera nógu laus um hælinn þegar maður er í stökki og göngu. Síðan koma ólabindingar – að maður skyldi láta sér detta í hug að renna sér með þessum ólabindingum vegna þess að fóturinn var alveg fastur við skíðin – alveg fastur við skíðin. Og það voru allir á tímabili, svona um ´65 og kannski til ´70 þá voru allir með ólabindingar, bara heilt yfir landið. Síðan fara að koma þessir öryggisbindingar, þar sem táin er laus og hællinn snýst. Þessi þróun verður svona og skíðaskórnir náttúrulega fara að vera mikið betri, þeir fara að verða hærri og fara að verða harðari. Meira að segja í skíðastökki, var um að gera að vera með lága skó þannig að öklinn var alltaf laus. En svo þróuðust þeir í það að þeir voru mjög háir að aftan, þeir náðu alveg upp á kálfa að aftan en þeir voru opnir að framan, það var til þess að geta farið framm í en setið frekar aftarlega á skíðunum þegar þú varst að renna þér. Við fylgdum alveg þessari þróun hérna, strax og það voru einhverjar nýjungar, þá voru menn komnir með það hér.“

Segðu frá fatnaði og keppnisbúningum

Það voru sérstakar stretch buxur, þær voru frekar víðar en mjókkuðu niður, með teygju undir ilina. Oft var saumur eftir endilöngu að framan, og þetta þóttu rosalega flottar buxur. Prjónaðar peysur voru mjög mikið notaðar, þó ekki ullarpeysur. ,,Þegar pabbi keppir síðast, líklega ´39 eða ´40, þegar þeir fara til Ísafjarðar að keppa, þá eru þeir búnir að koma sér upp búning, það er að segja peysum og svona buxum og þeir voru kallaðir gula bandið.“ Þá var fólk farið að huga að einhverjum einkennisbúningum fyrir sitt lið og Ólafsfirðingarnir voru í bláum peysum með gulu hálsmáli og gulri rönd. Helstu keppinautar Ólafsfirðinga voru á þessum tíma Siglfirðingar. Það voru þessir tveir bæir – sem nú eru orðnir að einum – sem voru fremstir á sviði skíðastökks.

Helge Torvö kom til Ólafsfjarðar 1930 og eitthvað. Helge var á Ólafsfirði í mánaðartíma til að kenna strákunum að stökkva. Faðir Björns Þórs var einn nemenda hans og reyndar líklega sá besti vegna þess að hann bauð honum að koma með sér til Noregs. ,,En auðvitað var það ekkert inn í myndinni hjá þessu fólki sem ekki átti einu sinni fyrir grautnum.“ Björn Þór fékk ekki kennslu hjá föður sínum, enda var hann aldrei heima. ,,Sjómaður sem fór á vertíð í janúar og kom heim í maí og var svo farin aftur á síldina um miðjan júní. Kom svo heim kannski í september-október. En hann fór mjög mikið á skíði og það var tekið eftir því hérna, sem gamall maður.“ Þegar skíðastökkpallurinn á Ólafsfirði var vígður þá stukku þeir feðgar saman fram af pallinum.

Skíðadeild Leifturs er ekki stofnuð á Ólafsfirði fyrr en 1968. ,,Síðan gerðist sá hörmulegi atburður hér að knattspyrnudeildin fór á hausinn og þá vorum við búnir að byggja upp fjallið. Við byggðum skíðalyftuna, allt í sjálboðavinnu, við byggðum skíðaskálann og áttum hann skuldlausann og allt þetta skuldlaust. En einhverra hluta vegna, og það er mjög þungt í okkur ennþá, þá voru allar þessar eignir teknar af félaginu og settar inn í bæinn.“ Skíðaskálinn var byggður upp á tveimur sumrum án þess að tekið væri lán fyrir honum. Þeir sem lögðu fram starfskrafta sína fengu ekkert borgað fyrir og finnst þeim ekki sanngjarnt að bærinn skuli hafa tekið þetta yfir. Viðhorf fólks breyttust mikið gagnvart skíðadeildinni eftir að bærinn tók yfir allar eigurnar. Áður hafði verið leikur einn að fá rafvirkja eða smið eða hvern sem var til að gera við eða laga eitthvað og allir voru boðnir og búnir að gefa vinnu sína. Hins vegar horfir öðruvísi við núna og fólk vill fá eitthvað fyrir sína vinnu. Nú eru gerðir reikningar fyrir allri vinnu sem skrifast á bæjarfélagið. Björn Þór segir að það hafi verið mikil mistök að taka yfir eignir félags sem byggir allt sitt á sjálboðavinnu, það drepur allt sjálboðastarf niður.

Björn Þór var formaður skíðadeildarinnar í 10 ár. Hver einasti fundur var skráður á þessu tímabili í fundargerðabækur og þar er að finna mjög miklar heimildir.  

Hvernig var keppnisandinn í félaginu?

,,Hann var mjög fínn. Þetta var svo skemmtilegt tímabil, eftir 1970, að það var alveg með ólíkindum, ferðalögin voru svo skemmtileg, það var alltaf verið með grín og gaman. Haukur Sigurðsson, hann spilaði á gítar, það var alltaf farið með gítar í ferðalög, það var alltaf verið að syngja og sprella. Sama hvort verið var að fara á Ísafjörð eða Siglufjörð eða Akureyri, allaf þurftum við náttúrulega að gista, meira og minna. Stundum veðurtepptir á Ísafirði, upp undir viku. Þetta voru svo skemmtileg tímabil og samheldnin í félaginu. Samheldnin í Ólafsfirðingum í kringum þetta skíðalið það var eiginlega alveg með ólíkindum, það vildu allir allt fyrir okkur gera. Eftir að við vorum búnir að koma bænum svona hressilega á kortið, það var fjallað um það í útvarpi, fjallað um það í sjónvarpi, öll blöð voru full af myndum og frásögnum af skíðalandsmótum. Bæjarbúar voru allir með okkur.“ Það var mikil stemmning fyrir keppnir og mót, sérstaklega heima á Ólafsfirði. Þar þurfti heldur ekki að fara langt til að fylgjast með og þess vegna komu enn fleiri en ella. Göngubrautin er alveg við bæinn, þar sem startað er niður við Tjörnina. Siglfirðingar, Ísfirðingar og Akureyringar voru helstu keppinautar Ólafsfirðinga í göngunni á þessum árum. Síðan gerist það að Siglufjörður dettur út. ,,Það er sorglegt til þess að vita að ég hef ekki séð keppanda frá Siglufirði síðastliðin 15 ár.“

,,Ánægjulegasta Íslandsmót sem ég vinn, finnst mér, það er á Siglufirði, af því að þar voru allir þessir bestu, Birgir og Skarphéðinn og fleiri og fleiri. Og þá vinn ég skíðastökkið í Stóra Bola, sem kallaður var. Þar sem snjóflóðavarnargarðarnir eru núna.“ Stökkpallarnir þóttu flottir og svo var mikill fólksfjöldi að horfa á. ,,Nánast allir bæjarbúar komu og röðuðu sér þarna í brekkurnar. Þetta var mikið ævintýri fyrir okkur að koma á Siglufjörð og geta sigrað allra bestu skíðastökkvara Siglufjarðar, það var mikið ánægjuefni fyrir okkur sem vissum að þetta voru okkar helstu keppinautar. En svona upp úr því þá fer þetta mjög að dala á Siglufirði. Núna síðustu ár hafa þeir ekki verið með í skíðagöngu, nema Magnús Eiríksson náttúrulega, sem kemur alltaf og er alltaf ótrúlega duglegur og seigur, en hann er bara einn í skíðagöngunni.“ Hins vegar er skíðaiðkun barna á Ólafsfirði enn mjög mikil, og fara 60-80 börn þaðan á Andrésar leikana á hverju ári. Æfingar barnanna hafa að miklu leyti farið fram á Dalvík, þar sem snjóframleiðsluvél er í fjallinu þar. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga er líka farið að hugsa til Siglufjarðar með æfingar. Björn Þór vonar og treystir því að skíðalyfta verði áfram starfrækt á Ólafsfirði. Hann telur að skíðaiðkun barna sé almenn á Ólafsfirði vegna þess að aðstaðan er svo nálægt, það er hægt að sjá hvort einhver er í lyftunni og það hefur margföldunaráhrif þegar einn er mættur. Nú er líka komin mjög fín göngubraut, frá skíðaskálanum og inn hlíðina. Hún er 5 km löng og næstum öll upplýst. 3,5 km hringurinn er mest notaður, því hann er allur upplýstur.

Hverjar voru vegalengdir í göngu?

Vegalengdir í göngu hafa eiginlega ekkert breyst. Það er keppt í 10, 15 og 30 km og síðan í boðgöngu. „Boðganga var lengi 4x10 en svo þegar fór að fækka á stöðunum þá var breytt í 3x10 en núna síðustu ár þá er hún orðin 3x7,5. Að öðru leyti hafa vegalengdir ekki breyst.“

Breyting á veðurfari hefur ógnað skíðaíþróttinni síðustu ár. Síðasta vetur var skíðasvæðið á Ólafsfirði ekki opið nema í 20 daga og stundum hafa dagarnir verið enn færri á síðustu árum. Björn Þór segir að það gangi betur að halda utan um gönguskíðahópinn, nýverið voru um 30 krakkar á gönguskíðaæfingu. Undanfarna vetur hafa krakkarnir verið keyrðir til Dalvíkur á æfingar, jafnvel hvern einasta dag. ,,Samstarfið við Dalvíkinga er búið að vera alveg frábært, við höfum haldið fimm Íslandsmeistaramót saman, gangan hefur alltaf verið hérna, einu sinni var svig hérna í fjallinu.“ Björn Þór segir að það þurfi 20, 30, 40, 50 manns til að halda utan um eitt landsmót.

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir?

,,Þetta var oft byrjað svona seinni partinn í nóvember og byrjun desember og yfirleitt fékk maður góðan snjó á jólum, en svona kraftur í þetta kom aldrei eiginlega fyrr en eftir áramót. Auðvitað vorum við, þessir eldri, við vorum náttúrulega að hlaupa hér og annað þvíumlíkt og þessir strákar eins og Þorri og Hannes, við vorum að hlaupa hér öll haust og sumur, sama hvernig var sko.“ Svona var markvisst æft til þess að koma sér í sem best form áður en snjórinn kom, svo um leið og snjórinn kom voru menn komnir á skíðin. ,,Þannig að þetta var orðið langt tímabil, enda þarna voru strákar sem voru náttúrulega komnir í landslið. Þeir voru valdir þarna í skíðalandslið Haukur og Jón og Gottlieb. Haukur er búin að fara á ólympíuleika og Gottlieb er búin að fara á ólympíuleika og Jón er búin að fara á heimsmeistaramót. Þannig að þetta voru menn sem voru að æfa af krafti.“ Þeir unnu fulla vinnu en æfðu í frítímum, enda ekki annað í boði hér á landi.

Hversu algeng og alvarleg voru slys og meiðsli?

,,Þau voru nú ekki algeng. Hér hafa ekki orðið alvarleg slys. Auðvitað voru menn að fótbrotna, og handabrotna og annað þvíumlíkt. En ekki alvarlega, eini sem hefur slasast alvarlega það er ég. Ég var á skíðalandsmóti á Siglufirði 1973. Við vorum að stökkva upp á Hvanneyrarskál og það kom svona vindhviða í skíðastökkinu og ég snerist við og lenti á höfðinu og hálsbrotnaði. Ég var nú mjög heppinn. Ég man nú eiginlega ekki eftir mér fyrr en bara niður á sjúkrahúsi, ég var færður í körfu og fluttur þangað niður eftir. Það voru teknar af mér myndir en sást nú ekki neitt.“ Það var ekki fyrr en fyrir 10-15 árum sem Björn Þór fékk að vita að hann hefði hálsbrotnað, en hann býr við skerta hreyfigetu í hálsi. Þarna höfðu þrír hryggjaliðir sprungið og vaxið saman.

Er eitthvað eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni?

,,Það eru eiginlega tvö skíðamót sem standa alveg upp úr. Það er þetta fyrsta skíðamót ´65, þegar ég verð fyrst Íslandsmeistari, það er þegar ég verð Íslandsmeistari á Siglufirði, þó ég væri búinn að vera ein tvö ár á undan Íslandsmeistari líka, það er ´70, þegar ég vinn þar í Stóra Bola og svo í fyrsta skipti sem við verðum Íslandsmeistarar í boðgöngu. Það er eiginlega toppurinn á skíðum, það er að verða Íslandsmeistari í boðgöngu, og það gerðist á Akureyri. Þessi þrjú mót svona standa upp úr. Auðvitað mjög mörg mót sem ég man eftir voru skemmtileg fyrir okkur, ekki vegna þess að ég væri að vinna, heldur bara hópurinn var að vinna og þetta var svo frábært fólk sem var í kringum þetta.“

Hvernig var ferðalögum háttað?

Það var alltaf farið með flugi til Ísafjarðar og þá var orðið beint flug frá Akureyri til Ísafjarðar. Farið var á litlum rellum, með tilheyrandi hávaða og hristingi. Stundum var flogið til Siglufjarðar, því þá voru flugvellir á báðum stöðum. Stundum var farið sjóleiðina til Siglufjarðar og Dalvíkur.    

Björn Þór hefur alla tíð komið mikið að félagsstarfi og þjálfun skíðakrakkanna og hefur það stundum komið niður á hans eigin tíma til æfinga og undirbúningi fyrir mót. ,,Menn héldu alltaf á Siglufirði að af því að ég væri kennari þá hefði ég svo mikinn tíma til að æfa mig. En ég var í bæjarstjórn í 15 ár og ég var hérna á kafi í mjög mörgu, ég hef verið mikill áhugamaður um söng og verið í kórum og annað þvíumlíkt og ég hafði alltaf nóg að gera. Ég var aldrei þessi dæmigerði íþróttamaður sem æfði allt árið. Ég held að ég hafi búið að því að ég var svona líkamlega hraustur og var að taka þátt í mörgu.“


header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya