7. desember 2010
Að heimili Ármanns Þórðarsonar, Ægisgötu 1, Ólafsfirði.
Ármann Þórðarson er fæddur 22. janúar 1929 á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði. Ármann er þar alin upp og bjó á sveitabænum Þóroddstöðum til 1960 er hann flutti í þéttbýlið í Ólafsfirði. Móðir Ármanns var frá Breiðafjarðareyjum en faðir hans, Þórður Jónsson var að norðan. Þórður var fæddur 12.12.1897 og uppalin á Þóroddstöðum frá fimm ára aldri. Þórður gegndi stöðu oddvita um skeið og fór þá gangandi í bæinn hvern einasta dag, um 6 km leið. Árið 1953 fluttu foreldrar hans suður og Ármann tók við búinu á Þóroddstöðum. Hann hafði þá stundað nám í tvo vetur við bændaskólann að Hólum.
Skíði voru mikið notuð til að koma sér á milli staða, enda oft mikill snjór. Það var ekki um annað að ræða á veturna en að nota skíðin. ,,Við systkinin vorum öll mikið á skíðum, við höfðum gaman af því að vera á skíðum.“ Systkinin voru sex talsins, ein systir og fimm bræður. Þau fóru m.a. í skólann á skíðunum, en kennsla fór fram á næsta bæ við Þóroddstaði. Einnig var farið á skauta. Elsti bróðirinn, Jón, var fæddur 1921. Hann lærði skíðastökk hjá Helge Torvö, norskum skíðakennara sem var á Siglufirði og Ólafsfirði 1934. Jón tók þátt í skíðalandsmóti á Ísafirði 1939 ásamt fleiri Ólafsfirðingum. Næstur í systkinaröðinni var Sigurður, fæddur 1923. Sigurður varð Íslandsmeistari í stökki 1948. Hann var fyrst og fremst í skíðastökki, minna í svigi. Ármann var mikið með þessum eldri bræðrum sínum og lærði af þeim frá því að hann var krakki. Eftir að þeir fóru að heiman var hans hlutverk að kenna hinum yngri. Næst honum í aldri var Sigríður og sótti hún námskeið í skíðaíþróttinni sem haldið var á Ólafsfirði. Ungmennafélagið í sveitinni stóð gjarnan fyrir slíkum námskeiðum. Íþróttafélagið hét á þeim tíma Íþróttafélagið Sameining en var seinna breytt í Leiftur. Næstur á eftir Sigríði kom Eysteinn en hann var einhver besti skíðamaður landsins um tíma. Eysteinn afrekaði m.a. að verða fimmfaldur Íslandsmeistari á skíðalandsmóti á Ísafirði 1956. Þá vann hann allar alpagreinarnar og stökkið líka. Á þessu móti var Eysteinn fluttur suður og var farinn að keppa fyrir ÍR, Íþróttafélag Reykjavíkur. Yngstur systkinanna var Svanberg Þórðarson, fæddur 1938. Ármann hætti að keppa um 1953 og tóku þá bræður hans, Eysteinn og Svanberg við.
Ármann fór í fyrsta sinn á skíðalandsmót á Akureyri 1946. Þá hafði hann eignast nokkuð góð skíði, með stálköntum. Keppt var í svigi, bruni og stökki, ásamt göngu. Á þessum tíma var hins vegar ekki lögð stund á göngu í Ólafsfirði, a.m.k. ekki sem keppnisgrein, en Ármann keppti í öllum hinum greinunum. Skíðagangan var fyrst og fremst notuð til að komast á milli staða en ekki var æft eða keppt í göngu í Ólafsfirði á þessu tímabili. Ármann hætti að æfa og keppa fljótlega eftir að hann tók við búi foreldra sinna að Þóroddstöðum 1953 og segir að það hafi einfaldlega verið sökum tímaskorts.
Ármann hefur verið á skíðum frá því að hann man eftir sér. Hann hefur ekki upplifað það að renna sér á
tunnuskíðum, þó að fyrstu skíðin hafi nú ekki verið merkileg. Krakkar fóru snemma að leika sér á skíðum og var
það partur af daglegu lífi þeirra. Það var nóg af sköflum og nóg af snjó til að leika sér á skíðum allann
veturinn. Skammt frá Þóroddstöðum var hægt að búa til nokkuð góða stökkbrekku, að vísu ekki stóra, þar var
hægt að stökkva 20-30 metra. Stökkpallurinn var hlaðinn upp með snjó. ,,Það þurfti að hafa mikið fyrir hlutunum alltaf. Ég man að
ég fór á landsmót á Siglufirði 1950 sem haldið var um páskana eins og venja var, þá mátti ekki keppa á föstudaginn
langa. Ég slóst í för með Akureyringum og fleirum til að labba á föstudaginn upp á Illviðrishnjúk, þar átti brunkeppnin
að vera á laugardeginum fyrir páska. Okkur langaði til að skoða brautina fyrir keppnina daginn eftir. Þetta reyndist mikið labb, ekkert var farið á
bíl, þarna var allt ótroðið og sumstaðar djúpur snjór, við þurftum því að troða og þjappa upp alla brautina sem var
nokkuð löng. Við gátum svo rennt okkur eina ferð niður væntanlegat keppnissvæði, í þetta fór allur dagurinn."
Daginn eftir var komin öskrandi stórhríð og ekkert hægt að keppa. Það var svo ákveðið að brunið færi bara fram þarna einhvers staðar við hliðina á Stóra bola sem er á Siglufirði. “ Guðmundur Ólafsson frá Ólafsfirði, sem var að keppa á þessu móti, fór á stökkskíðum í brunið og gekk ágætlega. Þó svo að skíðin væru mikið samnýtt á milli keppnisgreina voru yfirleitt sérskíði í stökkið. Guðmundur þessi áleit að hann næði meiri hraða á stökkskíðunum heldur en þeim svigskíðum sem þá voru.
Hvernig hafa skíðin breyst? Hvernig hefur þróunin verið?
Fyrstu keppnisskíði Ármanns voru með stálköntum en ekki sólum, eins og komu seinna. ,,Fyrst voru bindingar, gormabindingarnir sem kallaðir voru. Maður gat spennt gormana niður á hliðina og svo gat maður losað þá ef maður þurfti að ganga og þannig útbúnað vorum við aðallega með. Svo komu ólar, gjarnan sett gat í gegnum skíðið og ólar voru bundnar við það. Það var náttúrulega alveg svakalegt, það var ekkert öryggi í því.“ Þannig voru menn alveg fastir í skíðinu og gátu ekkert losað sig. Seinna kom öryggistá, sem hægt var að sleppa út úr.
Skíðin voru eitthvað látin ganga á milli systkinanna en Ármann segir að hann hafi alltaf verið að reyna að fá sér betri og betri skíði. ,,Frændi minn, bróðir pabba, Ágúst Jónsson, hann fór að smíða skíði. Hann framleiddi heilmikið af skíðum sem voru kölluð Leifturskíði og ég man eftir því að Jón bróðir, hann var elstur, hann átti stökkskíði sem eru breið með þremur skorum, þau smíðaði Ágúst. Hann smíðaði mikið af skíðum fyrir marga.“ Þetta þóttu góð skíði þá. Það var ekki mikið flutt inn af skíðum á þessum árum , þetta var á stríðsárunum og ekki um það að ræða að fá innflutt skíði. ,,Einhvern tíma eftir stríðið þá man ég að ég eignaðist einhver hvít skíði sem voru flutt inn einhvers staðar frá Norðurlöndunum, held ég framleidd fyrir herinn. Þung, en að öðru leiti svo sem þokkalega góð. Fyrstu skíðaskórnir sem ég fékk, það voru einhverjir hermannaklossar sem bróðir minn útvegaði mér. Fyrstu bindingarnir sem ég man eftir að hafa notað sem barn voru svokölluð tábönd, síðan var festur á skíðiðstubbur af 5-6 cm breiðri vélareim undir tábandið sem náði jafn langt aftur og hællinn á skónum, síðan kom leður aftan við hælinn sem fest var við reimina, úr þessu leðri var spennd ól yfir ristina. Þetta var betra en tábandið með gúmmíteygju aftur fyrir hælinn sem oft var notað á þeim skíðum sem ég man fyrst eftir.“
Ármann segir að systkinin hafi að sjálfsögðu átt einhver skíði sem börn og unglingar. Brynjólfur Sveinsson flutti inn stálkanta og seldi á Ólafsfirði. Ármann setti stálkanta á fyrstu keppnisskíðin sín sjálfur og setti svo stálkanta á fleiri skíði fyrir Brynjólf. Um 1950 fór Brynjólfur að flytja inn samanlímd skíði, sem kölluð voru splitt kein og þau voru með plastsóla og stálkanti. ,,Það var mjög mikil framför.“
Það var einhvern tíma á árunum 1944-46 sem Ármann fór að æfa fyrir alvöru. Hann var búin að æfa töluvert
fyrir fyrsta landsmótið sem hann tók þátt í á Akureyri 1946. Þá var alpagreinunum; sviginu og bruninu skipt í þrjá
flokka, menn byrjuðu í c flokki, unnu sig upp í b og síðan upp í a. ,,Og ég byrjaði náttúrulega í c flokki. Við
Ólafsfirðingarnir stóðum okkur nokkuð vel á þessu móti, t.d. skiptum við Ásgeir Eyjólfsson úr Reykjavík með okkur
fyrstu verðlaununum í bruni. Bróðir minn, Sigurður var að hjálpa okkur með einhvern áburð, þá þurfti að bera
áburð undir auðvitað, eins og alltaf er gert.“ Ármann segir að það hafi verið viss kúnst að bera undir skíðin. Þeir voru
fjórir frá Ólafsfirði sem fóru á þetta landsmót 1946. Auk Ármanns voru það Stefán Ólafsson, bróðir
Guðmundar Ólafssonar, Gunnlaugur Magnússon og Guðmundur Þengilsson. Það var heilmikill snjór á þessu fyrsta landsmóti. Farið var
gangandi yfir Dranga frá Ólafsfirði til Dalvíkur. Þeir gengu á svigskíðunum og drógu stökkskíðin á eftir sér.
Á Dalvík fengu þeir bíl sem kom þeim til Akureyrar. ,,Þannig að það þurfti að hafa dálítið mikið fyrir hlutunum
í gamla daga.“ Þegar farið var á landsmót á Ísafirði 1951 eða 2 var farið með Esjunni á mótið en til baka með
fiskibát til Siglufjarðar. Ármann varð illilega sjóveikur í þeirri ferð. Oft var farið sjóleiðina á mót og ekki um annað
að ræða. Ármann keppti aldrei í Reykjavík en segist einu sinni hafa farið á skíðanámskeið í Hveradölum. Þá
var farið að fljúga og það gerði samgöngur auðveldari. Farið var með Drang til Akureyrar og flogið þaðan. Þetta var eftir 1950,
Ármann man ekki hvaða ár þetta var en hann man að þetta var á sumardaginn fyrsta og það var 18 stiga frost um morguninn.
Ekki var um reuglulega þjálfun eða þjálfara að ræða en stundum komu þjálfarar tímabundið til Ólafsfjarðar til að halda námskeið. Siglfirðingar voru hvað duglegastir að koma og kenna, Guðmundur Guðmundsson, hann var kallaður Guðmundur kóngur, Haraldur Pálsson og Jónas Ásgeirsson, þeir komu allir frá Siglufirði til að kenna og voru í viku eða hálfan mánuð í senn.
Ekki var verið að hugsa um sérstakar aðferðir til að halda sér í formi allt árið um kring, það voru bara allir í formi, segir Ármann. Það var ekkert sjónvarp sem truflaði. Þeir sem höfðu áhuga á skíðum æfðu mikið yfir veturinn, en mismunandi var á milli ára hversu lengi skíðatímabilið stóð yfir.
Var dýrt að æfa skíðaíþróttina?
,,Skíði kostuðu náttúrulega heilmikið, eins og þau kosta í dag en menn áttu ekki mörg pör af skíðum eða annað því um líkt.“ Það voru ekki nema þeir allra hörðustu sem kepptu í öllu og þá þurftu þeir að eiga svigskíði, gönguskíði og stökkskíði. ,,Gangan var ekkert stunduð hérna, nema einhverntíma í upphafi, fyrir minn tíma, og var hún ekkert stunduð sem keppnisgrein bara fyrr en að Björn Þór kom til sögunnar og svo þeir Burstabrekkubræður Jón Konráðsson og fleiri.“ Það höfðu fáir Ólafsfirðingar áhuga á skíðagöngu á þeim árum sem Ármann var að æfa og keppa og því lá greinin niðri um þó nokkurt skeið.
Áttiru þér einhverjar fyrirmyndir?
„Það voru helst kapparnir á Siglufirði og Akureyri, fyrst og fremst þeir. “
Voru alltaf veittir bikarar eða verðlaunapeningar á mótum?
Það voru verðlaunapeningar. Ármann varð eitt sinn Norðurlandsmeistari í svigi á Norðurlandsmóti sem haldið var á Siglufirði.
Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?
,,Jájá, skíðakóngur – Guðmundur kóngur. Hann gekk oft undir því nafni.“ Sá sem fékk flest verðlaun á landsmóti fékk titilinn skíðakóngur Íslands. Skíðadrottning var notað um þá konu sem fékk flest verðlaun á landsmóti. ,,Þær voru nú að vísu ekki í stökki, en í sviginu, eða alpagreinunum.“ Ármann segir að það hafi ekki verið margar jafnöldrur hans sem kepptu á skíðum en eftir það hafi komið margar góðar alpagreinakonur. Þegar hann var að keppa var lægð í skíðamennsku á Ólafsfirði, hann fór stundum einn á mót frá Ólafsfirði, stundum voru þeir tveir, hann og Guðmundur Ólafsson eða Kristinn Steinsson frá Bakka.
Hvað skiptir mestu máli fyrir skíðamann sem er að keppa og vill ná langt?
,,Hann þarf fyrir það fyrsta að hafa mikinn áhuga. Og sæmilega líkamlega hraustur, reyndar eftir því hvaða greinar hann er að leggja fyrir sig.“ Keppnisskap þarf líka að vera til staðar. Ármann segir að það sé skíðamennska í blóðinu í sinni ætt. Eysteinn bróðir hans var t.d. mjög góður skíðamaður á landsvísu. Ármann á blaðaúrklippur með myndum af Eysteini.
Voru keppnisbúningar?
,,Það voru ákveðnar buxur já, svona stretch teygjubuxur sem voru vinsælar þá. Ég hugsa að ég eigi mínar ennþá.“ Á landsmótinu árið 1946 var búið að prjóna handa þeim sérstakar peysur, ljósbláar með gulri rönd, það voru félagspeysur fyrir Ólafsfirðingana.
Var mikið um slys eða meiðsli?
Það var ekki mikið um það og Ármann segir að menn hafi sloppið ótrúlega vel. Þó var eitthvað um það, brautirnar voru ekki eins troðnar og fínar og þær eru nú. Alltaf þurfti að byrja á því að troða slóðirnar og þannig fengu menn mikinn styrk í fæturna. Fyrstu svigstangirnar voru ekkert annað en trjágreinar eða hríslur og þær gátu valdið óhöppum vegna þess að greinarnar stóðu út úr þeim og flæktust gjarnan fyrir fótum skíðamanna eða rispuðu þá. Seinna komu bambusstangir sem gáfu ekkert eftir. Þær gátu brotnað. ,,Það var bara notast við það sem til var.“
En hvernig var svona félagsandinn í þessu?
Félagsandinn var ágætur en Ármann segir að því miður hafi verið ansi fáir verið þátttakendur um það leyti sem hann var að keppa. Bæjarbúar komu og horfðu á mót og keppnir: ,,Ég segi nú ekki svakalega margir, en alltaf einhverjir, einhverjir hópar.“ Það skapaðist líka vinskapur á milli keppenda mismunandi félaga og Ólafsfirðingar mynduðu tengsl við Siglfirðinga og Akureyringa.
Hverjir voru þínir helstu keppinautar?
,,Þegar ég var í sviginu, Akureyringar voru þá einna skæðastir, Magnús Brynjólfsson og Björgvin Júníusson. Björgvin kom til Ólafsfjarðar og kenndi stutt námskeið. Svo voru það Siglfirðingarnir Haraldur Pálsson, Guðmundur Guðmundsson og Jónas Ásgeirsson. Í stökkinu var nú Skarphéðinn Guðmundsson. Jón Þorsteinsson, hann var nú í göngunni fyrst og fremst. Fleiri Siglfirðingar sem ég man eftir Gústi Nils, við kepptum saman. Hjálmar Stefánsson, hann var ágætis kunningi minn.“ Ármann segir að það hafi aldrei verið neinn rígur á milli félaga. Þegar hann fór á landsmót á Ísafirði var hann eini keppandinn frá Ólafsfirði og var því bara í hóp með Siglfirðingum, undir fararstjórn Braga Magnússonar.