Skķšasaga fjallabyggšar

Leó R. Ólason spjallar viš brottfluttan Siglfiršing - Įrdķsi Žóršardóttur Ljósmynd: Birgir Ingimarsson Skķšadrottningin Dķsa Žóršar er fędd įriš 1948 aš

Įrdķs Žóršardóttir


Leó R. Ólason spjallar við brottfluttan Siglfirðing - Árdísi Þórðardóttur
Ljósmynd: Birgir Ingimarsson

Skíðadrottningin Dísa Þórðar er fædd árið 1948 að Túngötu 26 sem er næsta hús norðan við Alþýðuhúsið, en flytur ung á Laugarveginn þar sem hún bjó allt þar til hún hleypti heimdraganum og hélt til náms.
,,Þegar ég fer að hugsa til baka og rifja upp þessi ár fyrir norðan, er nokkuð ljóst að ég hef bæði verið ofvirk og sennilega eitthvað fleira. Þá var ekki einu sinni búið að finna upp orðið og ritalinið ekki komið til sögunnar svo ég slapp til allrar hamingju við það. En að flytja af Túngötunni og suður á Laugarveg var eins og að komast langt út í sveit. Leiksvæðið stækkaði og varð bæði fjölbreyttara og skemmtilegra.”

,,Suðurbærinn var algjör Paradís. Það var mikið farið í fjallið á veturna og þá gjarnan með krossviðsplötu sem stundum hafði verið hituð einhvernveginn og beygð í endann. Á svona plötu gat setið heil hjörð af krökkum og þegar skriður var kominn á hana með krakkahópnum á, var hún auðvitað alveg óstöðvandi og algerlega stjórnlaus. Það varð því allt undan að láta sem fyrir okkur varð og við gátum þess vegna alveg eins endað ofan í fjöru. Við fórum stundum saman heill hópur af krökkum og fundum stórar snjóhengjur til að stökkva fram af. Leiðin lá þá oftast upp í gilin í fjallinu fyrir ofan suðurbæinn og þar á meðal hin stórhættulegu Strengsgil. Við gerðum okkur auðvitað enga grein fyrir hættunni því þetta var svo geðveikt gaman.“

,,Ég hef ekki verið meira en átta eða níu ára gömul þegar ég keppti fyrst á skíðum. Það var í göngu einhvers staðar inni í firði og ég man að ég beinlínis hljóp alla leiðina í einum spretti. Ég var alveg þindarlaus þegar ég var lítil og ég man vel að það var síður en svo slæm tilfinning að vera langsamlega fyrst í mark. Svo var nú bara farið að renna sér og maður byrjaði í fjöllunum fyrir sunnan og ofan Laugarveginn. En ég átta mig alls ekki á því hvað varð til þess að ég fékk algjörlega ólæknandi dellu fyrir skíðaíþróttinni. Þetta varð ástríða.  Það gæti auðvitað verið vegna þess hvað mér fannst allt þetta skíðafólk flott og svo hafði ég líka ofboðslega gaman af miklum hraða og að príla. Það var auðvitað stutt í bæði Litla- og Stórabola af Laugarveginum og þar voru líka alveg svakalega flottir karlar að stökkva eins og Jónas Ásgeirs, Jón Þorsteins, Heddi á Hólum, Svenni Sveins, Biggi Guðlaugs, Kiddi Rögg og Gunni Guðmunds blessaðir drengirnir. Þeir kepptu svo í norrænni tvíkeppni, þ.e.a.s. stökki og göngu. En konur keppa ekki í stökki, það er víst bara fyrir stráka. En það voru hins vegar alpagreinarnar sem ég lagði fyrir mig. Svig, stórsvig og saman mynduðu þær alpatvíkeppni. Aðstæður til æfinga þættu ekki boðlegar í dag, en voru held ég á þessum tíma ekkert síðri en annars staðar og nægur var snjórinn á Siglufirði. Það var komið upp upplýstri braut fyrir neðan Hvanneyrarskálina og lyftan var spil sem knúið var af traktor og svo var blökk uppi í hlíðinni. Þetta var auðvitað stórhættulegur búnaður, en hann var síðar betrumbættur. Fyrir ofan Hafnarhæðina var mjög skemmtilegt gil sem var kallað Langalaut, en þangað fórum við oft. Einnig upp í hlíðina fyrir sunnan Bolana tvo, en það var líka farið í Strengsgil. Þegar voraði og snjór minnkaði var gengið upp á Stráka og jafnvel upp á Illviðrishnjúk, en þá var ekki farið nema ein ferð niður þann daginn. Ég man óljóst eftir skálanum á Ásnum, en umhverfið þar var hálfgert leiðindasvæði fyrir alpafólkið en hentaði vel til göngu.”

,,Árin upp úr 1960 voru algjör gullaldarár skíðaíþróttarinnar á Siglufirði. Sveitungar okkar höfðu vissulega oft náð frábærum árangri en nú var hreinlega eins og þeim héldu engin bönd. Mig minnir að það hafi verið á landsmótinu sem haldið var á Akureyri 1962 að við unnum í öllum greinum og Stína Þorgeirs varð fjórfaldur Íslandsmeistari  Ég var mjög ósátt við að fá ekki að keppa þegar ég var 14 ára eða svo því ég gerði mér grein fyrir því að ég væri orðin skrambi góð, en þá var16 ára aldurstakmark á landsmótum. Ég fékk þó að vera undanfari ef mótin voru haldin á Siglufirði og tíminn var tekinn en ég fékk ekki að vita hann, alla vega ekki svona opinberlega. En ég veit samt að ég hefði orðið mjög framarlega ef ég hefði fengið að keppa fyrr, því það kvisaðist nú eitthvað út hvað skeiðklukkan sló. En ég keppti svo í svigi, stórsvigi og alpa tvíkeppni á öllum mótum á árunum 1964-69 og vann oftast. Líklega gerði þetta 15 eða 16 Íslandsmeistaratitla og svo vann ég yfirleitt Skarðsmótin líka, en þau voru haldin á Hvítasunnunni.”

,,Eftir Gaggann fór ég í undirbúningsdeild fyrir Kennaraskólann, því ég ætlaði að verða íþróttakennari. En vegna þess að það var aldurslágmark á Laugarvatn lenti ég aftur í því að þurfa að hinkra aðeins eftir tímanum. Ég gerði það og lauk þessu undirbúningsdeildarnámi á tveim árum og fór svo á Laugarvatn í ÍKÍ og útskrifaðist þaðan 1968.  Haustið, sem ég hóf nám í Kennó fór ég til Austurríkis með nokkrum Íslendingum til að æfa í sjálfum Ölpunum. Sú sem aðstoðaði okkur og skipulagði ferðina hét Ellen Sighvatsson, mikill skörungur og í raun mikil velgjörðarkona mín.  Ellen var vel þekkt meðal skíðafólks á þessum tíma. Árið var 1965 og þetta var bókstaflega alveg geggjuð ferð. Í þá daga var ekki algengt að fólk færi í Alpana til skíðaæfinga svo það er rétt hægt að ímynda sér hvort sautján ára stelpa frá Siglufirði hefur ekki notið sín í þær rúmu þrjár vikur sem ferðin stóð. Þarna var bara æft og æft og æft og ég er alveg klár á því að þessi ferð var að nýtast mér í mörg ár á eftir.”
Leó R. Ólason tók viðtal við Árdísi að heimili hennar í Reykjavík. Hér er aðeins brot úr viðtalinu en það er birt í heild sinni á heimasíðunni www.siglo.is Tekið af heimasíðunni þann 24. nóvember 2010.
http://sksiglo.is/is/news/spjallad_vid_burtfluttan_siglfirding_-_ardisi_thordardottur/

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya