Skíđasaga fjallabyggđar

/* /*]]>*/  /* /*]]>*/ 2. júlí 2008 Ađ heimili Andrésar Stefánssonar, Hverfisgötu 34, Siglufirđi. Andrés Stefánsson er fćddur 1. desember 1955

Andrés Stefánsson

2. júlí 2008

Að heimili Andrésar Stefánssonar, Hverfisgötu 34, Siglufirði.

Andrés Stefánsson er fæddur 1. desember 1955 á Siglufirði. Hann hefur búið alla sína ævi á Siglufirði, utan nokkur ár sem hann dvaldist í Reykjavík. Andrés var á sjó sem unglingur en er menntaður rafvirki og starfar við það í dag. Foreldrar Andrésar voru Siglfirðingar, faðir hans var fæddur 10. júlí 1914 og móðir hans var fædd 7. maí 1915. Stefán faðir hans var ágætur skíðamaður og skíðaiðkun var mikið í umræðunni á heimilinu. Stefán átti Íslandsmet í stökki í nokkur ár, sem hann setti upp í Hvanneyrarskál 1947. Hann tók einnig þátt í Thule mótum og mörgum öðrum mótum.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina?Var einhver í fjölskyldunni sem hvatti þig til að leggja stund á skíðaiðkun?

Systkini Andrésar, þau Ágúst og Sjöfn voru mikið á skíðum og Andrés byrjaði á því að elta stóra bróður sinn í fjallið og hefur verið á skíðum síðan. Ljósabrautin var beint fyrir ofan húsið sem Andrés ólst upp í og þangað byrjaði hann að fara snemma. Hann keppti sem barn og unglingur, en segir að á sínum unglingsárum hafi Siglufjörður verið farinn að dragast aftur úr hvað varðar aðstöðu til skíðiðkunnar. Þá var bara togbraut í fjallinu sem guttarnir í félaginu sáu um að reka og setja upp og færa á milli staða í firðinum. Á sama tíma voru keppinautar þeirra á Akureyri og Ísafirði komnir með fínar lyftur.

Hvenær byrjaðir þú að keppa?

Andrés varð aldrei Íslandsmeistari, en það mátti litlu muna á unglingamóti á Seyðisfirði 1970, það munaði ekki nema tveimur portum í seinni ferð. Hann keppti í fyrsta sinn á unglingamóti á Siglufirði árið 1969. Andrés keppti í stökki og göngu þegar hann var krakki og vann einhverja Siglufjarðartitla í stökki. Þegar hann var ellefu ára gamall fékk hann svigskíði frá bróður sínum og eftir það var hann bara á svigskíðum og finnst það langskemmtilegast enn í dag. Fyrsta árið sem hann keppti í karlaflokki slasaðist hann illa, skarst á læri, og fór ekkert á skíði í langan tíma. Eftir það hætti hann keppni. Aðstaða til alpagreina á Siglufirði var þá orðin afar slök, að sögn Andrésar.

Hvernig var kennslunni háttað? Hver annaðist kennsluna?

Það vantaði skíðakennsluna þá, það var ekki nein skipulögð kennsla. Strákarnir voru samt alltaf duglegir að fara í fjallið og æfa sig. Það var til dæmis gengið upp í Hvanneyrarskál og æft þar. Það var líka heilmikil æfing fólgin í því að ganga upp fjallið og þjappa brautirnar. Andrés fékk smá tilsögn frá Jóhanni Vilbergssyni árið 1967. Jonni var þá staddur á Siglufirði fyrir landsmót og tók strákana í kennslu í ljósabrautinni.

Hvaða aðferðum var beytt til að halda sér í sem bestu formi yfir sumarið?

Á sumrin æfði Andrés fótbolta. Það var ekkert sérstakt gert til að halda sér í þjálfun yfir sumarið, heldur voru bara allir í þjálfun allt árið um kring.  

Segðu frá aðkomu þinni að félagsstörfum og störfum fyrir skíðafélagið.

Árið 1977 fór Andrés á námskeið til að læra að verða skíðaþjálfari. Seinna fór hann á námskeið sem Skíðasamband Íslands stóð fyrir. Námskeiðin fóru fram á norsku, en Skíðasambandið fékk til sín norska skíðakennara frá Skíðasambandi Noregs. Þetta voru metnaðarfull og góð námskeið. Eftir námskeiðið fengu þátttakendur skírteini upp á það að þeir mættu starfa hvar sem er á Norðurlöndunum. Andrés byrjaði að þjálfa krakka á Siglufirði 1981 og hefur verið þjálfari síðan. Andrés þjálfaði bara unglinga, þetta var og er enn bara unglingastarf. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að þegar unglingarnir vaxa úr grasi og fara í framhaldsskóla eru þeir fjarverandi allan veturinn og geta þar af leiðandi ekki stundað skíðaíþróttina í sínum heimabæ og margir hætta því alveg.

Draumur Andrésar var að verða þjálfari og byggja upp aðstöðu til skíðaíþrótta á Siglufirði og segja má að draumur hans hafi ræst. Hann vann mikið í fjallinu og sá meðal annars um að færa skíðalyftuna 1981. Hann sá einnig um að ljósvæða allt fjallið. Andrés gerði mun meira en hann fékk greitt fyrir að gera sem þjálfari. Vinnudagurinn átti að hefjast klukkan 16 en hann var alltaf mættur klukkan 13 með lyftuverðinum, sem var jafnframt lyftu- og troðaramaður. Saman gerðu þeir ýmsa góða hluti fyrir skíðasvæðið á Hóli. Skíðamál hafa alltaf verið aðaláhugamál Andrésar. Árið 2000 varð Skíðafélagið 80 ára og þá var ákveðið að setja upp þriðju og síðustu lyftuna, Bungulyftuna, sem kölluð er. Andrés hafði yfirumsjón með verkinu. Saga Andrésar í Skíðafélaginu hefur fyrst og fremst snúist um uppbyggingu og þjálfun krakka. Andrés hefur verið fararstjóri og farið með krakka á skíðamót innanlands sem og erlendis.

Hvernig hefur aðsóknin verið?

Aðsóknin hefur verið upp og niður. Þegar Andrés var að þjálfa á Hóli var hann einn með 100 krakka. Það þurfti að vera ákveðinn kvóti á krakkana frá Siglufirði sem fengu að fara á Andrésarleikana vegna þess að fjöldinn var svo mikill. Fyrstu árin í Skarðinu voru líka góð en svo hefur þetta dalað seinni árin. Börnunum hefur fækkað. Það er meira framboð af öðrum íþróttagreinum á Siglufirði. Andrés segir að það séu of fáir krakkar að æfa í dag og aðstaðan sé ekki nógu góð. Börnunum hefur fækkað um meira en 100 síðan árið 2000. Andrés er þó bjartsýnn á að þegar göngin opna þá verði meiri samvinna á milli Ólafsfirðinga og Siglfirðinga. Auk þess verður þá betri tenging við Eyjafjarðarsvæðið, og Andrés er sannfærður um að skíðasvæðið eigi eftir að verða mjög mikið brúkað. Aðstaðan er nú orðin til fyrirmyndar í alla staði. Fækkun í Skíðafélaginu hefur meðal annars orðið vegna þess að menn hafa gleymt sér í uppbyggingu og mannlegi þátturinn hefur kannski orðið útundan. Nýjasta lyftan, hin svokallaða Bungulyfta, er unnin mestmegnis í sjálfboðvinnu af félögum í Skíðafélaginu.

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? Í hverju var helsti kostnaðurinn fólginn?

Andrés segir að skíðaíþróttin sé ansi dýrt sport. Hann á fjóra stráka og þar af hafa þrír verið mikið á skíðum. Þeir voru allir mjög góðir skíðamenn og einn þeirra er enn að keppa. Helsti kostnaðurinn er fólginn í keppnum og mótum erlendis. Andrés segir að það sé búið að gera þetta dýrara en það þurfi að vera vegna þess að í kringum 1990 byrjaði fólk að senda börnin sín út í skíðaskóla. Þá fer fólk að eltast við það og á sama tíma hefur þeim fækkað sem eiga einhvern séns í þá krakka. Þannig hefur hópurinn þynnst og það verður öfug þróun eins og Andrés orðar það. Þetta er langbesta fjölskylduíþróttin að mati Andrésar og þarf ekkert að vera svo dýrt dæmi þegar fjölskyldan er í þessu saman. En þegar verið er að keppa í unglingaflokkum þarf að kaupa lágmark tvenn skíði á hverjum vetri og allt sem þeim tilheyrir. Sama var upp á teningnum á meðan Andrés var sjálfur að keppa, hann þurfti að eiga að lágmarki tvenn skíði yfir veturinn og því var kostnaðurinn töluverður. Hann bendir á að kostnaðurinn við skíðaíþróttina sé mikill í samanburði við sund eða badminton en kannski ekki svo mikill í samanburði við hestamennsku. 

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segðu frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks.

Siglufjörður varð snemma mjög framarlega í flokki hvað aðstöðu varðaði, en ljósabrautin var sennilega fyrsta skíðamannvirkið á Íslandi og þótti mjög flott. Þarna var upplýst skíðabraut og toglyfta. En þegar Póstur og sími gerði veg upp í skál var þetta allt rifið niður. Það sem Andrési og fleirum þótti sorglegast var að félagið fékk engar bætur. Eftir það var einn traktor og þar á eftir komu toglyftur. Það komu tvær toglyftur árið 1971.

Árið 1977 var fyrsta almennilega lyftan tekin í notkun á Hóli. Þetta var fyrsta varanlega lyfta Siglfirðinga en Andrés segir að hún hafi verið illa staðsett. Því var ákveðið að færa lyftuna 1981 og eftir það var aðstaðan góð. Aðstaðan á Hóli var góð þegar það var snjór, en það var ekki alltaf, þetta var frekar snjólétt svæði. Eftir að lyftan var færð fóru krakkarnir að sýna árangur.

Nú er alltaf verið að flytja skíðasvæðið hærra. Þegar Andrés var unglingur fór ekki nokkur maður upp í Skarð að vetri til. Fólk renndi sér bara á skíðum í fjallinu. Reyndar var skíðaiðkun ekki jafn almenn þá eins og hún hafði verið og það var bara keppnisfólk sem fór á skíði og stundaði íþróttina. Það þurfti líka að hafa mikið fyrir því að fara á skíði í þá daga, þjappa brautirnar og allt gert með handafli. Þegar Íþróttahreyfingin fékk Hól að gjöf fylgdi þeirri gjöf sú kvöð að þar yrði sett upp skíðalyfta. Áður en það kom til höfðu alpagreinamenn aldrei stundað skíði þar fram frá, heldur bara í fjallinu fyrir ofan bæinn. Alpagreinamenn höfðu í raun aldrei neinn áhuga á að vera þarna, en þeir höfðu ekkert um málið að segja. Það kom snjóflóð árið 1988 og þá var tekin sú ákvörðun að færa aðstöðuna upp í Skarð, en það var einmitt það svæði sem alpagreinamenn höfðu litið til frá upphafi. Skíðasvæðið í Skarðsdal er orðið mjög gott og fjölskylduvænt, þar sem allir geta stundað skíði. Skíðasvæðið á Hóli var aftur á móti aldrei gott fyrir almenning. Það var ágætt að æfa þar, á meðan það var snjór, en fyrir almenning var brekkan mjög léleg. ,,Hún var brött uppi og flatinn niðri var svo stuttur að það var eiginlega ekkert gaman fyrir almenning að vera þarna, ekkert fyrir þá að gera, því fólk sem er ekki vant að vera á skíðum það kom þarna og fór kannski upp í lyftu og alveg upp í enda og var svo bara í tómu basli og nauðvörn á leiðinni niður. Þá var enginn ánægja. Þannig að Hólssvæðið var líka bara svona æfingasvæði.“ Steypt var undir fyrstu lyftuna á Hóli 1976. Skíðafélag Siglufjarðar stóð fyrir uppsetningu lyftunnar. Félagsmenn unnu þetta í sjálfboðavinnu og var meira en helmingurinn grafinn með handafli. Lyftan var svo vígð í byrjun árs 1977. Andrés fór í sína fyrstu ferð erlendis með æfingahóp jólin 1976-1977. Til stóð að lyftan á Hóli yrði tilbúin fyrir strákana þegar þeir kæmu heim en þegar þeir komu til baka var ekkert búið að gera, enda hafði tíðarfarið verið leiðinlegt. Þannig að þegar þeir komu úr þessari flottu æfingaferð frá Noregi þurftu þeir að byrja á því að byggja upp aðstöðuna, í stað þess að geta haldið áfram að æfa. Andrés hefur farið til Noregs og Austurríkis í æfingaferðir.

Árið 1988 eyðilagðist skíðalyftan á Hóli í snjóflóði. Helgina á undan hafði verið unglingamót í leiðinda veðri og mikilli snjókomu. Snjórinn var orðinn mjög veikur og farinn að hrynja niður í flekum að loknu mótinu. Andrés segir að þetta snjóflóð hafi eiginlega verið happadrættisvinningur fyrir skíðaíþróttina á Siglufirði, þó þetta hafi kostað marga svitadropa til viðbótar. Andrés leggur áherslu á að það hafi verið stanslaus uppbygging á aðstöðunni síðan haustið 1976. Síðan þá hafa nánast verið framkvæmdir á hverju einasta ári.

Þegar síðasta lyftan var byggð lögðust allir á eitt og unnin var sjálfboðavinna af hinum ýmsu aðilum. Fyrst var byrjað niður í bæ, þar sem skemma var fengin að láni til að smíða mótin fyrir lyftuna og þar var unnið á kvöldin. Sum kvöldin voru fimm skipstjórar að leggja fram vinnu sína í skemmunni. Andrés var í stjórn Skíðafélagsins á þessum árum og því lenti mikil vinna á honum. Egill Rögnvaldsson var einnig í stjórn og vann hann mjög mikið að þessum málum. Andrés fór  fyrst í stjórn veturinn 1983-1984 og starfaði til 1988. Svo fór hann aftur í stjórn seinna og starfaði í henni í 5-6 ár. Stjórnunarstörf ganga mikið út á fjáröflun. Félagið safnaði sér inn fé með því að taka að sér ýmis verk, til dæmis tók það að sér að rífa niður hús. Svo voru símnúmerakeppnir og firmakeppnir. Skíðafélagið hefur einnig séð um að setja upp jólaskreytingu í Hvanneyrarskál fyrir Siglufjarðarkaupstað í mörg ár. Þá hefur Skíðafélagið séð um að smala kindum á haustin síðan 1983. Göngurnar eru þriggja daga göngur í Héðinsfirði og því töluverð vinna. Þá er ótalin vinnan fyrir hvert mót. Í kringum eitt landsmót þarf til dæmis 50-60 manns til að starfa við alpagreinarnar.   

Segðu frá aðkomu þinni að skipulagningu móta.

Andrés hefur oft komið að lagningu brauta og hefur lagt brautir á öllum skíðasvæðum landsins. Hann hefur meira að segja farið á námskeið í brautarlögn. Það voru ekki komnir troðarar eða þjapparar þegar Andrés var að byrja að þjálfa. Þjálfarar fengu því kennslu í lagninu brauta og voru vinsælir til þeirra verka. Lagning brauta getur verið mikið vandaverk, það þarf að spá í ýmsa hluti, færi og snjóalög og annað. Fljótlega eftir að Andrés fór að þjálfa komu eftirlitsmenn sem höfðu eftirlit með lagningu brautanna og það var sérstakur eftirlitsmaður í hverri grein. Skíðasambandið skipar eftirlitsmann þannig að allar leikreglur séu í heiðri hafðar. Fram að því hafði mótsstjórnin  yfirumsjón með verkinu. ,,Brautarlögn getur verið mikið alvörumál því það þarf ekkert ógurlega mikið að fara úrskeiðis svo að menn geti orsakað að það bara verði slys. Þess vegna þurfa menn að taka vel á því að fara eftir öllum reglum.“ Þeir sem leggja brautirnar þurfa að hafa einhver námskeið á bakinu og reynslu af brautarlögn. Andrés segir að hans kynslóð þjálfara sé í raun fyrsta kynslóð þjálfara sem fékk einhverja reynslu af lagningu brauta. Það var lögð mikil áhersla á að það væri farið samkvæmt settum reglum.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli?

,,Þetta er náttúrulega íþrótt þar sem þú ert á hraða og ef það eru kannski einhverjar, ef menn eru að vaða af stað í krítísku færi og halda mót og leggja kannski ekki braut miðað við aðstæður, í veðri eða færi, til dæmis, þá getur skapast hætta. En ég hef nú verið lánsamur allann minn þjálfaraferil, ég var nú bara að meiða sjálfan mig þegar ég var í þessu. Sennilega hef ég verið bölvaður glanni því að ég fótbraut mig þegar ég var tólf ára og svo skar ég lærið á mér í tætlur þegar ég var sautján ára.“ Þegar hann fótbrotnaði voru bindingarnir ekki orðnir eins góðir eins og í dag. Þegar hann skar sig á læri var hann talinn heppinn að lifa það af því hann missti nokkra lítra af blóði. Það var heppni að slysið varð á móti en ekki á æfingu því það var björgunarsveit á staðnum sem brást skjótt við og á réttan hátt. Það hefur ein stúlka fótbrotnað á þjálfaraferli Andrésar. Með snjótroðara, betri brautum og betri búnaði hefur slysum fækkað verulega. ,,Snjótroðarar eru algjör bylting í nútíma skíðamennsku. Einn veturinn á Hóli, áður en troðarinn kom, brotnuðu sjö einstaklingar. Það er enginn vandi að valda slysum með svona kæruleysislegum vinnubrögðum. Þetta er það sem ég tel að hafi lagað stöðuna mikið fyrir fólk sem er að stunda æfingar og keppni, það er þekking þjálfaranna og mótshaldara og snjótroðararnir. Það er byltingin sko. Þetta tvennt eiginlega.“

Segðu frá þróun og breytingum varðandi fatnað og útbúnað.

Fyrstu skíðin hans Andrésar voru bara með einu tábandi. Sem krakki renndi hann sé á þessum skíðum í brekkunni fyrir ofan fótboltavöllinn. Þar voru fyrstu skrefin stígin. Svo fór hann að fikra sig ofar og fékk betri skíði. Andrés eignaðist leðurskó mjög fljótt. Þeir voru grænir og brúnir að lit. Þá var komin smella aftur fyrir hælinn. Hann var á þessu einn eða tvo vetur og svo komu gormabindingar. Þá var tástykki og gormur aftur fyrir hælinn, í staðinn fyrir leðurólina. Gormurinn var hertur fram á skíðin með járnsmellu. Smellan strekkti á gorminum og ýtti fætinum fram í tástykkið. ,,Jafnhliða þessu voru náttúrulega öflugri bindingar sem voru fyrir alpagreinamenn. Þeir fóru fram í tástykkið og svo voru líka ólar sem þeir reirðu sig fasta með. Það voru hættulegustu bindingarnir sem hafa nokkurn tíma verið til. Því þar þurftu menn ekki að fá mikið hliðarátak, þá fótbrotnuðu menn. Tástykkið gaf ekkert eftir. Þetta voru bara tveir kjammar sem þú fórst á milli með skóinn og þar varstu bara fastur. Svo kom öryggistáin, ég var nú einmitt með svoleiðis bindinga þegar ég fótbrotnaði. En þá var búið að þróa það, það var komið táöryggi sem kallað er, þá fórstu náttúrulega úr skíðinu til hliðar en þá var ennþá, ef þú dast fram fyrir þig, illa, þá var ekkert sem gaf eftir fram á við. Því það var bara fast hælsykkið sem þú smelltir og svo voru notaðar ólar, og ég var með þannig bindingar þegar ég fótbraut mig.“ Í kringum 1970 kom hælöryggi, en það var ól með því líka, og ólin gat verið hættuleg. Menn fóru úr táörygginu og hælörygginu en ólin hélt skíðinu föstu við fótinn. Þannig slasaðist Andrés, eins og svo margir aðrir, skíðið var fast á fætinum og hann datt á það og skar sig á lærinu með því. Skíðin eru flugbeitt, sérstaklega fyrir keppnir því þá er brýnt vel. Það var ekki fyrr en undir 1980 sem bremsurnar leysa ólarnar af hólmi. Núna er fólk laust í skíðunum og bremsan stoppar skíðið þannig að það verði ekki öðrum skíðamönnum að tjóni. Áður en bremsurnar komu voru menn að sleppa því að óla sig fasta við skíðin og treystu á hælöryggið og táöryggið til að bjarga sér en þá gátu aðrir orðið fyrir því að fá skíðin í sig og slasast.

Hvaða tæknilegu atriði skiptu máli í skíðamennsku, fyrir utan það að brýna vel?

,,Alpagreinamaður þarf að vera í mjög góðu líkamlegu standi. Mjög góðu líkamlegu standi. Sem sést best á því að, það sem háir þessu sporti kannski mest gagnvart keppni fyrir okkur, þessa eldri er það að við getum ekkert verið að keppa með þessum yngri, til þess að geta talist alvöru keppandi í alpagreinum þá verðuru að vera í einhverju lágmarks formi, því þú ert náttúrulega að æfa íþrótt og ert að keyra kannski íþrótt við allra handa aðstæður, þú ert að keyra í grafinni braut og í glæra hjarni, blindu, mikilli ferð, þannig að þú verður að vera í góðu líkamsástandi og í æfingu vegna þess, að sko þú getur lengi leikið þér á gönguskíðum, vegna þess að þar er ekki nein hætta, það er ekki sá hraði, en í hinu þá verður þú að hafa þetta allt á hreinu. Til dæmis bara, það þarf að fara varlega þegar menn eru komnir á þennan aldur sem maður er á, fimmtugir og, þá fara menn ekkert að keppa eins og þeir gerðu því að þú kannski hefur allt í þér til að gera ýmsa hluti, þú getur náð alveg fanta ferð en þú ert bara ekkert með líkama til þess að vinna úr því ef eitthvað kemur upp á, þú ert ekkert eins snöggur, þú ert ekkert eins lipur. Því þetta þarf allt að harmonera saman. Enda sést það bara á því að menn eru hættir að keppa á skíðum svona, það er alveg hending ef menn eru til þrítugs, það er alveg bara mjög mikið afrek, menn eru yfirleitt hættir fyrr, vegna þess að þá er þetta aðeins farið að fara niður á við hjá mönnum.“

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst?

,,Keppnisskap þarf að vera allt innan marka. Það þarf nefnilega oft að vera með pínu skynsemi í þessu sko. Menn fara ekkert bara á skapinu einu, það verður að hugsa líka og skipuleggja sig vel fram í tímann. Það sem til dæmis háði mér mest þegar ég var í skíðunum, var að ég var afskaplegur glanni, ég keyrði yfirleitt alltof hratt, en ef ég stóð var ég yfirleitt með mjög góðan tíma. Svo náttúrulega á þessum árum, ef maður horfir til baka, þá bara var maður ekkert í nógu góðri tækniæfingu, eins og krakkarnir eru að fá í dag. Við vorum bara ekkert í sömu tækniæfingunni. Við fórum bara upp í fjall og við gátum kannski verið að þjappa eða lappa einhverjar þrjár, fjórar eða fimm ferðir og við nýttum þær alltaf bara inn í braut. Það var helst á vorin og í góðu veðri sem var verið að labba hérna upp á toppana til þess að frískíða sko. En öll skíðamennska í dag byggist á því að æfa tækniæfingar samhliða. Þá er það í frískíðum og öðru slíku. Það verður að æfa það með.“

Hvað var það sem réði röð keppenda í leik?

Þegar Andrés var unglingur var ekki komið punktakerfi. ,,Þá gastu þess vegna startað síðastur, þó að þú værir langbestur sko. Þá kannski varstu frammi fyrir því að þegar þú fórst niður brautina, þá var nú ekki alltaf verið að frysta brautir og ekki þessir troðarar, ekki harðtroðið, þá áttiru kannski mjög erfitt uppdráttar. Menn lentu í því að starta framarlega í fyrri ferð og vera með alveg glimrandi tíma en svo var allt búið í seinni ferð. Meðal annars lenti ég í því. Ég man til dæmis austur á Húsavík, þegar ég var fimmtán ára gamall, að þá enti ég þar í þriðja sæti á unglingameistaramótinu. Ég startaði næst síðastur í fyrri ferð og var ekkert sérstakur þá en svo náttúrulega snerist röðin við og þá tók ég brautartímann og náði mér þarna upp.“ Keppendur voru  í kringum 40 á þessu móti. Þá var keppendum raðað þannig á unglingameistaramótum að það var dregið um röðina og síðan snerist röðin við í seinni ferð. Þetta fór ekkert eftir tíma eins og í dag. Nú fá menn punkta eftir árangur á mótum og það er raðað í styrkleikaflokka, fyrstu grúbbu, aðra grúbbu og svo framvegis. Nú er meira gert fyrir þá sem eru að æfa og standa sig vel. ,,Það voru allir sáttir við þetta, menn þekktu ekkert annað og það voru allir ánægðir, menn voru alltaf ánægðir.“ Eftir fyrrnefnt unglingamót keppti Andrés ásamt einum öðrum Siglfirðingi á Norðurlandamóti á Akureyri. Andrés segir að það hafi verið mjög mikil upplifun að keppa 15 ára gamall við fremsta skíðafólk Norðurlandanna. Norðurlandabúarnir voru miklu betri að sögn Andrésar og Íslendingunum gekk ekki vel á þessu móti.

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda?

Helstu fyrirmyndir Andrésar voru Karl Skrans og Ingemar Stenmark. ,,En hérna heima, ég veit það nú ekki, maður leit náttúrulega alltaf upp til Akureyringanna, Hauks, og þeirra. En ég man það nú ekki, maður var nú ekki í neinni þannig dýrkun þá, þetta voru allt félagar manns og vinir. Allir góðir félagar.“ Helgi Sveinsson heitinn, var einn af gömlu fyrirmyndum krakkanna í bænum og íþróttakennarinn þeirra. Hann var mikill íþróttamaður og starfaði mikið fyrir Skíðafélagið. Helgi vildi aldrei sjá Hól, hann vildi bara að farið yrði í Skarðið, líkt og strákarnir sem voru að æfa alpagreinarnar. Helgi var aðeins 65 ára gamall þegar hann dó og sagt er að hann hafi farið flikk flakk og heljarstökk í leikfimisalnum nokkrum dögum áður en hann dó. Helgi kenndi bæði íþróttir og handavinnu og Andrés segir að hann hafi verið besti handavinnukennari sem hann hefur haft.

Hvernig var keppnisandinn?

Keppnisandinn var alltaf góður. ,,Þetta voru allt góðir vinir og þetta eru allt vinir manns í dag þegar maður hittir þá. Það er eitt sem að má ekki gleyma með skíðin, þetta er þannig sport, það verður alveg hreint ævilöng vinátta vegna þess að þetta er allt öðruvísi sport heldur en margt annað sko, menn eru svo mikið saman.“ Andrés segir að það hafi fært menn saman að verða veðurtepptir á einhverjum stað dögum saman. Þannig skapaðist góður andi og menn urðu góðir vinir. Andrés varð helst var við þetta eftir að hann fór að þjálfa nokkra vetur. Veturnir 1989 og 1994 standa upp úr því það var farið á mót og þetta voru viku túrar eða meira. ,,Það verður alltaf góður andi og félagsskapur, ólíkt því sem ég held að sé í öðru sporti. Ég man þegar maður var í knattspyrnunni þá fór maður og spilaði einhvern leik og svo var bara farið heim.“

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu?

Sum ár er þetta mjög áþekkt en Andrés segir að á Siglufirði hafi yfirleitt verið fleiri strákar að keppa.

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga?

Það voru Ísfirðingar og Akureyringar þegar Andrés var sjálfur að keppa og svo Ólafsfirðingar í stökkinu. Undanfarin ár hafa bæst við fleiri keppinautar, en það eru góðir keppnismenn fyrir austan og sunnan, að sögn Andrésar. ,,Þegar Siglufjörður var og hét, sjálfsagt fyrir mína tíð, þá náttúrulega höfðu Siglfirðingar forréttindi, þá sjálfsagt hefur þetta verið besti skíðastaðurinn á landinu. Á sama tíma og Akureyringar og Reykvíkingar þurftu að hafa mikið fyrir því að komast upp í fjall þá náttúrulega fóru menn upp fyrir hús hér. Þá náttúrulega höfðum við bestu aðstöðuna, langbestu. Og vorum náttúrulega langbestir þá.“

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning?

Andrés hefur heyrt talað um þessi hugtök en þetta var ekki notað í daglegu tali, ekki nema í sambandi við Guðmund Guðmundsson skíðakóng. Andrés telur að það hafi verið gert til að aðgreina hann frá öðrum Guðmundi. Jón Þorsteinsson var hins vegar aldrei kallaður annað en Nonni Þorsteins, þrátt fyrir það að vera meðal fremstu skíðamanna á landinu. Andrési finnst að það eigi ekki að ofnota orðið skíðakóngur en hann hefur orðið var við það að íþróttafréttamenn séu farnir að nota það aftur. Andrés segist raunar vera mótfallinn þessu orði. Honum finnst að margir af fremstu skíðamönnunum í dag séu ekki að keppa á jafnréttisgrundvelli vegna þess að það er búið að kosta svo miklu til við að æfa þá og þjálfa. Andrés segir að þetta sé helsta áhyggjuefni skíðaíþróttarinnar í dag, besta fólkið kemst ekkert endilega áfram vegna peningaleysis foreldranna. Andrés hefur sjálfur séð á eftir mörgum efnilegum skíðakrökkum hætta. Sumir höfðu miklu meira til brunns að bera heldur en margir af þeim skíðamönnum sem búið er að hampa sem mest. ,,Þetta er eins og allt annað, þetta er genatengt. Þú sérð það, ef þú ert reyndur þjálfari, þá sérðu það yfirleitt bara á fyrstu árunum, bara á fyrstu metrunum, eins og maður segir, hjá þessum krökkum sko, á fyrsta vetri. Hvort það sé skíðamaður í krakkanum eða ekki. Allavega treysti ég mér til þess. Þetta er spurning um einhver gen og eitthvert hreyfimunstur og eitthvert svona atgerfi og andlegan þátt. Sumir bara ná þessu ekki, aldrei. Það bara er svoleiðis.“

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum?

,,Stemmningin hefur minnkað sko. Það er engin spurning sko. Núna síðustu tvo vetur þá höfum við ekki haft neitt bikarmót. En veturna þar á undan vorum við að halda bikarmót og unglingamót og við héldum landsmót til þess að redda Ísfirðingum, sem var mjög gaman og ég vil halda því fram að það hafi verið það sem kom þessu svæði almennilega í umræðu á landinu og auglýsti svæðið best því að auglýsingastarfsemi fyrir svæðið hefur ekki verið næg að mínu mati. Síðustu tveir vetur hafa verið bágbornir hjá okkur, mér finnst það miður vegna þess að ég vil halda þessu áfram. Mitt mat var að við þyrftum að þrauka þessa vetur þangað til jarðgöngin koma, þá stækkum við starfshópinn í kringum mótahaldið, því hann er náttúrulega óneitanlega farinn að þynnast, en með því að fá vini okkar í Ólafsfirði með þá tel ég að við getum mjög auðveldlega farið að kljást aftur við stór mót og halda þau vegna þess að ef við eigum ekki að halda stórmót þá sé ekki hverjir eiga að halda þau á Íslandi því við erum alveg með sambærilega aðstöðu við til dæmis Akureyringa og við eigum að nýta hana, það er mín skoðun, við nýtum þetta ekki nóg.“

Manstu eftir einhverjum sérstökum atburðum á þínum ferli sem keppandi eða þjálfari?

Unglingamótið á Seyðisfirði árið 1970 stendur upp úr í minningu Andrésar. Það var farið frá Siglufirði með varðskipi. Það var farið á Siglufjörð, Ólafsfjörð, Akureyri, Húsavík og smalað skíðakrökkum um borð í hverri höfn. Síðan var siglt austur til Seyðisfjarðar, þannig var bara  ferðamátinn í þá daga. Á þessu tiltekna móti var Andrés með besta tímann í fyrri ferð í svigi en fauk út úr brautinni í seinni ferð í næst síðasta porti. Hann segir að þetta hafi verið viðburðaríkt mót. Þegar átti að fara heim var komin hafís og þá var ákveðið að sigla með börnin til Reyðarfjarðar. Það var farið fyrir Gerpi í kolvitlausu veðri og flestir urðu sjóveikir á leiðinni. Á Reyðarfirði var gist eina nótt, en daginn eftir var brotist með krakkaskarann á snjóbílum upp á Egilsstaði. Þaðan flugu Siglfirðingarnir suður til Reykjavíkur og þaðan norður á Sauðárkrók og þar biðu aðalfjallatrukkarnir á Siglufirði eftir þeim, sem voru rafveitubíllinn og símajeppinn. Helgi Sveins tók á móti þeim á öðrum bílnum. ,,Ég man alltaf þegar maður kom heim þá var búið að snjóa alveg ofboðslega, þetta var 1970, og þá var einmitt mjög mikið vesen með landsmótið sem var þá fram á Hóli hérna hjá okkur, fyrsta landsmótið sem haldið var hér, og þegar maður kom heim, að sjá snjóinn, hann var alveg svakalega mikill. Mig minnir að þessi túr hjá okkur hafi verið 12 dagar, og við vorum bara unglingar, þetta var alveg svakalegt.“ Andrés fór í margar keppnisferðir sjóleiðina, hvort sem það var til Akureyrar eða Ísafjarðar.

Skemmtilegustu árin sem Andrés var við þjálfun voru árin sem Siglfirðingar voru að standa sig vel. Á einum Andrésarleikunum voru Siglfirðingar að hala inn jafn mörgum verðlaunum og Akureyringar. Andrés leggur áherslu á að skíðaíþróttin sé mikið fjölskyldusport. Guðný konan hans fer á skíði og tekur skíðaferðir framyfir sólarlandaferðir, og þau reyna að fara í skíðaferðir erlendis reglulega. Strákarnir þeirra hafa verið að æfa skíðaíþróttina frá barnsaldri og tveir þeirra starfa við skíðaþjálfun í dag.

header
Hafa Samband
moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya