SkÝ­asaga fjallabygg­ar

/* /*]]>*/ 26. j˙nÝ 2008 ┴ kaffistofu starfsmanna SÝldarminjasafnsins ß Siglufir­i. Vi­mŠlendur eru ┴g˙st Stefßnsson, Bjarni Ůorgeirsson og

┴g˙st Stefßnsson, Bjarni Ůorgeirsson og Jˇn Dřrfj÷r­


26. júní 2008

Á kaffistofu starfsmanna Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Viðmælendur eru Ágúst Stefánsson, Bjarni Þorgeirsson og Jón Dýrfjörð.

Ágúst Stefánsson er fæddur 19. nóvember 1947 á Siglufirði. Hann hefur búið á Siglufirði alla sína ævi og hefur verið á skíðum frá blautu barnsbeini. Ágúst hefur tekið þátt í mörgum landsmótum og innanfélagsmótum. Faðir Ágústs var gamall skíðakóngur og það hafði áhrif á skíðaástundun hans. Faðir hans var í norrænum greinum en Ágúst í alpagreinum, en hann tók þátt í göngu líka. Ágúst segir að það hafi verið talað öðruvísi í denn og það hafi verið talað um skíðakónga. Skíðakóngur var sá sem skaraði fram úr eða setti Íslandsmet eða eitthvað slíkt. Stefán, faðir Ágústar átti lengsta stökkið 1939, 47 og hálfur metri. Þetta á Ágúst innrammað eftir hann. Stefán átti sjö bræður og þeir voru allir á skíðum. Hins vegar voru þeir ekki allir í sama félaginu. Ágúst er byggingameistari að atvinnu.

Bjarni Þorgeirsson er fæddur 13. ágúst 1938. Bjarni er málarameistari og hefur starfað sem slíkur í hálfa öld. ,,Ég hef aldrei átt skíði en ég hef komið aðeins nálægt baklandinu. Ég kalla það bakland, það eru þessir sem þurftu að moka og svona og þræla og svona til að hinir gætu skíðað. Ég held að ég hafi tekið þátt í hverri einustu skíðalyftu hérna, svona bara með berum höndum, eins og maður segir – og haft mjög mikla ánægju af því, ég er ekki að miklast af því, þetta hefur bara verið mitt áhugamál.“ Bjarni hefur tekið þátt í starfi Skíðafélagsins og er enn að því. Hann segist hafa haft ómælda ánægju af þessu þrátt fyrir að hafa ekki verið á skíðum sjálfur. Þess má geta að systir hans er Kristín Þorgeirsdóttir og var hún margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum. Einnig hafa dætur hans mikið keppt á skíðum. ,,Þetta var bara eins og gengur í fjölskyldum hér á Siglufirði, það var alltaf einhver sem var á skíðum.“

Jón Dýrfjörð er fæddur 16. mars 1931 á Siglufirði. Hann hefur búið mestan part ævi sinnar á Siglufirði. Lengst af hefur hann verið sjálfstætt starfandi og rak vélaverkstæði á Siglufirði í rúmlega fjóra áratugi. ,,Ég byrjaði nú á skíðum eins og allir aðrir Siglfirðingar bara smá gutti, fjögurra eða fimm ára gamall og fyrstu skíðin mín voru smíðuð úr tunnustöfum. Ég man ákaflega vel eftir því þegar var verið að útbúa beygjuna á skíðin, þá var endanum á tunnustöfunum stungið ofan í pott þegar búið var að forma þau svona. Til að fá beygjuna þá var látinn steinn á endann og skíðin voru soðin og svo náttúrulega eftir því sem þetta hitnaði meira, þá ýtti steinninn þessu niður og á endanum var komin beygja en það vildi nú þannig til oft á tíðum að hún var ekkert ávöl heldur var hún bara kröpp. Síðan voru festar á þetta ólar, bara rétt fyrir tána og svo í besta falli þá kom band aftur fyrir hælinn. Þetta voru mín fyrstu skíði. Og ég hef aðeins tvisvar sinnum keppt á skíðum. Það var þegar ég var sex ára gamall, þá var mér smyglað inn í keppni af því að bróðir minn átti að keppa þá fannst mér ófært annað en að ég fengi að takast á við það líka og ég man það í þessari keppni að ég tók tvisvar sinnum fram úr þeim sem var fyrstur, en var samt sem áður næst síðastur, svona bara til gamans. Ég ætla ekki að gefa neinar nánari skýringar á því en síðan keppti ég ekki aftur fyrr en ég var 70 ára gamall. Þá keppti ég í alpagreinum hér í Siglufjarðarskarði. En það er með mig eins og Bjarna, ég hef alla tíð, alveg frá því að ég man eftir mér, verið að snúast í kringum þetta og mest verið, eins og hann, svona þræll hinna og verið í því að undirbúa mót og annað. Svo hafa þeir komið keppendurnir þegar það hefur verið eftir klukkutími og þá helst til að finna að því sem við vorum að gera, því það var ekki nógu gott, í mörgum tilvikum, þetta er nú bara sagt í gamni.“ Börn Jóns og barnabörn hafa verið á skíðum og barnabörnin margfaldir meistarar á barna- og unglingamótum.

Ágúst var aldrei á tunnustafaskíðum. ,,En ég fékk samt svona forneskjuleg skíði sem ég byrjaði á og vandamálið var nú yfirleitt í kringum bindingana og skóna. Fyrst voru þetta svona leðurhulsur sem maður spennti sig ofan í, síðan komu smellubindingar, svo bara man ég eftir því þegar ég var held ég orðinn ellefu eða tólf ára, þá fékk ég fyrstu skíðin sem voru með stálkanta. Þá var bara tveggja metra löng ól, fastur í hælnum og alveg reyrður niður, þetta var það sem var toppurinn þá, og allir í þessu sko, þá hreyfðist maður ekki millimeter frá skíðinu, alveg reyrður niður.“ Það var mikið meira um slys þegar útbúnaðurinn var svona fastur á fótunum. Þegar Ágúst var ungur var búið að setja upp ljósabrautina og hann segir að það hafi verið „æskulýðssamkoma“ þar kvöld eftir kvöld. Krakkarnir komu þarna saman og það var mest gaman í vitlausu veðri, þegar það sást varla á milli stauranna. En þetta var bara rétt við bæinn svo krakkarnir voru í kallfæri frá heimilum sínum. Það var ekkert sjónvarp eða annað sem togaði í. Ágúst byrjaði fyrst að læra á skíði hjá Jónasi Ásgeirssyni, hann kenndi honum að standa á skíðunum en svo tók Jóhann Vilbergsson við og kenndi honum. Ágúst segir um Jóhann Vilbergs: ,,Það var alltaf svona grúbba, mikil, í kringum hann, hann var laginn að ná hópnum í kringum sig. Mjög laginn við það.“ Bjarni segir um Jonna: ,,Hann var nú eiginlega faðir alpagreinanna, eða svona, hann reif krakkana með sér, rosalega duglegur sko.“

Bjarni hefur séð um ártalið í Hvanneyrarskálinni um hver áramót frá 1960, en það hefur verið í verkahring Skíðafélagsins. Bjarni hefur einu sinni keppt í göngu. Hann hafði séð um að leggja brautina fyrir mótið. Í þá daga voru engin tæki til að leggja göngubrautirnar, heldur gengu 3-4 menn brautina á skíðum til að þjappa hana. Þegar Bjarni var búin að þjappa niður brautina og ganga þennan 7 og hálfan kílómeter sem brautin var, þá var sett á hann númer og honum sagt að keppa. ,,Ég held að ég hafi verið svona hálfnaður með seinni hringinn þá lagðist ég útaf og ældi held ég bara. Gjörsamlega búinn sko. Ég var mest í að  ræsa, ég var ræsir í alpagreinunum.“ Ræsir kallar 5, 4, 3, 2, 1, nú! Og kemur fólkinu af stað. ,,Þetta var mjög erfitt oft, meira að segja svakalega erfitt, því við vorum farnir að nota svona síma, þannig að það þurfti að draga vír, stálvír, uppí markið, uppí ræsið, og það var oft orðið ansi erfitt þegar maður var kominn upp með vírinn sko, hann var farinn að toga mann niður. Það mátti ekki missa þennann stálþráð því þá rúllaði hann niður og hann var ekki greiddur í sundur þegar hann kom niður.“ Ágúst segir að fyrst hafi verið startað með flaggi en svo hafi komið þessi sími sem Bjarni lýsir. Það þótti mikil tækni, þá var farið að taka upp 1/10 úr sekúndu. 

Jón hefur starfað við öll Skarðsmót á Siglufirði og oft verið mótsstjóri. Lengst af hefur hann séð um norrænu greinarnar og verið göngustjóri á mótum. Göngustjóri sá um að leggja gönguslóðina og stjórna því starfsliði sem kom að því, meðal annars vörðum sem fylgdust með því að gengið væri á löglegan og réttan hátt. Undir göngustjóra voru líka tímaverðir og markstjórar. Hann hefur fyrst og fremst starfað með Skíðafélaginu ánægjunnar vegna. Bjarni og Guðmundur Árnason sáu oft um að halda alpagreinamót. Bjarni segir frá: ,,Á einu mótinu hagaði þannig til að ég fór upp til að ræsa og var bara með flagg, hann sá það niðri og bara stillti klukkuna þegar maður sló flagginu niður. En ég man eftir einu sinni að þá var þoka, þannig að ég sást ekki, uppi sko, en þá var brugðið á það ráð að það var náð í þriðja manninn og hann var í miðjunni, sko. Hann sá mig, og niður sko. Svo þegar ég kallaði: 5, 4, 3, 2, 1, nú! Þá sló hann líka niður og þá sá Guðmundur hann og setti klukkuna af stað. Þetta þætti nú ekki gott á Ólympíuleikunum held ég.“

Jón Dýrfjörð segir: ,,Það eru til alveg ótrúlegar sögur í kringum þessi skíðamót sem hér hafa verið haldin og bara reglulegar mannraunir sem að menn lentu í.“ Bjarni og Ágúst taka undir það. Jón Dýrfjörð nefnir sem dæmi mót á Siglufirði 1963, sem Norðfirðingar ætluðu að halda en það var snjólaust hjá þeim svo það var hringt til Siglufjarðar með viku fyrirvara og spurt hvort Siglfirðingar gætu séð um mótið. ,,Það var hóað saman liði sem féllst á það að takast á við þetta, það var enginn snjór hérna í bænum, þannig að það var ákveðið að hafa skíðamótið upp í Siglufjarðarskarði.“ Skömmu eftir að ljósabrautin var komin upp var sett upp lyfta í brekkuna. Árið 1963, á umræddu móti, var notkunin á ljósabrautinni farin að minnka verulega vegna þess að snjóalög höfðu breyst mikið á þessum árum. Skúrinn sem var yfir lyftubúnaðinum við ljósabrautina var því fluttur upp í Siglufjarðarskarð fyrir mótið og átti að vera afdrep fyrir keppendur og aðra sem kæmu upp. ,,Þennan dag var glaða- glampandi sólskin og fólk byrjað að fylkjast þarna upp, bara snemma um morguninn, léttklætt, fullt af börnum og unglingum. Það átti að byrja á 15 kílómetra göngu, það átti að ganga inn á svokallaðar Súlur. Þegar þetta var þá var ég, eins og oftast nær áður, bara starfsmaður, en ég var líka í forsvari fyrir björgunarsveit sem var hérna á vegum skátafélaganna. Við komum okkur fyrir á Súluhausnum, sem kallaður er, þar vorum við með tjald og aðstöðu svo aftur inn í Selskál, þar vorum við með aðra aðstöðu, þar grófum við okkur inn í skafl og vorum þar með þetta dót sem við töldum okkur þurfa að hafa, eins og vökva handa keppendum og fleira slíkt. Örfáum mínútum áður en mótið átti að hefjast þá brast hérna á með norðan stórhríð og það bókstaflega hvarf allt hérna í firðinum, það sá ekki handa sinna skil og manni tókst með naumindum að ná saman barnahópnum og unglingum og fleirum og koma þeim fyrir í þessum kofa sem hafði verið komið þarna fyrir. Svo urðum við að selflytja þetta niður. En mennirnir sem höfðu verið að leggja gönguslóðina, sem voru að ljúka því og áttu bara eftir að skila sér til baka, voru þaulvanir göngumenn og fjallamenn. Annar heitir Einar Þórarinsson og hinn hét Baldur Ólafsson, og var bróðir minn. Þeir villtust og það var farið að óttast um þá, en villan var nú ekki meira en það að þeir höfðu valið að fara niður í Hólsdalinn, en ófærðin var það mikil að það tók svaka, svaka tíma að skila sér. En það urðu sjóskaðar í þessu veðri, og það sem meira var, það fyllti fjörðinn af snjó, og snjóaði bara hérna stöðugt í tvo daga, götur allar ófærar, þannig að áður en birti upp var farið með alpagreinarnar upp í Hvanneyrarskál og þar var keppt í grenjandi stórhríð. Það sá varla á milli stanga. En því var lokið af. Ég hef aldrei skilið það hvernig þeir völdu úr hver væri fyrstur.“ Ágúst var undanfari á þessu móti en var ekki byrjaður að keppa. Jóhann Vilbergsson vann stórsvigið og svigið. 30 kílómetra gangan byrjaði á fótboltavellinum og síðan var gengið um bæinn, enda allt á kafi í snjó. Bjarni var ræsir upp í Hvanneyrarskál: ,,Ég held ég hafi nú aldrei verið nær því að deyja drottni mínum, ég held að ég hafi verið í átta tíma uppi sko, bara uppí fjallinu, sko.“ Jón Dýrfjörð: ,,við vorum þarna björgunarsveitin, við tókum þarna tvo og fluttum þá niður og þeir báru sig þannig eins og þeir væru stórslasaðir, en svo náttúrulega áttum við ekki til orð yfir gremju okkar þegar þetta voru fyrstu menn sem við mættum á ballinu um kvöldið.“ Þeir eru allir sammála um það að það hafi mátt muna litlu að illa færi fyrir öllu þessu fólki uppí Skarði því það var illa klætt. Snemma um morguninn var 10 stiga hiti í bænum en um kvöldið var komið 20 stiga frost. Ágúst fór með gos og pylsur upp í skúrinn á vörubíl ásamt fleirum: ,,Við komumst nú hér um bil upp en þegar við komum var allt frosið, það var allt gos í gleri, það var allt sprungið. Við ætluðum ekki að komast niður á bílnum, í stórhríðinni, svona var þetta.“

Jón Dýrfjörð rifjar upp annað „vandræðamót“ sem fór fram 1973 á Siglufirði.[1]Það var Skíðalandsmót Íslands. Búið var að opna aðstöðuna á Hóli og mönnum var mikið í mun að láta mótið hefjast þar. ,,Í undirbúningnum að mótinu þá fylgdist maður með því að snjórinn minnkaði og minnkaði og minnkaði. Þegar komið var að fyrsta mótsdegi, sem var ganga, 15 kílómetra ganga, þá var eiginlega snjórinn horfinn alveg hérna í austurfjallinu á Hólshyrnunni, rétt innan við þar sem íþróttamiðstöðin er, þannig að það var mokaður, handmokaður, um 500 metrar, til þess að geta byrjað á þessum stað og síðan var áin hérna, Hólsáin, sem kölluð er, hún var brúuð á tveimur stöðum og með því að vera síðan bara með skóflur og tæki allan tímann þá tókst nú að ljúka 15 kílómetra göngunni á þessum stað. En svo bara morguninn eftir, þegar átti að byrja hérna boðganga, þá var allur snjórinn bara horfinn, sem við höfðum mokað. Þá var tekið á það ráð að, þarna fram í dalnum þar er verið að þurrka landið þannig að það söfnuðust gjarnan skaflar í skurðina, þannig að það var búin til hringur á skurðunum, ég man nú ekki hvað það var, sex eða sjö hringir sem þurfti að fara, svo náði maður í einhverjar tungur með því að vera að moka, og það rétt tókst að ljúka þessu og varla það því að það má eiginlega segja að þeir hafi gengið, síðustu keppendurnir, bara á grasinu þegar þeir komu í mark. Og þá voru eftir 30 kílómetrarnir og það var farið með þá uppí Siglufjarðarskarð og gengið inn á Súlur. Þetta er bara dæmi um það hvað menn þurftu að hafa fyrir því að geta klárað þessi mót.“ Bjarni bætir við: ,,Það eru margir búnir að leggja mikla vinnu í þetta, ekki eingöngu þessir sem voru bakland, heldur líka þessir drengir sem voru á skíðunum. Rosalega mikla vinnu sko.“

Bjarni nefnir fleiri góða kappa, til dæmis Geira Sigurjónsson. Hann var bæði góður skíðamaður, mikill húmoristi og orðheppinn oft. Pabbi Geira var skíðamaður og átti stökkmetið 1939, er hann stökk 47 metra. Einhverju sinni var keppni í norrænum greinum, göngu og stökki, og Ísfirðingar nýfarnir að æfa stökk og kepptu í stökki og göngu. ,,Kristján Rafn frá Ísafirði þóttist hafa stokkið 27 metra, þá sagði Geiri: var það innanhúss? Þetta er svona karakter hann Geiri, hann er rosalega oft orðheppinn og komu oft bara heilu brandararnir.“ Ágúst segir að Geiri hafi hreinlega verið skemmtikraftur. Einhverju sinni var farið með Skjaldbreið á skíðamót á Ísafirði. Ferðalagið tók heilan sólahring, enda þræddi skipið allar skorir og víkur á Ströndum og allir farþegarnir sjóveikir. Geiri sagði brandara alla leiðina og létti þannig mönnum lífið. Bjarni segir að Geiri hafi verið mesta snyrtimenni: ,,fötin hans og skórnir, þetta var burstað svo vel, alltaf stíflakkaðir skór, allt fallegt og fínt, hann var algjört prúðmenni í því. Hann umgekkst græjurnar sínar af mikilli natni.“

Árið 1961 var  keppt í bruni í síðasta sinn. Keppnin fór fram í Skútudal. Stefán Kristjánsson lagði brautina og hann sagði: ,,hvergi annars staðar getur maður fengið hundrað manns til að fóttroða, nema á Siglufirði. Þetta er bara hvergi hægt að fá.“ Þetta voru engar ýkjur því fyrir þetta mót komu hundrað manns til að fóttroða alla brautina. Á þeim tíma voru ekki komin nein tæki og því varð að treysta á mannauðinn. Byrjað var um fimm eða sex um morguninn að troða. Stefán var verkstjóri og raðaði mannskapnum í röð til að troða upp fjallið og aftur niður. Svo var brautin lögð og síðan var aftur fóttroðið. Að lokum komu skíðakapparnir, þeir tróðu upp á skíðum. Þá þurfti mannskap í portin til að passa beygjurnar hjá skíðaköppunum og að þeir færu rétt í gegn. Jóhann Vilbergsson vann brunið á þessu móti og Kristín Þorgeirsdóttir  og Sjöfn Stefánsdóttir voru fremstar í flokki kvenna.

Það þykir með ólíkindum að mótin áður fyrr voru haldin þar sem snjóflóðavarnagarðarnir eru núna. Þarna söfnuðust saman 2-300 hundruð manns ár eftir ár. Stuttu eftir að keppni var hætt í gilinu, þar sem snjóflóðavarnagarðarnir eru núna, féll þar snjóflóð og sópaði með sér tveimur húsum. Og dæmin eru fleiri því tveimur vikum áður en snjóflóð féll á lyfturnar í Hólshyrnu var þar haldið unglingameistaramót Íslands.

Jón Dýrfjörð á upptöku frá mótinu 1967 á filmu. Þeir rifja upp að Kristinn Ben var dæmdur úr leik á þessu móti. ,,Hann neitaði að færa sig út úr brautinni, mótið átti að byrja klukkan þetta.“ Það fara tveir eða þrír undanfarar  áður en fyrsti keppandi fer. Undanfari sér um að slípa brautina til og þannig getur fyrsti keppandi glöggvað sig á því hvernig hraðinn er í brautinni og beygjurnar. Kristinn neitaði að færa sig úr brautinni og þóttist vera að skoða hana. Ræsarnir kalla niður í mótsstjórann og segja að það sé keppandi í brautinni sem vilji ekki færa sig. Mótsstjórinn gefur honum tækifæri á að fara úr brautinni, annars sé hann dæmdur úr leik. Það endaði með því að hann var dæmdur úr leik. Þetta var einn mesti skíðakappi Íslands, Kristinn Benediktsson frá Hnífsdal. Sá sem ekki mætir í rásmark á réttum tíma er dæmdur úr leik. ,,Hann sýndi mikinn karakter, hann mætti hér á Skarðsmót um Hvítasunnuna, af því að hann kom nú yfirleitt ekki á Skarðsmót, en hann mætti á það og mætti á réttum tíma og var eins og lamb eftir þetta.“ Skarðsmótin voru annars mjög vel sótt, enda komið fram á Hvítasunnu og komið gott veður. Þetta var síðasta mót ársins og þarna var botninn sleginn í skíðavertíðina. Á þessum mótum komu stundum erlendir keppendur sem gestir, enda var Skarðsmót punktamót, sem þýðir að það er viðurkennt sem alheimsmót. Nú eru kröfurnar orðnar strangari hvað brautirnar varðar og þær þurfa að vera harðar. Það var því oft erfitt að nota vorsnjóinn í keppnir og mót um Hvítasunnuna. Siglfirðingar voru fyrstir til að frysta brautina árið 1962 eða 1963. Hákon Ólafsson, verkfræðingur og skíðamaður frá Siglufirði benti þeim á að nota rykbindiefni frá vegagerðinni, það hafði ekki verið reynt áður. Svo þróaðist þetta í að nota kjarnaáburð, hann var ódýrari en rykbindiefnið. Ágúst keppti eitt sinn á Norðurlandsmóti á Ólafsfirði í blautu færi. Hann stakk upp á því að snjórinn yrði frystur og vann mótið, enda vanur frystiefninu en hinir þekktu þetta ekki. Svanberg Þórðar og Ívar  Sigmundsson frá Akureyri voru alveg brjálaðir yfir þessu og sögðu að Ágúst hefði gert þetta til að vinna mótið.

Bjarni segir frá því þegar hann og Gunnar Þórðarson, heitinn, voru ræsar upp í Skarði á einu mótinu. Það var svakalega gott veður. Jóhann Vilbergsson fór fyrstur af stað í brautina og keyrði svo rosalega vel og fallega að það gleymdist að taka tímann á næsta keppanda á eftir honum, sem var  Svanberg Þórðarson. Svanberg fór af stað þegar Jonni var komin hálfa leið niður brautina, eins og venja var, nema hvað tímaverðirnir gleyma að setja klukkuna af stað fyrir Svanberg. Jonni var aðalstjarnan í augum Siglfirðinga og þarna gleymdu menn sér við að horfa á hann renna fallega niður brautina. Steingrímur Kristinsson labbaði með Svanbergi upp aftur og hélt á skíðunum fyrir hann, það tók 1-2 tíma að labba alla leiðina upp aftur og á meðan gekk sólin undir. Það varð kalt og frysti um leið og sólin fór, yfirborðið harðnaði og rennslið jókst. Þannig fékk Svanberg mikið betra rennsli fyrir vikið og var bara einhverjum sekúndubrotum á eftir Jonna, sem hann náði ekki í fyrri ferðinni. Keppendur fóru bara eina ferð og það var mikið lagt upp úr því að hafa brautina bara nógu langa, helst 2 og hálfan kílómeter á lengd. Jóhann Vilbergsson vann flest Skarðsmótin. Sigurður Sigurðsson, fyrrverandi íþróttafréttaritari, sá fyrst til Jonna á Akureyri 1957. ,,Þá var Jonni alveg í rassgati í fyrri ferð í svigi, svo keyrði hann alveg eins og berserkur seinni ferðina og vann og það var farið að athuga með þennan mann þarna, þennan Jóhann, þennan Siglufjarðarskelfir, sagði Sigurður.“ Nafni Sigurðar, sem eitt sinn var læknir á Siglufirði, sagði líka einu sinni að strákarnir væru allir aumingjar við hliðina á Jonna. Ágúst segir: ,,bara ef hann stóð niður þá vann hann. Hann náði þeim hraða, það var með ólíkindum.“ Ágúst vann Jonna í fyrsta sinn árið 1964, aftur 1965 en svo ekki fyrr en 1970. Aðspurður um fyrirmynd segir Ágúst að honum hafi alltaf þótt Jonni „langflottastur.“ Jonni var búinn að fara á tvenna eða þrenna Ólympíuleika, og á heimsmeistarakeppni líka. Jonni var duglegur að fræða lærisveina sína um þá tækni sem skíðamenn erlendis tileinkuðu sér. ,,Svo allt í einu þegar við komum á mót, kannski átta eða tíu guttar, með Jonna, inn á Akureyri eða eitthvað, þá sögðu þeir að þetta væri Siglufjarðarstíllinn sko, þá var Jonni kominn með stílinn sem hann hafði séð hjá útlendingunum og var að innprenta þetta í okkur“ segir Ágúst. Jón Dýrfjörð telur upp fleiri gamla skíðakappa ,,sem voru yfirleitt sigurvegarar á öllum skíðalandsmótum sem haldin voru.“ Þetta voru Jón Þorsteinsson, Alfreð Jónsson og Jónas Ásgeirsson og seinna komu Guðmundur Árnason og Skarphéðinn Guðmundsson sterkir inn. ,,Þetta voru stjörnur sem maður hreyfst af.“ Siglfirðingar voru alltaf í fyrstu sætunum, þeir hreinlega röðuðu sér í fyrstu sætin ár eftir ár. Jón Þorsteinsson var 14 eða 15 ára þegar hann byrjaði að keppa og vann þá skíðalandsmótið í göngu og stökki á Kolviðarhóli 1936. Jón hlaut titilinn skíðakóngur Íslands fyrir árangurinn og fékk sérstakan bikar fyrir. Það voru líka til skíðadrottningar en það var þó ekki sérstakur titill, heldur fengu stúlkur þetta viðurnefni fyrir að standa framarlega í skíðaíþróttinni. Á meðal þeirra var Kristín Þorgeirsdóttir, systir Bjarna. Þar á undan voru Aðalheiður Rögnvaldsdóttir og Alfa Sigurjónsdóttir.

Fossavatnsganga er 50 kílómetra ganga á Ísafirði. Ágúst fór einu sinni vestur með Magnúsi Eiríkssyni, sem keppti í göngunni. Magnús var þarna orðinn rúmlega fimmtugur en var annar í mark á eftir þrítugum kanadamanni. Það liðu sjö mínútur þar til næsti Íslendingur kom í mark á eftir Magnúsi. Magnús tók við verðlaununum og fór í heitan pott og keyrði svo aftur til Siglufjarðar samdægurs. Ágúst fékk far með honum og sagðist hafa verið dauðþreyttur eftir ferðalagið, enda voru þeir átta tíma á leiðinni. ,,Þetta er ótrúlegur maður, hann á nú bara að fara í heimsmetabókina sko“ segir Ágúst. 

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Segið frá byggingu skíðaskála, skíðalyftu og fleiru varðandi aðstöðu og aðbúnað skíðafólks.

Ljósabrautin kom 1956. Það var byrjað að notast við dráttarvél, svo kom rafmótor 1957 eða 1958. Síðan var þetta alltsaman fjarlægt 1963, þá kom vegur upp í Hvanneyrarskál. Það sjást ennþá leyfar af festingum fyrir neðan Gimbrakletta. Jón og Bjarni voru í stjórn Skíðafélagsins 1969. Árinu áður hafði Siglufjarðarbær gefið íþróttahreyfingunni Hól. Sumum þótti þetta hefndargjöf og fannst ekki þess virði að taka við þessu. Ákveðinn hópur manna tók þá ákvörðun að þiggja þessa gjöf og þessi sami hópur tók sig saman og kom upp góðri aðstöðu. Á skíðalandsmóti 1968 samþykkti Skíðasamband Íslands að það yrðu ekki haldin skíðamót nema þar sem hægt væri að bjóða upp á aðstöðu fyrir keppendur, bæði til að smyrja skíðin sín og hafa fataskipti og annað. ,,Þannig að það lá ansi hart að okkur að koma upp þessari aðstöðu á Hóli, sem gekk jú eftir með geipilegri sjálfboðaliðsvinnu og miklum tilkostnaði.“ Knútur Jónsson, formaður íþróttabandalags Siglufjarðar á þeim tíma, útvegaði styrk frá bænum í þetta stóra verkefni. Upp úr 1970 voru kosningar og samkvæmt reglu komu þingmenn kjördæmisins að vorinu á alla þá staði sem tilheyrðu kjördæminu. Þáverandi stjórn Skíðafélagsins ákvað að reyna að ná tali af þeim, því þarna var Skíðafélagið komið í kröggur og það vantaði fjármagn í íþróttamiðstöðina á Hóli. Það var boðað til fundar fram á Hóli með þingmönnum kjördæmisins. Þar kynnti stjórn Skíðafélagsins málið fyrir þingmönnum og hug manna til að koma upp skíðalyftu. Í beinu framhaldi af því var haft samband út til Austurríkis og fengin þaðan maður til að kanna fjallahringinn og fá hjá honum álit um hvar heppilegast væri að setja upp lyftu. Hann valdi þann stað sem lyfturnar eru á í dag. Síðan kom fjárframlag frá ríkisstjórninni, en þá voru framlög til íþróttamannvirkja á fjárlögum, ekki sérstakur íþróttasjóður eins og er í dag. Fyrsta framlagið til lyftukaupa kom þetta ár og einnig barst fjármagn frá Siglfirðingafélaginu í Reykjavík. Auk þess var gengið í hús á Siglufirði og fólk beðið um að styrkja lyftukaupin. Það var sett lyfta upp í Hólshyrnu, en svo var líka búið að kaupa tvær litlar, færanlegar dísellyftur sem hægt var að færa til í firðinum. Þegar íþróttahreyfingin fékk Hól kom aukin pressa á skíðafélagið að hafa skíðaaðstöðu þar, en fólk horfði samt alltaf upp í Skarð. Þar var paradísin. En það þótti of langt frá byggð að hafa aðstöðuna alla upp í Skarði. Svo fór að lyfturnar við Hólshyrnuna urðu fyrir snjóflóði og eyðilögðust og þá lá náttúrulega beinast við að láta gamlan draum um Siglufjarðarskarð rætast. Nú er komin lyfta upp á Bungu en í hana voru notuð þrjú eða fjögur möstur úr lyftunni í Hólshyrnunni sem fór í snjóflóðinu. Bungan er það ofarlega að þaðan er hægt að horfa niður í Skagafjörð. Jón segir að lokum: ,,þú sérð það að þrátt fyrir það að menn hafi hugsanlega haft deildar meiningar um það hvað þyrfti að gera og hvað ætti að gera þá tókust hlutirnir samt og þeir sem kannski drógu lappirnar fyrst, þeir mættu og voru með, þrátt fyrir það.“ Rögnvaldur Þórðarson tók við stjórnarstörfum af Bjarna og Jóni og hann var líka mjög öflugur í öllum framkvæmdum. Ágúst segir að lokum: ,,síðan við komum í Skarðsdalinn með lyfturnar, við erum með þrjár lyftur þarna, þá er að koma mikið af fólki á skíði til okkar, sérstaklega þegar kemur fram í febrúar, mars og komið betra veður, sólin komin hærra á loft og ég tala nú ekki um þegar jarðgöngin opnast hérna á milli þá er þetta bara eins og Dalirnir þrír, í Ölpunum sko.“ Jón tekur undir þetta og segir að það séu gríðarlegir möguleikar til skíðaiðkunar fyrir almenning á Siglufirði. ,,Þetta er eitthvert alflottasta skíðasvæði á landinu.“

Þeir muna allir eftir fyrstu landsgöngunni sem haldin var á sjöunda áratugnum. Siglfirðingarnir unnu þessa fyrstu landsgöngu, eins og margar fleiri síðan. Jón Dýrfjörð hirti bikarinn þegar átti að farga honum og hann er nú hjá Hirti. Elstu skíðin eru varðveitt á sjúkrahúsinu og eru þar til sýnis. Þau eru frá 19. öld og voru í eigu ömmu Bjarna sem var ljósmóðir. Hennar umdæmi var Siglufjörður, Héðinsfjörður og Dalir og náði að hluta til út í Ólafsfjörð. Bjarni segir: ,,Þetta eru ansi merkileg skíði því að það er brennimerki í beygjunni, það er beygja með gati í fyrir band, þar stendur ljósm. Þessi skíði voru alltaf heima hjá pabba og mömmu.“ Fyrstu skíðin sem Jónas Ásgeirsson átti eru varðveitt á Síldarminjasafninu, að sögn Jóns. Ágúst fann skíði þegar verið var að gera upp Þjóðlagasetrið. Skíðin eru frá ,,afa Hafliða, pólitíinu og yfirvaldinu í bænum“ frá því á 19. öld. ,,Það var borað í gegnum skíðið og band þar undir og það var brennimerkt, stafirnir hans“ segir Ágúst en hann lét Jón Andrés hafa þessi skíði.     [1]Jón Dýrfjörð á dagbók um þetta mót, frá degi til dags, sem tekur yfir tveggja vikna tímabil.

header
Hafa Samband
moya - ┌tgßfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya