Skķšasaga fjallabyggšar

13. jśnķ 2008 Aš heimili Ašalheišar Rögnvaldsdóttur į Siglufirši, Laugarvegi 37. Ašalheišur Rögnvaldsdóttir er fędd 18. aprķl 1926. Hśn er fędd og uppalin

Ašalheišur Rögnvaldsdóttir

13. júní 2008

Að heimili Aðalheiðar Rögnvaldsdóttur á Siglufirði, Laugarvegi 37.

Aðalheiður Rögnvaldsdóttir er fædd 18. apríl 1926. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði og hefur átt þar heima alla tíð. Hefur starfað við verslunarstörf og var umboðsmaður Happadrættis Háskólans í yfir 20 ár. Foreldrar Aðalbjargar voru Guðbjörg Aðalbjörnsdóttir og Rögnvaldur Gottskálksson, bæði fædd í Fljótum en fluttust til Siglufjarðar kornung. Faðir hennar var skíðamaður, líkt og öll Gosaættin. Gosanafnið er stytting á nafninu Gottskálk og hefur fest sig við afkomendur Gottskálks. Öll systkini Aðalheiðar voru á skíðum, nema sá yngsti, Meyvant, en hann var fatlaður á báðum fótum.

Hvenær og hvers vegna byrjaðir þú að stunda skíðaíþróttina? ,,Ég byrjaði smástelpa, byrjaði í Gryfjunum hérna fyrir ofan, þar voru aðalbrekkurnar hjá okkur, þar stökk maður líka og lék sér alla daga. Ég átti heima rétt fyrir neðan, í Hvanneyrarbraut 5.“ Aðalheiður var 8 eða 9 ára þegar hún byrjaði að stunda skíðaíþróttina.

Lýstu skíðum, skíðaskóm, bindingum og skíðastöfum. Útbúnaður var lélegur. ,,Það voru nú bara svona gamaldags skíði, engin sérstök skíði þá. Það voru bara smellubindingar, maður batt þetta með snærum til þess að halda því í skefjum og svo komu náttúrulega gormarnir þar á eftir og svo var það nýjasta tíska núna aftur, sem maður hefur ekki notað.“ 

Hvernig var kennslunni háttað? ,,Það var engin sérstök skíðakennsla. Maður bara lék sér svona sjálfur.“ Ekkert sérstakt var gert til þess að halda sér í formi yfir sumartímann.

Hafði íþróttaiðkun áhrif á atvinnu, skólagöngu eða daglegt líf yfir veturinn? Skíðaiðkunin tók sinn tíma. Aðalheiður stundaði nám við barnaskólann á Siglufirði og fór síðan í gagnfræðaskólann. Auk skíðaíþróttarinnar æfði hún sund og fimleika. Hún fór eitt sinn til Danmerkur til að sýna fimleika. Á þeim tíma var dönsk stúlka að kenna fimleika á Siglufirði.  

Var dýrt að æfa skíðaíþróttina? ,,Nei, það var ekki dýrt þá, það er heldur dýrara núna í dag, sérgallar og allar græjur. Við vorum bara í pokabuxum, og vaðmáli, held ég hafi verið kallað.“ Ekki var um sérstaka keppnisbúninga að ræða.

Hvenær byrjaðir þú að keppa? Aðalheiður byrjaði 16 ára að keppa og var þá í C-flokki. ,,Ef maður vann sig upp úr C-flokki var það B-flokkur og ef maður vann sig upp úr honum var það A-flokkur. Svona gekk þetta.“ Aðalheiður er búin að keppa á mörgum mótum á Siglufirði og einnig á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík (Kolviðarhóli).

Hvaða grein/greinar lagðir þú fyrir þig? Stórsvig og brun. ,,Þetta var lagt alls staðar, hérna framan í brekkunum hérna, og svo hérna hinum megin og svo upp í Skarði.“ Brekkurnar voru í Skarði og Hólsdal.

Hver var þín uppáhaldsgrein? ,,Svigið. Það var svo mikill hraði í stórsviginu.“

Áttir þú þér einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda? ,,Það var náttúrulega Birgir Ruud, hann var náttúrulega aðallega göngumaður, hann var mjög skemmtilegur maður.“ Birgir var norskur skíðakennari sem kom til að kenna stökk á Siglufirði. Aðalheiður segir að það hafi ekki þurft neina kennslu í sviginu. Hún fór aldrei erlendis til að keppa en 1942 fór hún á skíðamót í Noregi og fylgdist með Jónasi Ásgeirssyni og Skarphéðni Guðmundssyni sem kepptu í stökki fyrir hönd Íslands.

Segðu frá gullpeningum og bikurum. ,,Ja, ég á nokkra bikara og svo mikið af peningum. Svo átti ég líka bækur með áletrun á. Ljóðabók sem hann gaf út fyrir mót, hann Andrés Hafliða, hann var stórkaupmaður hérna í Siglufirði.“

Er þér kunnugt um hugtökin skíðakóngur eða skíðadrottning? ,,Já, maður heyrði það en það er ekki núna held ég, það er bara meistari.“ Hugtökin skíðakóngur og skíðadrottning voru notuð á skíðaárum Aðalheiðar og voru notuð um þann sem var fyrstur í mark.

Hvaða máli skipti keppnisskap fyrir árangur og afköst? ,,Jájá, maður reyndi allt. Aðallega þegar landsmótin voru sko, það voru bæði frá Akureyri, Ísafirði og Reykjavík, maður varð að berjast við þetta.“ Það var mikil barátta.

Hvaða eiginleikum þurfti góður skíðamaður/skíðakona að búa yfir? ,,Maður þurfti bara að æfa, vera duglegur að æfa, það var ekkert annað.“

Með hvaða skíðafélagi æfðir þú? ,,Skíðafélagi Siglufjarðar, svo var aftur Skíðaborg rétt hjá Steinaflötum, upp á hól. Svo var alltaf svona einhver kergja á móti hvoru öðru, Skíðaborg og Skíðafélagi Siglufjarðar. Við áttum skála hérna upp á ásnum og þar var mjög líflegt, og fjör oft, dansað og spilað á harmoniku og allt mögulegt.“ Slíkar kvöldvökur voru t.d. haldnar eftir mót. Seinna fauk skíðaskáli Skíðafélags Siglufjarðar og var hann rifinn, líkt og Skíðaborg. Meðan félögin voru tvö var mikil keppni á milli þeirra en það endaði með því að félögin voru sameinuð. Það hafði verið mikil kergja á milli félaganna tveggja. Aðalheiður æfði alltaf með gamla félaginu. Hún segir að það hafi komist meiri regla á allt saman eftir að félögin sameinuðust og telur að það hafi verið til bóta. Sameiningin gekk vel fyrir sig.

Hvert var hlutfall drengja og stúlkna í félaginu? ,,Það var mjög svipað bara.“

Hvernig var keppnisandinn? ,,Hann var mjög góður. Við höfðum alltaf gryfjurnar til þess að æfa okkur, það var oft gaman í gryfjunum. Svo var sláturhús hérna rétt hjá og það mátti stundum litlu muna að maður keyrði inn í sláturhúsið.“ Æfingarnar voru ekki skipulegar heldur æfði hver eftir sínu höfði. ,,Svo var kallað Jónstún það er hérna upp frá og þar voru lagðar svona litlar brautir og við vorum mikið í þeim.

Hverjir voru helstu keppinautar Siglfirðinga? ,,Ísafjörður var ansi skæður og eins Akureyri.“

Hver var þinn skæðasti keppinautur? ,,Það var, hún hét Bíbí, Marta Bíbí Guðmundsdóttir.“ Aðalheiður segir að það hafi ekki verið um neinn sérstakan vinskap að ræða milli keppenda úr mismunandi félögum.

Hvernig var aðstaða til skíðaiðkunar? Aðstaðan var ágæt en það voru hvorki troðarar né skíðalyftur. ,,Þú þurftir bara að bjarga þér sjálf að bera skíðin upp. Maður bar þetta eiginlega á bakinu, bundið með kaðli. Svo hélt maður bara af stað með þetta því það voru ekki jeppar þá svo mikið.“ Skíðaskálarnir tveir voru komnir þegar Aðalheiður byrjaði að æfa. Hún segir að aðstaðan þar hafi verið ágæt. Þar var hægt að kaupa kaffi, brauð og gosdrykki. ,,Þetta var oft púl að koma aðföngum að og frá aftur.“ Oft voru kvöldvökur frameftir en fólk hafði sig alltaf heim á næturnar og ekki kom til þess að menn gistu í skálanum. ,,Það var ekkert brennivín eða neitt svoleiðis, það var ekki til.“

Hversu lengi stóð skíðatímabilið yfir? ,,Það var miklu lengur heldur en er núna í dag. Þetta byrjaði vanalega kannski í september og þangað til í maí, maílok.“ Það var mikið æft á þessu tímabili og alltaf tilhlökkun að fá snjóinn. 

Var mikill munur á milli ára? Það gat verið munur á árferði og mismunandi hversu lengi skíðatímabilið gat staðið yfir. Aðalheiður minnist þess að 1968 hafi verið snjóþungur vetur. ,,Þá bara fór maður allt á skíðum. Bíó cafe, sem er þarna niður frá, þú bara gekkst niður tröppur til þess að komast inn. Og þar sem bakaríið er líka, þar gekkstu bara niður, það var alveg upp á þakið og það var búið til tröppur niður.“ Aðalheiður segir að það hefði vel verið hægt að nota húsþökin sem stökkpalla. Á svona vetrum voru skíði sérlega mikilvæg samgöngutæki.

Hversu mikilvæg voru skíði til að koma sér á milli staða á þessum árum? ,,Við fórum í Fljótin einu sinni. Það átti að keppa á Ketilásnum í göngu og það var skal ég segja þér, við vorum held ég sex eða sjö. Það var þarna einn í hópnum, þá var ég á gönguskíðum, við vorum komin langt niður á braut, sem við köllum, eða niður að vatni, þá vantaði okkur Jónas Ásgeirs og fleiri en við fundum bara skíðin. Þá hafði hann dottið svona að skíðin fóru bara á undan. Og það var bara hlegið að þessu. Hann kom bara labbandi á eftir skíðunum. Það var eina ferðalagið sem var virkilega skemmtilegt svona.“

Segðu frá keppnisferðum. Hvernig var ferðalögum háttað? ,,Það var farið með rútu, en ekki til Ísafjarðar, það var bara bátur. Maður gubbaði og gubbaði.“

Hvernig var stemmningin í bænum / viðhorf íbúa gagnvart skíðamótum og keppnum? Stemmningin var góð og fólk fjölmennti til að horfa á mót og keppnir.

Hversu algeng og alvarleg voru slys eða meiðsli? Það voru aðallega fótbrot.

Er eitthvert eitt skíðamót sem stendur upp úr í minningunni? ,,Það var þarna á Kolviðarhóli sem var alltaf kolvitlaust veður og það var allur matur og allt búið, það var bara hafragrautur í allar máltíðir, það var ekki hægt að komast með mat upp eftir. Svo líka 1947, þegar Hekla gaus, og við vorum að fara heim með rútu, það var allur snjór svartur á leiðinni og rútan bilaði og við þurftum að bíða lengi og svo héldum við af stað á gönguskíðunum, fleiri kílómetra, en við höfðum okkur ekkert áfram, snjórinn var svo svartur.“ Þetta var um 20 manna hópur frá Siglufirði sem var að koma af skíðalandsmóti í Reykjavík. Ferðin tók 2-3 daga. Á kvöldin styttu þau sér stundir og spiluðu, dönsuðu og skemmtu sér. ,,Hann var perlan í þessu, hann Alli King Kong, sem við köllum.[1] Hann var fínn, og Ragnar Guðmundsson, hann var fararstjóri með okkur.“ 

 [1]Alfreð Jónsson

header
Hafa Samband
moya - Śtgįfa 1.14 2010 - Stefna ehfStefna hef - Moya